28.03.1949
Sameinað þing: 57. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 321 í D-deild Alþingistíðinda. (4599)

169. mál, vantraust á ríkisstjórnina

Sigfús Sigurhjartarson:

Herra forseti. Hæstv. utanrrh. gat þess áðan, að hæstv. ríkisstj. hefði reynt að greiða úr togaradeilunni. Árangurinn má sjá. Hann gat um, hvers vegna bæjarútgerðin hefði ekki skilið við útgerðarauðvaldið, en henni var bannað það af þeim, sem valdið hafa. Það var ýmislegt fleira, sem hæstv. ráðh. kom fram með. En sérstaklega langar mig til að taka til athugunar það, sem hann sagði um skrif Brynjólfs Bjarnasonar 1941 um, að skotið yrði án allrar miskunnar. En hvað segja alþingistíðindin um þetta. Brynjólfur er að tala um, að hingað sé kominn amerískur her og hættuna, sem af því geti stafað, og segir svo, á bls. 45: „Þýzka útvarpið lét ekki á sér standa að lýsa því yfir, að Bandaríkin séu komin þangað, sem stríðið er, og þar verði skotið án allrar miskunnar.“ Svo skulu menn bera saman orð hæstv. ráðh. og alþingistíðindin.

Hæstv. ráðh. fór nýlega vestur um haf, og þar vestra sagði hann, að hér væru ekki nema um 10% þjóðarinnar að kommúnistum meðtöldum á móti samningnum. Í Sósíalistaflokknum er um 20% kjósenda, og veit ég ekki betur en svo mikil óánægja sé innan Sjálfstæðisflokksins, að einn af leiðtogum flokksins hafi af þeim ástæðum sagt sig úr flokknum, og ég ætla, að andstaðan gegn samningnum nái ekki svo skammt inn í raðir Alþýðuflokksins. Og er þetta aðeins eitt dæmi um sannleiksást hæstv. dómsmrh., en það er ekki aðeins þessi hæstv. ráðh., sem svo skrafar, því að hér hafa komið fram fjórir hæstv. ráðh. og allir meðhöndlað sannleikann á svipaðan hátt og hæstv. dómsmrh. Það er athugavert, um hvað umr. hafa snúizt hér í kvöld hjá hæstv. ríkisstj. og fylgismönnum hennar. Þær hafa snúizt um þau mál, sem þjóðinni eru kunn, um inngöngu í Atlantshafsbandalagið. En þetta mál á langa forsögu, sem þjóðinni er ef til vill ekki eins kunn. Þegar hæstv. forsrh. gerði fyrirspurn um það vestur um haf, hvort Bandaríkin væru reiðubúin að taka að sér hervarnir hér, segir Cordell Hull, að Bandaríkin muni gera allar þær ráðstafanir, sem þeim sé mögulegt til að tryggja öryggi sitt, og skömmu síðar er tilkynnt, að Bandaríkin hafi stigið stórt skref í þá átt að tryggja sig gegn árás. Eftir kosningarnar 1946 var þeim svo veitt hér herstöð, og vestur í Ameríku er þetta merkt sem ein helzta herstöðin til varnar Bandaríkjunum, og nú erum við að gera á ný samning við þessa sömu þjóð. Og hver trúir því, að ekki felist hætta í þessu?

En það væri einnig ástæða til að ræða innanlandsmálin. Í febrúar er gefin lýsing á stefnu stj. í Alþýðublaðinu og Tíminn telur, að Eysteinsstefnan hafi sigrað í fjárhagsmálum. En blöð Framsfl. láta þess getið í vetur, að dýrtíðin sé að aukast, og einn af stuðningsmönnum hæstv. ríkisstj. lét þess getið í ræðu í dag, að skuldirnar væru að vaxa hjá þjóðinni, þó að lýst hefði verið yfir, að engin skuldasöfnun mætti eiga sér stað.

Nú verða háttv. þm. að gera upp við sig, hvort þeir eru með eða móti hæstv. ríkisstj. Þeir, sem ekki greiða atkv. á móti henni, eru með því móti að stuðla að því, að hér verði byggð stærsta atómstöð veraldarinnar og að ríkið safni skuldum. — Ég heyri, að hæstv. forseti vill ekki, að ég tali meira um hæstv. ríkisstj., en ég veit að þjóðin hefur séð, hvers konar stjórn þetta er, og að þeir hv. þm., sem greiða henni atkv. eiga ekki upp á pallborðið hjá hv. kjósendum í framtíðinni.