09.03.1949
Sameinað þing: 47. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 237 í D-deild Alþingistíðinda. (4535)

129. mál, hressingarhæli í Reykjanesi

Flm. (Sigurður Bjarnason):

Herra forseti. Ég skal ekki fara mörgum orðum um þessa till. Það er kunnara en frá þurfi að segja, að hér á landi er mikill skortur á heilbrigðisstofnunum flestra tegunda, t. d. sjúkrahúsum, hressingarhælum o. s. frv., og ber brýna nauðsyn til þess, að úr þessum skorti verði bætt. Þessi till., sem ég flyt ásamt hv. 3. landsk., fer fram á, að athuguð verði skilyrði á einum hinna heitari staða á Vesturlandi til þess að reka þar hressingarhæli og þar leitað till. landlæknis. Svo virðist sem á Reykjanesi séu mjög góð skilyrði til að reka slíka heilbrigðisstofnun. Þar er mikið af heitu vatni úr iðrum jarðar, tilvalinn sjóbaðstaður með heitum sjó og líklegt, að þar megi koma við böðum og fleiri læknisráðum, og enn fremur ákjósanleg skilyrði til hvers konar íþróttaiðkana. Tel ég æskilegt, að fram fari sú athugun, sem þessi till. fer fram á, og legg því til, að Alþingi samþ. hana.

Ég sé svo ekki ástæðu til að fara um þetta fleiri orðum, en óska, að till. verði vísað til allshn. Ég hygg, að hún eigi frekar þar heima en í fjvn., þar sem eingöngu er til ætlazt, að framkvæmd verði athugun á skilyrðum til þess að koma slíkri stofnun á fót.