18.05.1949
Sameinað þing: 77. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 260 í D-deild Alþingistíðinda. (4575)

211. mál, launabætur til opinberra starfsmanna

Sigurður Kristjánsson:

Herra forseti. Það gæti verið, að þeim, sem hlýddu á mál manna við þessa umr., væri ekki vel ljóst, hvaða mál væri hér til umr., svo langt eru margir hv. þm. komnir frá kjarna þess máls, sem hér er til umr Ræða hv. þm. V-Húnv. var langt frá efni þeirrar till., sem hér er til umr. Hann er meðlimur í flokki, sem hefur að jafnaði í frammi blekkingar og áróður, og hv. þm. virðist vera barn síns flokks, en hann hefur haft hér í frammi áróðursmál, sem tæplega eiga samleið með þessari framkomnu till. á þskj. 800, en sú till. fjallar um að fela eða heimila hæstv. ríkisstj. að láta rannsaka, hvort laun opinberra starfsmanna séu í samræmi við launakjör annarra stétta, og ef svo reynist ekki vera, þá að bæta þessi laun að takmarkaðri fjárupphæð. Forsaga þessa máls er sú, að félagsskapur starfsmanna ríkis og bæja hefur látið rannsaka, hvaða samræmi sé milli launa þeirra og annarra starfsstétta. Lög um launakjör þessara stétta eru sett fyrir 4 árum, og síðan hafa orðið miklar hækkanir á lífsnauðsynjum manna. Aðrar launastéttir hafa einnig fundið tilfinnanlega fyrir þessu og krafizt kjarabóta, sem þær hafa fengið í flestum tilfellum, en starfsmenn ríkis og bæja eru samkvæmt lögum hindraðir frá því að gera verkfall. Þeir hafa kvartað undan þessu og óskað kjarabóta, en ekki fengið þær. Þannig býr nú þessi stétt við lakari kjör, en aðrar launastéttir í landinu, en á móti þessu býr hún við það öryggi, sem því fylgir að jafnaði að vera í fastri stöðu, og þarf ekki stöðugt að óttast atvinnuleysi, og er slíkt ekki lítils virði. En við verðum að líta svo á þetta, að sú minnsta krafa, sem við getum gert til þjóðfélagsins, sé sú, að hver vinnandi maður hafi þær tekjur, sem fullnægi a. m. k. lægstu kröfum um lífsviðurværi. Ef heimili lifa nú á tekjum eins manns, þá er það svo, að þeir lægst launuðu hafa ekki nægileg laun til að geta framfleytt fjölskyldu, þ. e. a. s. það er ekki hægt að draga fram lífið hjálparlaust nema hafa aukatekjur, eða annar maður á heimilinu hafi aukatekjur. En eins og menn muna var sú tíðin, að menn hrósuðu happi, ef þeir fengu vinnu 2–3 daga í viku, þó að enginn annar í fjölskyldunni ynni, og slíkir tímar koma því miður sennilega aftur, ef sömu stefnu verður haldið uppi í atvinnumálum og nú hefur verið gert um skeið. Önnur stéttarfélög hafa á undanförnum árum fengið allmiklar grunnkaupshækkanir, á meðan opinberir starfsmenn hafa enga hækkun fengið og eru hindraðir frá að ná rétti sínum með verkföllum, sem önnur stéttarfélög hafa mjög notað sér til að fá bætt kjör. Það er óhagganlegur réttur þessa fólks, að till., sem aðeins felur í sér, að athugað verði, hvað rétt sé í þessum efnum, sé vel tekið af hv. þm. og hún samþ., en þetta fólk sýnir þann þegnskap, að það mun heldur líða skort, en brjóta landslög, og eins og kunnugt er, er hér aðeins um að ræða heimild til handa ráðh., en þetta gefur hvöt til þess, að ríkið hækki kaup við starfsfólk sitt. Ég er ekki að heimta hér kauphækkun, heldur að litið verði á þessi mál með réttsýni, og sem flm. þessarar till. vil ég réttsýni, og komi í ljós, að fólk þetta eigi kröfu á kauphækkun, þá vil ég að fallizt sé á slíkt, a. m. k. að nokkru leyti.

Það má heita undarlega komið málum, þegar ég gerist flm.till. sem þessari, þar sem ég hef jafnan verið manna harðvítugastur gegn slíku og hef verið því fylgjandi, að menn fórnuðu nokkru, en ég sé enga ástæðu til, að þessi eina stétt sé að fórna fram yfir aðrar. Samstarfsmenn mínir hafa margir heimtað, að látið væri eftir fyllstu kröfum í þessu efni, og þeir menn, sem einkum mæla þessu í gegn, hafa verið manna heimtufrekastir við ríkið og krafizt manna mest af því, og situr því illa á þeim að mæla svo fast gegn því, að þessi till. verði samþ. Ég vil ekki taka slíka menn til fyrirmyndar í sambandi við þessa till., ég er þeirrar skoðunar að full þörf sé að fara vægilega í kröfur til hins opinbera, en ef ríkið og þjóðfélagið getur ekki sómasamlega séð þegnum sínum farborða, þá sé illa farið.

Hv. 2. þm. Rang. komst svo að orði, að hann undraðist, að þessi till. skyldi koma fram. En mér finnst undarlegt, að þessi hv. þm. skuli undrast, að farið sé fram á, að athugað sé, hvort kaupkjör þessarar stéttar séu í samræmi við kjör annarra launastétta, og er því undarlegra, að þessi hv. þm. skuli koma fram með slíkt, hann, sem er talsmaður stærsta ómagans á þjóðinni, sem er flatlendið austanfjalls. Hann undrast, að farið er fram á, að athugað sé, hvort laun þessarar stéttar séu ekki lægri en annarra stétta, en slíkt er ef til vill í samræmi við annað.: Hann undrast ekki, þegar hann er að heimta handa ríkisómaganum. — Ég ætla annars ekki að gera þetta að deilumáli, en ég hlýt að segja þetta, þegar menn, sem gera mestar kröfur; undrast yfir því, að slík till. sé flutt, sem aðeins felur í sér, að athugað sé, hvort hér sé um samræmi að ræða. — Ég ætla svo ekki að fjölyrða um þetta, en ég held, að sá maður, sem ekki getur fallizt á, að slík rannsókn fari fram, sé undarlega gerður og einstrengislegur í skoðunum. — Ég vil svo vona, að hv. þm. skilji og viðurkenni þörf þá og það réttlætismál, sem hér er um að ræða.