31.03.1949
Sameinað þing: 60. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 234 í D-deild Alþingistíðinda. (4527)

177. mál, þátttaka Íslands í Norður-Atlantshafssamningi

Forsrh. (Stefán Jóh. Stefánsson):

Herra forseti. Ég get gjarna látið kommúnistum eftir að kalla stúlkuna, sem vék sér að mér í gær, þjóðhetju. Slík framkoma er hetjudáð eftir þeirra boðorðum. Ég hef hins vegar meðaumkvun með stúlkunni, því að ég veit, að hún hefur verið æst upp af sér verri mönnum og geldur þeirra verka. — Ég er undrandi yfir ásökunum, sem hér hafa komið fram á ríkisstjórnina og lögreglustjóra, og vil í því sambandi taka undir orð hæstv. menntmrh. og hv. þm. G-K., að lögreglustjóri hafi sýnt sérstakt umburðarlyndi, en þó festu, þegar ekki var annars úrkosta. Annars kemur okkur, sem þekkjum hugsanagang kommúnista, framkoma þeirra ekki á óvart, því að einn liðurinn í starfi þeirra er að æsa og egna lýðinn til óeirða, ef svo ber undir. Ég man eftir, þegar 4. landsk. ritaði í Rétt, að hvers konar afneitun af verkalýðsins hálfu væri sama og að beygja sig undir ok auðvaldsins. Og 4. landsk. neitar aldrei hinum austrænu boðorðum, það vita allir, sem til þekkja, og þess vegna þýðir ekki að bera fyrir sig, að nú hafi ekki verið unnið á sama hátt. Þegar þetta er athugað, þá finnst mér það bleyðuháttur af kommúnistum að kannast ekki við sín verk og sínar starfsaðferðir. — En því miður get ég ekki sýknað alla aðra en kommúnista af því að vera valdir að því, sem gerzt hefur. Þjóðvarnarliðið á þar sinn hlut að máli. Blað þeirra manna, Þjóðvörn, hefur róið undir, og allir, sem að þeim áróðri standa, bera sína ábyrgð. Mér finnst það undur og stórmerki, að 3. landsk. skuli ásaka ríkisstj. fyrir þá atburði, sem hér gerðust í gær, og vænti ég þess ekki af honum, að hann færi að endurtaka ósanninda upptalningu Þjóðviljans í dag og bera sakir á ríkisstj. án þess svo mikið sem blaka við kommúnistum. Aumt finnst mér hlutskipti þeirra þm., sem eru að reyna að klína því á íslenzka verkamenn; að þeir hafi staðið fyrir grjótkasti á Alþingi, og er hart fyrir verkamenn, að formaður Dagsbrúnar skuli standa fyrir slíkum málflutningi.

En það er ofrausn hjá kommúnistum við Dagsbrúnarverkamenn, slíkum framburði trúir enginn, því enda þótt það séu kommúnistar í Dagsbrún, þá vill allur þorri verkamanna ekki sýna ofbeldi.