18.05.1949
Sameinað þing: 77. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 263 í D-deild Alþingistíðinda. (4577)

211. mál, launabætur til opinberra starfsmanna

Hermann Jónasson:

Herra forseti. Ég hafði hugsað mér að afsala orðinu, en þegar vaktar eru upp umr. með þessum hætti og krakkar standa upp og kalla Framsfl. krakka, þá finnst mér skörin færast upp í bekkinn.

Það er rétt, að bændur hafa komið málum sínum þannig fyrir, að tekjur þeirra hækka, ef aðrir fá hækkaðar tekjur. Ef þeir væru eigingjarnir, ættu þeir því ætíð að ýta undir kauphækkanir og verkföll. En þeir kæra sig ekki um það, og Framsfl. kærir sig ekki heldur um það, af því að hann er enginn krakki. Till., sem við bárum fram um rannsókn á þessu máli, var jafnframt borin fram til að minna á, að þegar svo er komið, að hver þm. stendur upp eftir annan og segir, að það verði að samþ. þetta, því að annars verði verkfall — þetta var borið hér fram, hvað eftir annað í nótt —, þá er fyllsta ástæða til að vekja athygli á því, að mál er til þess komið að taka upp önnur vinnubrögð. En það er ekki einu sinni hlustað á þetta.

Það hefur verið viðurkennt af öllum í nótt, að framleiðslan lifir á styrkjum. Hvaðan á nú að taka þessa peninga? Af framleiðslunni, sem verið er að styrkja, er ekki hægt að taka þá, en hvaðan á þá að taka þá? Vitanlega af þegnum þjóðfélagsins og af embættismönnunum fyrst og fremst. Og svo eru menn að hæla sér af þessu gagnvart embættismönnunum. Það er skrýtin hagfræði þetta. Hér er leikinn sá leikur, að tekið er úr rassvasanum og því síðan stungið „pent“ í brjóstvasann eins og skrautvasaklút. Hvaða hagsbætur getur það haft í för með sér að halda kapphlaupinu áfram? Hví er haldið áfram í stað þess að taka málin fyrir í heild og síðasta verk þingsins að ýta undir þetta kapphlaup? Það endar með því, að ríkið getur ekki greitt starfsmönnum sínum laun.

Ég gleymi aldrei þessari nóttu hér í þinghúsinu, er einn af þm. stj. lýsir yfir því, að stefnan um stöðvun dýrtíðarinnar sé búin að vera, hún hafi ekki tekizt og því verði að laga sig eftir því. Við kveðjum þannig, að saga þeirrar stefnu, sem stj. hefur miðað starf sitt við, er öll. Annar helmingur þm. er með henni, hinn á móti. Einn af flm. endurtók það, að stjórnarstefnan væri búin og laga yrði sig eftir því, að nýtt kapphlaup væri hafið. Það væri ekki undarlegt, þó að það kæmi síðar á daginn, að helmingur stj. væri með og helmingur á móti. Þannig er málum komið, og það hafði ekki fyrr verið lokað fyrir útvarpið en menn notuðu tækifærið til þess að taka þessa nýju stefnu.

Það hefur verið tekið hér fram, að það, sem þarf að gera, er að lækka verðlag á lífsnauðsynjum. Það þarf að létta af okrinu og dýrtíðinni. Það er fyrsta höggið. Síðan er hægt að semja við launastéttirnar, en það er ekki hægt fyrr en þetta högg er greitt.

Hv. 4. þm. Reykv. kvaðst hafa orðið fyrir vonbrigðum með Framsfl. Ég get sagt honum, að hann hefur ekkert verið að gera annað en ýta undir ráðþrota stj., svo að hún fari lengra fram á nöfina, og hún á bara örfá skref eftir. Jafnvel fé, sem lofað er, er áður lofað í annað samkvæmt landslögum. Verst er þó, að stj. fer fram af nöfinni með annað, sem meira virði er. Þessar nýju launahækkanir munu verða samþykktar, en sannið þið til, að svo fer að lokum, að ríkið getur ekki greitt laun embættismannanna, af því að undanhaldsstefnan er látin ráða, en ekki gerðar raunhæfar ráðstafanir til viðnáms og stöðvunar.

Ég gleymi aldrei þessari nóttu. Mest hissa er ég á því, að nokkur stj. skuli láta bjóða sér annað eins og þetta. Við framsóknarmenn höfum snúizt gegn þessu og varað við afleiðingunum, en það er að tala fyrir daufum eyrum.

Ég læt svo lokið máli mínu.