19.11.1948
Sameinað þing: 19. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 370 í D-deild Alþingistíðinda. (4671)

29. mál, vöruskömmtun o.fl.

Flm. (Katrín Thoroddsen):

Herra forseti. Á þskj. 30 höfum við hv. 8. landsk. og hv. 2. þm. S-M. flutt þessa till. — Það er kunnara en frá þurfi að segja, að vöruskömmtun sú, er upp var tekin hér á landi fyrir um það bil einu ári síðan, hefur farið í hinum mestu handaskolum, og það svo mjög, að fullyrða má, að engin af gerðum núverandi valdhafa hafi vakið meira né almennara hneyksli. En sú staðreynd byggist auðvitað á því einu, að skömmtun nauðsynja er svo nátengd öllu daglegu lífi manna, að hver og einn, jafnvel þeir, sem sljóasta hafa eftirtektargáfuna og hugsunarlatastir eru, hljóta óhjákvæmilega að reka sig á galla skömmtunarfyrirkomulagsins og neyðast til að taka afstöðu til þeirra; en svo er ekki um margar aðrar illar gerðir ríkisstjórnarinnar. — Áhrifa þeirra gætir að jafnaði seinna og þau eru almennara eðlis og því ekki strax augljós öðrum en þeim, sem opin hafa augun og nenna að hugsa, nenna að kryfja hlutina til mergjar, en þeir menn eru enn þá helzt til fáir með þjóð vorri.

Ætli hæstv. viðskmrh. geti ekki verið viðstaddur? (Forseti: Ég skal láta athuga það. Hæstv. ráðh. veit, að málið er til umr.)

Þó að fæsta hafi órað fyrir því, að skömmtunin færi eins hörmulega úr hendi og orðið hefur, var samt fyrirsjáanlegt þegar í upphafi, að ekki var von á góðu, kerfið sjálft ósanngjarnt og ambögulegt, en allur aðdragandi skömmtunarinnar með þeim hætti, að aðgætnum mönnum hraus hugur við. Því var það, að ég flutti í þingbyrjun í fyrra, um sömu mundir og skömmtunin kom til framkvæmda, till. til þál., er gekk í þá átt, að skömmtunarkerfi það, sem í gildi virtist vera, yrði afnumið, en annað betra, þ. e. a. s. hentugra og réttlátara, sett í þess stað, enda væri það undirbúið af hæfum mönnum. Um tillögu þessa urðu nokkrar umræður hér í sameinuðu þingi, og varð viðskmrh. til að andmæla henni sem óþarfri. Hann viðurkenndi að vísu, að smávegis gallar væru á fyrirkomulaginu, en þeir mundu lagfærðir jafnóðum og þeir kæmu í ljós; að öðru leyti kvað hann skömmtunaraðferðina góða í grundvallaratriðum, hún væri hagkvæm í framkvæmd, hún væri réttlát, þar sem öllum væri gert jafnt undir höfði, hver maður fengi sinn skammt nauðsynja, og hún væri rúm, meira að segja mjög rúm, þegar höfð væri hliðsjón af því, hve vel birgir allir, sem hann þekkti til, væru af nauðsynjavörum, einkum klæðnaði. Þessu áliti sínu til frekari áréttingar las ráðherrann upp bréf, sem embættismaður sá, er skömmtunina hafði með höndum, hafði skrifað yfirmanni sínum, viðskmrh., að gefnu tilefni, þ. e. a. s. framkomu umræddrar tillögu. Bréf þetta bar með sér, að þeir voru mjög á einu máli, viðskmrh. og embættismaður hans. Þannig lét skömmtunarstjóri í ljós í bréfinu megna andúð á allri gagnrýni, eins og ráðherrann hafði líka gert og einnig fór skömmtunarstjóri afar ómjúkum orðum um alla gagnrýnendur og hvatir þær, sem þá rækju til sinnar illu iðju, alveg eins og ráðherrann hafði gert í fyrstu ræðu sinni. Og af þessum mikilvægu forsendum dró skömmtunarstjóri þá rökréttu ályktun, að þáltill. væri óþörf, alveg eins og ráðh. hafði gert.

Afdrif umræddrar tillögu urðu þau, að afgreiðslu hennar var frestað og hún falin allshn. til nánari athugunar, og þar sofnaði hún svefninum langa, ásamt öðrum tillögum, er höfðu að geyma endurbótakröfur á skömmtunarkerfinu. En þó svo færi um allar þessar tillögur, að þær urðu ekki útræddar og afgreiddar af hinu háa Alþingi, þá báru þær sjálfar eins og umræðurnar, sem af þeim spunnust innan þings og utan, ofur litinn árangur í þá átt að lagfæra eða flýta fyrir lagfæringum á sjálfu úthlutunarkerfinu, bæta úr órétti og draga úr firrum, sem þar fundust ekki allfáar. Það er rétt að rifja upp, hverjar þessar lagfæringar voru, því að bæði er skylt að geta þess, sem gert er, og eins er hollt að minnast þess, að jafnvel „góðu, rúmu, hagkvæmu og réttlátu“ skömmtunarkerfi má breyta svo, að betur fari, og enn, að gagnrýnin getur þó verið til nokkurra nytja.

Þannig var fljótt hætt að torvelda með skömmtun sölu á prjónlesi úr íslenzkri ull og ullinni sjálfri. En rétt er að minnast hins, að í engu var þeim neytendum bætt, er eytt höfðu af naumum vefnaðarvöruskammti sínum til slíkra kaupa, a. m. k. kom engin dagskipun frá skömmtunarstjóra þar að lútandi í blöðum eða útvarpi. Þá hafði og fengizt nokkur leiðrétting á úthlutun heimilda til benzínkaupa, þannig að læknar og hjúkrunarfólk gátu haldið starfi sinu áfram, óhindrað af benzínskorti. Atvinnubílstjórar fengu einnig svolítið aukinn benzínskammt, en hvergi nærri nægan til að halda óskertum atvinnutekjum sínum. Sjómenn fengu og lítils háttar rýmri sykur- og kaffiskammt, en þó allsendis ónógan, og eftir honum þarf að ganga við hverja vertíðarbyrjun, sums staðar a. m. k. Þá var og verkamönnum látin í té aukaheimild til kaupa á vinnufötum og vinnuskóm, hvort tveggja eftir að þeir Sigurður Guðnason og Hermann Guðmundsson höfðu lagt fram till. til þál. þar að lútandi. Þá var einnig sjálfur skömmtunarseðillinn færður í nothæfara horf með því að fleirskipta honum; og svo má ekki gleyma heimanfylgjunni til handa nýgiftum hjónum, 1.500 kr. innkaupaheimild, sem er að vísu rétt til hnífs og skeiðar, ef svo má orða það, þó að ekki sé loku fyrir það skotið, að hjónakornunum takist að koma sér upp vísi til búslóðar, ef þau eiga góða að, vini, sem völdin hafa og vörurnar. Upptalningu endurbótanna mun lokið, er nefnt hefur verið afmæliskaffið til aldraðra og þrjú hundruð króna seðillinn, sem vanfærum konum er fenginn í hendur til að sveipa í nýfædd börn sín, er þar að kemur, en þau fæðast nakin, svo sem kunnugt er. — Allar eru endurbætur þessar naumt við nögl skornar — nema benzínskammturinn til lækna, það skal viðurkennt — og allar eru endurbæturnar, eins og raunar öll „vöru“-skömmtun hér á landi, fólgnar í því einu að útbýta innkaupaheimildum án minnsta tillits til þess, hvort út á þær sé nokkuð að fá eða ekkert.

Nú liggur það í augum uppi, að það eitt að rétta mönnum innkaupaleyfi nægir ekki til vöruskömmtunar, nægir ekki til að tryggja hverjum einum ákveðinn skammt nauðsynjavara. Þvílík vinnubrögð geta verið ágæt í búðarleik og jafnvel í mömmuleik líka; frjótt ímyndunarafl barnsins getur hæglega breytt bréfsneplum í hvað sem vera vill: klæðnað, skó, sokka, lín, léreft, handklæði, ullardúka og ullargarn og yfirleitt hvað sem heiti hefur. En fullorðið fólk hefur misst þann hæfileika og verður gramt í geði, séu því enn ætluð slík töfrabrögð, og þegar nauðþurftir þess eiga í hlut, verður fulltíða fólk sárt og reitt þess háttar leikaraskap. Fullorðið fólk, og raunar börnin með þegar til kastanna kemur, þykist eiga og á heimtingu á „alvöruskömmtun“, þ. e. a. s. skömmtun, sem er svo réttlát, hentug og örugg sem kostur er á, en hitt er móðgun við íslenzka alþýðu og heilbrigða skynsemi hennar og siðgæðishugsjónir að bjóða upp á þann ljóta leik, sem leikinn hefur verið hér s. l. ár.

Skömmtun nauðsynja, hvort heldur er á smábýli eða stóru þjóðarbúi, er ávallt ábyrgðarmikið og vandasamt verk; það er öðrum þræði fólgið í öflun og aðdrætti varanna, sem skammta á, varðveizlu þeirra og dreifingu, en að hinu leytinu aðgæzlu, svo að komið verði í veg fyrir óréttlæti, misskiptingu, svík og svartamarkaðsokur. Hvert einasta þessara grundvallaratriða vöruskömmtunarinnar hefur verið vanrækt af skömmtunaryfirvöldunum, eins og raun ber vitni um. Illt var upphafið, áframhaldið verra. Í stað þess að hyggja að birgðum, sem fyrir voru, og varðveita þær var látið berast út, hvað í aðsigi væri, og um tveggja mánaða skeið geystust sölsarar eða hamstrarar milli verzlana og sópuðu til sín öllu, er hönd á festi. Þá var allt keypt, eins og í Heljarslóðarorrustu stendur, nema hvað einstaka forsjálum framkvæmdamanni tókst stundum að skjóta í skyndi „bak við“ pakka og pakka í þeirri trú eða vissu, að góðir dúkar og dreglar væru gulltryggðum seðlum betri, er til eignakönnunar kæmi. En þótt ef til vill hafi ekki verið mikil brögð að slíkum „undandrætti“, er hitt víst, að búðir tæmdust svo að segja af vörum þeim, er seinna urðu háðar skömmtun, og einnig af ýmiss konar varningi öðrum, sem ekkert heimili getur sér að meinfangalausu án verið og síðan hefur ekki eða sama sem ekki sézt í búðum eða á opnum markaði, til mikils baga fyrir fjölda fólks. Þó munu ekki þær vörur allar uppurnar í landinu, því að fámennur hópur manna virðist sæmilega birgur af þeim og ýmsum öðrum vörutegundum, sem almenning vanhagar annars mest um. Og þeir eru sumir hverjir svo aflögufærir á stundum, að þeir geta miðlað einstöku kunningjum og viðskiptamönnum ofur litlu, ef fast er sótt á eða fleira keypt. Upprunalega mun hér aðeins hafa verið um að ræða venjulega greiðasemi, að því er flesta leikmenn snertir, en forsjálni hins útsjónarsama verzlunarmanns, að því er kaupsýslustéttina áhrærir.

Þess má sjá sorglega mörg dæmi, að roti er kominn í verzlunarmálin, roti, sem ekki er ólíklegt, að eigi upptök sín í meinsemdinni miklu á Suðurnesjum. Bandaríkjamenn, er á Keflavíkurflugvelli dvelja illu heilli, selja ekki einungis dollara á fjórföldu verði, heldur smygla þeir líka inn ótal vörum og vörutegundum, bæði til eigin neyzlu, því að ekki eru þeir háðir vöruskömmtun sem aðrir útlendingar, er hér dvelja, og einnig til sölu á svörtum markaði með mörg hundruðfaldri okurálagningu, því að ekki er sú verzlun háð verðlagseftirliti, enda mundi erfitt að koma slíku við, þar sem bæði innflutningurinn og verzlunin er brot á íslenzkum lögum. En dómsmrh. landsins skortir bæði dug og djörfung til að halda uppi lögum, ef Bandaríkjamenn eiga í hlut, enda væri það við öflugan að etja, þar sem er utanrrh. með sín vesturheimsku viðreisnaráform.

Siðspilling er smitandi sjúkdómur, og þegar sjálf yfirvöldin, sem hefta skyldu útbreiðslu hans, eru gegnsýrð af honum og halda verndarhendi sinni yfir honum, svo sem gert hefur verið frá fyrstu tíð Keflavíkursamningsins, er mikil hætta á, að sóttin elni og útbreiðist, enda er svo komið, að hvers konar prang og pukursala er orðin óhugnanlega tíð og að því er sumar vörutegundir áhrærir tíðari en opin verzlun. Auðvitað gætti þessa fyrst og mest í námunda við meinið sjálft, flugvöllinn, en áhrifa verður nú vart um land allt, auk setuliðssölunnar. Hamstrið, er geisaði um tveggja mánaða skeið, áður en skömmtunin kom til framkvæmda, átti drjúgan þátt í að undirbúa jarðveginn og útbreiða svarta markaðsfaraldurinn, sem gallar skömmtunarfyrirkomulagsins hafa haldið við. Hvers vegna því hamsturskaupæði, sem síðan hefur geisað og ágerzt, var komið af stað, er ekki að fullu upplýst enn; að þar hafi verið um hinn sama eðlisbundna klaufaskap að ræða og fyrst og síðast hefur einkennt allar gerðir skömmtunaryfirvaldanna, er augljóst mál. En klaufaskapurinn var og er aðeins framkvæmdaratriði, en ekki orsök, hennar er annars staðar að leita, því að útilokað er með öllu, að ekki hafi verið vitandi vits til verks gengið, annars mundi öll sala hafa verið stöðvuð, meðan birgðakönnun færi fram. Það var ekki gert, það var bókstaflega ekkert aðhafzt fyrr en verzlanir tóku að tæmast, þá var loksins byrjað á því káki að krefjast svonefndra „nótukvittana“ af kaupendum. Til nótanna hefur ekki síðan spurzt, enda áttu þær þann eina tilgang að fela þá raunverulegu orsök til birgðaeyðslunnar.

Þess var til getið, er umræður fóru fram um skömmtunarmálin í fyrra hér á þingi, að verzlunarstéttin hefði heimtað þessi fríðindi af stjórninni sinni til þess að fást til að fallast á vöruskömmtun. Ekki er ósennilegt, að svo hafi verið og ríkisstj. þá tekið þeim kröfum vel, litið á þær sem veigamikinn lið í þeim viðreisnaráformum sínum að gera íslenzku þjóðina móttækilegri fyrir bandaríska aðstoð. Sálfræðilega séð er hugsanlegt, að viðskmrh., sem málum þessum stjórnar, hafi minnzt gamalla flokkssamþykkta og í raun og veru ætlað að gefa öllum kost á að hamstra allsnægtir, áður en skömmtunin hæfist. En þar sem hann er kominn úr sambandi við alþýðu landsins, er ekki að undra, þó að honum hafi láðst að hugsa til hinna mörgu, sem algerlega voru útilokaðir frá kapphlaupinu ýmissa hluta vegna, sumir voru að hirða um hey, aðrir úti á sjó, sumir áttu ekki heimangengt sökum veikinda sjálfra sín eða annarra, og svo má lengi telja. Einhvers staðar stendur: Fátæka hafið þér jafnan hjá yður, — það er því miður enn satt, og fátæklingar eru dæmalausir klaufar við að birgja sig upp af vörum og öðrum þessa heims gæðum.

En það er ekki hægt að muna eftir öllu saman, og ef til vill hefur ekki verið um gleymsku að ræða hjá stjórnarvöldunum, hugsanlegt er og margt, er síðar hefur fram komið, virðist benda í þá átt —, að ríkisvaldið hafi einmitt minnzt þessa lýðs og verið ósárt um, þó að þess sæjust einhver merki, hverjir eru fínir menn og hverjir ekki. Og hafi það verið tilætlunin, verður ekki annað sagt en hún sé vel á veg komin að marki. Það er þegar orðinn meiri mannamunur, að því er klæðnað snertir, en verið hefur síðan á dögum þjóðstjórnarinnar eldri. Svo sáralitlar voru birgðir margra, að þeir þoldu ekki eins árs ráðsmennsku fyrstu stjórnar, er Alþfl. myndar á Íslandi, án þess að láta á sjá.

En ekki er hægt að kenna hamstursöldinni fyrstu um það einni saman, hve illa skömmtunin hefur leikið mörg heimili og einstaklinga, og ekki er heldur sökin sú, að skammtað hafi verið úr hnefa féð úr fjárhirzlum ríkissjóðs til framkvæmdanna. Á þskj. nr. 37 eru prentaðar í grg. þær upplýsingar, að skömmtunarskrifstofan hafi kostað á þeim eina ársfjórðungi, sem fyrir liggur kostnaðargreinargerð um hana, þ. e. apríl–júní 1948, kr. 217 þúsund, þ. e. a. s. 868 þús. kr. á ári að minnsta kosti, og mun það fremur talið van en of, ef að líkum lætur. Skömmtunaryfirvöldunum er ekki alls varnað. Þau kunna sannarlega að skammta sjálfum sér kaup og kostnað. 868 þús. kr., það er há upphæð að greiða fyrir ekki fjölmennari hóp en Íslendingar eru, og varla getur sú þjóð, er slíka ofrausn sýnir, verið svo á bláhjarni stödd, að hún þurfi að lifa á bónbjörgum og selja land sitt og sjálfa sig í þokkabót, en e. t. v. á að líta á þessa óhófseyðslu sem lið í viðreisnaráformum ríkisstj., sem á að gera þjóðina móttækilega fyrir bandarísku „hjálpina“, og er sú tilgáta ekki ósennileg, þegar þess er gætt, hve ófyrirleitinni ónærgætni hefur verið beitt á öllum sviðum skömmtunarinnar, innflutningi, birgðagæzlu, dreifingu og skiptingu.

Innflutningurinn hefur verið með áþekkum hætti og á öldum áður, er vöruskort leiddi einatt af, er skipakomur tepptust, en þó frábrugðinn í því, að þrátt fyrir miklar skipagöngur er vöruskorturinn ekki aðeins yfirvofandi, heldur staðreynd, „krónískt“ ástand og það meira að segja ólæknandi hvað margar vörutegundir snertir og sum byggðarlög.

Nú er það vitað, að alltaf tekur það tíma að fá vörurnar afgreiddar erlendis og hann stundum alllangan. Þetta má bæði fjárhagsráði og viðskiptanefnd vera vel ljóst og er það sjálfsagt líka, þó að ekki verði fundið, að viðskiptanefnd að minnsta kosti hafi skeytt hið allra minnsta um þau vandkvæði, og er það til hins mesta baga og kostnaðarauka, svo að ekki sé fastar að orði kveðið, fyrir innflytjendur, iðnfyrirtæki og neytendur. Hvað vöruskömmtuninni viðvíkur liggur það í augum uppi, að ógerningur er að standa við gefin heit, standa skil á úthlutuðu vörumagni, meðan sá háttur er á hafður að leyfa ekki innflutning varanna fyrr en í ótíma, og það því fremur sem öllum birgðum var útausið í upphafi. Hvort það er föst regla hjá viðskiptanefnd að starfa þannig, veit ég ekki, en þetta er sú skýring á vöruskortinum, eða fyrirsláttur, sem neytendur fá óspart í eyra frá hinum raunverulegu skömmtunarstjórum, kaupmönnum og heildsölum.

Á viðskiptanefnd hvílir ekki sá vandi einn að annast um, að leyfisveitingar til innflutnings skömmtunarvara tefjist ekki svo úr hófi fram, að úthlutaðar innkaupaheimildir og vörumagn fái ekki staðizt á hverjum tíma, heldur ber henni auðvitað einnig að gera í samráði við skömmtunarstjóra ráð fyrir nægu magni nauðsynja og óhjákvæmilegum aukaúthlutunum skömmtunarvara, t. d. vegna slysa, bruna eða aukinnar rafmagnsnotkunar. Þá verður einnig að gera ráð fyrir einhverjum vanhöldum líka, en þau verða vitanlega því minni, því betur sem vöruinnflutningurinn er samræmdur þörfum neytenda, sem auðvitað eiga heimtingu á að fá sinn ávísaða skammt keyptan fyrirhafnarlítið við sanngjörnu verði og undirmálalaust. Og þegar innkaupaheimildir eru jafnnaumar og verið hefur s. l. ár, á neytandi einnig fulla heimtingu á, að gæði vörunnar og notagildi séu þannig, að unnt megi vera að komast af með skammtinn, auðvitað með varfærni og nýtni. Og þar sem álnavöru- og búsáhaldaskammturinn er einnig miðaður við peningaverð, á neytandi heimtingu á, að eitthvert samræmi sé milli verðlags og vöruskammts.

Það er skemmst frá að segja, að ekki hafa neytendur orðið þess varir, að nokkur samvinna hafi verið milli leyfisveitinga viðskiptanefndar og úthlutunar skrifstofu skömmtunarstjóra að því er við kemur vali, magni og innflutningi skömmtunarvara, og vera má, að sú sé ein orsökin til þeirrar fálmkenndu hringavitleysu, sem vart verður í öllum gerðum skömmtunarstjórans, hann er með í öllu, en þó um leið utangarðs að því er bezt verður séð.

Hjá viðskiptanefnd virðist handahófið eitt ráða innflutningnum og alls konar munaður, skran og óþarfi látinn sitja fyrir varningi, sem ómögulegt er að komast af án: sódi, ræstiduft, skósverta, bón, tannpasti, greiður, tvinni, stoppgarn, sokkabönd, gólfklútar, klemmur, barnableyjur, varahlutir í saumavélar, jafnvel saumnálar. Erfitt er að fá algeng lyf. Og hvað innflutningi skömmtunarvara viðvíkur virðist viðskiptanefndin láta innflytjandann, heildsalann, um það, hvernig vörurnar séu valdar með tilliti til magns, gæða og notagildis, og það kemur líka í þeirra hlut að annast birgðavörzlu og dreifingu, og er sú ráðabreytni hvorki til að drýgja vöruna né draga úr kostnaði. Auðvitað fer þó bæði varzla og dreifing fram undir umsjá skömmtunarstjóra, sem fær vitneskju um allt, sem inn er flutt, og gefur sínar fyrirskipanir þar að lútandi, og þær eru rétt nefndar dagskipanir, því að ekki sýnast vera nein föst ákvæði um það, hvaða tegundir álnavöru t. d. eru háðar skömmtun og hverjar ekki, og oft fer það svo að þegar sala er nýafstaðin, það tekur ekki svo langan tíma að koma út vörum nú á dögum, koma fyrst skyndiboðin frá skömmtunarstjóra, að ekki hafi átt að krefjast miða fyrir vöruna, en þau boð koma of seint, svo að kaupmaðurinn getur ekkert annað aðhafzt en yppt öxlum og athugað, hvaða skömmtunarvöru hann geti selt miðalaust í staðinn, svo að allt standist á endum, vörumagn og miðar, á skiladaginn mikla.

Um undanþágurnar svo nefndu eða aukaskammtinn er svipaða sögu að segja, þar virðist engin föst regla á komin, hvenær beri að veita aukaskammt, né heldur, hver eigi að gera það, hvort það sé heldur skömmtunarstjóri sjálfur, einhver undirmanna hans eða úthlutunarstöðvar sveitarfélaganna. Og þau eru ekki fá samtölin, skeytin, bréfin og ferðirnar, sem það kostar að fá úr slíku skorið. Ákvörðun í hverju einstöku tilfelli virðist alltaf tekin eftir mikið þóf, og auðvitað ganga þær oft og tíðum í berhögg hver við aðra.

Skömmtunarstjórinn hefur þannig í nógu að snúast og ekki að undra, þó að lítt vinnist tími til að sinna aukastörfum, svo sem að skipuleggja skömmtunina þannig, að hver landshluti, hver neytandi fái sinn skammt og engar refjar séu viðhafðar.

Það er á allra vitorði, að hvort tveggja verzlun og dreifing skömmtunarvaranna er framkvæmd eftir meginreglunni: Hver er sjálfum sér næstur. Fyrst hugsar heildsalinn um sig og sína, sem þrátt fyrir ítrekaðar utanferðir þurfa á sínum skammti að halda hér heima, þó að þeir komi uppdubbaðir frá hvirfli til ilja, yzt sem innst. Auk þess á heildsalinn oft hlut í iðnfyrirtæki og lætur það vitanlega sitja fyrir með hráefnin, svo á hann líka stundum smáverzlun, sem hann verður að sjá um, að hafi vörur, þar næst koma vinir og kunningjar, síðan smákaupmenn og iðnfyrirtæki, sem heildsalinn á ekki í, en er þó vandabundinn á einhvern hátt, og að síðustu, ef eitthvað gengur af, koma smásalar og iðnfyrirtæki, sem ekki eru svo gróin í greininni, að þau haft föst sambönd, og lifa því á snöpum, og fá þeir hinir sömu oft og einatt fyrirmæli um það, hverjir skuli viðskiptanna njóta hjá þeim. Sagan endurtekur sig síðan „bak við“ hjá kaupmanninum, og ef eitthvað gengur þá af, eru leifarnar bornar á borð fyrir þá, sem í biðröðum híma, en það er fólk, sem að vísu ekki er svo vinasnautt, að það fái ekki vitneskju um, að fanga sé von, en þó ekki svo hátt sett, að það komist „bak við.“ Að þessu biðraðafólki sankast svo þeir, sem engan eiga að nema kannske eitt kaupfélag eða svo, og eru sem slíkir ekki aufúsugestir í búðum kaupmannanna, nema þeir beini verulegum hluta viðskipta sinna þangað. Vitanlega eru það aðeins þeir, sem fremstir eru í biðröðunum. sem einhverja úrlausn fá, hinir eru miklu fleiri, sem verða að sætta sig við seðlana eina. Og eins og til að koma í veg fyrir, að sá lýður fari að gera sér gyllivonir um kaup, þegar vörur koma næst, er skammtur hans ýmist afnuminn skyndilega, felldur úr gildi, síðan framlengdur aftur, en þá klipptur til hálfs.

Skylt er að geta þess, að ekki eiga allir kaupsýslumenn óskilið mál, til eru undantekningar, er reyna að skipta sem jafnast milli kaupenda þeim vörum, sem fyrir hendi eru, án tillits til viðskiptaveltu eða kunningsskapar. Svo er um stöku kaupmenn og líklega flest, ef ekki öll kaupfélög, en ekki sýnist sú ráðabreytni vinsæl hjá þeim, sem völdin hafa, og eru þeir, sem þannig haga sér, oftast nær afskiptir í innflutningi þeirra vara, sem mestur hörgull er á, svo sem skófatnaði, álnavöru og búsáhöldum.

Sá verzlunarmáti, sem hér hefur tíðkazt, síðan vöruskömmtun var upp tekin og ég hef nú drepið lauslega á, er ef til vill mannlegur og skiljanlegur, þegar höfð er hliðsjón af aðstæðum öllum, aðhald ekkert annað en óánægja almennings annars vegar, en ólöglegur innflutningur og svartimarkaður rekinn undir verndarvæng ríkisstj. að hinu leytinu. En ekki er unnt að kalla svona verzlunarháttu frjálsa verzlun, þó að hún sé hömlulítil. Enn síður er hægt að kalla þá holla og heilbrigða né vel til þess fallna að auðvelda verðlagseftirlitið, koma í veg fyrir misskiptingu, og þó allra sízt til að torvelda svartamarkaðsokur, enda mun slíkt aldrei hafa verið tilætlun stjórnarvaldanna.

Vöruskömmtun getur aldrei orðið nema afskræmi með svona háttalagi, og meira að segja rándýrt afskræmi af ævintýrunum gömlu um olnbogabörn og eftirlætisgoð. Því er svo komið, að allur almenningur lítur á skömmtunina sem beinan fjandskap, er að sér sé stefnt af hálfu valdhafanna. Til slíkrar afstöðu íslenzkrar alþýðu til skömmtunarinnar hefði ekki þurft að koma, ef skipulega hefði verið til verks gengið og heils hugar fylgt máli hjá þeim, sem mál þessi höfðu með höndum. Íslenzk alþýða er langreynd í því að skammta sér og sínum naumt nauðsynjarnar. Svo að segja hvert alþýðuheimili hefur af efnahagsástæðum þurft að grípa til víðtækrar skömmtunar á þurftarvörum sínum um lengri eða skemmri tíma og allt of margir mátt búa við slíka skömmtun ævilangt: Það má segja, að íslenzk alþýða hafi haft öll skilyrði til að taka því með jafnaðargeði og möglunarlaust, þó að grípa þyrfti til vöruskömmtunar í þjóðarbúinu, og það því fremur sem ástæðan til þess var sögð sú, er þjóðin þekkti fullvel af aldalangri þungri raun, vöruskortur og fjárþröng.

Sú varð líka raunin á, að þegar samþ. var á Alþ. vorið 1947, í lögum um fjárhagsráð, innflutningsverzlun og verðlagseftirlit, heimild til að hefja vöruskömmtun, ef þörf þætti, var því mætavel tekið af langsamlega flestum landsmönnum, og óhætt er að fullyrða, að svo er enn, mikill meiri hl. þjóðarinnar tekur á sig, án þess að fást um, þau óþægindi, sem vöruskömmtun hljóta einatt að fylgja. Og jafnvel þótt almenningur þyrfti enn um árabil að takmarka þurftir sínar, mundi það ekki mæta verulegri mótspyrnu, svo framarlega sem fólk vissi, að verið væri að búa í haginn fyrir framtíðina, verið væri að koma föstum fótum undir framleiðslu landsmanna og tryggja viðskiptajöfnuð við útlönd.

Fjárhag sinn vill þjóðin rétta við og tryggja, og hún vill gera það sjálf, án auðmýkjandi, ógnþrunginna betligjafa og án hengingarvíxla, hverju nafni sem þeir nefnast, um hjálp eða aðstoð. Íslendingar vita, að slík aðstoð verður alltaf fullkeypt áður en lýkur og getur kostað hana ekki einungis eigurnar, heldur jafnvel lífið sjálft, eða það, sem dýrmætast er — frelsið.

En íslenzk alþýða er ekki svo skyni skroppin, að hún þrengi að sér um þarfir fram án þess að vita glögg skil á ástæðunum til þrenginganna og síðan sætta sig við þær eða sigrast á þeim eftir því, sem til tekst. Sú leið, sem farin hefur verið s. l. ár, leiðir hvorki til sameiginlegra átaka né sigurs. Stefnubreyting er óhjákvæmileg, og það er skylda Alþingis að láta málið til sín taka og gera annað tveggja, létta þessu fargi af þjóðinni eða færa skömmtunina í það horf, sem viðhlítandi er.

Okkur, sem að till. þessari stöndum, er hér liggur fyrir, hefur komið í hug sú leið, að Alþ. feli ríkisstjórninni að skipa nefnd til að endurskoða skömmtunarkerfið og gera tillögur um málið í samráði við viðskiptanefnd. Till. þessari var útbýtt hér á Alþ. 21. okt., eða fyrir réttum mánuði síðan. Hún hefur því vonum seinna komizt á dagskrá og dregizt aftur úr öðrum málum, sem þó komu síðar fram. Hvernig svo sem á þeim drætti stendur, er hitt víst, að till. hefur samt komið að nokkrum notum, þó að í þagnargildi væri hér á Alþ., því að hæstv. viðskmrh. hefur getað komið sér upp nokkurri varnarstöðu. Því að till. var ekki fyrr fram komin en hæstv. viðskmrh. fór allt í einu að leggja eyrun við almennum umkvörtunum og óánægjuröddum, sem hann hafði í heilt ár látið sem vind um eyrun þjóta, og skipar nú nefnd til að athuga skömmtunarkerfið og gera umbótatillögur, líklega helzt með tilliti til starfshátta þeirra, sem skömmtunina höfðu með höndum, eða svo verður maður að ætla, þegar þess er gætt, að í þetta leyndarráð voru skipaðir einmitt þeir menn, er mest höfðu haft með vöruskömmtunina að gera, skömmtunarstjóri og sinn hvor maðurinn úr fjárhagsráði og viðskiptanefnd, auk verðlagsstjóra. Það fyrsta, sem almenningur fékk að vita um nefndarskipun þessa, var það, að kona eins nefndarmannsins skýrði frá skipun hennar á fundi kvenfélagabandalagsins, er haldinn var 26.–27. okt. s. l. En á þeim fundi hafði verið samþ. áskorun til ríkisstj. um að breyta skömmtunarkerfinu í það horf, er felst í till. þeirri, er hér liggur fyrir. — Það næsta, er gerist í málinu, er, að till. er tekin á dagskrá hér í sameinuðu Alþ. þ. 10. nóv., en hún kom ekki til umr. þann dag vegna annarra mála, er látin voru ganga fyrir. En þ. 13. nóv. skipar hæstv. viðskmrh. nýja nefnd hinni fyrri til aðstoðar til að gera endurbótatill. á skömmtunarkerfinu, og sú n. var skipuð konum einum, — en auðvitað ekki úr alþýðustétt, heldur „fínt fólk“, en greinagóðar konur, sem eflaust vinna af alúð og gera sér líka vel ljóst, hvað verkafólki og bændaheimilum kemur bezt.

Það má vera okkur flm. till. þessarar, sem hér liggur fyrir, ánægjuefni, að þessari kvennanefnd var í embættisbréfinu — eða hvað það nú heitir — falið að starfa samkv. samþ. kvenfélagasambandsþingsins, en þær voru, eins og ég gat um áðan, á þá lund, að skömmtunarkerfinu væri breytt í það horf, er till. þessi fer fram á. En þó að þessi till. hafi þannig hlotið viðurkenningu bæði stjórnarvalda og kvenfélagasambandsins, teljum við samt réttara, að Alþ. fjalli um hana líka.

Vil ég beina því til hæstv. forseta, að till. þessari verði vísað að umr. þessari lokinni til hv. fjvn. Ég hafði að vísu hugsað mér fyrst allshn., en tilmæli hafa borizt um, að hún færi til fjvn., — og hún er miklu betri nefnd og hefur rætt þessi mál mikið, eftir því sem ég hef frétt. —Till. sjálf er hv. þm. væntanlega kunn, þar sem hún hefur legið svo lengi frammi, og hún skýrir sig að mestu sjálf. Þó vil ég leyfa mér að drepa á fáein atriði, um leið og ég fer lauslega í gegnum hana, og hún er á þessa leið:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að skipa nú þegar þriggja manna nefnd, er endurskoði skömmtunarkerfi það, er nú tíðkast, og athugi jafnframt í samráði við viðskiptanefnd, hverja nauðsyn beri til skömmtunar hinna ýmsu vöruflokka, svo og hverra birgða aðfluttra lífsnauðsynja sé að vænta á næsta ári og hvernig innflutningi þeirra og dreifingu muni hagað, hve mikill hluti þeirra fari til verzlana og þaðan til neytenda og hversu mikið gangi til iðnaðarframleiðslu og hvaða vörutegundum og magni sú framleiðsla skili af sér aftur á innlendan markað.“

Ástæða til vöruskömmtunar getur í fyrsta lagi verið sú, að varan sé svo fágæt, að erfitt sé að útvega hana af þeim sökum, í öðru lagi, að hún sé svo dýr, að ekki séu ráð á að flytja inn nema rétt það bráðnauðsynlegasta magn hennar vegna kostnaðar, og í þriðja lagi sé óumflýjanlegt að takmarka sölu á henni vegna hættu á, að peningamenn sölsi til sín miklar birgðir, hamstri. Sé höfð hliðsjón af þessum ástæðum, virðist næg ástæða til að endurskoða nauðsyn á skömmtun hinna ýmsu vöruflokka. Hingað til hefur, að því er bezt verður séð, verið hafður sá háttur á að láta handahófið eitt ráða um það, hversu skuli takmarka söluna með skömmtun. Þannig er erfitt að koma auga á, hver nauðsyn ber til að skammta kaffi, sem nægt framboð er á, á erlendum markaði og ekki dýrara en svo, að örlítill hluti af ólöglegum innistæðum faktúrufalsara mundi nægja til margra ára kaffineyzlu þjóðarinnar, auk þess sem það verður að teljast í hæsta máta ósanngjarnt að meina sjómönnum, verkafólki og gamalmennum — svo að ekki sé um aðra talað — að fá sér kaffisopa til hressingar, meðan veittur er innflutningur á efnivörum til nýtízku glundurs eins og kókakóla og það selt takmarkalaust, en á hinn bóginn engar líkur á, að fólk hamstri kaffi, því að það dofnar við geymslu. Þá er ekki heldur ástæða til að ætla, að menn hamstri til sín hreinlætisvörur eða búsáhöld, en hvort tveggja eru hlutir, sem ekki má án vera. Og þá virðist vera full þörf á, að menn þeir, sem mál þessi hafa með höndum, fái einhverjar leiðbeiningar í þá átt, að lífsnauðsynjar verði að ganga fyrir öðru um innflutning. Og eins er það, að enginn getur skammtað vel, sem ekki veit, hvað hann á að skammta, hefur ekki milli handa eitthvað til að skammta, og getur ekki komið því, sem skammta á, til neytendanna. En á það er ekki komin föst skipan enn, hvernig samræma beri innflutning og dreifingu. Þá virðist heldur ekki komin enn nein föst skipan á það, hvernig með vörur þær skuli farið, sem framleiddar eru hér á landi úr efnum, sem skömmtun eru háð. Ýmist er skömmtuð vinnan, sem unnin er af íslenzkum höndum, oft ásamt efni með, sem alíslenzkt er, t. d. Álafoss-dúkar og Gefjunar-dúkar o. s. frv., en í öðrum tilfellum fellur varan úr skömmtun, ef íslenzkur iðnaður hefur um hana fjallað, t. d. ef handklæðadreglar, sem vitanlega eru háðir skömmtun, eru keyptir upp af framtakssömum einstaklingum og síðan klipptir niður í smábleðla eða saumaðir eins konar pokar úr þeim, þá er ekki krafizt innkaupaheimildar fyrir þá. Einnig er sykur háður skömmtun, en vörur, framleiddar úr sykri hér á landi, eru gefnar frjálsar. — Nú verður það að teljast mjög misráðið og ósanngjarnt að meina fólki að fá sér sykur með kaffi sínu, sykur í saft og berjamauk, sem er mjög holl fæða, eða jafnvel sykur í kökur og kaffibrauð, meðan hann er seldur takmarkalítið til brauðgerðarhúsa, kóka-kólabruggara og konfektgerðar. Þó munu þau fyrirtæki þurfa að uppfylla einhver skilyrði til að verða sykursins aðnjótandi, en ekki virðast vera til um það nein ákveðin fyrirmæli, ef saga sú er sönn, er gengið hefur um bæinn og mikið hefur verið rædd síðastliðnar vikur. En hún er á þá leið, að efnamaður á Norðurlandi hafi fengið innflutt tæki til konfektgerðar, mesta merkistæki, er skilaði sætindunum innpökkuðum á mjög áferðarfallegan hátt, — en nú vantaði aðeins það, sem við átti að éta, sykurinn. Hann fékkst ekki, þótt fast væri eftir sótt. Maðurinn lagði leið sína suður og var af kunnáttumönnum gefið það ráð að selja starfsmanni hjá innkaupasambandinu — Impuni, — ég er ekki alveg viss um, að ég fari rétt með nafnið, — hlut í fyrirtæki sínu. Og sagt er, að þetta hafi reynzt mesta heillaráð og nú hafi fengizt 200 kg af sykri til þessa fyrirtækis á mánuði hverjum. Nokkru síðar gerðist einn af starfsmönnum hjá fyrirtækinu S. Árnason & Co. meðeigandi í umræddri sælgætisgerð, og það nafn reyndist gætt enn meiri kynngikrafti, því að síðan hefur konfektgerðin fengið 1.000 kg af sykri á mánuði. — Hvort saga þessi er sönn, veit ég ekki, en sjálfsagt getur hæstv. fjmrh. upplýst það atriði. En hitt er víst, að þegar svona fregnir komast á loft og berast mann frá manni, án þess að nokkur efist um sannleiksgildi þeirra, sem heyrir, þá er það ekki einungis þungur áfellisdómur á skömmtunarfyrirkomulagið allt og framkvæmd þess, heldur líka ótvíræð bending um það, að ástæða sé til varúðar hvað vörugæzlu og vöruskiptingu snertir og þörf strangs eftirlits og fastra starfsreglna að því er iðnaðarfyrirtæki snertir.

Þá hefur það og tíðkazt mjög undanfarin ár, að fólk hefur ekki getað keypt efni í klæðnað og vinnufatnað o. s. frv., heldur aðeins átt kost á vörunni fullgerðri. Þetta hefur það í för með sér, að fjölda fólks er fyrirmunað að kaupa nauðsynleg föt vegna þess, að það hefur ekki efni á því að borga t. d. 800–900 kr. fyrir kvenkjól, sem hægt er að koma upp í heimahúsum fyrir 100–200 kr., ef efni fengist, auk þess sem flestir kunna þessari nýbreytni illa, að mega ekki sauma föt á sig eða börn sín, hvað þá að kasta bót á fat; það er ekki hægt lengur, þar sem bæði vantar bótina og tvinnann og jafnvel nálina líka.

Margt er fleira, sem of langt yrði upp að telja hér, en athuga verður. En eins og við flm. höfum gert ráð fyrir nefndarskipuninni, ætti að fást nokkurn veginn alhliða athugun á þörfum hinna ýmsu þjóðfélagsþegna og möguleikum á að bæta úr þeim þörfum, en gert er ráð fyrir, að n. skili áliti sínu fyrir miðjan desember.

Um einstaka liði till. er ekki ástæða til að fjölyrða. Það virðist augljóst, að ákvæði verði að setja um það, bæði hvaða vörur eigi að undanþiggja skömmtun og á hvaða vörum beri að takmarka sölu. Það sýnist t. d. einkennileg ráðstöfun, að fjárfestingarleyfi eru veitt til alls konar bygginga, en miðstöðvartæki og hreinlætistæki eru háð skömmtun, þótt fjárfestingarleyfi sé fengið til byggingar. — Eins er um það, að reglur þarf að setja um, á hvaða vörum beri að takmarka sölu og hverjar kröfur beri að gera til gæða vörunnar. Mætti í því sambandi benda á sokka. Þeir sokkar, sem nú eru á markaðnum, kosta frá 40–50 kr. og endast afar illa. En það ætti að gefa fólki kost á að fá ullarsokka og ísgarnssokka og nylonsokka, þegar meira er haft við. — Þá þarf, er skömmtunarþörf einstaklinga er metin, að hafa hliðsjón af mismunandi aðstæðum manna, svo sem aldri, kynferði, atvinnu og heimilishögum. Það er til dæmis varla hægt að hugsa sér óþarfari hlut en skó fyrir börn á 1. missiri; og um úthlutun á skóm þarf að taka tillit til margs og gera greinarmun á því, hvort þeir eru nasbitnir, hælahöggnir, pappasólaðir eða leðursólaðir o. s. frv. Enn fremur þarf að hafa í huga við innflutninginn þörf á hinum ýmsu stærðum. Undanfarið hafa t. d. ekki fengizt nema afar lítil númer.

Þá er 4. liður till. um það, hve miklu skömmtunarvörumagni skuli úthlutað alls á komandi ári, og er b-liðurinn um það, hve stóran skerf skuli þar áætla einstaklingum og heimilum hinna ýmsu neytendaflokka. Það má t. d. minna á, að fólk, sem býr í kaupstöðum, á ekki heimtingu á að fá eins stóran kaffiskammt og fólk í sveitum, sem ekki hefur nein kaffihús, o. s. frv.

Þá fjallar 5. liðurinn um það, hvernig innflutningur og vörudreifing verði samræmd skömmtunarkerfinu, þannig að öruggt sé, að vörurnar séu til.

Í 6. lagi þarf svo að ákveða, hvaða nauðsynjavörur skuli sitja í fyrirrúmi fyrir öðrum innflutningi. Það liggur í augum uppi, að margar vörur eru svo nauðsynlegar, að án þeirra er ekki unnt að vera, t. d. verða lyfin að ganga fyrir öllu. Og svo er t. d. tannpasta nauðsynlegur hlutur. Ég vil svo, herra forseti, beina því til yðar, að till. verði vísað til hv. allshn.