31.03.1949
Sameinað þing: 60. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 229 í D-deild Alþingistíðinda. (4519)

177. mál, þátttaka Íslands í Norður-Atlantshafssamningi

Sigurður Guðnason:

Herra forseti. Það, sem kom mér til að biðja um orðið, voru ummæli hæstv. menntmrh., sem hann viðhafði hér áðan. Hann sagði, að skríll hefði boðað til fundar við Lækjargötu. Og hverjir boðuðu til þessa fundar? Það var fulltrúaráð verkalýðsfélaganna í Rvík. Og hvað gerði fundurinn? Hann samþykkti og sendi mótmæli til Alþingis gegn því, sem hér var verið að fremja. Og menntmrh. leyfir sér að kalla þetta fólk skríl. En það er raunar ekkert nýtt. Menn, sem vinna hér á landi, hafa alltaf verið taldir skríll af þeim, sem lifa á arðinum af vinnu þeirra, og sá „skríll“ á ekki að hafa neinn rétt til þess að koma saman undir berum himni og senda Alþingi skrifleg mótmæli. Hæstv. menntmrh. tekur upp hanzkann fyrir mennina, sem dvelja á veitingahúsunum og lifa á vinnu verkamannanna; það eru þjóðhollu mennirnir, sem þinghelgina verja. En þá, sem strita og halda þjóðfélaginu uppi, þeim velur hæstv. menntmrh. nafnið „skríll.“ Þessa kveðju hans skal ég líka flytja verkamönnum í Dagsbrún, og þeir munu þakka honum að maklegleikum ummælin, svo sorgleg sem þau eru, því að það verður ekki lengi vernduð sú þjóð, þar sem valdhafarnir fyrirlíta svo hið vinnandi fólk eins og fram kemur í þessum umræðum ráðh.