28.03.1949
Sameinað þing: 57. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 307 í D-deild Alþingistíðinda. (4597)

169. mál, vantraust á ríkisstjórnina

Atvmrh. (Bjarni Ásgeirsson):

Herra forseti. Þegar ég sá vantrauststillögu þá, sem Sósíalistaflokkur hinnar íslenzku kommúnistadeildar lét útbýta hér í þinginu fyrir nokkrum dögum, datt mér í hug upphaf á gömlu erindi, sem ég lærði einu sinni og hljóðar svo, að mig minnir: „Einar karlinn hinn aumi — út er genginn að slá“. Enda hafði hávaðinn í hinni kommúnistísku smiðju, blásturs- og brýnsluhljóðið, verið með meira móti undanfarna daga, og benti til þess, að þeir teldu hinn mikla annatíma uppskerunnar nálgast, þegar sigðin yrði borin út á hinn bylgjandi akur. Og gleðihlakk sáðmannanna yfir ríkulegum ávexti iðju sinnar heyrðist greinilega í gegnum allan hávaðann. Og það var sannarlega ekki svo undarlegt. Þá var ástandið í landinu þannig, að hvert vandamálið hafði fléttazt inn í annað og virtust hvert um sig og öll í senn ærið torveld úrlausnar.

Í utanríkismálunum var þannig ástatt, að Alþingi og ríkisstj. varð að fara að taka ákvarðanir í viðkvæmasta vandamáli, sem að höndum íslenzka lýðveldisins hefur borið — afstöðu þess til Atlantshafsbandalagsins, — sem nú um sinn hefur verið mál málanna að rægja og afflytja fyrir kommúnista um allan heim.

Í innanlandsmálum var ástandið þannig, svo að tvennt eitt sé nefnt: Dýrustu og stórvirkustu framleiðslutæki þjóðarinnar, togararnir, höfðu legið bundnir við landfestar viku eftir viku sökum deilu á milli sjómannanna og útgerðarmanna um kaup og kjör, sem útgerðarmenn töldu útgerðina ekki geta borið uppi, en sjómenn töldu sig ekki geta misst.

Ástandið í fjármálum ríkisins var þá og er enn þannig, að Alþingi hefur ekki enn tekizt að koma saman fjárlögum fyrir yfirstandandi ár. þótt langt sé nú liðið á fyrsta fjórðung þess — sökum hinna stórkostlegu útgjaldaþarfa ríkisins, er dýrtíð og verðbólga hefur blásið út.

Það var því ekki að undra, þótt þessir herrar létu það sér til hugar koma, að íslenzka þjóðfélagið væri orðið nægilega veikt og ráðvillt, svo að hér væri tími til kominn að fylgja vel á eftir til að fullkomna öngþveitið og upplausnina, sem alls staðar og ávallt hefur reynzt hinn óhjákvæmilegi undanfari þess, að þeir gætu náð sínu heimsþekkta steinbítstaki á löndum og þjóðum. Og þeir hefðu sannarlega getað talið sig vel að þeim sigri komna, ef hann hefði fallið þeim í skaut, því að að honum hafa þeir starfað með kostgæfni, hér sem annars staðar, alla sína tíð.

Í þessu sambandi skal lauslega minnzt á þau vandamál, sem ég drap á áður, og vil ég nú einkum minnast á utanríkismálin. Hverjir eiga sök á því, að við Íslendingar, eins og aðrar þær þjóðir, sem að Atlantshafssáttmálanum standa. þurfa nú á þessum tíma að eyða orku sinni og tíma til þess að byggja upp þessi samtök með öllum þeim kostnaði, sem af þeim leiðir, og öllum þeim áhyggjum, sem þeim fylgja? Hverjir aðrir en kommúnistar — kommúnistar um allan heim. Það eru þeir og þeir einir, sem með stefnu sinni og baráttuaðferðum bera ábyrgð á öllu því öngþveiti, sem nú ríkir í alþjóðamálum, enda er upplausnarstarfsemin, eins og ég minntist á áður, þar sem annars staðar fyrsti liður í allri þeirra yfirgangs- og útþenslupólitík.

Sinn fyrsta stóra sigur — í rússnesku stjórnarbyltingunni — unnu þeir, er upplausnarástand ríkti í landinu eftir ósigra rússneska keisaradæmisins í heimsstyrjöldinni fyrri. Og sá sigur varð þeim auðveldari fyrir óstjórn þá, er þar hafði ríkt um langt skeið. Skammsýnir og skilningslausir einvaldar og spilling aðals og auðstétta hafði öldum saman legið eins og mara á rússneskri alþýðu og haldið henni í andlegri og líkamlegri áþján. Og þessi yfirstétt var auk þess orðin nægilega dáðlaus til að geta ekki tryggt yfirráð sín í þjóðfélaginu með þeirri miskunnarlausu hörku, sem slíkt stjórnarfar hefur jafnan byggzt og byggist á. Á þessu hefur rússneski kommúnisminn ekki flaskað, eftir að hann hóf sig upp í hinn auða söðul á fáki rússneska einvaldans, því að þótt kommúnismanum væri brotin brautin til valdanna með loforðum og slagorðum um alþýðulýðveldi og jafnrétti þegnanna, var hann fljótur, eftir að hann hafði náð völdunum, að söðla um yfir í ríkiskapítalisma og jafnframt ofurveldi eins eða fárra manna, sem töldu sig sjálfkjörna persónugervinga og handhafa hagsmuna, hugsjóna, vilja og valds hins mikla fjölda. Og þar með var hringurinn lokaður frá einu einveldisforminu í annað.

En þrátt fyrir þessa staðreynd heima fyrir hefur áróður kommúnismans í öllum öðrum löndum alltaf verið rekinn á grundvelli alþýðulýðræðis og almannavalds — alltaf þangað til hann hefur náð yfirráðum í einhverju þjóðfélagi — þá er fljótt söðlað um þar á sama hátt.

Fljótlega eftir sigur kommúnismans í Rússlandi var svo farið að undirbúa heimsbyltingu hans með undangraftarstarfsemi í öðrum löndum heims, með því að fá til þeirra starfa sjálfboðaliðssveitir í löndunum sjálfum, eins konar fimmtu herdeildir, sem síðan hafa verið nefndar og frægar urðu í „regimenti nazistanna“.

Í löndum þeim, þar sem lýðræðið hafði náð mestum þroska — þar sem almenn velmegun var mest og alþýðumenntun fullkomnust, — átti þessi undangraftarstarfsemi mjög örðugt uppdráttar lengi vel. Hins vegar náði hún þegar allmiklum árangri í sumum þeim þjóðlöndum, er heimsstyrjöldin fyrri hafði leikið verst, og þar sem hin fyrrnefndu mótstöðuskilyrði voru ekki fyrir hendi. Einkum heppnaðist hún vel í Ítalíu og Þýzkalandi, og mátti um eitt skeið vart á milli sjá, hvað yrði þar ofan á. En þar kom svo strik í reikninginn, sem hinir vísu feður kommúnismans ekki höfðu reiknað með. Þeir höfðu þegar kennt andstæðingum sínum of mikið. Og þannig fór í báðum þessum löndum, að upp risu ófyrirleitnir ævintýramenn, sem tóku af kommúnismanum þessa nýju hreyfingu í sínar eigin hendur — fasisminn í Ítalíu og nazisminn í Þýzkalandi. Þeir tóku sjálfir kommúnismans vopn og verjur í sína þjónustu — foringjadýrkunina, hið skefjalausa jesúíta-siðferði í málflutningi og baráttuaðferðum. Þessar aðfengnu dyggðir blönduðu þeir svo hinum heimafengna stórkapítalisma, þjóðarrembingi, og var sköpunarverkið fullkomið, og má kommúnisminn vera stoltur af sínu framlagi og frumkvæði. Og í hinum ægilega, heimssögulega harmleik, sem síðan fór fram í þessum löndum, leikur kommúnisminn enn sitt örlagaríka hlutverk. Um leið og hann verður á yfirborðinu aðalandstæðingur fasismans og nazismans í úrslitabaráttunni heima fyrir, verður hann undir niðri aðalsamherji þeirra og hjálparhella til að berja niður lýðræðisöflin í löndunum og brjóta á bak aftur allt viðnám gegn hinum nýju einveldisstefnum.

Og þetta gera kommúnistarnir ekki óviljandi, heldur vitandi vits. Þannig segir Manuilski, aðalritari kommúnistísku samtakanna, III. Internationale árið 1932: „Með hverjum eigum við samleið? Jafnaðarmönnunum, sem vilja halda uppi ríkisvaldinu, eða Hitlersliðinu, sem vinnur gegn því? Ef Hitler kemst til valda, getum við með hjálp hans brotið niður lögregluvald jafnaðarmanna og ríkisvald Brunings. Þannig er Hitler eins og nú standa sakir — þó að það sé honum óafvitandi – okkar sjálfsagði samherji“.

Svo mörg eru þau orð. Eftir þessu var svo unnið og á þennan hátt sigraði svo nazisminn í Þýzkalandi, og allir þekkja svo afleiðingarnar af ógnarveldi hans, sem kommúnisminn átti höfuðsök á að koma í valdastólinn. En sagan er ekki þar með öll sögð. Árin liða og þessir yngri bræður kommúnismans, fasisminn og nazisminn, færa út kvíarnar land úr landi, gráir fyrir járnum, og nú líður að hinu örlagaríka ári 1939.

Lýðræðisríkin í álfunni hafa nú sem endranær reynzt seinþreytt til vandræða og með hikandi afstöðu og friðsamlegri undansláttarpólitík mjakað sér undan ágengni nazismans til að firra þjóðirnar nýrri heimsstyrjöld í lengstu lög. En nú var þeim að verða ljóst, að ekki varð lengur undankomu auðið. Og þegar nazisminn beindi sókn sinni gegn Póllandi, sagði England: hingað og ekki lengra. — Nú hófust fyrir alvöru varnarsamtök lýðræðisþjóðanna, með England í broddi fylkingar, til að stöðva heimsvaldabaráttu nazismans. Hitler hikaði við um stund. Honum mun ekki hafa þótt ráðlegt að leggja út í stórstyrjöld með óvissa aðstöðu eða vísa andstöðu flestra stórvelda bæði í Evrópu og Ameríku. Og þá vaknaði spurningin: Hvar stendur Rússland? Flestir lýðræðiselskandi menn í heiminum gerðu sér þá vonir um, að það mundi standa við hlið lýðræðisþjóða heimsins í átökunum við ófreskju nazismans. En hvað skeður? Eins og reiðarslagi lýstur þeirri fregn yfir heiminn, að Rússar og Þjóðverjar — kommúnisminn og nazisminn — hafi gert með sér griðasáttmála, skipt í bróðerni á milli sín þjóðlöndunum, sem á milli þeirra lágu — og nú logar ófriðarbálið upp á samri stundu. Sagan hafði endurtekið sig. Áður hafði kommúnisminn stutt nazismann í því að brjóta niður hið veikburða þýzka lýðveldi og lýðræðisöfl þess og þar með að verða allsráðandi í landinu. Nú sigar kommúnisminn rándýri nazismans á lýðræðisþjóðirnar, sem eftir voru í álfunni, með þessum fræga sáttabikar þeirra Stalíns og Hitlers.

Og afleiðingarnar þekkir heimurinn allt of vel. Það má nú að vísu segja, að „Það lá við, að sú krús yrði að lokunum dýr“ fyrir kommúnismann, þegar bróðirinn sneri sér við í söðlinum og lagði sverðinu til hans. Og ef Rússland hefði ekki þá notið fullrar og afdráttarlausrar aðstoðar lýðræðisríkjanna, sem það þó áður hafði brugðizt svo hrapallega, en þó fyrst og fremst Bandaríkjanna, sem kommúnistar nú sæma öllum svívirðingarheitum tungunnar, er með öllu óvíst, hvor bróðirinn, sá brúni eða rauði, réði nú ríkjum í hinu víðlenda rússneska veldi.

Enn var það von allra friðsamra og lýðræðissinnaðra manna, að unnt yrði fyrir bandalagsríkin að taka upp samvinnu um að reisa heiminn úr rústum eftir styrjöldina, þar sem henni hafði lokið með sameiginlegum sigri þeirra allra. En heimskommúnisminn hafði ekkert lært og engu gleymt. Enn sem fyrr fór hann sínu fram. Í stað þess að taka upp einlægt og undirhyggjulaust samstarf við lýðræðisþjóðirnar, að byggja heiminn upp að nýju, hefur hann tekið upp gamla þráðinn aftur — miskunnarlausa baráttu fyrir útþenslu og yfirráðum sínum í heiminum. Og nú er ekki beðið með að hagnýta sér uppskeruna, sem undirbúin var með sáttabikarnum fræga, sem hleypti styrjöldinni af stað. Meginhluti Evrópu lá flakandi í sárum að henni lokinni. Örbirgð sú og upplausn, sem öllum styrjöldum fylgja, varð brátt í algleymingi. Jarðvegurinn var undirbúinn og aðstaðan notuð út í æsar. Með undangraftarstarfsemi inn á við og valdbeitingu studdir utan frá hefur hvert ríkið af öðru, eitt og eitt í senn, orðið ofbeldi kommúnismans að bráð.

Enn á ný hafa lýðræðisþjóðir heimsins vaknað við vondan draum. Sporin frá ofbeldisskeiði nazismans hræða. Hinar frjálsu þjóðir vilja ekki, að sagan endurtaki sig. Þess vegna er nú stofnað til víðtækari samtaka meðal þeirra en nokkru sinni fyrr til varnar frelsi sínu og sjálfstæði og fyrir friði. Og nú segja þau einum rómi: Hingað og ekki lengra. — Þetta er ástæðan til þess, að við Íslendingar höfum nú ofan á mörg óleyst innanlandsvandamál orðið að verja allmiklu af dýrmætum tíma til að geta tekið ákvörðun í þessu mikilsverða og viðkvæma utanríkismáli, sem þó nú orðið, að fengnum öllum upplýsingum, ætti ekki að verða lýðræðissinnuðum mönnum mikið vandamál. Ef land okkar lægi í austurhluta Evrópu, þá hefðum við losnað við allt val og vanda í málinu. Þá hefði ekki verið spurt, heldur skipað. En nú er Ísland þar, sem það er, og það gerir allan muninn. Þess vegna getum við rætt málið með og móti — þess vegna getum við tekið okkar ákvarðanir á löglegan og stjórnskipulegan hátt. Slíku fylgir að vísu nokkur vandi. Það kostar athugun, umræður, tíma og tafir frá öðru. En allt er þetta sams konar kvaðir og því fylgja í hverju spori að lifa sem frjáls maður meðal frjálsra manna og þjóða, og efast ég ekki um, að flestir Íslendingar muni fúsir leggja á sig slíkar kvaðir og kjósa þær fram yfir hlutskipti þess manns, sem verður að venja sig af þeim munaði að hugsa og álykta sjálfur um nokkuð, sem máli skiptir. Hitt þarf engan að undra, þótt kommúnistar — ekki aðeins hér, heldur um allan heim — taki upp hatramma baráttu gegn samtökum sem þessum og reyni að afflytja þau og villa um fyrir mönnum. Þeir vildu helzt, að hvert einasta þjóðfélag í heiminum segði sem svo: Láttu ekki drottins ljós til mín, lof mér að sofa í næði. — Svo að þeim tækist sem fyrirhafnarminnst að sporðrenna hverri þjóð af annarri niður í hinn óseðjandi svelg.

Þannig er nú þáttur kommúnismans í þessu máli, og má í því sambandi segja, að sá veldur miklu, sem upphafinu veldur.

Þáttur þeirra í hinum málunum, togarastöðvuninni og fjárlagaöngþveitinu, er heldur ekki óverulegur út af fyrir sig, en það er önnur saga, er síðar verður rædd.