27.01.1949
Sameinað þing: 33. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 343 í D-deild Alþingistíðinda. (4619)

112. mál, mænuveikivarnir

Menntmrh. (Eysteinn Jónsson):

Já, það hefur ekki sérlega mikla þýðingu að vera að þreyta hér kappræðir við hv. flm. Hann nefnir sem dæmi um vanrækslu, að nemendum í Menntaskólanum á Akureyri hafi ekki verið bannað að fara heim til sín, eftir að búið var að loka skólanum vegna veikinnar. En ég vil taka það fram, að þeirri áskorun var beint til þessara nemenda að fara ekki burt úr bænum meðan skólanum vari lokað. Hins vegar var ómögulegt að setja á sérstakt samkomubann fyrir nemendur, meðan aðrir gátu farið frjálsir ferða sinna. Hann nefnir aðeins nemendur, sem farið hafa heim, en vitanlega var hliðstæð hætta af öðrum mönnum og nemendum. Þetta er því talað út í hött hjá hv. flm. Hins vegar varð það mjög til að draga úr ferðalögunum, að þessari áskorun var beint til nemendanna. Samgöngubann við Akureyri var ekki sett á, af því að það var ekki talið hafa neina þýðingu. Hvað viðkemur því að setja samgöngubann á landinu öllu, þá má segja, að það sé bara næstum því óframkvæmanlegt. Og þó að það væri framkvæmanlegt, hvaða afleiðingar mundi það hafa? Hefur hv. þm. gert sér nokkra grein fyrir því?

Þá segir hv. þm., að þingið hafi áður gripið fram fyrir hendur sérfræðinga og það geti eins gert það nú og ákveðið annað. En ef nú hv. þm. S-Þ. er svo viss um, að hann viti betur, hvers vegna flytur hann þá ekki till. um, hvaða aðgerðum skuli beita, — hvers vegna flytur hann ekki till. um, hvaða samgöngubanni skuli beitt og hvað gera skuli? Vill hann ekki út með sprokið? Nei, hann hefur ekki manndóm í sér til þess, hann lætur sér nægja að vera með eintómar dylgjur.

Svo var þm. að smeygja þeim rógi inn, að mér stæði alveg á sama, hvort menn veiktust annars staðar á landinu, ef Rvík slyppi. Ég gerði grein fyrir því áðan, í sambandi við skýrslu landlæknis, að ég hefði haft þéttbýlið í huga, er ég beindi spurningum mínum fyrir hann og læknaráð, en varðandi héruðin úti á landi hef ég þráfaldlega átt tal við landlækni, en mér fannst sem sé, að Rvík hefði nokkurrar sérstöðu að gæta vegna þéttbýlis.

Faraldur þessi hefur verið með alveg sérstökum hætti, og hefur verið gert allt til þess að rannsaka hann sem bezt, og hefur landlæknir í því sambandi haft samband við erlenda sérfræðinga og jafnframt sent tvo íslenzka sérfræðinga norður til Akureyrar, þá dr. Júlíus Sigurjónsson og dr. Björn Sigurðsson, til þess að safna þar gögnum til rannsókna, sem einnig verða send til útlanda til frekari rannsókna.