31.03.1949
Sameinað þing: 60. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 230 í D-deild Alþingistíðinda. (4521)

177. mál, þátttaka Íslands í Norður-Atlantshafssamningi

Brynjólfur Bjarnason:

Herra forseti. Hv. þm. G-K. mælti sumt ekki óskynsamlega áðan og tiltölulega rólega, a. m. k. ef miðað er við málflutning hv. þm. N-Ísf. og hæstv. menntmrh., sem sýnilega höfðu ekkert vald á sér, en töluðu eins og fífl, eins og þeirra var raunar von og vísa. Hv. þm. G-K. endurtók það, að kommúnistar hafi viljað kúga meiri hluta Alþingis með því að beita ofbeldi. Þetta er nú anzi trúleg saga, að sósíalistar hafi ætlað sér að kúga hina bandarísku flokka með hið bandaríska hervald að baki sér. Ætli þeir hafi ekki þótzt þess um komnir að taka á móti? Og ætli þeir hafi ekki þorað að vinna verk sitt í krafti vopnavalds fyrst og fremst? A. m. k. ber það ekki vott um góða samvizku, að þeir kalla það glæp, að kallaður er saman stuttur fundur, þar sem borin er upp og samþykkt tillaga um áskorun til Alþ. um að láta fara fram þjóðaratkvæðagreiðslu. — En aðrar sakir en þessar verða ekki á okkur bornar. (Rödd af þingbekkjum: Fór fundurinn friðsamlega fram?) Já, mjög friðsamlega, og þar gerðist ekki annað en ég hef þegar sagt, og fundurinn var haldinn við Miðbæjarbarnaskólann, en ekki við alþingishúsíð. — En nú koma vandlætararnir með heilmikið af gömlum tilvitnunum í Þjóðviljann og spyrja, hvaða ráð séu til að knýja meiri hluta Alþingis til að láta að vilja þjóðarinnar, nema að beita ofbeldi. (ÓTh: Ég sagði, hindra meiri hluta Alþ.) — Já, hindra! Það hefur margsinnis verið gert. Kjósendur hafa látið vilja sinn í ljós og Alþ. tekið tillit til hans og látið að vilja þeirra. En það kann að vera til of mikils ætlazt, að þeir hv. þm., sem stóðu að landráðasamþykktinni í gær, láti að vilja kjósenda.

Hv. þm. G-K. vildi vefengja það, sem ég sagði áðan, en staðfesti það þó í aðalatriðum með því að viðurkenna í fyrsta lagi, að hann hefði gengið hér út að glugganum, og í öðru lagi, að hann hefði gefið merki. En það brá nú einmitt svo við, er hann hafði gefið þetta merki, að þá réðst jafnskjótt óður og kylfubúinn skríll á mannfjöldann með þeim afleiðingum, að fjöldi manna stórslasaðist. Nú get ég ekki fullyrt um það, hvort þarna hefur verið orsakasamband á milli. En svo mikið er víst, að fólkið úti leit á þetta sem merki, enda hófst þá grjótkastið fyrir alvöru.

Hv. þm. G-K. sagði, að ekki væri nema eðlilegt, að blóð manna hitnaði, ef þeir héldu, að verið væri að svíkja land sitt. Það var góð viðurkenning, og þetta vissi mannfjöldinn í gær, að verið var að vinna á Alþingi. Viðvíkjandi hv. þm. N-Ísf. vil ég segja það, að mér þóttu honum vel hæfa þau orð hv. 3. landsk., að það dytti sjálfsagt engum í hug að geyma hann á safni. Hann er aðeins venjulegt lítilmenni, sem langaði til að vera Íslendingur, en hafði ekki þrek til þess.