18.05.1949
Sameinað þing: 77. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 257 í D-deild Alþingistíðinda. (4574)

211. mál, launabætur til opinberra starfsmanna

Skúli Guðmundsson:

Herra forseti. Mér kom þessi till. alleinkennilega fyrir sjónir, þegar henni var útbýtt á fundi í gær og þegar ég athugaði, hverjir voru flm. málsins.

Ég þarf ekki að lýsa till., það hefur þegar verið gert, og við vitum, hvað hún hefur inni að halda.

Við höfum setið hér alllengi á þingi, síðan 11. október, og margt hefur borið á góma. Mikið hefur verið rætt um fjármál. Afgreiðsla fjárl. hefur tekið langan tíma, og nú loks í gær, seint á degi, 17. maí á því ári, sem fjárl. eiga að gilda fyrir, var afgreiðslu þeirra lokið. Það út af fyrir sig hefur sína sögu að segja, sú staðreynd.

Fyrir rúmum hálfum mánuði, eða fyrsta dag þessa mánaðar, voru hátíðahöld í Reykjavík og víða um land, eins og venja er til 1. maí ár hvert. Þau voru í tveimur flokkum að þessu sinni, þessi hátíðahöld hér í bæ. Ég hef ekki sérstaklega lagt í að kynna mér, hverjar kröfur voru fram bornar hjá þeirri fylkingunni, þar sem Sameiningarflokkur alþýðu, Sósíalistaflokkurinn, var aðaluppistaðan, en ég leit nýlega eða um það leyti, sem þessi hátíðahöld fóru fram, yfir nokkuð af því, sem kom frá hinni fylkingunni. Ég held, að það hafi verið einn af forvígismönnum Alþfl., Helgi Hannesson, núverandi forseti Alþýðusambands Íslands, sem flutti ræðu við þetta tækifæri, og tók upp m. a. ýmis mál, sem hans flokkur undir núverandi stjórn vildi beita sér fyrir. Ég skal lofa ykkur að heyra lítinn hluta af þessu: Fullkomið atvinnuöryggi: Það var nú gott og blessað. Lækkun dýrtíðarinnar. Þriðja: Hækkun á kaupmætti launanna. Það var vel skiljanlegt. Svo kom: Þeir taki á sig byrðarnar, sem breiðust hafa bökin. Svo kom enn á listanum, en þó ekki mjög neðarlega: Heilbrigt verzlunar- og viðskiptalíf. Svartamarkaðsbrask afmáð. Þarna hafið þið það. Hvernig fara þeir nú að vinna fyrir þessar hugsjónir, sem flokksbróðir þeirra, Helgi Hannesson, bar þarna fram, að lækka dýrtíðina og auka kaupmátt launanna, láta þá, sem breiðust hafa bökin; bera byrðarnar, koma á heilbrigðu verzlunar- og viðskiptalífi og afmá svartamarkaðsbraskið? Við höfum svolítið sýnishorn af þessum vinnubrögðum, fleiri en þau, sem liggja hér fyrir á þskj. 800. Það er víst, að eitt af því, sem þyngst liggur á launastéttunum og öðrum í Reykjavíkurbæ, er húsaleigan, sem er í mörgum tilfellum okurleiga, sem margir þeir verða að borga, sem hafa orðið að semja um leiguhúsnæði. Mér er sagt, að sá húsaleigunefnd, sem er starfandi hér og hefur m. a. það hlutverk að meta húsaleigu í nýjum húsum, hafi komizt svo hátt með þetta mat, að furðu sætir. Mér er sagt, að mat á leiguhúsnæði til íbúða sé hjá þessari n. komið upp í a. m. k. 11 krónur fyrir hvern fermetra gólfflatar fyrir mánuð hvern, og ég hef jafnvel heyrt nefndar hærri tölur. Þetta þýðir það, að fjölskylda, sem hefur til afnota meðalíbúð, þarf að borga kringum þúsund krónur á mánuði í húsaleigu.

Fyrir þessu þingi lá frv. til l. um afnám húsaleigulaganna. Það lá fyrir Nd. Það fékk ekki byr, en fram kom till. um að breyta húsaleigulögunum verulega. M. a. var lagt til í tillögu frá framsóknarmönnum, að sett skyldi hámark á húsaleigu, 7 kr. á mánuði fyrir hvern fermetra, þ. e. 30–40% a. m. k. eða ef til vill meiri lækkun á þeirri leigu, sem viðurkennd er af húsaleigunefnd. Hvernig var þessu tekið? Þessi till. var felld, líklega fyrst og fremst af þm. Sjálfstfl. í Nd. en áreiðanlega tóku líka einhverjir Alþýðuflokksmenn þátt í að fella hana. Það fór ekki fram nafnakall, en þeir áttu hlut þar að. Er þetta í samræmi við kröfur Alþýðusambandsins; þar sem Alþfl. hefur forustu, að lækka dýrtíðina og að þeir beri byrðarnar, sem breiðust hafa bökin?

Ég ætla að nefna annað dæmi. Við vitum, hvernig ástatt er í verzlunarmálunum. Það er alls ekkert undarlegt við það, þó að alþýðusamtökin beri fram till. um heilbrigt verzlunar- og viðskiptalíf og að svartamarkaðsbrask verði afmáð. Það er eðlileg og sjálfsögð krafa. Það hefur verið gerð tilraun hér á þingi nú til þess að auka frjálsræði í viðskiptum. Við vitum, hvernig því hefur verið tekið. Stærsti flokkur þingsins heldur því fram við öll tækifæri í ræðu og riti, að hann vilji berjast fyrir frjálsri verzlun. En þegar betur er að gáð og framkoma þessa flokks er athuguð, þá kemur í ljós, að um leið og hann er að reyna að telja flokksmönnum sínum trú um, að hann vilji, að frelsið í verzlun og viðskiptum sé sem mest, þá vinnur hann þveröfugt við þessa yfirlýstu stefnu sína hér á þingi. Annars er það svo, að það er langt síðan við höfum búið við verzlunarfrelsi, sem hægt er að nefna svo. Það kann því að vera, að mönnum sé ekki ljóst nú orðið, í hverju það er fólgið. Fyrir 20 árum síðan voru hér engin verzlunarhöft. Þá gat ég farið inn í hvaða verzlun sem var í Reykjavík eða hvar sem var og keypt hvaða vörur, sem þar voru á boðstólum og hugurinn girntist. Þá voru engir skömmtunarmiðar, og ef ég sá ekki í búðunum það, sem ég óskaði eftir, þá gat ég beðið þann, sem stóð fyrir verzluninni, að útvega mér það, sem mig langaði til að eignast. Svona var það á tímum verzlunarfrelsisins. Þetta er það frelsi, sem Sjálfstfl. segist vilja fá. En nú er ástandið í okkar gjaldeyrismálum þannig, að við getum ekki því miður fengið það frelsi, sem við bjuggum við í verzlunarmálum okkar fyrir 20 árum síðan. Við verðum að takmarka innflutning á ýmsum vörum, vegna þess að nægur gjaldeyrir er ekki fyrir hendi til að kaupa fyrir allt, sem við viljum kaupa. Þegar svo er ástatt, er eðlilegt, að þessar vörur séu skammtaðar, að það sé reynt að dreifa þeim sem jafnast milli landsmanna. Þetta er reynt að gera með vöruskömmtuninni, þó að framkvæmd hennar hafi farið mjög í handaskolum, en hún er þó tilraun í rétta átt, og tel ég það sjálfsagt, meðan svo er ástatt í viðskiptamálum, að ekki er unnt að veita mönnum allar útlendar vörur, sem þeir vilja fá. (Forseti: Verzlunarmálin eru ekki á dagskrá nú.) Ætli fjárhagsmálin yfirleitt séu ekki á dagskrá. Nú hafa legið fyrir hér á þingi till. frá okkur framsóknarmönnum um það, í fyrsta lagi, að þeim vörum, sem þarf að takmarka innflutning á, verði, meðan þörf er á að skammta þær, skipt sem jafnast milli landsmanna og síðan verði hverjum og einum heimilað að kaupa þann skammt, sem hann fær, á þann hátt, sem honum hentar bezt, hjá þeirri verzlun, sem hann vill helzt skipta við. Þá er komizt svo nálægt verzlunarfrelsi sem unnt er á þeim tíma, sem ekki er hægt að veita hverjum hvað sem hann girnist. Við vitum, hvernig þessu máli var tekið. Það var að vísu samþ. í Nd., en vísað frá í Ed. með atkv. sjálfstæðismanna í þeirri d. og tveggja Alþýðuflokksmanna þar, þeirra manna, sem standa að þessari till. á þskj. 800. Þar hafa þeir hlaupið undir baggann með Sjálfstfl. Það er þetta frelsi almennings til að verzla þar, sem hann vill og telur hagkvæmast, sem Sjálfstfl. má ekki heyra nefnt, það er eitur í hans beinum, þó að honum þyki heppilegt að básúna það út um byggðir landsins, að hann vilji fylgja frjálsri verzlun og hafi hana á sinni stefnuskrá, og það eru þessir hjálparkokkar Sjálfstfl., sem hafa komið til skjalanna í Ed. og hjálpað Sjálfstfl. til að drepa þetta frv. um aukið verzlunarfrelsi og bjarga hagsmunum þeirra manna, sem vilja standa á þeim „kvótum“, sem þeir hafa fengið, eins og hundar á roði. Svona fóru Alþýðuflokksmenn að í viðskiptamálunum að fá aukið verzlunarfrelsi og að auka kaupmátt launanna, lækka dýrtíðina, láta þá bera byrðarnar, sem breiðust hafa bökin, skapa heilbrigt verzlunarlíf og afmá svartamarkaðsbrask!

Það vantar ekki, að Sjálfstfl. hefur þyrlað upp nógu miklum blekkingum í sambandi við verzlunarmálin. Það liggur í augum uppi, að hæstv. fjmrh. er það greindur maður, að hann trúir því ekki, sem hann hélt fram í útvarpsumr., að það mundi verða til að auka á svarta markaðinn að samþ. till. okkar framsóknarmanna. Og svo mun það einnig vera um marga aðra greinda menn í forustuliði stjórnarflokkanna. Það liggur í augum uppi, að ekki verður um svartan markað að ræða, þó að þeir, sem vantar vörur til heimilis síns, hafi yfir skömmtunarseðlum að ráða, sem gilda sem innkaupaheimild, og láti þá til þeirrar verzlunar, sem þeir vilja helzt skipta við. Það er svo augljós blekking, að af þessu skapist svartur markaður í stórum stíl, að það er ekki orðum eyðandi að því.

Tveir hv. flm. þessarar till. á þskj. 800 hafa komið hér fram nú á undan. Hv. 7. þm. Reykv. talaði mikið um það, að þm. hefði ekki verið auðið að standa saman gegn aukinni verðbólgu og dýrtíð í landinu. Það hefur verið tekið fram af ýmsum hér, að ekki væri fyrirsjáanlegt annað en halli hjá ríkissjóði, ef þessi till. verður samþ. Hún mundi hafa í för með sér nýja verðbólguöldu og ekki gott að segja, til hvers hún getur leitt. Það er ljóst, að hún er í andstöðu við þá stefnu, sem ríkisstj. setti sér í upphafi, og í andstöðu við það, sem forseti Alþýðusambandsins sagði 1. maí. Ég tel því, að eins og þetta mál horfir nú við, sé stefnt í enn meiri ófæru með samþ. þessarar till., og ég held, að þeir menn, sem að henni standa, séu ekki menn til að standa við það, sem hún kann að hafa í för með sér.