18.05.1949
Sameinað þing: 76. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 249 í D-deild Alþingistíðinda. (4552)

211. mál, launabætur til opinberra starfsmanna

Brynjólfur Bjarnason:

Herra forseti. Ég sé ekki ástæðu til að tala langt mál og ætla ekki að fara út í stjórnmálalegar umr., þótt næg tilefni hafi þó gefizt. Ég vil þó í tilefni af hinum löngu ræðum, sem haldnar hafa verið um þetta mál, taka fram, að það er ekki stefnu B.S.R.B. eða Dagsbrúnar að kenna, að þeir nú verða að fá hækkun á kaupi sínu, heldur sök hæstv. ríkisstj., sem svo hefur skert kaupmátt launa, að aðeins til að halda í horfinu verða launþegar að fá 40% hækkun. Á þetta er hægt að færa nægar sönnur, þótt ég sleppi því hér. En til þess að kippa þessu í lag þarf að skipta um stjórn, og ef það er hægt, þá er það margra fjögurra millj. kr. virði.

Það hafa verið felldar tvær till. í þessu máli, önnur frá okkur sósíalistum um 25% launahækkun til opinberra starfsmanna og hin frá hv. 4. þm. Reykv, og hv. 3. landsk. um að koma nokkuð til móts við kröfur starfsmanna ríkisins. Ég tel það mjög gott, að þessi till. skuli vera borin fram af þm. úr tveimur stjórnarfl., því að í henni felst viðurkenning á því, að starfsmenn ríkis og bæja þurfi að fá launahækkun. En ástæðan til, að þm. eru nú fúsir til að ganga til móts við sanngjarnar kröfur starfsmanna hins opinbera, mun vera sú, að allur þorri starfsmanna ríkis og bæja hefur ákveðið að leggja niður vinnu, ef ekki verði gengið til móts við kröfur þeirra, þrátt fyrir það að þeim er það bannað með lögum.

Ég tel það mjög orka tvímælis, að þessi hækkun muni nægja, eins lág og hún er. Þeir hafa sjálfir lýst því yfir, að 25% sé það minnsta, sem þeir geti sætt sig við, en telja, að 36% þyrfti hækkunin að vera, ef launin ættu að vera í samræmi við það, sem gert var ráð fyrir í launal. Í þessari till. er gert ráð fyrir heimild til að verja 4 millj. kr. til þess að bæta upp launin, og skilst mér, að það muni jafngilda 8% hækkun. Það er því alveg augljóst, að það er algerlega ófullnægjandi. Ég tel því nauðsynlegt að hækka þessa upphæð og mun flytja um það till., en mun þó fara eins vægt í sakirnar og frekast er unnt í þeirri von, að hv. þm. geti fallizt á, sem raunar er nú viðurkennt, að það er full þörf að gera þessu skil, og mér skilst, að það sé viðurkennt af tveimur af flokkum þeim, er að ríkisstj. standa, þó að sumir þm. séu því mótfallnir, eins og umr. sýnir. Ég vil því leyfa mér að flytja ásamt 2. þm. Reykv. till. um, að heimildin verði hækkuð um helming, eða sem svarar 16% launahækkun, og varið allt að 8 millj. kr. í þessu skyni. Hér er aðeins um heimild að ræða, sem er algerlega á valdi ríkisstj., hvernig notuð verður. Samkvæmt þessu mun ég nú leggja fram skriflega brtt. um það, að í stað 4 millj. komi allt að 8 milljónum króna. Leyfi ég mér hér með að afhenda hæstv. forseta hana.