02.12.1948
Sameinað þing: 23. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 382 í D-deild Alþingistíðinda. (4675)

29. mál, vöruskömmtun o.fl.

Samgmrh. (Emil Jónsson):

Herra forseti. Það eru allmargir dagar síðan þetta mál var síðast hér til umr., og þess vegna er farið að fyrnast nokkuð yfir þær margvíslegu athugasemdir, sem komu fram hjá hv. 1. flm. till. Ég hef verið að rifja málið upp fyrir mér með því að lesa ræðu hv. fyrsta flm., sem birtist í Þjóðviljanum, og sannast sagna er, að þegar hún er krufin til mergjar, þá er heldur litið í henni annað en stór orð og heldur illa undirbyggðar fullyrðingar. Hv. flm. veður í stórum slagorðum, eins og „að framkvæmd skömmtunarinnar sé og hafi verið stórhneyksli, öngþveitið í skömmtunar- og verzlunarmálum sé óþolandi, kerfið sé ósanngjarnt og ambögulegt, fálmkennd hringavitleysa“ og annað fleira, sem er svo gerð lítil tilraun til þess að rökstyðja. Það eru yfirleitt einkenni og uppistaða í þessari ræðu, að það er lítið um rökstuðning, en mikið um fullyrðingar. Alltaf þegar fyrsti flm. hefur möguleika til þess að ætla þeim mönnum, sem með þessi mál hafa farið, að fara þá leið, sem verri er, þá gerir hann það. Hann segir, að framkvæmdirnar hafi verið gerðar af fjandskap við þjóðina og illar hvatir séu á bak við, það sé þó að vísu líka aulaháttur og heimska mikil á bak við að hennar dómi. Í þessum orðaforða veltir hún sér, eins og krakki veltir sér upp úr skít. Ég skal ekki fara mörgum orðum um þetta. Ég viðurkenni, að þetta kerfi er ekki, frekar en önnur mannanna verk, fullkomið og það þarfnast endurbóta. Það var byrjað á þessu í mikilli skyndingu og án nægilegs undirbúnings á sínum tíma. Það var gert af nauðsyn fyrst og fremst á þeim tíma, en ekki af því, að ekki hefði verið æskilegra, að betur hefði verið um hnútana búið þá. Síðan þessi skömmtun var sett á laggirnar, hefur ýmsu verið breytt til batnaðar, eins og hv. þm. kemst ekki hjá að viðurkenna að nokkru leyti, þó að hún þakki sér og sínum till. allar breytingar, sem til bóta horfa, og kenni svo hinum hálfheimsku og alheimsku bjánum, sem að þessu standa, allt, sem miður fer. Ég verð að hryggja hana með því, að till. hennar hafa ekki verið á nokkurn hátt fyrirmynd. Það hefur verið valið það, sem álitið er, að komi að gagni hverju sinni, enda eru till. hennar fluttar allar og eingöngu í áróðursskyni, en ekki til þess að bæta úr því, ef eitthvað hefði verið öðruvísi, en vera ætti. Allur málflutningur hennar er markaður af þessu. Annars skal ég segja það, að til viðbótar við þær breytingar, sem á skömmtunarfyrirkomulaginu hafa verið gerðar, má eitt að því finna, sem er stórt atriði og er í rauninni nægilega stórt atriði til þess, að allir hafi nokkra ástæðu til þess að vera óánægðir með það, og það er, að innflutningsmagnið og skömmtunarmagnið hefur ekki staðizt á. Í tveimur vöruflokkum, vefnaðarvöru- og búsáhaldaflokknum og skófatnaðarflokknum, hefur ekki verið flutt inn eins mikið magn og skammtað hefur verið, og þess vegna hafa menn ekki getað fengið þessar vörur út á seðla sína. Ég skal ekki á þessu stigi málsins fara út í það að leita að, hverjum þetta er að kenna, en þetta eru mistök, sem ber að viðurkenna og leitazt verður við að leiðrétta, eftir því sem möguleikar eru til. Þetta er að sjálfsögðu grundvallarskilyrði til þess, að skömmtunin geti orðið viðurkennd og komi að tilætluðum notum, að innflutningsmagnið sé ekki minna, heldur þyrfti það að vera nokkru meira en skömmtunarmagnið, svo að birgðir gætu safnazt í landinu. En ef þessar birgðir hefðu verið til í þessum tveimur vöruflokkum, sem ég nefndi, þá hika ég ekki við að fullyrða, að skömmtunarkerfið og framkvæmd þess hefði komið að mjög miklum notum, en alls ekki verið, eins og fyrsti flm. till. fullyrti, „nokkurs konar fjandskapur af hálfu valdhafanna við almenning í landinu“.

Þegar horfið er að framkvæmdum eins og þessari, er eðlilegt, að leitazt sé við, eftir að hún hefur verið framkvæmd nokkurn tíma, að kynna sér, hver reynsla hefur orðið með hana. Þess vegna skrifaði ég 16. sept. s. l. fjárhagsráði og óskaði eftir, að það gæfi skýrslu um, hvernig þetta hefði reynzt í aðalatriðum og hverjar till. væru líklegar til bóta því, sem miður kynni að hafa farið. Voru svo skipaðir 4 menn í nefnd til þess að athuga þetta mál, verðlagsstjóri, skömmtunarstjóri, einn frá viðskiptan. og einn frá fjárhagsráði. Nokkru síðar óskaði ég eftir því við stjórn Kvenfélagasambands Íslands, að 4 konum yrði bætt við til að athuga þetta mál. Þessi 8 manna nefnd hefur unnið að því að kynna sér þann árangur, sem með skömmtuninni hefur náðst, og gera till. til bóta eða breytinga á því kerfi, sem nú er í gildi. Nefndin hefur nú starfað um alllangan tíma og er nýbúin að skila sínu áliti. Ég tel rétt, að áður en það mál, sem hér liggur fyrir, um skipun nýrrar nefndar, er afgreitt, þá fái hv. þm. að vita, hvaða niðurstöðu nefndin hefur komizt að. Ég held, að það sé þess vegna ekki úr vegi, að ég lesi aðalniðurstöður nefndarinnar hér upp, svo að n. sú, sem málið fær til meðferðar hér á Alþ., kynni sér till. þessarar nefndar til að athuga, hvort ástæða sé til að styðja þessa áróðurstill. hv. 2. landsk. Till. þessarar nefndar eru í nokkuð mörgum liðum, og með grg., sem ég skal aðeins hlaupa lauslega yfir.

Í fyrsta lagi leggur nefndin til, að skömmtun á öllum búsáhöldum, öðrum en úr gleri og leir, sé afnumin frá næstu áramótum, en þó, eins og tekið er fram, á skömmtun á öllum búsáhöldum úr leir og gleri að verða áfram.

Í öðru lagi er lagt til, að kaffiskammtur sé aukinn frá því, sem nú er, um tvo pakka á hverjum þrem mánuðum og verði því 20 pakkar á ári til hvers einstaklings.

3. Sykurskammturinn sé aukinn um 500 grömm á hverju þriggja mánaða skömmtunartímabili og verði því 20 kíló á ári á hvern einstakling.

4. Skófatnaður sé skammtaður eins og verið hefur á sérstökum seðlum og miðist við sama magn eða svipað og nú er til hvers einstaklings, þ. e. einir útiskór og einir inniskór á hvern mann.

5. Skömmtun á hreinlætisvörum, sápum og þvottadufti haldist óbreytt og á sérstökum skömmtunarseðlum, sem gildi fyrir ársfjórðung í senn.

6. Kornvöruskömmtun haldist áfram á sérstökum skömmtunarseðlum með sama magni og verið hefur til hvers einstaklings. Auk þess sé veittur sérstakur skammtur af rúgmjöli til sláturgerðar eins og að undanförnu.

7. Nefndin leggur til, að innflutningur á kornvörum sé aukinn um einn þriðja hluta frá því, sem nú er, til þess að birgðir í landinu geti aukizt verulega.

8. Smjörskömmtun haldist með sama hætti og að undanförnu á sérstökum seðlum, 3,5 kg til hvers einstaklings, eins og reiknað er með í framfærsluvísitölu.

9. Skömmtun á bílagúmmíi haldist með sama hætti og nú, þ. e. sömu skammtar og ákveðnir eru með reglugerðinni um bifreiðagúmmí.

10. Skömmtun á benzíni haldist áfram, þannig að bifreiðum sé úthlutað skömmtunarseðlum eftir stærð og því, til hvers þær eru notaðar.

11. Skömmtunarseðlar séu gefnir út 1. jan. 1949, er gildi fyrir verðmæti (á smásöluverði) til sameiginlegra kaupa á öllum skömmtuðum vefnaðarvörum, þar með fatnaði, ytri sem innri, svo og búsáhöldum úr gleri og leir, þannig að velja megi óhindrað á milli þessara vara, en haldið sé þó einingarkerfinu. Sokkar eru þó undanþegnir, og séu gefnir út sérstakir skömmtunarmiðar fyrir þeim. — Hér er um mjög svipað fyrirkomulag að ræða og verið hefur, nema árinu er skipt í fleiri hluta.

12. Skömmtunarseðlar þessir séu gefnir út fyrir fyrstu þrjá mánuði ársins 1949 og þá ákveðið um leið, að þeir gildi til loka þess árs, enda haldi stofnauki 13 frá núverandi vefnaðarvöruskömmtun gildi sínu fyrst um sinn eftir áramót á sama hátt og áður.

13. Hinn 1. apríl 1949 verði síðan gefnir út skömmtunarseðlar fyrir tiltekið tímabil, og haldi þeir gildi til ársloka. Allir skömmtunarseðlar falli úr gildi 31. des. 1949.

14. Smásöluverðmæti þeirra vara, sem skammtaðar eru samkvæmt þessum tillögum, sé reiknað út síðar, þegar ákveðið er, hversu mikið innflutningsáætlunin heimilar af þeim, þannig að fundið sé verðmæti þeirra til hvers einstaklings, og sé þá einnig miðað við það verðmæti, sem veita þarf sem aukaskammta til sérstakra fyrirtækja, veitingahúsa, skóla, vinnustöðva og annarra, sem líkt eru settir.

15. Viðskiptan. skal leita tillagna Skömmtunarskrifstofu ríkisins, áður en leyfi eru veitt fyrir innflutningi skömmtunarvara, bæði um tegundir og magn, er til landsins þarf að flytja eða framleiða í landinu af hverri tegund, svo sem sokkum, lérefti, vinnufataefni, kvenskóm, karlmannaskóm, leirvöru o. fl.

16. Skömmtunarskrifstofa ríkisins skal, áður en hún veitir tollafgreiðsluleyfi fyrir skömmtunarvörum, fullvissa sig um, að hin innflutta skömmtunarvara sé í samræmi við veitt innflutningsleyfi.

Þessar eru þá till. átta manna nefndarinnar. Í henni eiga sæti fjórar konur og fjórir karlar, sem vinna áttu að lagfæringu á því kerfi, sem hv. 2. landsk. telur óþolandi ástand og stórhneyksli, eins og hann komst að orði. Skal ég svo til viðbótar lesa upp nokkur orð til skýringar hverjum lið um sig, því að nefndin hefur sjálf gert aths. við hina sextán liði tillagna sinna. Eru þær á þessa leið:

„1. Búsáhöldin = till. I. — Lagt er til, að áfram haldist skömmtun á leir- og glervöru, svo sem diskum, skálum, könnum, bollum, glösum o. fl. úr leir og gleri, en niður falli skömmtun sú, sem verið hefur á öllum öðrum búsáhöldum, eins og pottum, pönnum, kötlum og ýmsu fleiru, sem skammtað hefur verið. Á mörgu þessu er illt að koma skömmtun við, enda sumt af því, sem einstaklingarnir kaupa ekki nema á árabili, og ætti ekki að vera sérstök löngun eftir meiri kaupum á því en svarar til þarfar í hvert sinn. Ætlazt er til, að þessi búsáhöld, sem skömmtuð verða, falli undir sömu skömmtunarseðla og vefnaðarvara, eins og verið hefur. Tillaga nefndarinnar um afnám búsáhaldaskömmtunar að nokkru er gerð í trausti þess, að leyfður verði nægur innflutningur á þessu, einkum þeirra, sem brýnust er þörf á, og vill nefndin benda á nauðsyn þess, að eftirlit sé með, að innflutningurinn sé samkvæmt veittum leyfum.

2. Kaffið = till. II. — Kaffiskammturinn hefur á þessu ári verið 3 pk. á 250 g af brenndu og möluðu kaffi og samsvarandi því af óbrenndu, og er hann ætlaður til hverra þriggja mánaða. Þetta eru 12 pk. á árinu, en auk þess var látinn 1 pk. til viðbótar í júní, og annar verður veittur fyrir næstu jól, og er þá skammturinn allur 14 pk. af brenndu og möluðu kaffi eða sem svarar 42 kg af óbrenndu kaffi yfir árið til hvers einstaklings. Þar fyrir utan eru aukaskammtar til sjómanna, ýmissa vinnustöðva o. fl. Meiri hluti nefndarinnar leggur til, að kaffiskammturinn sé aukinn um 2 pk. á skömmtunartímabili, upp 5 pk. í stað þriggja, og yrði ársskammtur þá 20 pk., en það samsvarar 6 kg af óbrenndu kaffi á mann yfir árið.

Þessi stækkun á kaffiskammtinum, sem hér er ráðgerð, nemur því 1.8 kg á mann á ári af óbrenndu kaffi, en það samsvarar 252 smál., ef miðað er við, að skammta þurfi 140 þús. manns. Að verðmæti mundi þessi aukni innflutningur nema tæpum 600 þus. kr. í fob-verði, og er þá reiknað með sama verði á einingu og gert er ráð fyrir í uppkasti að innflutningsáætlun. Án efa gæti niður fallið að veita aukakaffi til ýmissa hópa af fólki, sem nú njóta þess, svo sem skrifstofumanna o. fl. Ekki er ætlazt til, ef kaffiskammturinn er stækkaður þannig, að neinar aukaúthlutanir þurfi að gera á kaffi á árinu.

Einn nefndarmaður, Sigurjón Guðmundsson, lagði til, að skömmtun á kaffi yrði afnumin frá ársbyrjun 1949, en sú tillaga hlaut ekki stuðning nefndarinnar.

3. Sykurinn = till. III. — Samkomulag hefur orðið um það í nefndinni, að leggja til að stækka sykurskammtinn um 2 kg á ári, úr 18 kg, sem nú er, upp í 20 kg á hvern mann, þ. e. um 500 g á hverju skömmtunartímabili. Vegna þess mundi þurfa að auka innflutning sykurs um 280 smál., ef reiknað er með skammti handa 140 þús. manns, og mundi verðmæti þessa aukna sykurmagns nema um 280 þús. króna — fob-verð. Allur sykurinnflutningur á komandi ári er nú áætlaður um 5.000 smál. — Á móti þessari stækkun á skammtinum mætti án efa fella niður eitthvað af aukaskömmtum, eins og bent er til í því, sem að framan er sagt um kaffið.

Tillögur um að láta skömmtun ná til veitinga á kaffi, sykri og kornvöru eða matar tilbúins úr skömmtuðum vörum og til sölu á hvers konar kaffibrauði og kökum, að undanteknu hörðu brauði, hlutu ekki nægilegt fylgi í nefndinni.

4. Skófatnaðurinn = till. IV. — Nefndin gerir tillögur um óbreyttan skammt af skófatnaði, þ. e. hverjum manni fullorðnum séu ætlaðir einir útiskór úr leðri og einir inniskór og börnum meira, eins og verið hefur á þessu ári síðan í júníbyrjun. Virðist svo, að þetta sé nægilega mikill skammtur, og hafa ekki legið fyrir kvartanir út af skóskömmtuninni. Nefndin hefur til athugunar skömmtun á ytri skófatnaði — skóhlífum og bomsum — úr gúmmíi, en talið er, að ýmsir safni birgðum af þeim varningi, og veldur það vöntun hjá öðrum.

5. Hreinlætisvörur = till. V. — Um hreinlætisvörurnar, sápur alls konar og þvottaduft, er hið sama að segja og um skófatnaðinn, að engar verulegar kvartanir hafa komið fram út af skömmtun þeirra á seinni hluta ársins, eða síðan nægilegt magn þeirra var til í landinu. N. leggur því til, að skömmtun þessara vara haldist óbreytt.

6. Kornvörur = till. VI og VII. — Kornvöruskömmtunin er af ýmsum talin óþörf og megi afnemast, þar sem skammturinn sé svo ríflegur, að margir noti hann ekki til fulls, og sé því enginn eða lítill sparnaður að skömmtun, enda mundu fáir eða enginn kosta kapps um að safna miklum kornvörubirgðum, þótt óskammtaðar væru. Nokkrir segja, að ekki væri mikill skaði skeður, þótt einhverjum mönnum væri gert fært að birgja sig upp af þessum nauðsynjavörum. — Nefndin getur að vísu tekið undir sumt af þessu, en bendir í því sambandi á það, sem fram er tekið áður um skömmtunina almennt og ástæðurnar til þess, að hún var sett á.

Í nefndinni komu fram þrenn sjónarmið um kornvörurnar, fyrst að afnema skömmtun þeirra með öllu, annað að auka skammtinn nokkuð og hið þriðja að halda skömmtuninni og hafa skammtana jafnstóra og verið hefur, þ. e. 60 kg. á ári fyrir hvern mann.

Tillaga um afnám skömmtunarinnar, sem Sigurjón Guðmundsson bar fram, átti ekki fylgi að fagna í nefndinni, og tillaga, sem kom fram um að auka ársskammtinn um 1/10 eða í 66 kg á mann, var felld með jöfnum atkv. Tillaga um að halda skömmtuninni áfram óbreyttri var loks samþykka með 7 shlj. atkv.

Í nefndinni var nokkuð rætt um nauðsyn þess, að kornvörubirgðir í landinu væru alltaf verulegar, og taldi hún því, að auka þyrfti kornvöruinnflutninginn um 1/3 á næsta ári frá því, sem var á þessu ái.

7. Smjörið = till. VIII. — Að undanförnu hefur smjör verið skammtað í landinu og þá selt með mjög niðursettu verði. Ríkisstjórnin hefur sjálf ákveðið um smjörskömmtun þessa, sem numið hefur 3½ kg á mann. Nefndin gerir ekki tillögur um breytingu á því og telur rétt, að skömmtun á smjöri haldist áfram óbreytt.

8. Bifreiðagúmmí = till. IX. — Nefndin álítur, að skömmtun þess sé nauðsynleg, og gerir tillögu um, að hún haldist áfram. Afnám skömmtunar á bifreiðagúmmíi mundi leiða af sér miklar kröfur um aukinn innflutning, bæði vegna þess, að hjólbarðar yrðu lakar nýttir, og svo hins, að menn mundu sækja á það að safna birgðum umfram það, sem brýn þörf væri fyrir.

9. Benzín = till. X. — Nefndin gerir ekki að svo komnu neinar tillögur um breytingu á skömmtun þess, en mun e. t. v. koma fram með þær síðar.

10. Vefnaðarvörurnar = till. XI, XII, XIII og XIV. — Þótt meiri vandi sé á höndum um skömmtun á vefnaðarvörum og þrátt fyrir nokkrar aðfinnslur og óánægju margra manna, treystist nefndin ekki til að gera tillögur um afnám hennar, en leggur til, að hún haldist áfram og í aðalatriðum óbreytt, og kemur það fram í tillögunni. Búsáhöldin, þau sem skömmtuð verða, séu á sömu seðlum og vefnaðarvörurnar.

Þá breytingu vill meiri hluti nefndarinnar gera, að sérstakir skömmtunarreitir verði gefnir út fyrir sokkum og vefnaðarvöruseðillinn gildi þá ekki fyrir þeim. Bent er á í þessu efni, að margir einstaklingar, einkum úr hópi kvenna, muni verja vefnaðarvörumiða sínum til kaupa á sokkum einvörðungu, eða að miklu leyti, þrátt fyrir þörf ýmiss konar vefnaðarvöru, og geti þetta leitt til vandræða um útvegun hennar. Konurnar í nefndinni leggja ríkt á um það, að þessi háttur um sokkana verði upp tekinn.

Á það er og bent, að séu sokkar hafðir á sama seðli og vefnaðarvaran, gefist einstaklingum færi á að birgja sig upp af þeim, þótt aðra vanti þá tilfinnanlega eða séu án þeirra, en sérstakur skammtur mundi jafna vörunni og koma í veg fyrir hamstur.

Í sambandi við vefnaðarvöruskammtinn var rætt um stofnauka 13, en það er, sem kunnugt er, skömmtunarseðill, er gilt hefur allt þetta ár og lengur fyrir tilbúnum ytri fatnaði eða efni í hann. Tilætlunin var, að hann félli úr gildi við lok þessa árs. En sökum þess, hversu mikið hefur á vantað, að þær vörur fengjust í landinu á árinu, sem hann gildir fyrir, telur nefndin ekki fært annað en láta hann halda gildi sínu eitthvað fram eftir árinu 1949 og leggur eindregið til, að svo verði.

Nefndin ræddi nokkuð um það, hversu skipta beri árinu í skömmtunartímabil. Kom fram tvenns konar álit um það. Sumir töldu æskilegt að skipta árinu í tvö tímabil jafnlöng, en aðrir töldu réttara, að fyrsta skömmtunartímabilið væri aðeins þrír mánuðir, en hitt níu, eða þá jafnvel, að árinu væri skipt í þrennt. Eins og tillögur nefndarinnar bera með sér, varð það að ráði, að fyrra skömmtunartímabilið væri aðeins til 1. apríl eða þrír mánuðir og þá yrðu gefnir út nýir seðlar fyrir þann hluta ársins, sem eftir væri, eða skemmri tíma, ef skipt væri í tvö skömmtunartímabil seinni hluta ársins. Nefndin leggur til og telur það sjálfsagt, að miðar frá fyrra skömmtunartímabili haldi gildi sínu til ársloka, jafnhliða skömmtunarseðlum hins seinna tímabils. Við lok ársins falli síðan allir seðlarnir úr gildi af sjálfu sér.

Að svo komnu er nefndin ekki tilbúin með tillögur um, hversu vefnaðarvöruseðlarnir þurfi að vera að verðmæti. Um það mun hún gera tillögu síðar, eða a. m. k. koma með álit sitt um það. En öll er nefndin á því máli, að verðgildi skömmtunarseðlanna verði að miðast við það vörumagn og verðmæti þess, sem tryggt sé, að til sé í landinu, annaðhvort innflutt eða framleitt á því tímabili, sem skammtarnir eru í gildi, svo að þeim verði fullnægt. Sú skoðun kom fram í nefndinni, að ef skammta eigi vefnaðarvöru með svipuðu fyrirkomulagi og líku verðmæti á hvern einstakling og á þessu ári, þá þurfi nú þegar að flytja til landsins vefnaðarvörur fyrir 15–20 millj. króna til þess að hafa í birgðum og auk þess þurfi að flytja inn á næsta ári nægilegt til þess að samsvara skömmtunarseðlunum.

Till. XV og XVI. — Þessar tillögur miða að því að fá meira öryggi um, að innflutningsleyfi fyrir þeim vörum, sem skammtaðar eru, svari sem bezt til þess, að fullnægt sé þörfinni á hverjum tíma. Um þetta á skömmtunarskrifstofan að hafa bezta aðstöðu til að dæma. Fyrir því er gert ráð fyrir, að hennar tillagna sé leitað, áður en innflutningsleyfi eru veitt fyrir skömmtunarvörum. Að hinu sama lýtur seinni tillagan, er kveður á um það, að skömmtunarskrifstofan eigi að ganga úr skugga um, að innflutt skömmtunarvara sé samkvæmt veittum leyfum.“

Þannig hljóðar þá þetta nál. frá 1. des. 1948, dagsett í Reykjavík. Fannst mér bæði rétt og sjálfsagt, að hv. þm. fengju tækifæri til að bera þessi athyglisverðu og skynsamlegu orð n. saman við þann hroka hv. 2. landsk., er lýsti sér hjá henni, þegar hún flutti hið fyrra erindi sitt í þessu máli. Ég skal eigi amast við því, að till. þessi fari til n. og hv. nm. fái þar tækifæri til að bera saman till. og nál. Eins og ég hef þegar tekið fram, þá hefur sá verið höfuðgallinn á þessu fyrirkomulagi, er nú er, að skort hefur á, að innflutningur hafi verið nægur til að svara til skömmtunarseðlanna. Þetta er uppistaðan í óánægju manna, og skil ég hana mætavel. En sjálfsagt er að reyna að bæta úr þessu með því að koma á meira samræmi milli innflutningsmagns og skömmtunarmagns. Þurfa réttir aðilar að fá fyrirmæli þess efnis. Hitt er satt, að gerðar hafa verið áætlanir fram í tímann. Síðan hefur allt orðið óviðráðanlegt, af því að fjárhagsráð hefur ekki fylgzt með magni vörunnar. En þannig hefur það hagað meðferð innflutningsmála, að árinu hefur verið skipt í þrjá hluta: 1. hluta frá ársbyrjun til loka aprílmánaðar, þá er nálgast lok vertíðarinnar og vissa er fengin um afkomuna, 2. hluta til loka ágústmánaðar, þegar nokkurn veginn er hægt að sjá fyrir um sumarsíldveiðarnar nyrðra, og 3. hluta upp þaðan til ársloka. Nú er það álit manna, að innflutningurinn hafi eigi mátt fara út í þær öfgar, sem raun ber vitni. Meinsemdin var sú að miða innflutninginn við þann útflutning, sem við kæmum til með að hafa til ráðstöfunar. Var gert ráð fyrir, að útflutningstekjurnar yrðu um 406 millj. kr., og innflutningsáætlunin því miðuð við þá upphæð. Í maímánuði s. l. var orðið ljóst, að vetrarvertíðaraflinn yrði ærið minni, en ætlað hafði verið, og í lok síldveiðivertíðarinnar skorti mikið á, að vonir manna hefðu rætzt. Varð þetta til þess að hafa áhrif á fjárveitingar til innflutnings á öllum vörum og hefur sjálfsagt valdið nokkru um takmarkanir á vefnaðarvöruinnflutningnum, sem var ekki nægilegur, en varð vitaskuld að minnka sem annan innflutning. Hins vegar kom í ljós, að útflutningur á ísfiski mundi fara fram úr áætlun, svo að heildarútkoman mun sennilega nokkurn veginn fara að áætlun — eða verða um 400 millj. króna. Hefur þetta orðið til þess, að úthlutun innflutningsleyfa hefur farið fram, síðar á árinu, en venja er til, og því er nú vefnaðarvöruinnflutningurinn fyrst að koma fram. Er skýringin m. a. sú, að fjárhagsráð taldi sig þess ekki umkomið, eins og á stóð í maí- og septembermánuðum, að dreifa leyfum örara, en það gerði. Hefur það afsökun í þessu efni. Á hinn bóginn ber að geta þess, að ævinlega hefur eitthvað verið til af vefnaðarvöru og skófatnaði. En vefnaðarvörumiðana ber að láta af hendi fyrir svo margs konar hlutum, sem flytjast undir þetta hugtak, að hætt er við, að ærið margir verði upp tefldir. Veldur þetta óánægju manna með gildi seðlanna, er lítinn árangur beri að sýna. En ég vona, að úr óþægindunum verði dregið með því að úthluta leyfum í samræmi við skömmtunina og á næsta ári verði gengið svo frá hnútunum við ákvörðun innflutningsáætlunar, að þessi tvö atriði standist á, innflutningur og skömmtunarmagn.

Að svo mæltu tel ég eigi þörf að eyða frekara orðum að þessu, nema nýtt tilefni gefist til. Stóryrðum öllum læt ég ósvarað. Hins vegar tel ég, að efnislega komi nokkrar upplýsingar fram einmitt í áliti þessarar nefndar.