31.01.1949
Sameinað þing: 34. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 357 í D-deild Alþingistíðinda. (4631)

112. mál, mænuveikivarnir

Menntmrh. (Eysteinn Jónsson):

Hv. þm. Barð. sagði og hafði um það mörg og stór orð, að sér hefðu verið gerðar getsakir, þar sem hann hefði ekki sneitt neitt að Jóni Hjaltalín í ræðu þeirri, sem hann flutti í málinu fyrst. Hv. þm. Barð. ætti að minnast þess, sem hann sagði með mikilli fyrirlitningu, og má vera, að aðra þm. reki minni til þess, að ríkisstj. hefði ekkert aðhafzt í þessu máli annað en að senda gamalmenni, komið yfir sjötugt, norður á Akureyri í sambandi við málið. Þetta voru óviðurkvæmileg orð, sem hv. þm. Barð. vill ekki viðurkenna, að hann hafi sagt. Má sjálfsagt skilja það svo, sem hann taki þessi orð sín aftur, og má þá við það una.

Út af því, sem hv. þm. S-Þ. sagði um þetta, sem var margt, skal ég ekki vera langorður, en vil aðeins rifja upp í nokkrum setningum, hvernig málið hefur legið fyrir, þó að ég geri ráð fyrir, að þm. hafi nú áttað sig á þessu.

Það liggur fyrir í þessu máli og hefur ekki verið rengt, að menn vita ekki, með hvaða móti mænuveikin berst út, hvort hún berst eingöngu með fólki eða hvort hún berst með vörum og ef svo er, þá hvernig. Menn vita ekki, hve lengi vírusarnir, sem eru orsök veikinnar, kunna að lifa, og því ekki, hve lengi smitunarhættan kann að vara. Þannig er ástatt um þekkingu manna á þessari veiki. Líka lá fyrir, að veikinnar hafði orðið vart víðar um land. Þegar fór að bera á henni á Akureyri sem farsótt, voru kvaddir til ráða af hálfu heilbrigðisstjórnarinnar þeir helztu sérfræðingar, sem völ var á, til þess að gera uppástungur um, hvað ætti að gera og sérstaklega, hvort hægt mundi vera að setja á samgöngubönn. Þeir hafa allir undantekningarlaust verið sammála um, að af hálfu heilbrigðisstjórnarinnar væri ekki vert að leggja á samgöngubönn né gera aðrar ráðstafanir, en þær einstaklingsráðstafanir, sem þm. hafa minnzt á hér, t. d. að draga úr skólahaldi, þar sem mest ber á veikinni. Um þetta hafa sérfræðingarnir verið sammála. Hefði nú átt að leggja á samgöngubann á Akureyri um nokkurra mánaða skeið og þar að auki kaupstaði, t. d. Sauðárkrók og aðra staði, þar sem mænuveikitilfella hefur orðið vart, hefði það hlotið að trufla allt þjóðlífið í marga mánuði og baka margra milljóna króna tjón. Ég vil spyrja hv. þm., hvort nokkur heilbrmrh. hefði leyft sér að gera slíkt, eins og þetta mál lá fyrir. Þannig hefur þetta mál legið fyrir. Það, sem heilbrigðisstjórnin hefur gert, er það, að hún hefur látið vita, þegar tilefni hefur gefizt til þess, að ef héruðin vildu sjálf einangra sig, mundi heilbrigðisstjórnin samþykkja það fyrir sitt leyti og láta þau ráða því. En þegar hv. þm. S-Þ. er að tala hér um, að hinir og þessir staðir hafi gert hin og önnur afvik, þangað komi menn og með þeim berist mænuveikin, mætti spyrja, af hverju þessi héruð hafi ekki hafizt handa um að einangra sig, þar sem ekki hefur staðið á heilbrigðisstjórninni. Slíkar óskir hafa ekki komið úr héruðunum. Það er aðeins eitt hérað, sem farið hefur út í að setja slíkt bann, Svarfdælahérað, og leysti það bannið fyrir jólin. — Til marks um það, hve erfitt er að átta sig á veikinni, má geta þess, að á stað eins og Siglufirði, sem hefur verið í sambandi við Akureyri allan tímann, hefur ekki neitt orðið vart við veikina, en austur í Rangárvallasýslu hefur mænuveiki orðið vart. Sannleikurinn er sá, að ég hygg, að allir sanngjarnir menn séu sammála um það, að í aðalatriðum hafi heilbrigðisstjórnin haft í þessu heilbrigða stefnu og hefði ekki getað hagað sér öðruvísi.