31.03.1949
Sameinað þing: 60. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 223 í D-deild Alþingistíðinda. (4513)

177. mál, þátttaka Íslands í Norður-Atlantshafssamningi

Menntmrh. (Eysteinn Jónsson) :

Herra forseti. Ég skil vel, að kommúnistum líði ekki vel út af atburðunum í gær. Það er alltaf óskemmtilegt að verða staðinn að því að hafa ætlað að beita ofbeldi, en ekki komið fram vilja sínum. Ræða hv. 4. landsk. þm. er alveg einkennandi fyrir sálarástand þeirra manna, sem hafa það hlutverk að stjórna ofbeldisflokkum. Það þarf meira en lítinn sálarstyrk til þess að standa frammi fyrir fólki, sem sá atburðina í gær, og ljúga svona upp í opið geðið á því, og það er ástæða til að vekja athygli á þessu fyrirbrigði, því að engum dylst, hvað um er að vera, þegar slíkur málflutningur er við hafður. Saga atburðanna í gær byrjar alls ekki á því, að formenn þriggja þingflokka skoruðu á friðsama borgara að koma á Austurvöll. Sagan byrjar á því, að kommúnistar hóta því í blaði sínu að hindra, að Alþingi samþykkti aðild að Atlantshafsbandalaginu, þó að nægur þingmeirihluti væri fyrir því. Þar segir svo: „Þegar Bandaríkjalepparnir leggja hinn nýja landráðasamning fyrir Alþingi, munu Reykvíkingar tugþúsundum saman koma og mótmæla, til að hindra, að hann verði gerður af þingmönnum.“ Þetta er aðeins eitt sýnishorn af því, hvernig kommúnistar undirbjuggu atburðina í gær, og svo standa þeir upp og dirfast að mótmæla því, að þeir hafi staðið fyrir árásinni á Alþingi. Halda þeir, að við séum skyni skroppnir aumingjar, og treysta þeir því, að þjóðin sjái ekki, hvað þeir hafa skrifað? Halda þeir kannske, að enginn lesi Þjóðviljann lengur? En þetta var upphafið, og ofan á þetta létu kommúnistar svo safna saman skrílnum hérna fyrir framan húsið, þegar lokaafgreiðslan átti að fara fram. Þá fyrst stungum við upp á því við Reykvíkinga að koma á Austurvöll til þess að sýna áhuga sinn fyrir því, að Alþ. fengi að afgreiða málið í friði. En enginn veit, hvað þessi óði skríll hefði gert, ef friðsamir borgarar og lögreglan hefðu ekki firrt frekari vandræðum. En þm. kommúnista finnst það ægileg,, að skríllinn fékk ekki að lemja milliliðalaust. Þeim finnst það slæmt, að skríllinn þurfti að henda grjótinu inn um gluggana, og hefðu helzt kosið, að lögreglan sæti heima. (BrB: Þá hefði allt verið í lagi.) Já, þá hefði allt verið í lagi, segir hv. 4. landsk. (BrB: Þá hefði hæstv. ráðh. ekki þurft að vera hræddur.) Við skulum sem minnst tala um það, hver hafi verið hræddur. Þessi hv. þm. er ætíð hræddur. (Forsrh.: Honum er annað betur gefið.) Lögreglunni var það að þakka, að komið var í veg fyrir óhöpp. Það var hennar skylda, og ráðstafanir hennar voru eins og hver önnur umferðarstjórn. Hvaða vit var í því að láta þetta afskiptalaust, eins og ástatt var? Hv. þm. sagði, að það hefði mátt hleypa út þm. kommúnista, og það má vera, og útsendarar þeirra hefðu ekki fleygt grjóti í þá. En þótt svo væri, var sjálfsagt að hafa um þetta almenna reglu og ekki gera upp á milli þingmanna. Hv. 2. þm. Reykv. var að tala um, að hann hefði oft stillt til friðar, og gaf í skyn, að hann hefði einnig verið tilbúinn til þess í gær. En það dylst engum, að þegar þm. kommúnista grenja það út um glugga, að þeir séu fangar í húsinu, þá er það til þess gert, að skríllinn herði á grjótkastinu. Ef ætlunin var að stilla til friðar, þá hefðu þeir beðið sína menn um að víkja frá húsinu. En það gerðu þeir ekki, heldur sendu út dáta sína til þess að æsa upp. Ég þarf ekki að ræða þetta frekar, en þessar umræður hafa að minnsta kosti gefið mönnum innsýn inn í sálarlíf hv. 4. landsk. — Hann var líka að tala um það, að hæstv. dómsmrh. hefði sagt við hv. 8. þm. Reykv., að hann mundi muna honum eitthvað. Já, að hugsa sér, að dómsmrh. skuli leyfa sér slíkt! (BrB: Hvað var það?) Það var eitthvað alveg meinlaust, en það skiptir ekki miklu máli. Þetta átti að vera ægileg hótun! En hvað hefur hv. 4. landsk. sjálfur gert? Hann hefur hótað því hér frammi fyrir míkrófóninum, að þeir, sem fylgdu Atlantshafssamningnum, mundu fá sömu útreið og kvislingarnir í öllum löndum. Menn vita, við hvað er átt. Ég skal svo ekki orðlengja þetta frekar. Ég tel ekkert að því, að þessar umræður hafi farið fram, og skil vel, að kommúnistum finnst sitt hlutskipti hart, en þeir bæta sig lítið á því, sem þeir hafa sagt hér.