31.03.1949
Sameinað þing: 60. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 221 í D-deild Alþingistíðinda. (4510)

177. mál, þátttaka Íslands í Norður-Atlantshafssamningi

Fjmrh. (Jóhann Jósefsson):

Herra forseti. Það hefur verið sagt, að það væri nokkurt þjóðareinkenni á Íslendingum, að þeir væru seinþreyttir til vandræða, og er sjálfsagt mikið til af þessu einkenni meðal þjóðarinnar enn. Það hlýtur a. m. k. að vera trú þeirra þm. kommúnista, sem nú hafa dirfzt, eftir það, sem þeir hafa heim reitt með æsingum og hótunum í garð Alþingis, og eftir þær gerningar, sem hér urðu í gær, — að þeir skuli nú dirfast að ganga fram sem ákærendur. Þeir treysta vissulega á, að Íslendingar séu seinþreyttir til vandræða. Ef einhverjir hv. þm. hafa verið í vafa um það hyldýpi óskammfeilninnar í huga þessara manna, þá hefur nú opnazt innsýn þangað, og enginn efast lengur um það forað spillingarinnar, sem þar inni býr. Svo koma þessir menn og ráðast á lögreglustjóra, sem fékk það vandaverk að stilla til, þar sem þeir höfðu stofnað til æsinga með lygum og blekkingum, Það hlýtur hver sannur Íslendingur að bera kinnroða fyrir það tiltæki, sem þessir menn komu á stað. Þinghúsið ber þeirra merki, og sagan geymir skýrsluna um þeirra tiltektir. Maður skyldi nú ætla, að það, sem skeði undanfarna daga, hefði verið nægilegt efni í allmergjað skeyti til húsbænda þeirra í Moskva, því að þangað þurfa þeir vissulega að gefa skýrslu um afrek sín. En nú á að bæta því við að koma með ákærur á ríkisstj. og lögreglustjóra og slá nýrri móðgun í andlit hv. þingmanna. Svo ætla þeir menn, sem létu ljúga því, að Einar Olgeirsson, Brynjólfur Bjarnason & Co. væru fangar hér í húsinu, að dirfast að bera þetta fram í áheyrn allra hv. þm. Þeir voru ekki fangar fremur en við hinir. Lögreglustjóri óskaði þess, að engir færu út úr húsinu, hvorki þm. né starfsmenn, fyrr en hann hefði gert sínar ráðstafanir. En kommúnistar vildu nota þetta til þess að æsa upp lýðinn, því að annars hefðu þeir ekki látið hrópa, að þm. þeirra væru fangar hér í húsinu. — Það var góð ráðstöfun, að friðsamir menn skyldu vera hér viðstaddir í gær, því að þeir voru sjónarvottar að aðförum kommúnista. Þeir sáu suma stúdenta og aðra kommúnista ýta fram unglingum til árásar á Alþingi, en þegar lögreglan kom á vettvang, stukku þeir burt og földu sig bak við pils kvennanna, sem þarna voru. Þannig voru hetjur kommúnista. Að þeim hlær allur bærinn í dag.

Út af fyrirspurnum hv. þm. Siglf., þá getur hann gert um þetta fyrirspurn á þinglegan hátt, og kemur þá til kasta Alþingis að ákveða, hvaða fyrirspurnum hans skuli svarað. En hafi einhver ástæðu til að bera sig upp undan aðferðum lögreglunnar, þá er þeim sama opin leið til þess að láta fram fara á því rannsókn á réttum og viðeigandi stöðum, en þessi hv. lagajúristi frá Siglufirði hefur ekki heimild til að krefjast þar um neinna aðgerða af hálfu dómsmálaráðherra á þessari stundu. Hafi lögreglan gert á hluta einhvers, getur hann fengið það leiðrétt á réttum stöðum, ef hann hefur lög að mæla. Hirði ég svo ekki um að ræða þetta frekar og tefja þar með þingskapaumræður. En mér blöskrar svo, að ég á fá orð til að lýsa þeirri andstyggð, sem hver heilvita maður hefur á framferði útsendara hins austræna valds.