31.01.1949
Sameinað þing: 34. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 365 í D-deild Alþingistíðinda. (4636)

112. mál, mænuveikivarnir

Frsm. (Jörundur Brynjólfsson):

Það er nú í sjálfu sér lítið á frekari umr. að græða. Það hefur ekki komið neitt nýtt fram hjá hv. þm. S-Þ., því að það liggur við, að hann svari úr austri, þegar til hans er talað úr vestri. Svona er röksemdafærsla hans í þessu máli. Hann talar um, að það sé ekkert leikspil, sem gerzt hefur, og ekki gott fyrir fólkið, sem fyrir því verður. Hver er að tala um það? Ég er ekki viss um, að við, sem bendum á, hver vandkvæði eru á meðferð málsins í framkvæmdinni, höfum minni tilfinningu fyrir því en hv. þm. S-Þ., hve alvarlegt málið er, hve miklum óþægindum það veldur og hve erfitt viðfangs það er. Ef hann hefði verið það vitrari en við, að hann hefði getað sagt: Þið verðið að slíta sambandi við Akureyri, þar verður sjúkdómurinn skæður, og það má gera ráð fyrir, að hann breiðist út þaðan og að margir taki sjúkdóminn, — þá hefði málið horft öðruvísi við. Það er skakkt með farið, að ekkert hafi verið gert til að stemma stigu fyrir útbreiðslu sjúkdómsins. Á Akureyri hefur skólum verið lokað, og þar er samkomubann. En fólkið er við sín daglegu störf. Það er býsna erfitt að ganga lengra innan héraðs, en þar var gert. Hv. þm. minntist á Sauðárkrók. Þar var veikin allskæð og margir tóku hana, en ég vil benda honum á, að veikin kom upp samtímis á báðum stöðunum, Akureyri og Sauðárkróki. Nú er um nokkuð mörg sjúkdómstilfelli að ræða á þessum tveimur stöðum, en hver er kominn til að segja um það fyrir fram, hvernig þetta kann að verða á öðrum stöðum? Ef svo skyldi fara, að hún breiddist mikið út, t. d. hér í Rvík, þá ætti vissulega að setja á samgöngubann. Ef veikin svo færi að dreifast út í öðrum héruðum landsins og samgöngubann yrði við Akureyri, hvað á þá að gera? Annars segja læknar, að veikin hagi sér með öðrum hætti á Akureyri en hún hafi gert nokkurs staðar annars staðar, ekki eingöngu hér á landi, heldur í öðrum löndum, og menn vita ekki, hvernig á þessu stendur og eru meira að segja alls ekki vissir um, að það sé þessi veiki í öllum tilfellum. — Ég get svo látið máli mínu lokið.