27.04.1949
Sameinað þing: 69. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 238 í D-deild Alþingistíðinda. (4538)

129. mál, hressingarhæli í Reykjanesi

Frsm. (Sigurður Bjarnason):

Herra forseti. Þessi till., sem hér liggur fyrir, fjallar um það, að fram verði látin fara rannsókn skilyrða til stofnunar hressingarhælis fyrir heilsuveilt fólk í Reykjanesi við Ísafjarðardjúp og að í sambandi við það verði leitað álits og tillagna landlæknis um fyrirkomulag og starfsemi slíkrar stofnunar. Allshn. fjallaði um till., og hún mælir með því, að sú athugun, sem lagt er til í till., að fari fram, verði framkvæmd. N. telur ekki aðeins eðlilegt og æskilegt, að athuguð verði skilyrði til stofnunar hressingarhælis í Reykjanesi, heldur beiti heilbrigðisyfirvöldin sér fyrir því, að rannsökuð verði skilyrði til að hagnýta jarðhita í þágu heilbrigðismálanna víðar á landinu. N. leggur samkv. þessu til, að þessi till. verði samþ., og sé ég ekki ástæðu til að fara um þetta fleiri orðum, en mæli með samþykkt till. fyrir hönd n.