18.05.1949
Sameinað þing: 77. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 267 í D-deild Alþingistíðinda. (4580)

211. mál, launabætur til opinberra starfsmanna

Gylfi Þ. Gíslason:

Herra forseti. Þau ummæli mín í lok ræðu minnar, að Framsfl. hefði, að því er virtist, hneigzt frá vinstri stefnu, virðast hafa farið mjög í taugarnar á hv. síðasta ræðumanni. Vissulega væri æskilegt að fá endanlega og skynsamlega lausn á dýrtíðarmálunum, og um það er ég hv. þm. sammála. En við vitum báðir, að það gat ekki orðið á þessu þingi. Þess vegna er náttúrlega þýðingarlaust að bera fram till. um það. Spurningin var þessi: Átti Alþ. líka að hlaupa frá þessu launamáli opinberra starfsmanna, sem búa við misrétti og ranglæti, vitandi það, að valda mundi óróa og kaupdeilum, sem hefðu orðið ríkissjóði margfalt dýrari, en þessum 4 millj. nemur? — Það, sem ég átti við, og ég taldi, að Framsfl. hefði villzt frá vinstri stefnu, var í þessu tilfelli það, að ég tel, að hér sé verið að bæta kjör láglaunamanna og fullnægja réttmætum kröfum þeirra, og hefði flokknum átt að vera ljúft að stuðla að því. Og ég mun alltaf líta svo á, að það sé vinstri stefna að fullnægja sanngjörnum kröfum þeirra, sem lægst eru settir við borð í launamálunum. Ég held, að ef um hliðstæðar kröfur hefði verið að ræða af hálfu bænda, þá hefði Framsfl. barizt hart og drengilega fyrir þeim, þar sem framsóknarmenn telja sig fyrst og fremst umbjóðendur bænda, alveg eins og Alþflm. líta fyrst og fremst á láglaunamenn sem sína skjólstæðinga.