28.03.1949
Sameinað þing: 57. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 271 í D-deild Alþingistíðinda. (4594)

169. mál, vantraust á ríkisstjórnina

Flm. (Brynjólfur Bjarnason):

Það er vissulega ástæða til að spyrja: Hefur ríkisstj. traust Alþingis?

Þegar ríkisstj. tók við, fékk hún stuðning meiri hluta Alþingis á grundvelli stefnuskrár, sem hún lagði fram. Er nokkur sá alþingismaður, sem dirfist að halda því fram, að ríkisstj. hafi framkvæmt þessa stefnuskrá? Ég hefði gaman af að sjá framan í þann mann. Hvernig getur þá ríkisstj. haldið áfram að hafa traust, eftir að sýnt er, að hún lætur stefnuskrána sigla sinn sjó og tekur upp andstæða stefnu?

Það er vissulega tími til kominn að rifja upp helztu atriði stefnuskrárinnar og bera saman við framkvæmdirnar. Stefnuyfirlýsingin hófst á þessum fögru fyrirheitum, sem ríkisstj. skuldbatt sig gagnvart Alþingi og þjóðinni til að framkvæma:

Að vernda og tryggja sjálfstæði landsins.

Að tryggja góð og örugg lífskjör allra landsmanna og áframhaldandi velmegun.

Að halda áfram að auka nýsköpunina í íslenzku atvinnulífi.

Síðan er kveðið nánar á um, hvernig þetta skuli framkvæmt í einstökum atriðum. Um baráttuna gegn dýrtíðinni, sem nýja stj. gerði að aðalatriði í yfirlýsingu sinni, segir svo:

„Það er stefna ríkisstj. að vinna af alefli að því að stöðva hækkun dýrtíðarinnar og framleiðslukostnaðar og athuga möguleika á lækkun hennar. Að neytendur eigi kost á að kaupa neyzluvörur sínar og framleiðendur rekstrarvörur á sem hagkvæmastan hátt og vörudreifing innanlands verði gerð eins ódýr og hagkvæm eins og frekast er unnt. Að innflutningnum verði háttað þannig, að verzlunarkostnaður verði sem minnstur, og reynt að láta þá sitja fyrir leyfum, sem bezt og hagkvæmust innkaup gera.“

Hvernig hefur nú tekizt að efna þetta fyrirheit?

Samkvæmt útreikningi hagfræðinganna Ólafs Björnssonar og Jónasar Haralz er vísitalan nú komin talsvert á fimmta hundrað stig, rétt útreiknuð. Í þessum útreikningi er þó ekki tekið tillit til svartamarkaðsins, sem er orðinn mjög veigamikill þáttur í öllum viðskiptum. Þessi gífurlegi vöxtur dýrtíðarinnar er að langmestu leyti til kominn fyrir beinar aðgerðir ríkisstj. Alls hefur hún hækkað tolla á neyzluvörum almennings um talsvert á annað hundrað milljón krónur á ári, eða um svipaða upphæð og heildarupphæð fjárlaganna nam á árunum 1945 og 1946, á tímum nýsköpunarstj. Það munar um minna. Hún hefur skipulagt vöruskort í landinu. Við það hefur vöruverð á torfengnum vörum farið upp úr öllu valdi og svartamarkaðsbrask þróazt meira, en dæmi eru til áður.

Og hvernig hefur svo tekizt til um hina hagkvæmu og ódýru vörudreifingu, sem heitið var? Langmestur hluti innflutningsins hefur verið fenginn í hendur örfáum heildsölum. Þessi afætustétt hefur fengið Íslandsverzlunina á leigu, — raunar endurgjaldslaust, eins og einokunarkaupmennirnir forðum, rakað saman of fjár á kostnað landsmanna og safnað nýjum tugum milljóna í dýrmætum gjaldeyri erlendis. Bréf, sem Landssamband ísl. útvegsmanna sendi Alþingi í vetur í sambandi við afgreiðslu dýrtíðarlaganna, gefur nokkra hugmynd um ofsagróða þessara manna. Þar er farið fram á, að hraðfrystihúsin fái gjaldeyrisleyfi fyrir 15 millj. kr. til þess að kaupa fyrir fatnað í Tékkóslóvakíu, og megi leggja á hann 10 millj. kr. Jafnframt fullyrða þeir, að verðið þurfi að minnsta kosti ekki að vera hærra, en á þeim fatnaði, sem hér er fáanlegur. Ég þekki útgerðarmann, sem á lítinn bát, og hefur hann haldið nákvæma reikninga yfir afkomu hans undanfarin ár. Honum telst svo til, að innflytjendurnir, sem fengið hafa gjaldeyri þann, sem báturinn hefur aflað, hafi grætt á honum eina milljón króna — eina milljón króna á þessum eina litla bát. Ef eigandi bátsins hefði fengið þessa milljón sjálfur, mundi hann vera vel stæður maður og eiga ekki alllitlar eignir. Nú á hann ekki fyrir skuldum.

Þá er allt ríkisbáknið utan um verzlunina ekki lítill búhnykkur „til þess að tryggja hagkvæma og ódýra vörudreifingu“. Fjárhagsráð, viðskiptanefnd og skömmtunarskrifstofan kosta samtals tæpar fjórar milljónir króna. Í skjóli þessara stofnana þróast svo svarti markaðurinn.

Þá stendur þetta fagra fyrirheit í stefnuskránni:

„Að öllum vinnandi mönnum, sérstaklega þeim, sem stunda framleiðslustörf til sjávar og sveita, verði tryggðar réttlátar tekjur og komið í veg fyrir óeðlileg sérréttindi og spákaupmennsku.“

Um sérréttindin og spákaupmennskuna hef ég þegar rætt. Öll vitið þið af eigin reynslu, hvernig þau mál standa. Hvað þá um réttlátu tekjurnar? Með lögum frá Alþingi hafa löglegir samningar verkalýðsfélaga verið felldir úr gildi og kaupgjaldsvísitalan bundin við 300 stig, samfara því sem verðlag á nauðsynjum hefur hækkað fram úr öllu hófi. Þetta hefur haft þær afleiðingar, að kaupkjör almennings hafa rýrnað svo mjög, að almennt er viðurkennt, að orðið sé gersamlega óvíðunandi. Jafnvel stjórn Alþýðusambandsins, sem eingöngu er skipuð harðsoðnum stjórnarsinnum, hefur viðurkennt, að ekki verði lengur við unað, og hvatt öll sambandsfélög til að segja upp samningum. Mánaðarkaup Dagsbrúnarmanna samkvæmt almenna taxtanum er nú 1.680 kr. Hvernig á að leysa þá þraut að lofa á því kaupi, jafnvel þátt menn hafi stöðuga vinnu? — En nú er svo komið, að atvinnuleysi færist mjög í vöxt. Vilja ráðherrarnir svara því? Vilja þingmennirnir, sem staðið hafa að þessari stjórnarstefnu, svara því? Kannske þeir vilji reyna og ganga þar á undan með góðu eftirdæmi. Starfsmenn ríkis og bæja hafa nú lýst því yfir, að þeir geti ekki lengur unað við kjör sín, og hafa krafizt 36% kauphækkunar til þess að bæta upp þá kjararýrnun, sem þeir hafa orðið fyrir síðan launalögin voru sett. Augljóst er, að viðtækar kaupdeilur eru í aðsigi blátt áfram af því, að menn geta ekki lengur lifað af þeim launum, sem ríkisstj. hefur skammtað þeim. Má ég spyrja: Eru þetta „réttlátu tekjurnar“, sem ríkisstj. gaf fyrirheit um að tryggja?

Þá kemur næsta fyrirheit: „Að öll framleiðslustarfsemi verði hagnýtt til fulls og öllum verkfærum mönnum tryggð næg og örugg atvinna. Að áframhald verði á öflun nýrra og fullkomnari framleiðslutækja til landsins og að atvinnuvegir landsins verði reknir á sem hagkvæmastan hátt á arðbærum grundvelli og stöðvist ekki vegna verðbólgu og dýrtíðar.“

Efndirnar á þessu hafa verið þær, að mikill hluti iðnaðarins hefur verið stöðvaður eða framleiðslan takmörkuð vegna skorts á efnivörum. Þó að fiskurinn væri upp við landsteinana, hefur bátunum verið bannað að hagnýta hann nema vissar tegundir fyrir ákveðinn markað. Það er árangurinn af einokun ríkisstj. á útflutningsverzluninni og einskorðun markaðsins við ákveðin lönd. Fyrirtæki eins og Fiskiðjuver ríkisins; sem búið var að leggja í margar millj., hefur ekki fengizt fullgert og ekki fengið nauðsynleg tæki og efnivörur til framleiðslunnar, með þeim afleiðingum, að það hefur ekki getað framleitt nema lítið brot af afkastagetunni. Þannig hefur dýrmætum gjaldeyri verið kastað á glæ. Stjórn fiskiðjuversins neyddist til að segja af sér í mótmælaskyni við þessa pólitík. Húsbyggingar hafa að miklu leyti verið stöðvaðar. Og nýsköpunin hefur verið stöðvuð. Samið hefur að vísu verið um smíði á 10 togurum, en það er ekki einu sinni upp í þriðjunginn af eftirspurninni — og til landsins koma þeir tveim árum seinna, en orðið hefði, ef farið hefði verið eftir tillögum Sósfl. Fyrir bragðið eru þeir miklu dýrari og landið verður af tugum milljóna í gjaldeyri.

Árangurinn af þessari pólitík er sá, að atvinnuleysið hefur haldið innreið sína og er í örum vexti.

Hámarkinu hefur þessi pólitík ríkisstj. náð með stöðvun togaranna. Sú stöðvun hefur kostað þjóðina yfir 20 millj. kr. í gjaldeyri. Tilgangurinn með stöðvuninni var: Í fyrsta lagi að lækka kaup sjómannanna, í öðru lagi að koma þeim togaraeigendum, sem ekki eru fjársterkir, og þá fyrst og fremst bæjarfélögunum í þrot, svo að hinir stærri eigi hægara um vik að sölsa skipin undir sig, og í þriðja lagi að fá átyllu til gengislækkunar. Vikum saman gátu fulltrúar útgerðarmanna ekki um annað talað, en gengislækkun við samningsborðið. Það þurfti enginn að fara í grafgötur um, hver var óskadraumur þeirra og höfuðtilgangur með stöðvuninni.

Þá stendur eftirfarandi fyrirheit í stefnuskránni:

„Vinna að sem víðustum mörkuðum fyrir íslenzkar útflutningsvörur.“

Hverjar urðu efndirnar? Á tímum nýsköpunarstj. tókst að vinna víðtæka markaði í Austur-Evrópu, fyrst og fremst í Sovétríkjunum. Þetta hafði þau áhrif, að aðalútflutningsvörurnar hækkuðu svo stórlega í verði, að aldrei hefur fengizt jafnhátt verð fyrir íslenzka framleiðslu. Vonir stóðu til, að hægt væri enn að stórauka þessa markaði. Á grundvelli þessara nýju markaða og hinna miklu verðhækkana var unnt að hefja nýsköpunarstarfið með þeim stórhug, sem raun varð á. Viðskiptin við Sovétríkin hefur Bjarna Benediktssyni tekizt að eyðileggja með öllu, og engin teljandi viðskipti eru nú við önnur lönd í Austur-Evrópu, nema Tékkóslóvakíu. Að nýju hafa viðskipti okkar verið rígbundin við Bretland og Ameríku. Árangurinn hefur orðið sá, að þegar er orðin mikil verðlækkun. Og nú er talið, að gífurleg verðlækkun sé yfirvofandi. Það mun jafnvel hafa verið talað um 25–30% verðlækkun á aðalútflutningsvörunum til Bretlands. Þegar svo er komið, munu þeir herrar, sem bera ábyrgðina á því, hvernig komið er, telja tíma til þess kominn að stíga næsta skrefið, láta óskadrauminn rætast. Nú munu þeir þykjast geta sagt með fullum rétti: Það stendur algert hrun fyrir dyrum; annaðhvort stöðvast atvinnureksturinn með öllu, skipunum verður lagt upp og verksmiðjunum lokað eða það verður framkvæmd stórfelld gengislækkun, hið vinnandi fólk, sem heitið hafði verið réttlátum tekjum, verður að færa miklar fórnir og herða mittisólina, það verður að þrýsta lífskjörum fólksins niður á stig kreppuáranna á fjórða tug aldarinnar, tíma skorts og neyðar, atvinnuleysis og fátækraflutninga. Þá voru Bretar einráðir um að skammta okkur verðið fyrir útflutningsvörurnar. Fyrir tilstilli Bjarna Benediktssonar erum við aftur að komast í sama farið. Við sósíalistar sögðum það fyrir, að þetta mundi verða endirinn á ævintýrinu, að þessu marki stefndi öll pólitík ríkisstj. Það er nú að koma fram.

Mánuðum saman hefur verið stjórnað án fjárlaga. Það mun sennilega vera Evrópumet. Þegar svo loksins fjárlögin koma, er upphæð þeirra hvorki meira né minna en 260 millj, kr., eða meira en helmingi hærri en 1946. Sízt verður stj. þó sökuð um að vera of stórhuga um verklegar framkvæmdir. Það þekkja menn af reynslunni, og það sanna þessi fjárlög, þar sem verklegar framkvæmdir eru skornar niður. Ástæðan fyrir þessari svimháu upphæð fjárlaganna er fyrst og fremst hin óhemjulega þensla í ríkisbákninu. Þessi fjárlög eru verk mannanna, sem aldrei opna munninn án þess að tala um sparnað, að spyrna við fótum gegn eyðslunni o. s. frv. Drýgsta þáttinn í þessari þenslu eiga stofnanir þær, sem eru að skipuleggja allt í rústir, eins og einn góður sjálfstæðismaður komst að orði fyrir mörgum árum. Þetta eru verk mannanna, sem hafa gert það að grundvallarvísdómi þjóðmálastefnu sinnar, að afskipti ríkisvaldsins af atvinnulífinu séu undirrót alls ills.

Allt eru þetta staðreyndir, sem ekki þýðir að bera á móti. En hvað hafa þá þessir herrar sér til afsökunar? Framsóknarmenn munu halda því fram, að allt sé þetta afleiðingar þeirrar stefnu, sem fylgt var á nýsköpunarárunum, þá hafi öllum gjaldeyrinum verið sóað o. s. frv. Já, menn geta verið furðu ósvífnir, þegar þeir eru rökþrota. Hvernig haldið þið, að ástandið mundi vera, ef stefnu Framsóknar hefði verið fylgt og hin nýju framleiðslutæki hefðu ekki verið keypt til landsins? Hvernig haldið þið, að gjaldeyrisástandið væri, ef við hefðum ekki nema gömlu fiskibátana, gömlu togarana, gömlu frystihúsin og gömlu verksmiðjurnar? Nú er svo komið, að langmestur hluti útflutningsins er framleiddur af hinum nýju tækjum, nýju togurunum og nýju bátunum. Aðeins örlítið brot af útflutningsmagninu er framleitt með gömlu tækjunum. Togararnir skila gjaldeyrisandvirði sínu á einu ári. Enda hefur gjaldeyrisandvirði útflutningsins hækkað úr 250 milljónum upp í 400 milljónir á ári vegna framkvæmda nýsköpunaráranna. Ef stefnu afturhaldsins hefði verið fylgt á árunum 1944–46, þá ætti nú að vera hverju barninu ljóst, að við værum fyrir löngu komnir í botnlausa kreppu, hið margumtalaða hrun Eysteins Jónssonar fyrir löngu orðið að veruleika. En þá hefði Framsókn og allt hið þríeina afturhald líka fengið sitt tækifæri: — atvinnuleysi, sem skilyrði þess að fá fólk til að sætta sig við þau kjör, sem þeir herrar munu eiga við, þegar þeir tala um „réttlátar tekjur“ í stefnuyfirlýsingum sínum.

Þá munu þeir líklega halda því fram, að þeir hafi verið að brasa við að halda dýrtíðinni í skefjum með niðurgreiðslunum og með bindingu vísitölunnar. Ekki geta þeir haldið því fram, að verkalýðurinn hafi lagt stein í götu þeirra. Jú, þeir hafa aukið niðurgreiðslurnar úr rúmum 16 milljónum upp í 50 milljónir. Já, það er hægur vandi að ausa fé úr ríkissjóði, sem aftur er tekið með sköttum af landsfólkinu til þess að greiða vörurnar niður. Til þess þarf enga kunnáttumenn. Enn minni vandi er að lækka kaupmanna með lögum og gera dýrtíðina þar með enn verri og þungbærari fyrir almenning. Hitt er kannske meiri vandi, að kalla þetta ráðstafanir gegn dýrtíðinni. Slík ósvífni er ekki öllum gefin. Árangurinn hefur svo, eins og kunnugt er, orðið sá, að raunveruleg verðlagsvísitala hefur hækkað upp í talsvert á fimmta hundrað stig. Og ég hef sýnt fram á, að það er að langmestu leyti fyrir beinar aðgerðir ríkisstj.

Þá mun utanrrh. okkar koma og halda því fram, að ekki geti hann að því gera, þó að hann hafi glutrað þeim mörkuðum, sem mestu máli skipta, úr hendi sér. En þjóðin, sem fylgzt hefur með aðförum hans, veit betur. Ekkert tækifæri hefur hann látið ónotað til þess að bera fram svo freklegar móðganir við Sovétríkin og fulltrúa þeirra, að slíks eru engin dæmi síðan Íslendingar óku utanríkismálin í eigin hendur. Síðan kallar hann sendiherrann burt frá Moskvu, sem jafngildir á alþjóðamáli stjórnmálamanna — sem allir skilja — opinberri tilkynningu um það, að Ísland vilji engin viðskipti hafa við þetta land. Þessu næst gerir hann samning við Bandaríkin, sem skuldbindur Ísland til að gera engin kaup við Austur-Evrópu nema í samræmi við það, sem Bandaríkin leyfa. Og loks er því lýst yfir, að Ísland ætli sér að gera hernaðarbandalag við Bandaríkin og fylgiríki þeirra, sem stefnt er gegn Sovétríkjunum. Með öðrum orðum, Ísland lýsir því yfir, að það sé staðráðið í því að fara í styrjöld með Bandaríkjunum gegn Sovétríkjunum, ef til friðslita dregur.

Nei, þeir herrar hafa engar afsakanir.

En verið þið viss. Nú bíður utanríkisrh. um vorkunnsemi þjóðarinnar. Hann treystir því, að þjóðin ætli engum manni svo illt, jafnvel ekki sér, að selja íslenzkar afurðir með lægra verði en fáanlegt er og kasta frá sér verðmætum mörkuðum af ásettu ráði. En þetta er nú samt staðreynd, og allar staðreyndir eiga sér orsök og skýringu. Í þessu tilfelli er hennar ekki langt að leita. Hennar er að leita í þeim stéttarhagsmunum, sem ráðherrann er fulltrúi fyrir. Bjarni Benediktsson hefur oft minnzt á hagsmuni heildsalanna í þessu sambandi og spurt: Skyldi ég ekki vilja útvega sem mestan gjaldeyri hana heildsölunum mínum? Jú, vissulega vill hann láta eigendur sína, heildsalana, fá sem mest af dollurum og pundum. Þess vegna vill hann selja íslenzkar sjávarafurðir með miklu lægra verði, ef hann getur fengið fyrir þær dollara og pund, heldur en hann gæti selt þær með eðlilegum vöruskiptasamningum, allt í þeim tilgangi, að heildsalarnir hans geti keypt hjá viðskiptamönnum sínum í Englandi fyrir pund og grætt á því og uppskrúfaðar vörur í Ameríku fyrir dollara og grætt enn meira og bætt við hina digru gjaldeyrissjóði sína erlendis. Auk þess býr meira undir. Hér er um að ræða lið í stóru kerfi, í kerfisbundinni pólitík, sem stefnir að ákveðnu marki, eins og ég mun víkja nánar að.

Eftir er að athuga, hvernig tekizt hefur með fyrsta atriði stefnuskrárinnar, en það hljóðar svo: „Að vernda og tryggja sjálfstæði landsins.“ Ég er ekki að gera að gamni mínu. Þetta er sannleikur. Það stendur svona orðrétt.

Bandaríkjamenn eru nú að koma sér upp einni af stærstu herstöðvum sínum á Reykjanesi, sem þeir sjálfir telja eina hina mikilvægustu til árása í næstu styrjöld. Hvert einasta atriði Keflavíkursamningsins hefur verið virt að vettugi. Íslendingar hafa þar ekki hinn minnsta íhlutunarrétt. Enginn Íslendingur fær þar þá þjálfun, sem tilskilin er. Fjölmennt lið Bandaríkjamanna dvelur á Íslandi og lætur eins og þeir eigi landið. Þeir njósna um allt, sem máli skiptir, og hafa margþættan undirbúning til að hagnýta landið í komandi styrjöld og fá hér greiðar upplýsingar og hvers konar fyrirgreiðslur hjá stjórnarvöldum landsins. Þeir hafa gerzt herraþjóð í landi voru og þverbrjóta alla íslenzka löggjöf eins og þá lystir — skatta- og tollalögin, gjaldeyrislögin, lög um fjárhagsráð, lög um stéttarfélög og vinnudeilur o. s. frv. — ekki aðeins í skjóli þeirra, sem laganna eiga að gæta, heldur með aðstoð þeirra. Þeir grafa grunninn undan gengi krónunnar og öllum fjármálum Íslands með víðtæku braski með gjaldeyri og tollsviknar vörur.

Annað skref ríkisstj. í sjálfstæðismálinu er Marshallsamningurinn. Samkvæmt honum fá Bandaríkin víðtækan íhlutunarrétt um öll efnahagsmál og stjórnmál þjóðarinnar, þar á meðal fjárlög og gengisskráningu; þau fá forkaupsrétt að efnivörum, sem þau telja sig þurfa á að halda, og rétt til að leggja bann við eðlilegum verzlunarviðskiptum okkar við Austur-Evrópu. Ríkisstj. skuldbatt sig til að gefa hinu erlenda stórveldi sundurliðaðar skýrslur um innanlandsmál Íslendinga og halda uppi áróðri fyrir utanríkisstefnu Bandaríkjanna. Erlendum dómstóli er veitt dómsvald í vissum málum íslenzkra þegna. Og loks fá bandarískir þegnar sama rétt og Íslendingar til atvinnurekstrar hér á landi. Hér er að vísu hafður fyrirvari, en fáir munu leggja mikið upp úr honum, meðan amerísk leppstjórn fer með völd á Íslandi.

Næst kemur yfirlýsing frá forsrh. og utanrrh. um, að Ísland skuli ekki lengur vera hlutlaust ríki, stj. hafi ákveðið að kasta fyrir borð sjálfum grundvellinum að sjálfstæðri tilveru hinnar vopnlausu og varnarlausu íslenzku þjóðar — hlutleysi í styrjöld. Forsrh. og formaður stærsta þingflokksins halda ræður og skrifa greinar, þar sem því er lýst yfir skýrt og skorinort, að þeir hafi ákveðið að berjast fyrir því, að Ísland gerist aðili að hernaðarbandalagi hinna miklu nýlenduvelda, Bandaríkjanna og Bretlands og fylgiríkja þeirra, og nú dugi ekkert minna en hinar öflugustu vígvélar og drápstæki. Ísland skuli gert að svo öflugu hervirki, að óvinur þess skelfist og skuli verða gersigraður, ef til átaka kemur. Þá fékk maður að vita það, að íslenzka þjóðin ætti óvin, og ekki farið leynt með, hver óvinurinn væri. Það eru Sovétríkin. Til þess að varnir Íslands yrðu í nokkru samræmi við þessi stóru orð, þyrfti ekki einasta óslitna röð öflugra hervirkja meðfram allri strandlengju Íslands, heldur líka her, sem væri fjölmennari en þjóðin sjálf. Á það var bent af mönnum, sem héldu vöku sinni og viti, að íslenzkt þjóðerni mundi tæplega lifa af slíkt hernám, jafnvel áratugum saman. Þjóðin reis upp gegn hinum stríðsóðu Ameríkuagentum. Og þeim þótti ráðlegast að hörfa í bili. Nú lýstu þeir því yfir, að hernaðarbandalaginu ættu ekki að fylgja neinar kvaðir um herstöðvar og erlendan her á friðartímum. Hvar var nú hin bráða árásarhætta frá Rússlandi? Með öðrum orðum, fyrst á að afla sér fjandmanna, fyrst á að ganga í hernaðarbandalag gegn mesta stórveldi heimsins og segja Sovétlýðveldunum svo að segja stríð á hendur fyrir fram. Síðan á landið að vera jafnvarnarlaust eftir sem áður. Þegar þeir eru að tala við þjóð sína, þá er fyrirlitningin fyrir vitsmunum almennings svo mikil, að það er eins og þeir séu að tala við fávita. En þeim hefur ekki orðið að trú sinni. Þjóðin hefur skilið, hvað undir býr.

Þetta er nú allt ljósara, eftir að uppkastið að Atlantshafssáttmálanum hefur verið birt. Innihald þess er í stuttu máli þetta: Fyrst eru nokkur slagorð um lýðræði, frið og frelsi, gömul tugga í amerískum áróðursstíl. Síðan koma kvaðirnar, sem hvert bandalagsríki tekur á sig. Þar á meðal eftirfarandi skuldbindingar, sem Ísland yrði að gangast undir, ef það gerðist aðili:

1. Að gera ráðstafanir til þess, að veita vopnavaldi mótstöðu, þ. e. að koma upp herbúnaði. 2. Ef eitthvert ríki í bandalaginu, t. d. Bandaríkin, fellir þann dóm, að nú kunni að vera hætta á ferðum fyrir öryggi einhvers þátttökuríkis, þá skal gera samning um viðeigandi ráðstafanir. Að því er til Íslands tekur yrði það vafalaust bandarísk herseta. Samkvæmt orðalagi sáttmálans gætu Bandaríkin talið vöxt og eflingu verkalýðshreyfingarinnar og sósíalistískra afla í einhverju landi hættu fyrir öryggi þess.

3. Ef talið er, að einhver aðili hafi orðið fyrir árás, ber öllum öðrum bandalagsríkjum að taka þátt í styrjöld, sem af því rís. Það þyrfti ekki annað en herskip einhvers aðilans rækist á tundurdufl eða skotin yrði niður flugvél, sem bryti reglurnar yfir Berlín. Ef Bandaríkin eða fylgiríki þeirra notuðu það sem átyllu til styrjaldar, þá væri Ísland komið í stríð.

Túlkanir og skýringar íslenzku ráðherranna á sáttmála þessum, (sem þið munuð fá að heyra hér á eftir), hljóta að vera mikið aðhlátursefni fyrir herrana í Washington. Rétt eins og íslenzku peðin verði spurð ráða um hernaðarpólitík Bandaríkjanna og Bretlands, að því er tekur til einnar þýðingarmestu herstöðvar veraldar, eða þeir fái úrslitaatkvæði um framkvæmd á hernaðarsáttmála stórveldanna! Ætli það verði ekki svipað „úrslitavald“ og á Keflavíkurflugvelli. Maður skyldi nú ætla, að ráðherrarnir hefðu lagt megináherzlu á, að hér yrðu herstöðvar og her á friðartímum, hinar öflugustu vígvélar og morðtæki í samræmi við fyrri yfirlýsingar, úr því að hættan á rússneskri árás á að vera svo yfirvofandi, að sjálfsagt sé að kasta hlutleysinu fyrir borð og gera Íslendinga að hernaðarþjóð og fyrir fram ákveðnum stríðsaðila í næstu styrjöld.

En nú þykjast þeir miklir af því að hafa komið því til leiðar í Washington, að hér verði engar varnir og við séum ekki skyldugir til að hafa hér her og herstöðvar á friðartímum samkvæmt sáttmálanum. — Hér fer fram kátbroslegt sjónarspil á miklum alvörutímum fyrir þjóð vora. Satt er það, að landið verður varnarlaust. En herstöðvar á Íslandi eru ekki ætlaðar til varnar, heldur til sóknar og árásar, enda er staðreyndin sú, að áður en helmingur ríkisstj. flaug vestur, var hún þegar búin að fallast á ameríska herstöð á friðartímum með því að veita leyfi til stækkunar á Keflavíkurflugvellinum, en hann á að verða ein mikilvægasta herstöð heims samkvæmt vitnisburði Bandaríkjamanna sjálfra. Nú er líka vitað, að í Washington urðu þeir að gefa bindandi loforð um hernaðarlega hagnýtingu bæði Keflavíkurflugvallarins og Hvalfjarðar. — (Þetta vitum við og alveg tilgangslaust að bera á móti því; það kemur á daginn.) Enda er sáttmálinn sjálfur skýr og ótvíræður. Samkvæmt honum ber Íslendingum að hervæðast eins og öðrum þátttökuríkjum. Skýringar og undanbrögð íslenzku leikbrúðanna hafa vitaskuld ekkert gildi. Þeir fengu ekki einu sinni leyfi til að skrifa undir með fyrirvara. Ég geri ráð fyrir, að Bjarni Benediktsson hafi borið upp einhverjar óskir við Acheson, en hver bæn hafi endað með þessum orðum: Þó ekki eins og ég vil, heldur eins og þú vilt. — Hins vegar þykir mér líklegt, að Acheson hafi sagt eitthvað svipað við Bjarna eins og Hallgerður langbrók við Sigmund forðum: Gersemi ert þú, hversu þú ert mér eftirlátur.

Það, sem undir býr, eru ekki íslenzkir hagsmunir, heldur hagsmunir og áhugamál amerískra einokunarhringa, nýlendukúgara og yfirdrottnunarseggja. Þeir eru að búa sig undir stríð við Sovétríkin og alþýðuríkin í Austur-Evrópu. Þeir hafa þegar komið sér upp herstöðvum víðs vegar um hnöttinn, allt umhverfis Sovétríkin. Þær eru þegar orðnar 500 eða 600 að tölu. Þeir eru að koma upp hernaðarbandalagi með auðvaldsríkjum allt umhverfis Sovétlýðveldin. Meðal þessara ríkja, sem þeir hervæða og kalla lýðræðisríki, eru Tyrkland, Grikkland og Portúgal og vafalaust Spánn um það er lýkur. Þessu bandalagi er opinberlega stefnt gegn Sovétríkjunum. Þeir kalla það varnarbandalag gegn árás. Sjálfir eru þeir og bandamenn þeirra blóðugir upp að öxlum í árásarstyrjöldum gegn friðsömum og varnarlausum þjóðum, gegn Grikkjum, Indónesíumönnum, íbúum Austur-Indlands og Indókína. Það liður varla sá dagur, að blöð í Bandaríkjunum krefjist þess ekki, að hafið sé kjarnorkustríð gegn Sovétlýðveldunum. Á götum New York borgar má sjá kröfugöngur berandi spjöld með kröfunni: Notið kjarnorkusprengjuna gegn Sovétlýðveldunum strax í dag, á morgun er það orðið of seint.

Fyrir þá, sem kynnt hafa sér þróunarferil kapítalismans, er þetta allt eðlilegt. Í þjóðskipulagi Bandaríkjanna eru allar orsakir styrjaldarundirbúnings og styrjaldar að verki. Núverandi kynslóð Bandaríkjanna þekkir ekki skelfingar styrjaldar. Auðfélög Bandaríkjanna græddu 50 þúsund milljónir dollara á síðasta stríði. Nú er kreppa á næsta leiti geigvænlegri en nokkur önnur, sem yfir auðvaldsheiminn hefur dunið. Maður lítur varla svo í amerískt blað eða tímarit, sem fjallar um fjármál og atvinnumál, að ekki séu færð rök fyrir því, að sá skefjalausi herbúnaður, sem Bandaríkin standa að víðs vegar um heim, sé nauðsynlegur til þess að forðast kreppuna, ef heimurinn verði friðaður og til sátta dragi með stórveldunum, þá skelli kreppan yfir með öllum sínum þunga. Einn af hreinskilnustu fulltrúum Bandaríkjaauðvaldsins lýsti því yfir fyrir skömmu, að ef um annað tveggja væri að ræða, kreppu eða styrjöld, þá væri einsætt að velja styrjöldina. Bandaríkin geta að vísu ekki háð styrjöld eins og sakir standa, vegna þess að þau hafa hinar stríðsþreyttu þjóðir Evrópu einhuga á móti sér. Þær munu neita að láta leiða sig til slátrunar. Eins og sakir standa er Bandaríkjunum stríðsundirbúningurinn allt, bæði hinn andlegi og hernaðarlegi. Öll áherzla er lögð á að kynda undir glóðum hatursins, á framleiðslu vígvéla og morðtóla og koma upp herstöðvum til árása. En lokatakmark alls vígbúnaðar er að heyja stríð.

Í þjóðskipulagi Sovétríkjanna eru engar þær orsakir að verki, sem knýja á um styrjaldarævintýri, heldur er þessu öfugt farið. Mikill hluti Sovétríkjanna var lagður í rústir í síðasta stríði. Frjósöm héruð voru lögð í auðn. Árangur af erfiði og striti margra ára, sem fólkið hafði lagt í alla ást sína, allt sitt þrek og manndóm, sem var því lífið sjálft, varð villimennskunni að bráð. Þjóðin varð að sjá á bak milljónum sinna beztu sona. Um 17 milljónir manna létu lífið. Í Sovétríkjunum eru ekki margar fjölskyldur, sem ekki hafa misst einn eða fleiri ástvina sinna. Og svo halda menn, að þessi þjóð sé óðfús að stofna til nýrrar styrjaldar. Sovétríkin hafa öllu að tapa í nýju stríði, allt að vinna í friðsamlegri þróun. Þau þurfa ekki að óttast neina kreppu. Framleiðslan eykst með svo hröðum skrefum, að slíks eru ekki dæmi fyrr eða síðar. Hún mun margfaldast á tiltölulega fáum árum og aukning framleiðslunnar í Sovétríkjunum getur aldrei þýtt annað en aukinn styrk og aukna velmegun.

Hugsum okkur nú, að skipt væri um hlutverk. Hugsum okkur, að Sovétríkin hefðu ekki orðið fyrir neinu tjóni í styrjöldinni, heldur grætt 50 þúsund milljónir dollara; að offramleiðsla væri yfirvofandi í Sovétríkjunum, en Bandaríkin þyrftu að leggja fram alla krafta sína til þess að auka framleiðsluna til að fullnægja brýnustu þörfum; að Sovétríkin hefðu komið upp hundruðum herstöðva í Kanada, í Mexíkó, í Suður-Ameríku og Kyrrahafi; að Sovétríkin hefðu gert hernaðarbandalag við nágrannaríki Bandaríkjanna í Ameríku og kallað það varnarbandalag; að blöð í Sovétríkjunum krefðust þess, að atómsprengjum yrði kastað á New York án tafar, á morgun gæti það orðið of seint. Hvaða ályktanir munduð þið draga? Munduð þið halda því fram, að Sovétríkin gerðu allt þetta í varnarskyni, en Bandaríkin væru árásarríki?

Ég fullyrði: Enginn maður, hvar sem er í veröldinni og fylgist hið minnsta með því, sem er að gerast, heldur því fram, að Sovétríkin hyggi á árásarstríð, nema hann geri það gegn betri vitund. Jafnvel John Foster Dulles, einn kunnasti fulltrúi afturhaldsins í Bandaríkjunum, segist ekki þekkja neinn stjórnmálamann, sem trúir því í alvöru, að Rússland hafi árásarstríð í huga.

Það er gersamlega tilgangslaust að bera á móti því, að það eru Bandaríkin, sem eru að búa sig undir árásarstríð og Atlantshafsbandalagið er stofnað í þeim tilgangi að heyja árásarstyrjöld.

Afstaða Bandaríkjanna og Sovétríkjanna til Íslands og framkoma þessara tveggja stórvelda gagnvart þjóð vorri er í fullu samræmi við þetta. Sovétríkin hafa aldrei farið fram á herstöðvar á Íslandi og aldrei farið fram á nein sérréttindi eða fríðindi hvorki hernaðarlegs né annars eðlis. Enginn Sovétstjórnmálamaður hefur nokkurn tíma látið sér orð um munn fara, sem bendi til nokkurs háttar ágengni gagnvart Íslandi. Sovétríkin hafa aldrei sýnt oss annað en vináttu.

Aftur á móti hafa Bandaríkin farið fram á að fá þrennar mikilvægar herstöðvar hér á landi til 99 ára. Þau hafa þröngvað Íslandi til að láta af hendi við sig dulbúna herstöð og hafa hér þegar eins konar setulið, sem hagar sér eins og herraþjóð. Og nú krefjast þeir þess, að vér ljáum land vort sem árásarstöð í komandi styrjöld, að vér færum sjálfa oss að fórn fyrir hagsmuni bandarísks auðvalds og að íslenzka þjóðin verði ofurseld þeirri hættu að verða tortímt í hinni ægilegustu styrjöld allra tíma, til þess að bægja hættunni frá Bandaríkjunum sjálfum. Forsætisráðherrann hefur sjálfur sagt í áramótaboðskap sínum, að það kosti vináttu Bandaríkjanna og fylgiríkja þeirra, ef við verðum ekki við þeirri ósk.

Bandaríkin hafa vitaskuld engan áhuga á að Ísland gangi í hernaðarbandalag, nema til þess að nota landið í ófriði. Þess vegna verður hafizt hér handa um öflugan vígbúnað, þegar búið er að gera samninginn, hversu sakleysislegt yfirbragð sem hann er látinn hafa og hvernig sem hann er túlkaður til þess að blekkja þjóðina. Fyrst verður hafizt handa á Keflavíkurflugvellinum, síðan annars staðar. Þegar búið er að afla sér óvina, þá ættu „rök“ Ólafs Thors, Stefáns Jóhanns og Jónasar Jónssonar um nauðsyn hinna öflugustu vígvéla og drápstækja að falla í betri jarðveg, en meðan við vissum ekki til, að við ættum neina óvini.

Málgögn Ameríkuagentanna hafa þrásinnis spurt okkur sósíalista að því, hvaða afstöðu við mundum taka til hernaðaraðgerða ákveðins stórveldis, nefnilega Sovétríkjanna, á Íslandi. Þessi spurning er að vísu út í bláinn, nema íslenzka ríkisstj. hafi þegar ákveðið, að Ísland skuli fara í styrjöld gegn Sovétríkjunum við hlið Bandaríkjanna. Það stendur engin rússnesk árás fyrir dyrum, þótt ekki væri vegna annars en þess, að það er hernaðarleg fjarstæða eins og nú er ástatt í heiminum. En okkur er ógnað af öðru stórveldi. Það eru Bandaríki Norður-Ameríku. Þjóðin á kröfu á að fá að vita afstöðu manna til innrásar hvaða stórveldis sem er, en þó fyrst og fremst til þeirrar innrásar, sem ógnar Íslandi í dag. Og okkur sósíalistum er ljúft að svara þessu. Við tökum afstöðu gegn hernaðarinnrás hvaða stórveldis sem er. Við tökum afstöðu gegn hinni yfirvofandi árás Bandaríkjanna, og við hvetjum þjóðina að rísa til varnar með öllu því afli og öllum þeim ráðum, sem hún á völ á. Það skiptir engu máli fyrir okkur, hvert stórveldið er, hvort þjóð þess talar ensku, rússnesku eða eitthvert annað mál. Ef Rússland væri í sporum Bandaríkjanna og ógnaði Íslandi eins og þau, mundum við taka nákvæmlega sömu afstöðu til þess. Engin önnur afstaða er íslenzk, engin önnur afstaða er sæmandi Íslendingi og þetta verður að vera afstaða íslenzku þjóðarinnar, ef hún vill halda rétti sínum sem sjálfstæð þjóð.

Og nú spyr ég ykkur, háttvirtir alþingismenn: Hvaða afstöðu takið þið? Hvaða afstöðu takið þið til þeirrar hernaðarlegu ógnunar gegn Íslandi, sem er staðreynd í dag, hinnar bandarísku ógnunar? Vita skuluð þið, að við sósíalistar og allir þeir, sem hugsa eins og Íslendingar, munum líta á hvern þann, sem aðstoðar hið erlenda vald til þess að ná hernaðarlegum fangstað á Íslandi, sem landráðamann og hans munu engin önnur örlög bíða, en örlög kvislingsins.

Ég hef nú sýnt fram á, hvað fyrir Bandaríkjunum vakir, hvers vegna þau leggja kapp á að leggja land vort undir sig til þess að gera það að styrjaldarvettvangi í komandi stríði. Þá er spurningin: Hvers vegna leggur hin fámenna klíka íslenzkrar yfirstéttar slíka megináherzlu á að gera Ísland að herstöð fyrir Bandaríkin?

Þeir segjast vera ofsahræddir. Ólafur Thors segist vera hræddur, í áramótagrein sinni. Einn af fulltrúum Morgunblaðsmanna byrjaði ræðu sína á stúdentafundi á þessa leið: Ég er hræddur, ég er ofsahræddur. Já, þeir eru áreiðanlega hræddir. En við hvað eru þeir hræddir? Ekki við Rússa. Svo skyni skroppnir eru þeir ekki, enda mundu þeir þá ekki láta svona. Ef þeir væru hræddir við Rússa, mundi völlurinn vera minni á þeim. Þeir mundu skríða fyrir þeim. Þeir vita vel, eins og allir aðrir, sem eru nokkurn veginn með réttu ráði, að af þeim stafar engin hætta meðan Ísland heldur sér utan við styrjaldarátök.

Samt segja þeir það satt, að þeir eru ofsahræddir. Þeir eru hræddir við sína eigin þjóð, hræddir um auð sinn og völd. Þeir hafa haft ofsagróða, þess vegna eru þeir ofsahræddir við íslenzka alþýðu, þess vegna kalla þeir á bandarískan her inn í landið. Ég hef hér á undan sýnt fram á hvernig ríkisstj. er að leiða hrun yfir íslenzkt atvinnulíf. Íslenzkur þjóðarbúskapur þolir ekki það sníkjulíf, sem stórgróðastéttin lifir. Það er komið að þeim krossgötum, að annaðhvort verður íslenzkum atvinnuvegum siglt í strand eða það verður að skera á hnútinn. Það er hægt að gera á tvennan hátt: Með því að létta verzlunarokinu og oki fjármálaspillingarinnar af þjóðinni, eða með því að lækka mjög stórkostlega lífskjör íslenzkrar alþýðu. Þessa treystir yfirstéttin og flokkar hennar sér ekki til af eigin rammleik. Þess vegna kasta þeir sér í fang erlendra landræningja og stríðsævintýramanna, þess vegna eru þeir reiðubúnir til þess að kasta landi og þjóð út í brjálað stríðsævintýri. Það er gömul saga, sem oft hefur gerzt áður og er að gerast í ýmsum löndum enn í dag. Gjaldþrota yfirstétt kallar á erlent hervald til aðstoðar gegn sinni eigin þjóð.

Amerískur vígbúnaður kallar óhjákvæmilega á amerískan her eða ameríska hervernd í einhverri mynd, hvernig sem hún kynni að vera dulbúin fyrst í stað. Og þegar svo er komið, þá mun verða snúið sér að því að þrýsta kjörum íslenzkrar alþýðu niður á stig nýlendubúans. Til þess að gera sér grein fyrir því, sem í vændum er, væri fróðlegt fyrir menn að kynna sér kjör fólks í amerískum nýlendum og hálfnýlendum (t. d. í Kóreu, Filippseyjum og Costa Rica). Til þess að geta komið þessu í framkvæmd þarf að brjóta verkalýðshreyfinguna á bak aftur. Yrði þá byrjað á Sósíalistaflokknum í þeirri trú, að án hans mundi verkalýðshreyfingin standa berskjölduð og leiðin opnuð til að svipta verkalýðinn þeim réttindum, sem hann hefur aflað sér í áratuga langri baráttu. Hótanir gegn Sósfl. má lesa í blöðunum á hverjum degi. Það er því mjög áríðandi, að allur almenningur geri sér ljóst, að með þátttöku Íslands í árásarbandalaginu er ekki aðeins framtíðartilveru þjóðarinnar stofnað í hættu, heldur á verkalýðshreyfingin og íslenzk alþýða hendur sínar að verja nú í dag. Það er afkoma hvers alþýðuheimilis nú á næstu árum, sem um er barizt. Frumstæðustu mannréttindi íslenzks lýðræðis eru í bráðri hættu.

Þeir segjast vilja, að Ísland gangi í hernaðarbandalag nýlenduveldanna til þess að verjast rússnesku hernámi. Við vitum, að tilgangurinn er allt annar, en hvað munu þeir uppskera? Ef til styrjaldar kemur, sem hamingjan forði okkur frá, þá munu þeir uppskera ósigur. Og ef þeir segja Sovétríkjunum stríð á hendur, hverju geta þeir þá búizt við nema rússnesku hernámi á sigruðu landi? Ef stríðsæsingamönnum Bandaríkjanna tekst að kasta heiminum út í styrjöld, þá eiga þeir ósigur vísan. Það er hverjum manni ljóst, sem fylgist með því, sem nú er að gerast í heiminum. Á móti sér munu þeir hafa ríki, sem telja 800 milljónir manna á samfelldu landsvæði, alla leið frá Berlín austur að Kyrrahafi og suður á Austur-Indland, búin hinum öflugustu vopnum nútímans og byggð þjóðum, sem allt eiga að verja og allt munu leggja í sölurnar. Á móti sér hafa þeir alþýðu Vestur-Evrópu og íbúa nýlendnanna og annarra undirokaðra þjóða. Þeim tókst ekki að sigra kommúnistana í Kína, þó að þeir hefðu fátt annarra vopna en þau, sem þeir tóku frá Ameríkumönnum sjálfum. Þeim tekst ekki að sigra tuttugu þúsund tötrum klædda gríska skæruliða, sem hafa engin önnur vopn en þau, sem þeir taka frá Ameríkumönnum sjálfum, því að þessi stríð eru háð af Bandaríkjunum, með bandarískum vopnum og bandarískri herstjórn, enda þótt þeir noti Grikki og Kínverja fyrir fallbyssufóður. Og svo þykjast þeir herrar ætla að sigra allan heiminn. Svo þykjast þeir ætla að sigra hið mikla herveldi alþýðunnar frá Berlín til Kyrrahafs. Eins og sakir standa vita þeir sjálfir, að það er fjarstæða. En vonir þeirra verða minni, því fleiri ár sem líða. Þegar Kína verður orðið að þróuðu samvirku iðnaðarlandi, verður það ósigrandi. Og á fáum árum margfaldast framleiðslan í öðrum löndum alþýðunnar. Samtímis mun holskefla kreppunnar ríða yfir Ameríku og Vestur-Evrópu.

Þegar Bandaríkin hafa beðið ósigur í árásarstríði sínu og alþýða Evrópu hefur sigrað að fullu, mun hún ekki þola það, að henni sé ögrað af amerískri herstöð hér á landi. Ameríkumenn munu verða hraktir héðan og íslenzka þjóðin mun gera upp sakirnar við leppa þeirra. Það, sem þeir herrar, ameríkuagentar, þykjast óttast mest, eru þeir sjálfir að kalla yfir sig. En sjálfsagt munu höfuðforsprakkarnir hugsa sem svo: Þá koma tímar, og þá koma ráð. Enn mun verða griðland í Ameríku. Þangað getum við flúið. Hvað varðar okkur þá um, þó að við leiðum hættu tortímingarinnar yfir íslenzku þjóðina.

Það er alveg víst, að erindrekar hins erlenda valds verða dregnir til ábyrgðar síðar meir. En er ekki rétt að gera það strax, áður en þeir leiða ógæfuna yfir þjóðina?

Á hvern hátt getur varnarlaus, vopnlaus þjóð bezt tryggt friðhelgi sína? Víst er um það, að ef hún gengur í hernaðarbandalag nýlenduríkja og segir öðrum stórveldum stríð á hendur fyrir fram, þá glatar hún sjálfstæði sínu. Og ef ófriður verður í heiminum á annað borð, þá á hún vísan ófrið. Í þeim heimi, sem við lifum í, er að vísu engin algild trygging til. En eina vonin, sem hún á, er að kappkosta að halda frið við allar þjóðir, halda fast við hlutleysi sitt og reyna að fá það viðurkennt. Þess vegna hefur Sósfl. oftar en einu sinni borið fram þá tillögu, að Ísland leiti til Bandaríkjanna, Bretlands og Sovétríkjanna með tilmælum um, að þau taki sameiginlega ábyrgð á friðhelgi þess. Og þegar Bandaríkin báðu um herverndarsamninginn 1941, þá var tækifærið. En þjóðstjórnarflokkarnir felldu þá í sameiningu tillögu Sósfl. Það ætti nú að vera hverju barninu ljóst, að þetta var rétt stefna og að aðstaða Íslands væri öll önnur nú, ef þetta hefði verið gert. Jafnvel Ólafur Thors hefur nú helzt við þessa tillögu að athuga, að nú sé tækifærið liðið hjá.

Nú liggur beint við frá íslenzku sjónarmiði að leita til Bandaríkjanna, Bretlands og Sovétríkjanna, hvers um sig, með fyrirspurn um það, hvort þau séu fús til þess að gefa yfirlýsingu um, að þau vilji virða hlutleysi og friðhelgi Íslands í stríði og friði, að því tilskildu, að við veitum engu stórveldi hernaðarleg fríðindi. Við þessu er fyrst og fremst nauðsynlegt að fá svar til þess að geta ákveðið utanríkispólitík okkar, Og ef svarið verður jákvætt, þá er það bezta tryggingin, sem við getum fengið, eina tækifærið, sem við kunnum að eiga til þess að fá að vera í friði. Með því að ganga í hernaðarbandalag glötum við þessu eina tækifæri.

Þessa tillögu mun Sósfl. leggja fram á Alþingi. Hvernig alþingismenn snúast við henni, er prófsteinn á það, hvaða taugar til íslenzku þjóðarinnar eru enn eftir á því þingi.

Ég hef nú rakið nokkrar staðreyndir, sem ekki verður móti mælt. Hverju munu fulltrúar stjórnarflokkanna svara? Ég get mér nærri um það, ef að líkum lætur. Þeir munu demba úr sér kynstrum af dæmum um það, hvað kommúnistar séu vondir menn og svívirðilegir. Enn á ný fáið þið að heyra býsn af marghröktum lygasögum, bæði um íslenzka sósíalista og þjóðir í Austur-Evrópu. Þeir munu meðal annars lesa upp hreinlega falsaðar og upplognar tilvitnanir, ef þeir bregða ekki vana sínum. Þið munuð meðal annars fá enn einu sinni að heyra lygasöguna um, að sósíalistar hafi viljað segja Þjóðverjum og Japönum stríð á hendur, ásamt mörgum fleiri slíkum.

En jafnvel þótt þeir fái einhvern til að trúa þessum lygasögum, hvað gagnar það þeim? Staðreyndirnar halda áfram að vera staðreyndir, hvað vondir sem kommúnistar eru. Svo billega sleppa þeir ekki undan ábyrgðinni. Þeir munu sannarlega ekki sleppa undan ábyrgð sinna eigin verka.

Drögum nú saman helztu staðreyndirnar: Þeir hafa ekki aðeins svikið öll atriði stefnuskrár sinnar, heldur hefur breytni þeirra verið þveröfug við loforð hennar og fyrirheit.

Þeir hafa aukið dýrtíðina í landinu, svo að rétt vísitala er komin á fimmta hundrað stig, og jafnframt skipulagt vöruskort, svo að svartamarkaðsbrask og spákaupmennska þróast og dafnar.

Þeir hafa stöðvað hinar miklu nýsköpunarframkvæmdir, atvinnuvegirnir hafa dregizt saman, veigamiklar greinar atvinnulífsins hafa ýmist verið stöðvaðar eða lamaðar. Atvinnuleysi færist í vöxt.

Þeir hafa eyðilagt þá markaði, sem Íslendingum reið mest á að halda.

Öll þessi pólitík hefur leitt til þess, að undirstöðuatvinnuvegum, eins og vélbátaflotanum, liggur við stöðvun, svo að ekkert má út af bera.

Þeir hafa afsalað fjárhagslegu sjálfstæði landsins í hendur erlends stórveldis, veitt þessu stórveldi aðstöðu til að búa hernaðarlega um sig í landinu, virða íslenzk lög að vettugi og haga sér eins og herraþjóð.

Og að lokum: Meðan landið er fjárlagalaust og stórvirkustu atvinnutækin eru stöðvuð, flýgur hálf ríkisstj. til annarrar heimsálfu til þess að gera samning, sem innlimar Ísland í hernaðarkerfi erlends stórveldis, stofnar landinu í þá hættu að verða styrjaldarvettvangur í geigvænlegustu styrjöld allra tíma, og taka um leið við mútum að upphæð tvær og hálf milljón dollara, sem þó er ekki nema nokkur hluti þeirrar gjaldeyrisupphæðar, sem tapazt hefur með stöðvun togaranna.

Nú telja stjórnarflokkarnir að ekki verði öllu lengur slegið á frest að skera á þann hnút, sem þeir sjálfir hafa riðið. Fyrir höndum eru tvö óvinsæl verk, sem þeir telja einu úrræðin, en munu baka þeim fjandskap fólksins í landinu. Þessi verk eru:

1. Stórkostleg gengislækkun. Sjálfir hafa fulltrúar þeirra nefnt að minnsta kosti 25% lækkun.

2. Samkomulag við Bandaríkin um mjög aukinn vígbúnað á Íslandi.

Það er ekki álitlegt að fremja slík verk með kosningar fram undan. Þess vegna er nú mjög rætt um það í herbúðum stjórnarflokkanna á Alþingi að haga verkum eins og hér segir:

Fyrst ætla þeir sér að samþykkja Atlantshafsbandalagið í sameiningu. Í því máli leyfa Bandaríkin engan frest. Þeir treysta því, að hægt sé að blekkja þjóðina, smeygja hlekkjunum á hana andvaralausa, vegna þess, hve hinn almenni sáttmáli er almennt orðaður. Nánari ákvæði um allar hinar margvíslegu kvaðir og skuldbindingar verða í sérsamningum þeim, sem Bandaríkin gera við hvert einstakt ríki, en það verða bæði opinberir samningar og leynisamningar.

Síðar hugsa þeir sér að ganga til kosninga og reyna að velta ábyrgðinni af óstjórninni hver yfir á annan. Þeir munu ekki spara svardagana frekar en fyrir síðustu kosningar. Að kosningum loknum hafa þeir fengið vinnufrið í fjögur ár. Þá skríða þeir saman aftur, ef þeir fá nægilegt þingfylgi og taka til óspilltra málanna. Þá er tími til kominn að framkvæma hina margumtöluðu gengislækkun og gera um leið ráðstafanir — í skjóli bandarísks hervalds — til þess að hefta starfsemi verkalýðssamtakanna í því skyni að koma í veg fyrir, að þau geti rétt hlut sinn. Og þá er hægt að segja Bandaríkjunum, að nú sé ekkert lengur í veginum fyrir því, að þau geti hafið vígbúnað sinn og stríðsundirbúning á landi voru á grundvelli Atlantshafssáttmálans.

Þetta bragð verður þjóðin að koma í veg fyrir. Með því að leggja fram þessa vantrauststillögu gefum við alþingismönnum tækifæri til að marka afstöðu sína til stjórnarinnar skýrt og skorinont frammi fyrir þjóðinni. Það þýðir ekki að svara því til, að ekki sé mögulegt að mynda aðra stjórn. Það er hægt, ef þingmenn vilja. Sósfl. lýsir því yfir, að hann er reiðubúinn til að taka þátt í stjórn með hverjum þeim þingmeirihluta, sem vill ganga til samstarfs við hann með eftirfarandi skilyrðum:

Að Ísland neiti að ganga í hvers konar hernaðarbandalög, að Keflavíkursamningnum verði sagt upp, þegar við höfum rétt til þess og að horfið verði frá þeirri hrunstefnu í atvinnumálum, sem við búum við, og tekinn aftur upp þráðurinn frá nýsköpunarárunum, samtímis því, sem hinn þjóðhagslegi grundvöllur er tryggður, m. a. með gagngerðum aðgerðum í verzlunarmálunum til þess að vinna bug á dýrtíðinni.

Nú leggjum við spurningar fyrir stjórnarflokkana og þingmenn þeirra, sem þeir skulu ekki komast hjá að svara:

1. Takið þið ábyrgð á pólitík núverandi ríkisstjórnar? — Við óskum eftir skýru svari frá flokkunum frammi fyrir þjóðinni hér í kvöld. Og við atkvæðagreiðsluna kemst enginn hjá að svara. Það svar verður munað.

2. Ætlið þið að greiða atkvæði með þátttöku Íslands í Atlantshafsbandalaginu? — Það svar verður munað ár og aldir.

3. Ef svo reynist, að þingmeirihluti sé fyrir hernaðarbandalaginu, ætlið þið þá að greiða atkvæði með því, að þjóðin fái úrslitavald í málinu með þjóðaratkvæðagreiðslu?

Ef þjóðinni verður neitað um að taka sjálf ákvörðun í máli, sem skiptir kannske meiri sköpum en nokkuð annað í sögu hennar fyrr og síðar, þá skuluð þið vita, herrar mínir, að þjóðin mun líta á samninga þá, sem þið gerið að henni fornspurðri, sem markleysu, sem þið einir skuluð fá að bera ábyrgð á.

Þið skuluð ekki komast hjá að gefa skýr og ótvíræð svör við þessum spurningum. Takið vel eftir. Það mun verða við brugðið í samræmi við það, hvernig svörin falla.

Mikil örlagastund í sögu þjóðarinnar er nú að renna upp. Niðjar vorir ætlast til, að vér bregðumst ekki á þessari stundu. Það verður að sameina alla krafta þjóðarinnar til þess að koma í veg fyrir þau skuggalegu verk, sem sviksamir valdhafar hafa fyrirhugað. Framtíð þjóðarinnar er í veði.