27.01.1949
Sameinað þing: 33. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 340 í D-deild Alþingistíðinda. (4614)

112. mál, mænuveikivarnir

Flm. (Jónas Jónsson):

Herra forseti. Komið er nú í ljós, eins og við var að búast, að læknastéttin í landinu og hæstv. ráðh. hafa staðið með hendur í vösum. Síðan verður vart þeirrar meinloku hjá hæstv. ráðh., að hann sé e. t. v. alveg ábyrgðarlaus með afstöðu sinni, enda játaði hann sig hafa enga þekkingu á málinu. En nú skal ég nefna nokkur dæmi um þann styrk, sem heilbrigðismálastjórnin ímyndar sér að hafa veitt í þessu efni. — Í Skagafirði eru nú 100 manns með veikina, og hún er einnig komin til Húsavíkur. Er alveg sérstakt, að 100 manns eru með veikina í næsta héraði við Akureyri, án þess að heilbrigðismálastjórnin finni til óróa. Önnur dæmi sýna, að jafnvel landlæknir hefur orðið að beygja sig fyrir staðreyndum. Það átti að taka við mönnum í Fornahvammi. En einu sinni fóru 100 manns í hríðarveðri fram hjá þeim bæ án þess að koma við vegna viðeigandi sóttvarnarráðstafana. — Ég ætla að nefna annað dæmi um stöðu heilbrigðismálastjórnarinnar í þessu máli og þekkingarleysi þessara manna. Þegar mænusóttin var að breiðast út á Akureyri, var skólunum þar lokað og nemendum veitt langt frí og einn nemandi úr menntaskólanum er sendur hingað suður á land. Hann kemur hingað suður fyrir jól og sezt að á ákaflega fjölmennu skólaheimili hér á Suðurlandi. Skólastjórinn gat ekki sagt neitt. Þessi nemandi fer í annan skóla á ábyrgð heilbrigðisyfirvaldanna og bíður þar fram yfir nýár. Ég ætla að trúa hæstv. rh. fyrir því, að ég býst við, að hann eigi eftir að fá harða dóma fyrir þetta ófyrirgefanlega ósvífna samþykki, að leyfa skólafólki að sleppa úr skólum, þar sem veikin er fyrir, til þess að dreifast út um allt landið. Mér er sagt að veikin sé nú upp komin á Ísafirði, og mér er ekki kunnugt um, að neitt hafi verið gert til þess að hindra það, að hún bærist þangað.

Ég vil benda á, að ráðh. vísar til landlæknis, og svo er kallað á hvern lækninn af öðrum, og auðvitað segir svo landlæknir, að menn viti ekkert um veikina og viti ekki um neinar varnir gegn henni. En til hvers erum við að hafa ríkisstj., til hvers erum við að hafa heilbrmrh., landlækni og læknaráð? Viljum við hafa þá til þess að gera ekkert? Þeir ættu ekki að vera of drýldnir.

Það hafa komið svipuð tilfelli áður, sem hafa valdið landinu óbætanlegum skaða. Það var fyrir tæplega tuttugu árum síðan í sambandi við búfé, sem flutt hafði verið inn í landið. Það var veikt þetta fé. Þá var sýnt hið mesta gáleysi í meðferð veikinnar, eins og nú er verið að gera. Veikin tók að breiðast út, hægt fyrst í stað. Þá þóttust þeir vita allt um hana og kunna öll ráð gegn henni, en síðar kom í ljós, að þeir vissu ekkert, eftir að búið var að eyða milljónum króna til einskis. Þá var það Alþ., sem tók málið í sínar hendur. Fyrst þið vitið ekkert, þá þýðir ekkert fyrir hæstv. menntmrh. að koma og segja: Þekkingin er með mér. —

Við ættum að varast að vera að ausa út milljónum til manna, sem eru hliðstæðir þeim mönnum, sem ráðh. er að púkka upp á. Þekking er engin hjá þessum mönnum og niðurstaðan er sú, að þegar þessir menn þykjast vera miklir, þá vita þeir ekkert.

Þinginu og þeim mönnum, sem hafa bein í nefinu, gefst nú tækifæri. Það verður að segja, að það hafi vanþóknun á þessu aðgerðaleysi, og sýna hvort ekki muni vera hægt að beita heilbrigðum skynsemiráðum.

Ég er ánægður með eitt, sem heilbrigðisstjórnin hefur gert í þessum málum, og það var þegar hún lét beita viðeigandi samgöngubanni í Fornahvammi. Það voru viðeigandi ráðstafanir, og ég tel það heppilegt, að ríkisstj. taki málið í sínar hendur, og til þess ætti að mega treysta heilbrigðismálastjórninni.