08.12.1948
Sameinað þing: 25. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 395 í D-deild Alþingistíðinda. (4678)

29. mál, vöruskömmtun o.fl.

Flm. (Katrín Thoroddsen):

Herra forseti. Nú líður óðum að því, að nýtt skömmtunartímabil hefjist. Upphaflega ætluðumst við flm. til þess, að sú n., sem í till. er gert ráð fyrir, hefði skilað áliti fyrir 15. des., en fyrirsjáanlegt er, að það getur varla orðið héðan af. Það hefur gengið erfiðlega að fá þessa till. á dagskrá og ljúka umr. Það virðist, að hæstv. viðskmrh. hafi verið tregur til að gefa allra mildilegast samþ. sitt til, að till. fengi þinglega meðferð.

Mér er það mest í mun, að afgreiðslu till. verði hraðað sem mest, og mun því ekki lengja umr. hér með langri ræðu, enda er það óþarft. Till. er það ljós, að frekari skýringa þarf ekki við en þegar hafa komið fram í ræðu hv. 8. landsk. En það voru aðeins fáar aths., sem mig langaði til að gera við hina sérkennilegu ræðu hæstv. viðskmrh., sem vakti undrun mína á margan hátt, ekki vegna þess, að ég hefði við því búizt, að hæstv. ráðh. viðurkenndi hreinskilnislega þau mistök, sem orðið hafa á skömmtuninni, bæði velvirðingar og héti yfirbót. Það þarf sérstaka skaphöfn til að sjá og kannast við fyrri ávirðingar fyrir sjálfum sér, hvað þá fyrir öðrum. En höfðingsskapur andans er ekki eiginleiki, sem hæstv. stj. hefur, og sjálfsgagnrýni væntir enginn af henni, ekki frekar í þessu máli en öðrum, nema síður sé. En ég hafði samt búizt við meiri lipurð í málflutningi en hæstv. ráðh. hefur sýnt.

Hæstv. viðskmrh. fullyrðir, að þáltill. sé eingöngu fram komin til að sýnast. Hv. 8. landsk. hefur nú sýnt fram á, að svo er ekki, enda ber till. sjálf með sér, að þar er umbótavilji á bak við. Hún hefur að geyma mörg holl ráð og nákvæmar leiðbeiningar, á hvern hátt mætti breyta skömmtuninni þannig, að til bóta yrði.

Þá fullyrti hæstv. ráðh., að í framsöguræðu minni og allri minni gagnrýni á skömmtunarkerfið hefði aðeins verið um að ræða dylgjur og órökstuddar fullyrðingar. Ég býst við, að fáir verði til að trúa, að þau orð hæstv. ráðh. séu af heilindum töluð. Ég held, að fleiri verði til að telja líklegt, að þeim orðum hafi valdið óskadraumur eða undirvitund hæstv. ráðh., óskadraumur, sem getur ekki rætzt, því að það er staðreynd, að allt skömmtunarfyrirkomulagið og framkvæmd þess hefur verið eitt reginhneyksli. Vörueyðslan, áður en skömmtunin hófst, er staðreynd. Ólagið á innflutningsverzluninni er staðreynd. Misskiptingin á vörunum er staðreynd. Amböguhátturinn er staðreynd. Svarti markaðurinn er staðreynd. Smyglið á Keflavíkurflugvellinum er staðreynd. Vöruskorturinn á frjálsum markaði er staðreynd. Innkaupaheimildir, sem ekkert fæst út á, eru staðreynd. Bakdyraverzlunin er staðreynd. Biðraðirnar, sem fólkið byrjar að raða sér í um lágnættið, eru staðreynd. Hæstv. ráðh. og skömmtunaryfirvöldin þyrftu að ferðast um bæinn og kynna sér hug fólksins. Þá væri ekki úr vegi fyrir hæstv. ráðh. að aka hér um bæinn einhvern daginn og sjá biðraðirnar. Sjálfsagt fengi hann benzín til slíkrar eftirlitsferðar. Hann gæti líka fylgt dæmi Harún al-Rasjid, hins fræga þjóðhöfðingja, sem fór dulbúinn um ríki sitt með ráðgjafa sínum. Eins gæti hæstv. ráðh. tekið með sér sinn æðsta vezír, formann fjárhagsráðs, og svo sem 40 heildsala. Það munaði ekki um þann hóp í biðraðirnar. Ég held, að hæstv. ráðh. mundi þá sannfærast um sannleiksgildi fullyrðinga minna og ekki aðeins það, heldur mundi hann líka komast að raun um, að klæðlítið fólk, sem skortir ýmsar sínar lífsnauðsynjar, er enn kjarnyrtara og hispurslausara en ég var í minni framsöguræðu, þó að honum fyndist svo mikið til um hana, að hann varð að lýsa henni með allskörpum orðum.

Þau orð, sem mest æstu taugar hæstv. ráðh., tók ég upp úr blaðaskrifum og fundasamþ. Sérstaklega fór það í hans fínu taugar, að fólkið væri farið að líta á skömmtunina sem beinan fjandskap, sem væri stefnt gegn því af skömmtunaryfirvöldunum. Þessi orð tók ég úr ágætri ræðu, sem nýlega var flutt í ríkisútvarpið um skömmtunina. Hitt skal ég játa, að þegar ég kallaði framkvæmd skömmtunarinnar hringavitleysu, þá lagði ég læknisfræðilegan skilning í það orð, því að „mania depressio“ hefur verið kölluð hringavitleysa. Það er sjúkdómsfyrirbrigði, sem lýsir sér með andlegu þyngslafargi og deyfðardrunga, galsafengnum ofsa og athugalausum athöfnum. Satt að segja finnst mér framkvæmd skömmtunarinnar einna áþekkust þessu sjúkdómsfyrirbrigði. Fyrst er rokið í að selja vörur eftirlitslaust í tvo mánuði. Síðan er dreift út skömmtunarseðlum, svo að allir fái sinn skammt. Síðan er drungi afskiptaleysisins í heilt ár. Þá er rokið í að skipa tvær n. í einu, ekki einu sinni beðið eftir, að þær skili áliti, heldur eru till. þeirra rifnar af þeim hálfgerðar og lýst yfir á Alþingi, að þetta nál. sé undirskrifað á 30 ára fullveldisafmæli Íslands. Mér finnst þessu mest svipa til „maniae depressionis“.

Ég sagði áðan, að nál. hefði verið hálfklárað. Það er fullyrt um bæinn og haft eftir nm. sjálfum, að þeir hefðu ekki verið byrjaðir á skömmtunarkerfinu sjálfu, þetta hefði aðeins átt við dreifinguna. Ef til vill er þessi fregn aðeins óskadraumur langþreytts almennings, draumur, sem er þrá eftir raunhæfum endurbótum og þungur áfellisdómur á sjálfar till., svo framarlega, sem þeim er ætlað að vera lokasvar n.

Um einstaka liði till. sé ég ekki ástæðu til að fjölyrða, það gerði hv. 8. landsk. mjög rækilega áðan. En ég get ekki orða bundizt um það, að mikil er trú þeirra kvenna, sem láta sér nægja áréttingu eitthvað á þessa leið: Í trausti þess, að veitt verði næg innflutningsleyfi o. s. frv. Slíkt traust virðist mér vera allmikið oftraust, eftir að hæstv. viðskmrh. hefur upplýst, að í sambandi við eina eða tvær vörutegundir, álnavöru og ég man ekki, hvort það er skótau líka, hafi verið útbýtt skömmtunarseðlum fyrir 15–20 millj. kr. meira en fyrir hendi væri á þessu ári, skildist mér á hæstv. ráðh. Mér skildist, að þessi mismunur stafaði af því, að láðst hefði að gefa fyrirmæli um að láta þetta standast á, skömmtunina og birgðirnar. Þessi vangá getur varla stafað af gleymsku, það oft hefur verið á þetta minnzt í blöðum og á mannfundum, eins og hv. 8. landsk. minntist á.

Ég held, að það sé rétt hjá hæstv. ráðh., að það sé ekki gott að kalla svona skömmtun ambögulega, það hlýtur að vera hægt að finna um það betri orð á íslenzku. Það er sagt, að orð sé á Íslandi til um allt, sem er hugsað á jörðu. Ég get verið hæstv. ráðh. sammála um það og eins hitt, að beina því til n., sem væntanlega fær þessa till. til meðferðar, að hún beri hana saman við till. frá 1. des., ekki aðeins hvað áhrærir orðaval, heldur líka efnishliðina og hafi þá einkum fyrir augum, hvaða till. séu líklegar til að leiða til raunverulegra umbóta. Og ég held, að það væri afar heppilegt og jafnvel nauðsynlegt, að n. sú, er till. fær, og væntanlega verður það fjvn. samkvæmt ósk, kveðji á sinn fund n. frá 1. des., ef svo má kalla hana. Þá væri ekki úr vegi að kalla á form. fjárhagsráðs eða fjárhagsráðið allt og viðskiptan., það væri kannske ekki verra að fá allt ráðið og alla n., það er sagt, að meðlimum þeirra beri ekki allt of vel saman, til að fá úr því skorið, hvort sé að vænta nokkurrar samvinnu milli skömmtunaryfirvaldanna og innflutningsyfirvaldanna.