28.03.1949
Sameinað þing: 57. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 322 í D-deild Alþingistíðinda. (4600)

169. mál, vantraust á ríkisstjórnina

Ólafur Thors:

Herra forseti. Síðasti hv. þm. veittist að hæstv. dómsmrh. fyrir það, hversu óvarlega hann færi með þingtíðindi, og vitnaði í setninguna, að það verði skotið án miskunnar. En þessi guðfræðingur les þingtíðindin eins og viss persóna biblíuna. Hann skildi eftir þingtíðindin, og vil ég leyfa mér að lesa áfram: „Ef ráðstafanir Bandaríkjanna yrðu til þess, að veitt yrði virk aðstoð í þeirri baráttu, sem háð er á austurvígstöðvunum, þá mundu Íslendingar ekki heldur telja eftir sér það, sem af því stafaði, en það er bezt að láta verkin tala. Enginn getur láð Íslendingum, þó að þeir myndi sér skoðanir samkv. fenginni reynslu. Enginn getur láð þeim, þó að þeir séu tortryggnir.“ .

Af hendi stjórnarliða hefur það eftir atvikum og að gefnu tilefni verið talið rétt, að þessar útvarpsumræður snúist fyrst og fremst um það mál, sem nú er efst á baugi með þjóðinni og í rauninni veldur því, að vantraust er fram borið einmitt nú.

Hæstv. utanrrh. hefur þegar borið fram öll sterkustu rök þessa máls. Þau hafa verið áréttuð af öðrum hæstv. ráðherrum, sem hér hafa tekið til máls, svo að segja má, að þar sé litlu við að bæta. Ég mun þó verja þeim fáu mínútum, er ég hef til umráða, til þess að láta í ljós mitt álit á málinu, um leið og ég í höfuðefnum tek undir rök hæstv. ráðherra.

Á miðju ári 1945 komu saman allmargir menn í San Fransisco á vesturströnd Bandaríkjanna. Það voru fulltrúar mannkynsins — hins hrjáða mannkyns, sem þá í nær 6 ár hafði þolað meiri raunir ótta, böls og blóðsúthellinga en sagar veit nokkur dæmi um.

Ég veit ekki, hvað verið hefur innst í hugarfylgsnum sumra þeirra, er þar réðu mestu. Hitt mun óhætt að staðhæfa, að aldrei fyrr hafa jafnmiklar vonir jafnmargra manna staðið til nokkurrar samkundu sem þessarar. Segja má, að þær vonir hafi að því leyti rætzt, að á þessari samkundu bundust flestar þjóðir heimsins og þ. á m. allar hinar voldugustu heltum um að freista þess að skapa nýja veröld friðar og frelsis, þar sem manngöfgi, mannfrelsi og mannhelgi réðu ríkjum. Sáttmáli Sameinuðu þjóðanna var færður í letur, svo að hann mætti verða biblía hinnar nýju veraldar. Sameinuðu þjóðirnar voru stofnsettar. Síðar skildu menn sáttir og glaðir. — Sameinuðu þjóðirnar eru nú tæpra fjögurra ára. Saga þeirra er stutt, viðburðarík og raunaleg. Það væri ofmælt að segja, að allar þær vonir, sem við þær voru tengdar, væru nú þegar fölnaðar og dánar. Hitt er óleyfileg bjartsýni, ef nokkur þjóð teldi sér lengur fært að byggja allt sitt traust og öryggi á þessum félagsskap.

Til þess að skilja innsta eðli þess máls, sem hér er gert að umræðuefni — þátttöku Íslands í bandalagi Atlantshafsþjóðanna —, til fulls, verða menn að vera þess minnugir, að frá því Sameinuðu þjóðirnar voru stofnaðar og allt fram á þennan dag er það tvennt, sem öllu öðru fremur hefur ráðið viðburðum og markað stefnu á sviði heimsstjórnmálanna. Annað er, að eitt af voldugustu stórveldum veraldarinnar hefur svo algerlega lamað starfsemi og gagnsemi Sameinuðu þjóðanna, að nú er svo komið, að fundir þeirra eru fyrst og fremst vettvangur harðvítugra ádeilna þar sem þjóðir heimsins skiptast í tvær andstæðar, harðvítugar fylkingar, sem deila hvor á aðra með fullkomnu hlífðarleysi. Af þessu leiðir, að því fer svo fjarri, að Sameinuðu þjóðirnar hafi fram að þessu reynzt bærar um að skapa þann frið og öryggi í heiminum, sem þeim var ætlað að gera, að það verður þvert á móti að viðurkenna, að með degi hverjum minnka vonirnar um, að þær muni nokkru sinni reynast þess megnugar.

Hitt er svo það, að samfara þessu, jafnframt því, sem æ gleggra hefur orðið, að til Sameinuðu þjóðanna er enn sem komið er einskis trausts að leita, þá hefur einmitt sama stórveldið sem þessu veldur þanið út veldi sitt og áhrif, svo að hver þjóðin af annarri, sem er í nábýli við þetta stórveldi, hefur nú ýmist að fullu fargað sjálfstæði sínu að efni og formi eða lýtur í öllum aðalefnum boði þessa mikla einræðisveldis.

Það eru þessar staðreyndir, sem leitt hafa af sér þann áttmála, sem við Íslendingar munum nú gerast aðilar að. Það er ótti þeirra Evrópuríkja, sem daglega hafa fyrir augum sér raunir þeirra er beint og óbeint búa við frelsisskerðingu, um að verða sömu örlögum að bráð, — það er vitund þessara þjóða um, að Sameinuðu þjóðirnar séu þess með öllu ómegnugar að bægja þeim voða frá dyrum þeirra, sem því réð, að þrjár smáþjóðir, Belgar, Hollendingar og Luxembourgarbúar, hófust handa um myndun varnarbandalags. Í síðustu styrjöld höfðu allar þessar þjóðir verið gleyptar af ómótstæðilegu herveldi einræðisherrans, ásamt með þeirri hlutleysisyfirlýsingu, sem þær í heiðarlegri og einfeldnislegri trú á loforð ofstækisfullra einræðisherra ætluðu að byggja líf sitt og öryggi á. Nú hafði reynslan, hin örlagaríka og þungbæra reynsla, kvatt dyra hjá þeim og kennt þeim, að af hlutleysinu var ekki verndar að vænta. Nú gat aflið eitt veitt öryggi.

Þessar þrjár þjóðir, ásamt Bretum og Frökkum, mynduðu því með sér varnarbandalag Vestur-Evrópu. Hér voru þeir að verki, sem þolað höfðu bölvun tveggja heimsstyrjalda og tæmt höfðu til bots bikar hinna ómælanlegu hörmunga og mannrauna hernaðarins. Hér ræddust þeir við, sem af reynslunni vissu, að ekkert var jafnóttalegt sem þriðja heimsstyrjöldin, annað en það eitt að missa frelsi sitt í hendur erlends valds einræðis og kúgunar. Þess vegna reyndu þær að búa sér skjaldborg einingarinnar, þess vegna tóku þær fagnandi þeirri uppástungu utanríkisráðherra Canada, að Canada og Bandaríkin skyldu slást í hópinn, svo að varnarbandalagið mætti verða svo öflugt, að til þess væru að minnsta kosti miklar líkur, að enginn dirfðist að ráðast á það.

Þetta bandalag er nú raunverulega myndað. Það verður formlega stofnað í byrjun næsta mánaðar. Okkur Íslendingum stendur til boða að verða meðal stofnenda þess. Eigum við að játa eða neita? Það er sú ákvörðun, sem bráðlega liggur fyrir okkur að taka.

Ég er ekki viss um, að nokkru sinni í sögu Íslendinga hafi í nokkru máli verið beitt jafnmiklum falsrökum sem andstæðingar þessa máls hafa gert. Í umræðunum hér í kvöld hefur verið maklega flett ofan af þessum herrum. Eftir stendur mynd af flokki, sem veit hvað hann vill, mönnum, sem óska þess, að Ísland verði fráskila við allar þær þjóðir, sem þeir eru skyldastir að ætt, uppruna, andlegu atgervi og átrúnaði, beinlínis í því skyni, að auðveldara megi reynast að hagnýta landið, ef til átaka kemur, til árása á alla dýrmætustu helgidóma mannlegs lífs, frelsi, sjálfsákvörðunarrétt og lífshamingju manna og þjóða. Í fylgd með þeim eru fáeinir menn, flestir fremur vesælir menn, sem eiga enga samleið með kommúnistum og sjálfir það eitt sameiginlegt, að sjálfsmetnaður þeirra er særður, vegna þess að þeir hafa ekki komizt til þeirra metorða og valda í sínum eigin flokki, sem þeim sjálfum finnst, að gáfur sínar og menntun standi til. Slíkar særðar sálir hafa kommúnistadeildir allra landa og þjóða veitt í net sín og beitt fyrir sig. Launin, sem þeir fá, er lof og skjall, sem breitt er yfir sára og sjúka metnaðartilfinningu.

Ég get ekki svarað falsrökum þessara manna á þeim sárafáu mínútum, sem ég hef enn til umráða, með öðrum hætti betur en þeim, að gera grein fyrir, hvers vegna ég tel Íslendingum skylt að svara játandi því boði, sem þeim hefur verið gert um að gerast stofnendur bandalagsins. Fyrst ætla ég þó aðeins að bregða upp skyndimynd af baráttu kommúnista og fylgifjár þeirra í málinu.

Baráttan hefst með því, að áður en kommúnistar hafa nokkra hugmynd um, hvernig þessi samningur mundi verða, telja þeir sig þekkja efni hans að fullu. Þeir skýra þjóðinni frá því og tryggja að sjálfsögðu, að þar séu lagðar á Íslendinga allar þær kvaðir, sem þjóðin sízt vill undir gangast.

Þegar svo sáttmálinn liggur fyrir, og það kemur í ljós, að ekkert, bókstaflega ekki eitt einasta atriði af því, sem helzt gæti orðið ásteytingarsteinn í augum þjóðarinnar, felst í sáttmálanum, þá er svarað með því, að ekkert sé að marka, hvað í samningnum standi, hann sé saminn til að blekkja Íslendinga, hver grein hans sé orðuð með alveg sérstakri hliðsjón af baráttu „þjóðvarnarfélagsins“ á Íslandi. Hafa menn nokkru sinni heyrt aðra eins firru? Halda menn nú virkilega, að þeir fulltrúar átta þjóða, sem við samningaborðið hafa setið undanfarna mánuði til þess að semja eitt merkasta plagg, sem nokkru sinni hefur verið lagt fyrir þjóðir veraldarinnar, hafi stöðugt dvalið með hugann á Íslandi og að jafnaði sagt hver við annan: Já, nú eru góð ráð dýr, þessa grein verður að orða svona og svona, annars fáum við séra Sigurbjörn á móti okkur, o. s. frv.

Engin grein samningsins miðast við Íslendinga sérstaklega, þó að sérstaða Íslands rúmist innan samningsins. Og enginn þeirra manna, sem þær hafa samið, þekkir þá froðusnakka, sem undanfarna mánuði hafa verið að reyna að svíkjast aftan að þjóð sinni í skjóli hempunnar. En þessi vinnubrögð, slíkur málflutningur, hann sýnir vel, hvaða málstað þessir menn eru að verja.

Af háværum ópum andstæðinga málsins er eitt, sem langhæst hefur hljómað. Það er þetta: „Íslendingar mega aldrei gerast þátttakendur í hernaðarbandalagi.“ Þetta hefur fengið mikinn hljómgrunn í hjörtum friðelskandi almennings, sem þá jafnframt hefur verið boðið miklu meira öryggi og betra skjól með þeim einfalda hætti að lýsa yfir hlutleysi Íslendinga.

Ég spyr nú: Vita þessir menn ekki nokkurn skapaðan hlut, hvað þeir eru að segja? Vita þeir ekkert um sjálft aðalatriði þess máls, sem þeir mánuðum saman hafa verið að fjalla um? Eru þetta hreinir fávitar, eða eru þeir forherðingin sjálf — umvafin hempunni?

Ísland er í hernaðarbandalagi. Sameinuðu þjóðirnar eru bandalag friðelskandi þjóða, sem hafa heitið að halda uppi friðnum í heiminum og beita til þess vopnavaldi, ef með þarf. Meðlimir Sameinuðu þjóðanna hafa af frjálsum vilja lagt á sig þær kvaðir að leggja af mörkum her og aðstöðu, ef þess verður af þeim krafizt. Þannig er sá sáttmáli, sem Íslendingar undirrituðu af fúsum vilja og með einróma samþykki Alþingis 1946. Þessi sáttmáli er enn óbreyttur. Íslendingar eru enn meðlimir þessa félagsskapar. Hin eina breyting, sem á er orðin, er sú, að Sameinuðu þjóðirnar hafa valdið Íslendingum sem öðrum vonbrigðum vegna þess, að þær hafa fram að þessu ekki megnað að beita hervaldi, þótt með hafi þurft í þágu friðarins.

Sáttmáli sá, sem hér á að gera, er einmitt sprottinn af þessum vonbrigðum. Hann er tilraun til að skapa þátttakendum hans þann frið og það öryggi, sem Sameinuðu þjóðunum var ætlað að skapa öllum þjóðum heimsins. Hann er í einu og öllu gerður innan ramma sáttmála Sameinuðu þjóðanna, sbr. 51. gr. þessa sáttmála. Fyrir okkur Íslendinga er sá einn munur á þessum samningi og sáttmála Sameinuðu þjóðanna, að við undirskrift þessa sáttmála fáum við miklu skýrari viðurkenningu á sérstöðu okkar sem vopnlausrar þjóðar, en okkur tókst að fá, þegar við undirrituðum þær hernaðarlegu skuldbindingar, sem felast í sáttmála Sameinuðu þjóðanna.

Þetta er sannleikur málsins. Um hlutleysið er óþarft að ræða. Saga allra þjóða, líka okkar Íslendinga, sannar, að það hefur reynzt einskis virði, þegar á hefur reynt, en úr því svo hefur verið, hvaða heilvita manni getur þá til hugar komið, að svo verði ekki einnig framvegis? Komi til átaka, sem við vonum og biðjum forsjónina að forða okkur frá, þá veit sá, sem þann ægilega hildarleik hefur, að baráttan er barátta um líf eða dauða, líf eða dauða heilla þjóða og óskyldra hugsjóna. Í slíkum átökum man enginn eftir því, að Íslendingar vilja vera hlutlausir, ef landsins á annað borð er þörf. Af öllu, sem víst er, er þetta vísast. Og svo hitt, að Íslands verður þörf og dregst því án alls efa inn í styrjöldina strax á fyrsta degi hennar. Allt þetta veit enginn betur en Brynjólfur Bjarnason, þótt hann segði annað.

Atlantshafssáttmálinn liggur nú fyrir, hefur legið fyrir umheiminum um nokkurt skeið, og þá líka fyrir okkur Íslendingum. Hann er sáttmáli um það, að frjálsar þjóðir efni til frjálsra samtaka til varðveizlu friðnum í veröldinni. Hann er hollustueiður frelsisunnandi þjóða til friðar, jafnréttis og sjálfsákvörðunarréttar. Hann er sáttmáli um það, að sérhver þjóð ákveði sjálf, hvað hún telur sig bæra um að leggja af mörkum og hvenær. Hann er, hvað Íslendinga sérstaklega áhrærir, sáttmáli um það, að þar sem Íslendingar engan her hafi, skuli þeir heldur engan her þurfa að stofna og enga hermenn leggja af mörkum, þótt til styrjaldar komi. Hann er sáttmáli um það, að engin þjóð skuli nokkru sinni hafa her á Íslandi á friðartímum. Hann er sáttmáli um það, að aldrei skuli herstöðvar vera á Íslandi á friðartímum. Hann er sáttmáli um það, að Íslendingar láni baráttunni fyrir frelsinu sömu afnot af landi sinu, ef til átaka kemur, sem þeir gerðu í síðustu styrjöld. Hann er sáttmáli um það, að reyni nokkur nokkru sinni að teygja hramm sinn yfir fald Fjallkonunnar, þá rísi 330 milljónir bezt menntu þjóða veraldar upp til varnar frelsi hennar og fullveldi.

Sáttmálinn er mesti og merkasti friðarsáttmáli, sem nokkru sinni hefur verið gerður í heiminum. Hann er sterkasta, já, ef til vill einasta von mannkynsins um, að komizt verði hjá voða þriðju heimsstyrjaldarinnar.

Íslendingar eiga ekki að skerast úr leik, þegar þeir eru kvaddir til ráða, þar sem örlög mannkynsins eru ráðin. Þvert á móti ber Íslendingum að miklast af þátttöku sinni í svo gæfuríkum atburðum. Og Íslendingum ber öðrum fremur að fagna þessum sáttmála, sem þeir eru öðrum síður færir um að verja sig sjálfir. Og ef vonirnar skyldu bresta og einræðisöflin yrðu þess valdandi að til ófriðar komi, þá verður ekki aðeins barizt um hugsjónir Norðmanna, Dana, Breta, Bandaríkjamanna, Belgíumanna, Luxembourgbúa, Frakka, nei, — skoðanafrelsi, málfrelsi, ritfrelsi, fundarfrelsi, — allt er þetta helgustu hugsjónir Íslendinga. Ef Íslendingar vita enn ekki, hvers þeir meta frelsið, þá er það af því einu, að fram að þessu hafa þeir verið svo gæfusamir, að þurfa ekki að kenna á skorpionum kúgunar og ofbeldis. Eitt ár, einn mánuður, einn dagur í því helvíti á jörðu mundi nægja til þess að færa Íslendinga í skilninginn um, að þeir elska frelsið meira, en sjálft lífið. Þeir mundu því fúsir til sérhverrar þátttöku, hvers kyns sem væri, í baráttunni fyrir endurheimt frelsisins, hins dýrmæta frelsis, ef þeir einu sinni hefðu misst það. En ef þetta er rétt, og það er rétt — Íslendingar — hversu miklu fremur ber okkur þá ekki að taka þátt í þeim voldugu samtökum, sem nú er til stofnað í því skyni að verja frelsið, okkar frelsi jafnt sem annarra frelsi, þegar okkur er gerður þess kostur án herskyldu og hersetu og án allra kvaða annarra en þeirra, sem við sjálfir viljum á okkur leggja, og þegar við jafnframt vitum, að þátttaka okkar í þessum samtökum er öruggasta og jafnvel einasta ráðið til þess að tryggja það, að komi til átaka, verði Ísland varið þannig að Íslendingar lifi, — en deyi ekki.

Við Íslendingar stöndum nú frammi fyrir augum alheimsins. Smáir og varnarlausir, en einlægir í trú okkar á lýðræði og frelsi, eigum við nú að velja eða hafna, velja það að leggja okkar litla hlut af mörkum til þess að freista þess að firra mannkynið ógn nýrrar styrjaldar, en tryggja eftir lítilli getu sigur frelsis og mannhelgi, ef til átaka kemur, — velja þetta eða hafna því.

Svarið getur aldrei orðið nema eitt, einfaldlega af því, að okkur skortir frambærileg rök fyrir því að synja því tilboði, sem okkur hefur verið gert. Við getum ekki, án þess að flekka manndóm okkar, þjóðarmetnað og virðingu, játað lýðræði og frelsi hollustu, en sagt þó: Komi til einhverra átaka í veröldinni um þessar okkar helgustu hugjónir, þá sitjum við hjá — erum algerlega hlutlausir. Það er áhættu minnst fyrir okkur. En blessaðir berjizt þið, og Guð gefi ykkur góðan sigur. Að slíkri þjóð verður hlegið, og það að vonum.

En Íslendingar verða ekki til athlægis. Svar okkar verður já, — eindregið já.