18.05.1949
Sameinað þing: 78. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 268 í D-deild Alþingistíðinda. (4587)

211. mál, launabætur til opinberra starfsmanna

Fjmrh. (Jóhann Jósefsson):

Út af þessari þáltill. vil ég taka þetta fram: Enda þótt ég sé því ósamþykkur, að þessi samþykkt sé gerð, mun ég mæla með því, að rannsakað verði, hvernig hagur og aðstaða launamanna ríkisins nú er og hvert réttlæti ríkir í kjörum þeirra í hlutfalli við hag annarra stétta. En um greiðslu þá, að upphæð 4 millj. kr., sem hér á að heimila, vil ég segja það sama og um flestar aðrar heimildargreiðslur, að hún verður því aðeins greidd, að í ljós komi, að hægt verði að greiða allar lögbundnar fjárlagagreiðslur, og það kemur að sjálfsögðu ekki til hlítar í ljós fyrr en seint á þessu ári. Að öðru leyti tel ég Alþingi skylt að sjá fyrir nýjum tekjum til að standast þau útgjöld, sem af þessari þáltill. kann að leiða, og er ósamþykkur því, hvernig málið hefur að borið, og ósamþykkur þeim hætti í launamálum, sem hér er upp tekinn. Ég segi þess vegna nei.