18.05.1949
Sameinað þing: 76. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 243 í D-deild Alþingistíðinda. (4547)

211. mál, launabætur til opinberra starfsmanna

Ingólfur Jónsson:

Ég vil nú lýsa undrun minni yfir því, að till. á þskj. 800 er fram komin. Við vorum að enda við að samþ. fjárl., og þm. er kunnugt um það, að á þeim fjárl. er ekkert ætlað til hækkunar launa fyrir starfsmenn ríkisins. En þeir, sem flytja till., segja: Það eru væntanlega til 4 millj. kr. af fé, sem eignaruppgjörið kann að gefa, og það er það fé, sem við vísum á. — Það var svo sem auðvitað, að væri einhvers staðar von á fé, væri rétt að vísa á það til eyðslu á þessu ári! Það er það bezta, sem þessir flm. geta lagt til nú á síðasta degi þingsins.

Ég verð nú að segja það, að þótt starfsmenn ríkisins, a. m. k. þeir, sem lægst eru launaðir, hafi kannske ástæðu til að kvarta undan dýrtíðinni, koma kröfur þeirra nokkuð seint fram. Þeir hafa ekki látið í sér heyra fyrr en nú í vetur og þá helzt síðustu vikuna. Það kemur varla til, að skórinn hafi kreppt mjög hart að þeim, fyrst ekki hefur komið hljóð úr horni fyrr en nú, enda vitað, að starfsmenn ríkisins eru nú betur launaðir en hinn almenni verkamaður, sem býr við miklu meira öryggisleysi en þeir, sem eru fastráðnir. Hvernig á að fara að því að mæta yfirvofandi verkfalli hjá Dagsbrún og verkalýðsfélögunum yfirleitt, ef Alþ. á nú á síðasta degi að lítt rannsökuðu máli að gefa starfsmönnum ríkisins, sem betur eru settir en verkamenn, vonir um það, að þeim skuli ívilnað og kjör þeirra bætt á þessu ári? Er það ekki að gefa undir fótinn fyrir þá, sem nú vinna að verkföllum, og gefa þeim byr undir báða vængi að gera hærri kröfu,r en þeir annars hefðu gert? Og er þá ekki hið mesta ábyrgðarleysi að koma með svona mál inn í þingið á síðustu stundu? Ég held, að ekki verði um það deilt.

Það er vitað, að starfsmenn ríkis og bæja hafa gert kröfur til að fá launahækkun, sem nemi allt að 36%. Það er náttúrlega ekki mikið, sem farið er fram á! Þeir segja, að það sé til þess að fá laun til samræmis við aðrar stéttir þjóðfélagsins. Það er ekkert minnzt á það, hvað þessir sömu starfsmenn leggja af mörkum til þess að fá laun sín. Það hefur verið upplýst af starfsmannafélaginu sjálfu, að meðalstarfstími starfsmanna ríkisins sé 35½ klukkustund á viku. Það er auðvitað, að ýmsir vinna lengri tíma og aðrir líka skemmri tíma. Þegar talað er um 35½ stund á viku, er það rúmlega 5½ stund á dag, eða m. ö. o. 5 stundir á dag, þegar kaffitíminn er dreginn frá. Nú gera þessir menn kröfu til þess að fá laun í samræmi við þær stéttir, sem hafa miklu lengri vinnudag. Verkamenn verða að vinna 8 stundir á dag og fá þó lægri laun fyrir sína 8 stunda vinnu, en lægst launuðu menn hjá ríkinu. Bændur vinna 12–15 klst. á dag og þannig mætti lengi telja. Er ekki ástæða til þess að krefjast, að þeir, sem fá há laun, leggi fram mikla vinnu? Það er sjálfsagt að borga vel mikla vinnu, en þjóðfélagið stenzt ekki við að borga há laun fyrir litla vinnu. Það hefur sýnt sig undanfarið, að fólk hefur leitað frá framleiðslunni til léttari starfa, og þau störf, sem hér um ræðir, eru flest létt störf, og auk þess er þetta áhyggjuminna líf, en að standa í oft tvísýnum atvinnurekstri. Með því að hafa vinnutímann svona stuttan, er of margt fólk komið að skrifborðunum frá framleiðslunni og öðrum nauðsynlegum störfum. Ég hefði viljað virða það við starfsmenn ríkis og bæja, ef þeir hefðu boðizt til þess að lengja vinnutímann úr 35½ klst. á viku upp í t. d. 48 klst. og hefðu jafnframt óskað hærri launa. Það væri erfitt að standa á móti því og hollt fyrir þjóðfélagið að ganga að slíku. Þá hefðu orðið fleiri til þess að vinna við framleiðsluna og styrkja þannig afkomu þjóðarinnar. Það er kunnugt, að margur atvinnurekstur hér er nú rekinn með tapi, en það er af því, að kaupkröfurnar eru svo háar. Hví gefur ríkið nú tugi millj. kr. með aðalatvinnuvegi þjóðarinnar, sjávarútveginum? Af sömu ástæðum. Þetta getur ekki gengið svona áfram. Ef atvinnulífið verður þannig áfram, þá fer svo, að enginn dugandi maður fæst í atvinnurekstur. Afleiðingin verður atvinnuleysi, minnkandi framleiðsla, vaxandi fátækt. Það er fyrst, þegar menn sjá fram á, að hægt sé að stunda atvinnurekstur með hagnaði, sem atvinnulífið getur aftur farið að blómgast. Nú er unnið að því að gera allt að ríkisrekstri, og árangurinn er sá, að hann ber sig því síður, en einkarekstur, þar sem oftast er verr haldið á í ríkisrekstrinum. Þegar ljóst er, að alls staðar er um taprekstur og minnkandi útflutning að ræða, hljóta allir að sjá, hversu alvarlegt það er, þegar út brýzt verkfallsalda með auknar kröfur á atvinnuvegina. Nú virðist svo sem ríkisstj. eða hluti hennar styðji þetta. Mér er sagt, að Alþýðusamband Íslands, sem er nú stjórnað af ríkisstjórnarflokkunum, hafi skrifað verkalýðsfélögunum og hvatt þau til þess að segja upp kaup- og kjarasamningum. Þetta er ótrúlegt, en líklega satt. Ég held að A. Í. hefði heldur átt að beita sér fyrir því, að samningunum yrði ekki sagt upp og ég tel, að til lítils hafi verið barizt að ná A. Í. úr höndum kommúnista, ef síðan á að nota það til þess að hvetja til verkfalla. Svo koma hér ýmsir, sem vilja hækka kaupið, og flytja hér ræður, þar sem þeir segjast vera á móti gengislækkun. Hafa menn nokkurn tíma heyrt slíkt ósamræmi. Ég er á móti gengislækkun, en með þessum aðgerðum er verið að framkvæma gengislækkun og auka tapreksturinn. Og hvar á svo að taka þá peninga, sem þarf til þess að mæta þessum kröfum? Kannske flutningsmenn till. á þskj. 800 vildu benda á það.

Ég flyt hér brtt. á þskj. 815 við brtt. á þskj. 807. Hv. þm. Str. taldi, að í aðalatriðum væri mín till. eins og sín till., en það er misskilningur. Í till. hv. þm. Str. segir, að rannsaka skuli aðstöðu alla, og hv. þm. Str. heldur því fram, að með orðinu „aðstaða“ náist allt, sem ég nefni í minni brtt., en það er misskilningur. Í minni brtt. er tekið skýrt fram, að rannsaka skuli vinnutíma ýmissa starfsstétta, og það er meginatriði till. Þar vil ég fá skýrt fram, að menn fái tekjur samkvæmt vinnu sinni. Það er ekki sanngjarnt að borga jafnt fyrir 5 klst. vinnu á dag og fyrir 8–10 klst. vinnu. Ég vænti þess svo, að hv. þm. Str. fylgi brtt. minni á þskj. 815, og þá mun ég fylgja till. hans á þskj. 807, sem ég tel í aðalatriðum góða, því að það er auðvitað sjálfsagt að athuga, hvort starfsmenn ríkisins eru verr settir, en aðrar stéttir, og ef svo er, þá að veita þeim uppbætur á því, en það er ekki hægt á síðasta degi þingsins að sletta í þessa menn 4 millj. kr. af handahófi, og ég vænti þess, að fjmrh. mótmæli þessu frv. og að það nái ekki samþ. þingsins.

Ég sé svo ekki ástæðu til þess að orðlengja þetta frekar, þar sem það hefur verið óskað eftir því, að umr. yrðu ekki langar, en ég vænti þess, að gifta þingsins sé svo mikil, að þessi till. verði felld.