28.03.1949
Sameinað þing: 57. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 298 í D-deild Alþingistíðinda. (4596)

169. mál, vantraust á ríkisstjórnina

Menntmrh. (Eysteinn Jónsson):

Herra forseti. Það er ekki ýkja langt síðan utanríkismál fóru að verða ofarlega á baugi meðal Íslendinga. En nú er öldin önnur. Til þess liggja ýmsar ástæður, sem of langt yrði hér að rekja, en höfuðástæðurnar eru þær, að einangrun Íslands hefur verið rofin með bættum samgöngum, þjóðirnar aukið mjög samstarf sitt eftir styrjöldina og Íslendingar með réttu talið það sína skyldu sem sjálfstæðrar, fullvalda þjóðar að taka þátt í því starfi.

Fram að síðustu styrjöld voru öryggismál Íslands ekki talin neitt vandamál. Menn reiknuðu með því, eða að minnsta kosti vonuðust eftir því, að fjarlægð landsins frá öðrum löndum yrði til þess enn, svo sem verið hafði um aldir, að Ísland gæti orðið ósnortið og sloppið við átroðning styrjaldarþjóðanna. En þessu var ekki til að dreifa. Þótt Íslendingar vildu ekki hafa og hefðu ekki nein afskipti af styrjöldinni, þá fór svo, að Ísland var hernumið rétt eftir eða nær því um leið og styrjöldin breiddist út til Norðurlanda, og ári síðar var gerður samningur við

Bandaríkin um að taka að sér vernd landsins á meðan á styrjöldinni stæði.

Síðan menn öðluðust þessa reynslu, hafa öryggismálin verið eitt þýðingarmesta umhugsunarefni manna á Íslandi og þá ekki síður vegna þess, að enn minnka fjarlægðir landa og þjóða milli vegna aukinnar samgöngutækni. Tvennt ætti flestum að vera ljóst orðið. Í fyrsta lagi, að engar skynsamlegar líkur eru til þess, að Ísland geti orðið ósnert, ef til höfuðstyrjaldarátaka kemur á ný í heiminum. Í öðru lagi, að vegna legu landsins, menningartengsla, skyldleika í stjórnarfari og hugsunarhætti er rétta leiðin og eina færa leiðin fyrir Íslendinga sú að hafa samvinnu við nálæg lýðræðisríki um þessi málefni. Þetta vilja auðvitað ekki þeir viðurkenna, sem það hafa helzt að áhugamáli, að íslenzka þjóðin geti orðið þeirrar sælu aðnjótandi, sem orðið hefur hlutskipti Pólverja og Tékka, svo að dæmi séu nefnd. En eigum við að taka nokkurt tillit til þeirra? Hitt er svo annað mál, að þótt menn viðurkenni þessa meginreglu, þá er eftir að gera sér grein fyrir, í hverju samvinna Íslendinga við aðrar þjóðir um þessi mál á og má vera fólgin.

Framsfl. hefur hvað eftir annað tekið þessi málefni fyrir til meðferðar og ályktunar. Á aðalfundi miðstjórnarinnar 1946, sem haldinn var fyrir kosningarnar, var gerð ályktun, byggð á þessari meginstefnu, sem nú var lýst. Aðalefni hennar var, að rétt væri fyrir Íslendinga að hafa sérstakt samstarf við Norðurlandaþjóðirnar og þjóðir Engilsaxa um öryggismál landsins, en á þann hátt, að ekki dveldi erlendur her í landinu. Hér kom strax fram sú stefna, sem Framsfl. hefur staðið á og mun standa á, að samvinna um öryggismálin við aðrar þjóðir verði að byggjast á því, að ekki sé erlendur her í landinu á friðartímum né erlendar herstöðvar, Íslendingar geti ekki og megi ekki leyfa slíkt, ef það sé gert, þá verði ekki mögulegt að finna nein eðlileg takmörk til þess að standa á.

Um tíma gerðu menn sér vonir um, að samtök Sameinuðu þjóðanna mundu létta af áhyggjum á þessu efni, samvinna þjóðanna mundi batna eftir styrjöldina og ákvæði sáttmála sameinuðu Þjóðanna um öryggi gegn árásum mundu reynast það þýðingarmikil, að frekari ráðstafana yrði ekki þörf. En þetta hefur mjög farið á aðra lund, sem kunnugt er. Heiftúðugar deilur milli þjóða hafa staðið sífellt undanfarin ár, og samstarf Sameinuðu þjóðanna í öryggismálum ekkert orðið.

Svo hörmulegt er ástandið orðið í þessum málum, að lýðræðisþjóðirnar í Evrópu, sem ekkert þrá heitar en að mega lifa í friði eftir þær hörmungar, sem þær hafa þolað, hafa neyðzt til þess að gera samtök sín á milli til verndar gegn ofbeldi. Fyrst var stofnað varnarbandalag Vestur-Evrópu af Benelux-löndunum, Bretum og Frökkum, og síðan hafa þessi lönd undanfarna mánuði leitað samstarfs við Bandaríkin um að gera allvíðtækt varnarbandalag, sem gæti veitt það öryggi, sem Sameinuðu þjóðunum var ætlað að veita, varnarbandalag, sem byggt væri algerlega innan þess ramma, sem lagður var með stofnun Sameinuðu þjóðanna, og í samræmi við stofnlög þeirra og ætlað að starfa eingöngu á meðan ekki væri hægt að framkvæma öryggisákvæði Sameinuðu þjóðanna.

Það var fljótlega ljóst, eftir að farið var að vinna að stofnun þessa nýja varnarbandalags, að Íslendingar urðu að gera það upp við sig, hvort þeir ætluðu að verða þátttakendur eða ekki, þeim mundi vegna legu landsins og allrar aðstöðu verða boðið að taka þátt í samtökum þessum. Hafa orðið miklar umræður um þau mál hér á landi nú um nokkurra mánaða skeið.

Framsóknarmenn minntu fljótlega á þá stefnu, sem þeir höfðu markað í þessum málum 1946 og áður er rakin, og undirstrikuðu, að þeir teldu, að hafa bæri samvinnu um öryggismálin við nálæg lýðræðisríki, en það yrði að byggja á því, að ekki væri leyft að hafa í landinu erlendan her eða erlendar herstöðvar á friðartímum, og væri áríðandi að marka þá stefnu glöggt og hvika ekki í því efni.

Aðalfundur miðstjórnar Framsfl. kom saman í febr. s. l., og var þar þessi stefna mótuð nokkru nánar, með sérstöku tilliti til þess, að fyrir dyrum stóð að ákveða, hvort Ísland ætti að gerast þátttakandi í varnarbandalagi Atlantshafsríkjanna. Ályktunin er á þessa leið:

„Framsfl. telur, að Íslendingum beri að kappkosta góða samvinnu við allar þjóðir, er þeir eiga skipti við, og þó einkum norrænar þjóðir og engilsaxneskar vegna nábýlis, menningartengsla og líkra stjórnarhátta.

Flokkurinn telur, að Íslendingum beri að sýna fullan samhug sérhverjum samtökum þjóða, er stuðla að verndun friðar og eflingu lýðræðis, en vinna gegn yfirgangi og ofbeldi.

Hins vegar ályktar flokkurinn að lýsa yfir því, að hann telur Íslendinga af augljósum ástæðum eigi geta bundizt í slík samtök, nema tryggt sé, að þeir þurfi ekki að hafa hér her né leyfa neins konar hernaðarlegar bækistöðvar erlendra þjóða í landi sínu né landhelgi, nema ráðizt hafi verið á landið eða árás á það yfirvofandi.

Á þessum grundvelli og að þessu tilskildu telur flokkurinn eðlilegt, að Íslendingar hafi samvinnu við önnur lýðræðisríki um sameiginleg öryggismál.“

Höfuðatriði þessarar ályktunar eru þau, að Íslendingum beri að hafa samvinnu við önnur lýðræðisríki um sameiginleg öryggismál, en jafnframt undirstrikað, að Íslendingar geti ekki bundizt í samtök um þessi efni, nema tryggt sé, að þeir þurfi ekki að hafa hér her né neins konar hernaðarbækistöðvar erlendra þjóða, nema ráðizt hafi verið á landið eða árás á það yfirvofandi.

Framsóknarmenn hafa reynt að nota tímann frá því, að umræður hófust um varnarbandalagið, og þangað til nú, að svara ber boði annarra þjóða um þátttöku í því, til þess að rótfesta þá skoðun, að ekki kæmi til mála, að Íslendingar hefðu her eða gætu leyft, að erlendur her eða herstöðvar væru í landinu á friðartímum, en jafnframt bæri að hafa samvinnu við nágrannana um öryggismálin og hlyti ákvörðun um þátttöku í bandalaginu að fara eftir því, hvort þátttaka samrýmdist þessari stefnu.

Nú er að því komið, að Íslendingar verði að svara því boði, sem borizt hefur. Þarf þá að svara þeirri spurningu, hvort bandalagið sé þannig upp byggt og því það hlutverk ætlað, að eðlilegt sé fyrir Íslendinga að vera þátttakendur.

Ég minntist á það áðan, að tæpast gæti nokkrum manni dottið í hug, að Ísland fengi að vera ósnert, ef til stórstyrjaldar drægi á ný. Enginn okkar getur að vísu séð fyrir, hvað þá muni gerast, en fyrir fram er ekki hægt að gera ráð fyrir öðru en því, að hildarleikurinn mundi berast að einhverju leyti til Íslands, og veit þá enginn, hvílík ógnaröld af því gæti stafað. Það er því alveg áreiðanlegt, að vonir Íslendinga um að fá að lifa óáreittir í friði við sitt eru bundnar við það fyrst og fremst, að ekki komi til styrjaldar.

Eins og nú er ástatt í heiminum, er ekki annað sjáanlegt en að friðarvonirnar séu fyrst og fremst tengdar við samstarf lýðræðisþjóðanna gegn árásum — fyrst og fremst tengdar við það, að lýðræðisþjóðirnar þoki sér saman og myndi með sér svo sterk samtök, að árásarveldi, sem rekur útþenslu- og yfirdrottnunarpólitík, treysti sér ekki til þess að ráðast á þau; að árásarríki sé gert fullljóst fyrir fram, að það er ekki hægt að taka eitt og eitt ríki fyrir í einu og innlima þau, eins og þýzku nazistarnir gerðu fyrir síðustu styrjöld. Vonin um frið byggizt ekki sízt á því, að hin nýju varnarsamtök geti komið vitinu fyrir þá, sem hafa gert samstarf Sameinuðu þjóðanna óframkvæmanlegt, og orðið til þess, að þeir breyti um stefnu. Aðeins bandóðum útsendurum hins alþjóðlega kommúnisma dettur í hug að bera sér í munn, að varnarbandalagið sé stofnað með árás í huga. Hvaða heilvita maður leggur trúnað á það, að Norðmenn, Danir, Hollendingar, Luxemborgarmenn, Belgir og Frakkar stefni að árásarstyrjöld í Evrópu — svo að maður nú ekki nefni Breta og Bandaríkjamenn?

Sannleikurinn er sá, að vonir okkar Íslendinga um, að við fáum að lifa í friði í fyrirsjáanlegri framtíð, eru bundnar við það, að þetta varnarbandalag komist á fót og það nái þeim tilgangi sínum að koma í veg fyrir stríð og bæta sambúð allra þjóða með því að koma viti fyrir þá, sem ekki hafa enn skilið það, að lýðræðisríkin eru ráðin í því að láta ekki kúga sig.

Ef til vill eiga engir meira undir því en Íslendingar, að þetta takist. Þeim ber því allra sízt að sýna þessum samtökum tómlæti, andúð eða óeðlilega tortryggni, þótt hitt sé höfuðatriði, að setja glögg takmörk fyrir því, sem Íslendingar geta lagt til slíkrar samvinnu. Það er augljóst, að hér er tækifæri fyrir Íslendinga til þess að eiga samvinnu við aðrar lýðræðisþjóðir um sameiginleg öryggismál. Spurningin er þá, hvort nokkurs þess sé krafizt af Íslendingum í sáttmála bandalagsins, sem þeir ekki geti undir gengizt, þannig að þeir verði að hafa ástæðu til að hafna þessu tilboði um samvinnu í bandalaginu.

Íslendingar hafa algerlega sérstöðu meðal þjóðanna að því leyti til, að þeir hafa engan her og ætla sér ekki að stofna her og ekki að taka þátt í hernaði. Auk þess eiga þeir það sammerkt með ýmsum öðrum þjóðum, að þeir vilja ekki leyfa setu erlends hers í landi sinu á friðartímum og ekki erlendar herstöðvar.

Nú liggur þessi samningur fyrir, og ber hann það greinilega með sér, að hann skuldbindur ekki Íslendinga til þess að gera neitt af því, sem þeir ekki vilja gera og hafa glöggan fyrirvara um. Samningurinn er blátt áfram byggður á því, að hver þjóð um sig leggur það fram til sameiginlegra öryggismála, sem hún sjálf telur sér fært. Samningurinn er byggður á frjálsu samstarfi, án þess að nokkur verði úrskurðaður til þess að gera nokkuð það, sem hann ekki telur sér fært. Samningurinn ber þetta sjálfur með sér, og þarf því í rauninni ekki frekari vitna við. En auk þessa hafa farið fram ýtarlegar viðræður við Bandaríkjastjórn um efni samningsins af hendi Íslands. En Bandaríkjastjórn átti slíkar viðræður við ýmsar þjóðir í umboði hinna ríkjanna, sem beita sér fyrir stofnun bandalagsins. Í þeim viðræðum var þessi sérstaða Íslands ýtarlega skýrð og greinilega fram tekið, hvað Ísland aldrei mundi gera.

Í þessum viðræðum kom greinilega fram af hendi Bandaríkjastjórnar m. a. þetta:

1. Að ef til ófriðar kæmi, mundu bandalagsþjóðirnar óska svipaðrar aðstöðu á Íslandi og var í síðasta stríði og það mundi algerlega vera á valdi Íslands sjálfs hvenær sú aðstaða yrði látin í té.

2. Að viðurkennt væri, að Ísland hefði engan her og ætlaði ekki að stofna her.

3. Að ekki kæmi til mála, að erlendur her eða herseta yrði á Íslandi á friðartímum.

4. Að allir bandalagsaðilar hefðu fullan skilning á sérstöðu Íslands.

Bandalagið er byggt á þeirri hugsun, að ríkin vilji hafa samvinnu um sameiginleg öryggismál, án þess að nokkur sé þvingaður, og þau aðhafist það eitt, sem hvert þeirra um sig telur sér fært að eigin dómi.

Margir hinna reyndustu manna telja, að hefði slíkt bandalag verið stofnað gegn yfirgangi nazista fyrir síðustu heimsstyrjöld, hefði aldrei til hennar komið.

Aukið öryggi gegn árásum fyrir þá, sem taka þátt í bandalaginu, er vitanlega fyrst og fremst fólgið í þeirri vitneskju, að bandalagsþjóðirnar líta á árásir á hvert ríki um sig sem árásir á sig, sem upphaf að stórfelldum átökum. Enn fremur er styrkur fólginn í sameiginlegum ráðagerðum um það, hvað til bragðs skuli taka, ef árásir eru gerðar, og um það, hvernig hægt sé að snúast til varnar, ef til slíks kemur.

Það er nú augljóst orðið, að ekki aðeins Beneluxlöndin, Bretar og Bandaríkjamenn verða stofnendur að þessu bandalagi, heldur einnig Noregur og Danmörk. Meðal stofnenda í þessu varnarbandalagi verða því öll þau ríki, sem eðlilegast er fyrir Ísland að hafa nánast samstarf við, bæði um þessi málefni og önnur. Ísland liggur mitt á meðal þessara ríkja og lega landsins er þannig, að það hefur þýðingu, ekki aðeins fyrir Ísland sjálft, heldur einnig fyrir nágrannana, hvaða afstöðu það tekur í málum eins og því, sem nú er til meðferðar. Ef Íslendingar vildu ekki taka þátt í þessu samstarfi, er hætt við, að lýðræðisþjóðunum, sem næst okkur liggja, gengi ekki sem bezt að skilja þá afstöðu, þar sem Íslendingar gætu þá ekki haldið því fram með rökum, að með þátttöku í bandalaginu væru þeim lagðar skyldur á herðar, sem þeir ekki gætu uppfyllt.

Legu Íslands á hnettinum verður ekki breytt. Það er því hinn mesti misskilningur að ímynda sér, að Íslendingar geti í raun og veru einangrað sig, þó að þeir færu ekki í varnarbandalagið, og gætu komizt hjá því að tala við önnur lönd um sameiginleg öryggismál.

Ýmsir segja, að hættan á því, að farið verði fram á það við Ísland, að það geri ráðstafanir í öryggismálum, sem séu hættulegar fyrir þjóðerni og sjálfstæði landsins, vaxi, ef það tekur upp nánara samstarf um þessi mál við nágrannaþjóðirnar en verið hefur og fer í bandalagið. En ég er alveg sannfærður um, að þetta er byggt á algerðum misskilningi. Öll skynsamleg rök mæla með því gagnstæða. Áhugi hinna þjóðanna fyrir því, hvað Ísland gerir, verður ekki minni, ef það gerir tilraun til þess að einangra sig, heldur hlýtur hann að verða meiri og aðstaða Íslendinga erfiðari til þess að koma inn réttum skilningi einmitt þessara þjóða á því, hvað Ísland getur og vill gera í þessum málum.

Sú hætta, að aðstaða Íslands í þeim sé misskilin, minnkar en vex ekki, ef farið er í bandalagið og rétt haldið á málum, ekki sízt þegar jafngreinilega hefur verið tekið fram af Íslands hendi og gert hefur verið, hvað það er, sem Ísland ekki getur gert og ekki vill gera, og það einmitt áður en og um leið og það byrjar að starfa með hinum þjóðunum að þessum málum. En slíkt er nauðsynlegt að gera og var nauðsynlegt að gera fyrir fram, þótt ekki sé um skuldbindingar að ræða.

Það er höfuðatriðið að vera hreinskilinn í byrjun og láta greinilega vita, til hvers ekki er hægt að ætlast. Sá fyrirvari er þá einnig nægilegur af Íslands hendi að láta greinilega vita, hvað það ekki getur gert. Fyrirvari í sáttmálanum hefði hins vegar verið nauðsynlegur, ef sáttmálinn hefði verið þannig, að hægt væri samkvæmt honum að skylda Ísland til þess að gera nokkuð það, sem Íslendingar sjálfir ekki telja eðlilegt.

Ef Íslendingar draga sig nú inn í skelina og vilja ekki hafa samstarf við nágrannaþjóðir sínar á þeim grundvelli, sem fyrir liggur, hlyti það að valda tortryggni um hina raunverulegu afstöðu þjóðarinnar og auknum erfiðleikum einmitt í sambandi við meðferð hinna vandasömu öryggismála. Auk þess væri ekki hægt að skilja þá afstöðu öðruvísi en svo, þegar ekki eru til fyrirstöðu óeðlilegar skuldbindingar, sem hægt er að benda á, en að Íslendingar væru beinlínis hikandi í því, hvort þeir ætla að hafa nokkra sérstaka samvinnu við lýðræðisþjóðirnar, nágranna sína. Slík afstaða væri blátt áfram að gefa undir fótinn þeim, sem sízt skyldi, og hlyti að vekja þá hugsun, að hér væri þjóð á mikilsverðum stað, sem ekki væri ástæðulaust að veita aukna athygli og ekki væri vonlaust að eyða á auknu púðri með árangri, bæði með auknum áróðri, auknum rekstrarkostnaði til fimmtu herdeildar og öðrum slíkum aðferðum, sem alþekktar eru.

Ef Íslendingar hikuðu við að taka upp samvinnu á frjálsum grundvelli við nágranna sína, Þá mundi það einnig óspart verða notað af andstæðingum lýðræðisríkjanna og þeim fengin vopn í hönd. Auðvitað vildu hinir friðsömu Íslendingar ekki vera með, yrði sagt, og sannaði það bezt, að hér væri um árásar- en ekki varnarbandalag að ræða. Enn fremur sýndi það, að bandalagið væri byggt á yfirgangi í garð smáþjóðanna, þannig að hinir smæstu treystu sér ekki til þess að vera með o. s. frv., o. s. frv.

Öllu þessu hefði verið hægt að víkja til hliðar og hefði verið sjálfsagt að víkja til hliðar, ef einhverra þeirra skuldbindinga væri krafizt í sáttmálanum, sem Íslendingar gætu ekki undir gengizt, hefði t. d. verið farið fram á hersetu á friðartímum eða erlendar herstöðvar. Þá hefðu lýðræðisþjóðirnar orðið að skilja, að Ísland gat ekki verið með, þótt það vildi samvinnu við þær. Engu slíku er til að dreifa.

Eins og sáttmálinn er, þá er sjálfsagt fyrir Íslendinga að taka hiklaust afstöðu og taka boðinu um að gerast stofnaðili að bandalaginu. Ég get ekki séð, hvernig hægt væri að segjast vilja samstarf um sameiginleg öryggismál við önnur lýðræðisríki og þá alveg sérstaklega við Norðurlönd og engilsaxnesku ríkin, eins og meginþorri Íslendinga vill aðhyllast og hefur yfir lýst, og skorast síðan undan því að taka þátt í varnarbandalagi eins og því, sem hér á að stofna.

Í þessu sambandi vil ég minnast á þjóðaratkvæðagreiðslu. Upphaflega mun ýmsum hafa dottið í hug, að eðlilegast mundi vera að hafa þjóðaratkvæðagreiðslu um málið, en það var tvímælalaust miðað við það, að þeir hinir sömu gerðu þá ráð fyrir, að bandalagssáttmálinn hlyti að verða öðruvísi og meira skuldbindandi en hann er nú. Nú er þessu öðruvísi varið vegna þess, hvernig sáttmálinn er. Þess vegna mun það nú vera svo, að fáir aðrir en hreinir andstæðingar þess, að gengið sé í bandalagið, munu telja þjóðaratkvæðagreiðslu nauðsynlega eða eðlilega. Ekki hafa Danir eða Norðmenn þjóðaratkvæðagreiðslu um þessi mál, og eru þeir þó með fremstu lýðræðisþjóðum heimsins, og því síður Bretar. Mun óþekkt fyrirbrigði, að í þessum löndum hafi nokkru sinni verið þjóðaratkvæðagreiðsla um utanríkismál af þessu tagi. Þátttaka í varnarbandalaginu, eins og það liggur fyrir, þýðir í raun og veru aðeins það, að menn vilji samvinnu um sameiginleg öryggismál við bandalagsþjóðirnar án sérstakra skuldbindinga, og það er svo margrætt mál á Íslandi, bæði fyrr og síðar, að það er engin ástæða til þess að fara að stofna til þjóðaratkvæðagreiðslu um hávetur út af því.

Þá vil ég fara örfáum orðum um Keflavíkursamninginn í sambandi við þetta mál, þó að hann sé mál út af fyrir sig. Það er augljóst, að þátttaka í varnarbandalaginu skuldbindur Ísland alls ekki til þess að láta þann samning gilda lengur en hann sjálfur ákveður, og hafa Íslendingar frjálsar hendur í því máli, þegar endurskoðunarákvæði samningsins geta komið til framkvæmda. Því fer og fjarri, að nokkrar líkur séu til þess, að erfiðara reynist að fá nýjan og hagkvæmari samning um Keflavíkurflugvöllinn, ef þátttaka er ráðin í bandalaginu.

Það er stefna Framsfl. í flugvallarmálinu, eins og kunnugt er, að ekki beri að hafa sams konar fyrirkomulag á rekstri Keflavíkurflugvallar áfram eins og nú er, heldur beri að semja um rekstur vallarins þannig, að Íslendingar reki hann og stjórni honum, en með fjárhagslegri aðstoð þeirra ríkja, sem mikinn hag hafa af því, að völlurinn sé fullkominn og vel rekinn. Að þessu mun Framsfl. vinna, og ég teldi það vera mikinn ávinning fyrir málið, ef aðrir lýðræðisflokkar þingsins hefðu tekið sams konar afstöðu, enda var áherzla lögð á það af öllum, þegar Keflavíkursamningurinn var gerður, að menn vildu, að Íslendingar gætu tekið að sér rekstur hans.

Undanfarna mánuði hefur verið mikið rætt og ritað um Atlantshafsbandalagið. Ýmsir Íslendingar eru tortryggnir í sambandi við allt, sem að þeim málum lýtur, og óttast óeðlilegan þrýsting og að Ísland gangi of langt í þeim. Þetta hefur nokkuð komið fram í umræðunum undanfarið. Þær umræður hafa verið meingallaðar, og tekur þó út yfir síðustu dagana. Í heild hafa þó umræðurnar fest þann ásetning með þjóðinni að leyfa alls ekki her né erlendar herstöðvar á friðartímum. Ætti það að vera öllum ljóst af því, sem fyrir liggur, að slíkar kvaðir fylgja ekki þátttöku í varnarbandalaginu. Þess ætti þá og að mega vænta, að þeir, sem jafnan hafa gert þetta að höfuðatriði í sambandi við málið, taki nú fullt tillit til þess, sem nú liggur ljóst fyrir öllum, og hagi afstöðu sinni í samræmi við það.

Kommúnistar hamast eins og bandóðir menn gegn öllu samstarfi við lýðræðisríkin um þessi mál og æpa sig hása um landráð og landsölu. Þetta er ekki fyrir það, að þeir séu þeirrar skoðunar, að Ísland eigi að vera hlutlaust og hér eigi ekki að vera her og herstöðvar, heldur er það vegna þess, að þeim er sagt, eins og kommúnistum alls staðar annars staðar á jarðkringlunni, að nota öll meðöl til þess að vinna gegn því, að löndin hafi samvinnu við lýðræðisþjóðirnar, og að þeim beri að vinna að því, að þjóðirnar geti legið sem flatastar fyrir forráðamönnum alþjóðakommúnismans, ef þeir skyldu hefjast handa um frekari aðgerðir til þess að útbreiða kommúnismann. Þessir menn vilja hafa hér her, ef hann væri frá Rússlandi eða leppríkjum Rússlands, og þeir mundu vilja hafa hér herstöðvar sömu þjóðar. Þeir mundu hjálpa erlendu árásarliði, ef það kæmi hingað úr réttri átt, þótt hagkvæmara þyki hér að láta Brynjólf Bjarnason segja annað í bili. Þetta eru menn þeirra Thorez og Togliattis, sem hafa lýst yfir því, að þeir mundu hjálpa rússneskum herjum, ef þeir réðust inn í þeirra lönd.

Kommúnistar eru ósparir á landbráðabrigzlin, og stafar það sjálfsagt af því, hvernig samband þeir hafa við menn í öðrum löndum og halda aðra eins og sig. Landráðabrigzlin eru ekki ný bóla lengur, og það ættu kommúnistar að vita, að allir heiðarlegir menn eru löngu hættir að taka mark á þessum gífuryrðum þeirra og telja þau einvörðungu gefa til kynna, hvernig þeim er sjálfum innan rifja.

Það tekur sig ekki illa út, eða hitt þó heldur, að heyra tal kommúnista um hlutleysi og áróður þeirra á þeim grundvelli gegn því, að Ísland taki þátt í varnarbandalagi lýðræðisþjóðanna.

Rétt fyrir stríðið krafðist Einar Olgeirsson þess, að Ísland gerði bandalag við engilsaxnesku þjóðirnar og Rússa gegn Þýzkalandi. Þegar þýzkt herskip kom hér í heimsókn fyrir stríðið, heimtaði hann af stjórninni, að hún gerði ráðstafanir til þess, að hingað kæmu brezk og bandarísk herskip til þess að vernda landið. Rétt á eftir kom svo annað hljóð í strokkinn. Þá sömdu Þjóðverjar við Rússa. Þá var hlutleysisstefnan tekin upp í bili, á meðan nazistarnir flæddu yfir Vestur-Evrópu og ógnuðu Bretlandi — og þá um leið auðvitað Íslandi, af því að Rússar voru þá hlutlausir. Þessi stefna lýsti sér í því, að þá heimtuðu kommúnistar, að verzlunarsamningur væri gerður í stríðsbyrjun við þýzku nazistana. Þá hét stríðið barátta milli tveggja rándýra um bráð. Þá var það glæpsamleg hagnýting vinnuaflsins að vinna að mannvirkjum fyrir brezka herinn á Íslandi. Þá var þess krafizt, að togurunum væri bannað að sigla til Englands, og þá voru það landráð að gera herverndarsamning við Bandaríkin. En þessari stefnu var ekki haldið lengi. Þegar Þjóðverjar réðust á Rússa, þá breyttist allt. Þá varð stríðið að heilagri krossferð gegn nazistum. Þá máttu ekki aðeins íslenzku togararnir sigla til Englands, heldur var það talið hið merkasta framlag í stríðinu að færa Englendingum fisk. Og þegar talað var um, að ekki mættu allt of margir Íslendingar fara í setuliðsvinnu vegna annarra aðkallandi verka, þá sagði Þjóðviljinn, að þeir, sem ömuðust við landvarnarvinnunni á Íslandi, ynnu í þágu Quislings og Hitlers. Þegar nazistar voru síðan komnir á kné í styrjöldinni, þá smjöðruðu kommúnistar og skriðu fyrir bandamönnum og sögðu, að fórnir Íslendinga í baráttunni fyrir frelsi og lýðræði væru þungar á vogarskálum réttlætisins. Þá var ekki lengur á það minnzt, að það hefðu verið landráð að færa Englendingum fisk, þegar þeir stóðu einir á máti nazistum, eða landráð að gera herverndarsamning við Bandaríkin. Þá varð það hlutskipti þessara verkfæra í mannsmynd að hefja það til skýjanna, sem þeir höfðu kallað landráð, og þá um leið að hefja til skýjanna verk þeirra manna, sem þeir höfðu kallað landráðamenn á stríðsárunum, — en þessir menn höfðu þá bjargað þjóðinni með því að hafa að engu tillögur kommúnista, brigzl og dólgslegar hótanir.

En það er ekki allt búið með þessu. Ofan á þetta lögðu svo kommúnistar til, að Íslendingar færu í stríðið, og um það segir Þjóðviljinn: „Þeir (þ. e. sósíalistar) vilja láta viðurkenna, að þjóðin sé raunverulega í stríðinu og hafi háð það og vilji heyja það með hverjum þeim tækjum, sem hún ræður yfir“. Þá var ekki verið að tala um hlutleysi. En ástæðan var auðvitað augljós og alltaf sú sama, að Rússar höfðu fengið því framgengt, að til þess að verða stofnendur Sameinuðu þjóðanna urðu menn að segja Þjóðverjum stríð á hendur. Það kemur síðan til viðbótar, að þessir postular hlutleysisins hafa mælt bót og dáðst að innlimun Póllands, árásum á Finnland og ofbeldinu í Tékkóslóvakíu. Það er tæpast hægt að hugsa sér ömurlegra fyrirbæri en það, að fylgismenn Thorez og Togliattes skuli þykjast vera að berjast fyrir hlutleysisstefnu og íslenzkum málstað. Hvernig er svo afstaða kommúnista í þeim ríkjum, sem liggja upp að Rússlandi? Hvernig er hlutleysisstefnan, sem þeir reka í Póllandi, Tékkóslóvakíu og öðrum nágrannaríkjum Rússlands? Hlutverk þessara manna er að vinna fyrir málstað Rússa í þeim ríkjum, þar sem Rússar hafa ekki alveg tögl og hagldir, með því að koma í veg fyrir samstarf þessara þjóða við aðrar lýðræðisþjóðir og eyðileggja endurreisnarstarfið í þessum löndum. En í leppríkjunum, þar sem Rússar stjórna í gegnum kommúnista, þar er gríman tekin ofan og ekki verið að hafa fyrir því að tala um hlutleysi — allt innlimað þegjandi og hljóðalaust.

Það er ekki hægt að hugsa sér ljótari sögu en þá, sem íslenzkir kommúnistar eiga í utanríkismálum. Hún sannar, að þeir hugsa ekkert um það, hvað Íslandi er fyrir beztu, heldur um það eitt, hvað er í samræmi við vilja kommúnistaflokks Rússlands og valdamanna í alþjóðasamtökum kommúnista. Framkoma þeirra á stríðsárunum sannar þetta, og framkoma þeirra nú sannar þetta einnig, þannig að ekki verður um villzt. Og það er ekki hægt að komast lengra í óskammfeilni en þessir menn gera með því að koma nú enn og ætlast til þess, að þjóðin hafi það að einhverju, sem þeir segja um þessi mál. Hvernig væri komið fyrir íslenzku þjóðinni nú, ef hún hefði hlýtt þeirra forustu, fjandskapazt við Breta og bandamenn á stríðsárunum og gert sig að viðundri með því að fara í stríðið, einangra sig í Vestur-Evrópu eftir stríðið með fjandsamlega afstöðu gegn öllu því, sem lýðræðisþjóðirnar hafa lagt til? Sannleikurinn er líka sá, að með fáránlegri afstöðu sinni í þessu máli hefur kommúnistum tekizt að opna augu margra fyrir því, hvers eðlis flokkur þeirra er, sem betur fer, og mun hann þess gjalda.

Bandalagsmálið liggur nú ljóst fyrir hverjum manni, og er rétt að afgreiða það hreint og hiklaust. Það var orðið vel og vandlega rætt og athugað, þegar það bar formlega að, og því auðveldara að taka afstöðu til þess en ella. Það er þannig vaxið, að um það geta vonandi allir sameinazt, sem vilja sérstakt samstarf við lýðræðisþjóðirnar um öryggismál landsins.

Hinar fólskulegu ofbeldishótanir Brynjólfs Bjarnasonar og fyrirheit hans um tortímingu þeirra, sem meira meta málstað Íslands en þjónustu við húsbændur Brynjólfs Bjarnasonar, munu hér engu ráða.