24.11.1948
Sameinað þing: 21. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 412 í D-deild Alþingistíðinda. (4687)

43. mál, landhelgisgæzla og stækkun landhelginnar

Gísli Jónsson:

Herra forseti. Í umræðunum um þetta mál í gær beindi hæstv. ráðh. fyrirspurn til fjvn., sem mér þykir rétt að svara, og í annan stað vildi ég fara nokkrum orðum um till. á þskj. 55.

Þegar litið er á þetta mál, þá er sjáanlegt, að það skiptist í fjóra meginkafla. Það er þá fyrst, að það verður að skilja það frá Skipaútgerð ríkisins; í öðru lagi þarf að auka skipakostinn og loftfarakostinn; í þriðja lagi þarf að gera meiri kröfur til starfsmanna á þessum vettvangi, og í fjórða lagi þarf að stækka landhelgina. Fyrstu þrjú atriðin eru innanríkismál, hið síðasta er utanríkismál. Ég mun ekki ræða fjórða atriðið, enda hefur það verið gert ýtarlega af ráðherra, en mun heldur snúa mér að hinum atriðunum.

Mér þykir rétt að geta þess, að ég tel miður farið, að fjórða atriðið var tekið með í þessa till. Það hefði átt að fara til utanrmn., en að því er mér hefur skilizt, munu tillögumenn vilja, að málinu sé vísað til allshn. að lokinni fyrri umr. En mér skilst, að heppilegra hefði verið að fara með það sem sérmál.

Ég kem þá að því, sem ég vildi benda á, að það er deilt um, hvort halda skuli þeirri stefnu, sem tekin hefur verið upp, að hafa sem smæst skip við landhelgisgæzluna, en það tel ég meginorsök til þeirrar niðurníðslu, sem landhelgisgæzlan er nú í, og til þess, hve sáralítils trausts hún nýtur. Ég bendi á, að það er ekki langt síðan íslenzkur togari var tekinn í landhelgi af einum þessara litlu báta, eftir að sami bátur hafði leyft honum að fiska þar í sólarhring, — þá fyrst komst báturinn að því, að togarinn var innan landhelgislínunnar. Slík mistök hafa komið fyrir í fleiri skipti — t. d. með togarann Júpíter — og þau hafa orðið vegna þess, að hinir litlu bátar gátu ekki innt af hendi nauðsynlegt starf, ekki tekið mið, svo að byggt yrði á, né annast gæzluna svo, að landinu væri sómi að, en ekki vansæmd. — Ég skal seinna koma að því, hvort okkur er þetta nokkur hagnaður fjárhagslega. En nefndin þarf að gera sér þetta ljóst, hvort það á að fá stór skip og setja þannig upp sterka landhelgisgæzlu eða fjölda báta, sem ekki fá við neitt ráðið.

Í þessu sambandi vildi ég leyfa mér að benda á eitt atriði. Þegar við vorum úti í Englandi um daginn í sambandi við togarakaupin, þá urðum við undrandi á því, að við vorum spurðir sérstaklega, hvort ríkisstj. væri að láta byggja strandvarnaskip hér. Það hafði verið send útboðslýsing til skipamiðlara í Englandi og honum falið að leita tilboða. Okkur þótti þetta undarlega að farið, að á sama tíma sem ríkisstj. sendi menn til Englands til þess að semja um kaup á 10 nýjum togurum er hún einnig að senda gögn til skipamiðlara í Englandi. Ég hef alveg nýlega fengið fyrirspurn um það frá skipabyggingastöð í Englandi, hvort henni beri að taka þessi tilboð alvarlega, vegna þess að þeir hafa einnig heyrt, að búið sé að semja um byggingu skips fyrir landhelgisgæzlu á Íslandi, og hvort hugsunin sé að byggja eitt skip til eða fleiri til viðbótar. Ég vil biðja hæstv. ráðh. að upplýsa í þessu það mál, hvort hugsað sé að halda áfram að smíða þessi skip eða hvers vegna er verið að þessum leik í öðrum löndum, hvort það sé til þess að fá samanburð á þessu og því, sem fengist annars staðar. Ég vildi einnig fá upplýst hjá hæstv. ráðh., hvað er kaupverð þessa nýja skips, því að ég minnist ekki að hafa séð neitt um það í blöðum eða tilkynningum hæstv. ríkisstj. og ekki að hafa heyrt því yfir lýst á Alþ., hvað sé kaupverð þessa skips, í hvaða gjaldeyri á að greiða það og hvaða samningar eru um það og hvaða fulltrúa ríkisstj. hafi haft sér til aðstoðar í þessum kaupum. Þetta er mikilsvert fyrir okkur að vita, sem eigum að greiða atkv. með fjárframlögum til þessa, og einnig fyrir skattþegnana.

Ég vil einnig benda á, að aukning flotans til strandgæzlu hefur farið fram á tvennan hátt. Annars vegar hefur verið aukning á honum samkv. ákvörðun Alþ. — og það hafa verið í raun og veru beztu skipin, þó að þar hafi flotið innan um of lítil og of léleg skip. Hins vegar hefur einnig farið fram aukning flotans samkv. ákvörðun annarra aðila. Ég vil í því sambandi benda á Sæbjörgu, sem hefur raunverulega verið þvingað upp á ríkissjóð til þess að taka á sig árleg rekstrarútgjöld af því skipi. Sæbjörg er keypt fyrir gjafafé. Kaup þess skips eru mjög vanhugsuð frá byrjun. Það fyrsta, sem gerist í sambandi við þetta skip, er mislukkað, en ríkissjóður hefur í raun og veru tekið á sig að greiða öll áföllin. Ég man, að ég benti á þetta, þegar samningur var gerður af fyrrv. hæstv. dómsmrh. í sambandi við Sæbjörgu, og að hann þá fullyrti, að ekki kæmi til mála, að ríkissjóður greiddi nema ákveðna upphæð vegna rekstrar þessa skips, sem þá var styrkur. Það hefur reynzt rétt, sem ég þá benti á, að þessi upphæð hefur síðan verið þrefölduð. Fyrst var talið sjálfsagt að ganga að þessu glæsilega tilboði. Næst var talið sjálfsagt að tvöfalda framlagið til rekstrar þessa skips, af því að búið var að ganga inn á að greiða eitthvað til þess. Og í þriðja sinn þótti sjálfsagt að taka á sig byrðar enn vegna þessa skips, af því að búið var að taka tvisvar á herðar ríkissjóðs þessa vitleysu áður. Og fjölgunin á skipunum til strandgæzlu fyrir Vesturlandi er komin til af þessu, að ákveðið félag á Vestfjörðum hefur aflað fjár fyrir björgunarskútu, sem á að vera strandvarnaskip á Vestfjörðum líka, þannig að hvorki er hugsað um, hversu óheppilegt það er að taka einmitt svona far til þess að hafa til svona gæzlu, né heldur, hvað kostar fyrir ríkissjóð að reka þetta. Ef slysavarnafélögin í landinu vildu leggja þessum málum fé og lið, væri ekkert eðlilegra, en að taka upp samkomulag við þau, annaðhvort um að standa undir ákveðnum rekstrarkostnaði eða leggja þetta fé alveg kvaðalaust inn til þessarar starfsemi, án þess að þau ráði svo um það í meginatriðum, hvernig þetta er byggt upp, eins og gert hefur verið og sýnt hefur sig í öllum tilfellum, að er rangt. Og sama leikinn virðist vera stefnt að að leika í sambandi við helicopter-flugvél, en hæstv. menntmrh. óskaði eftir því á síðasta ári að fá ákveðið fé til þess að kaupa fyrir helicopterflugvél. Við þessu gat fjárveitingavaldið ekki orðið — þó að því fé hefði verið betur varið en kaupa blaðaruslið, sem keypt var fyrir helmingi hærri upphæð. (Menntmrh.: Af hverju var ekki fremur veitt helmild fyrir því, en fyrir blaðakaupunum?) Hæstv. ráðh. getur sjálfsagt fengið upplýsingar um það frá sínum andlega skyldu fulltrúum í n. En nú hefur komið erindi til n. frá hæstv. ráðh. á ný, þar sem hann óskar eftir að fá nægilegt fé til þess að reka helicopterflugvél, sem Slysavarnafélaginu býðst hingað til lands til reynslu í eitt ár með því skilyrði, að það kaupi hana frá Ameríku og greiði amerískan gjaldeyri fyrir hana, ef hún reynist vel, en annars sé henni skilað aftur. Mér skilst, að hæstv. ráðh. hafi ekki hugsað þessa hugsun til botns. Útgjöld eru mikil við rekstur slíkrar flugvélar, jafnvel upp á 300 þús. kr. Ég veit ekki, hvort hæstv. ráðh. hefur athugað það. En n. hefur aflað sér þessara upplýsinga sjálf. En þetta, sem ég hef hér sagt, er sönnun þess, að það er engan veginn nóg, þó að hægt sé að fá einhvern aðila til þess að byrja á svona verkefni eins og vissum þáttum strandgæzlunnar einhvern veginn, ef þessu á svo að kasta yfir á ríkið á eftir. Og hæstv. ráðh. verður að sjálfsögðu að gera sér ljóst frá upphafi, að ef um aukningu strandgæzlunnar á að vera að ræða, þá verður að gera eitthvað, sem getur orðið traustur liður í starfinu, en ekki einhver lélegur hlekkur, þannig að keypt sé inn eitthvert vanhugsað far til varðgæzlunnar í dag og annað slíkt á morgun, sem síðan geta ekki verið traustir hlekkir í þeirri keðju, sem landhelgisgæzluflotinn er. Ég vil í sambandi við þetta benda á, hvað forstjóri Skipaútgerðar ríkisins segir um flugvélanotkun í sambandi við strandgæzlu. Hann segir hér í bréfi til ríkisstj. frá 23. ágúst á þessa leið:

„Sú reynsla hefur þegar fengizt af notkun flugvéla við landhelgisgæzlu, að fyrirsjáanlegt er, að mikla þýðingu mun hafa að halda áfram á þeirri braut. Er þess skemmst að minnast, að í apríl f. á. voru með notkun flugvélar teknir 9 togbátar að ólöglegum veiðum á Húnaflóa, og 6 bátar voru á sama hátt teknir í einu við Vestmannaeyjar í marz s. l. og allir dæmdir í sekt fyrir ólöglegar veiðar í landhelgi.

Í júlí/ágúst í sumar gerði Skipaútgerðin í samráði við ráðuneytið samning við eitt af flugfélögunum hér (Loftleiðir h.f.) um leigu á flugvél til landhelgisgæzlu. Var fenginn Grummanflugbátur til þessa, og svo um samið, að hann skyldi vera til reiðu, þegar Skipaútgerðin óskaði, en leiga reiknast kr. 1.000.00 á klukkustund, þegar flogið væri, en ekkert þess á milli. Þegar þetta er skrifað, hefur nefnd flugvél flogið til landhelgisgæzlu í ca. 50 klst., og hafa gæzlumennirnir í vélinni á þessum tíma nokkrum sinnum séð skip, öll erlend, að ólöglegum veiðum í landhelgi við suðurströndina, en því miður hefur ekki verið aðstaða til þess að taka lögbrjótana og sekta þá, þar eð flugbáturinn hefur ekki getað lent, en lögbrjótarnir hafa alltaf hraðað sér burt, þegar þeir hafa orðið þess varir, hvað var að gerast.“

Það er þá upplýst hér frá þessum forstjóra, að það hafi ekki verið hægt með þessu móti að taka neina lögbrjóta að veiðum í landhelgi nema smátogbáta, en hins vegar hafi flugvélin vel getað rekið úr landhelginni. Og ég viðurkenni, að það er hreint ekki lítið atriði. Forstjóri Skipaútgerðarinnar segir enn fremur:

„Þess má geta, að varðskip voru hvað eftir annað, bæði fyrir og eftir, á sömu stöðum og nefnd skip sáust úr flugvélinni að veiðum í landhelgi, en aldrei hittu varðskipin á þessum tía skip að ólöglegum veiðum á þessum stöðum.

Það er þá einnig viðurkenning á því, að nákvæmlega þetta sama hlutverk geti einnig varðskipin innt af höndum. Það eru ekki lögbrjótar fyrir innan landhelgislínuna, þegar varðskip eru þar á ferð né heldur þegar flugvélar eru þar á ferðinni. (Menntmrh.: Þá skilst mér, að þurfi hvort tveggja að hafa.) Þá þarf að gera það upp, hvort af þessu tvennu er ódýrara og með hvoru af þessu tvennu meira er unnið, miðað við kostnaðinn. — Það var spurt um það, hvort þetta væri dómur um helicopterflugvélarnar. Ég ætla að lesa ofur lítið meira úr bréfi forstjóra Skipaútgerðarinnar, þar stendur:

„Ofangreind reynsla af notkun flugvélar við landhelgisgæzlu sýnir, að það er mjög mikils virði og nauðsynlegt að hafa slíka gæzlu, enda þótt hún hafi af greindum ástæðum ekki komið að fullum notum. En rækilega þarf að athuga, hvort ekki muni hægt að yfirvinna frekar þá erfiðleika, sem eru á þessu, t. d. með því að nota helicopterflugvélar.“

M. ö. o., það er reynsla fengin fyrir því, að flugvélar almennt geta ekki komið að fullum notum og kannske ekki nema að sáralitlum notum fyrir landhelgisgæzlu. En það er beðið um fé til þess að reyna þær, án þess að geta sagt um það nokkuð fyrir fram.

Síðast í þessu bréfi frá forstjóra Skipaútgerðarinnar er eitt ákaflega merkilegt atriði, sem ég gjarna vildi biðja hæstv. ráðh. að athuga, hvort sé rétt. Þar segir: „Sektartekjur varðskipanna fyrir landhelgisbrot eru mjög stopular, t. d. innheimtust engar slíkar tekjur á árinu 1947.“ Og í fjárlagafrv. nú er felldur niður aftur sá liður, sem áður hefur verið í frv., tekjur fyrir landhelgisbrot. Og mér er sagt, að reynslan sé sú um einmitt þessa tegund skipa, sem bæði smábátarnir taka hér við veiðar — togbátarnir íslenzku — og flugvélarnar geta náð í, að enn sem komið er hafi þeir ekki greitt eina einustu krónu í landhelgissjóð, vegna þess að þeir hafi ekki getað gert það. Og þá fer málið að verða nokkuð skrýtið, finnst mér, að velja einmitt slík tæki til landhelgisgæzlu og fjölga þeim, sem vitað er, að ekki geta tekið önnur skip en þá báta, sem minnstan skaða gera annars vegar og hins vegar ekkert geta borgað af sektum, eins og upplýst er hér, en verða að sleppa hinum skipunum, sem gera mestan uslann og geta borgað sektir, ef þær á annað borð yrðu lagðar á. En svona hefur verið reynslan af þessum málum undir þessari ágætu stjórn, sem hæstv. menntmrh. vill enn halda dauðahaldi í.

Þriðja atriðið, að krefjast meiri menntunar af starfsmönnum við landhelgisgæzluna, ætla ég ekki að ræða sérstaklega um. Ég sé ekki ástæðu til þess á þessu stigi málsins, en skal snúa mér að fjórða atriðinu, aðskilnaðinum á stjórn landhelgisgæzlunnar frá stjórn Skipaútgerðar ríkisins. Mér heyrðist, að eitt af meginrökunum hjá hæstv. ráðh. gegn því að skilja þetta tvennt að væri það, að ef komið væri hér upp sérstakri stofnun til þess að annast landhelgisgæzluna, mundi það kosta ríkissjóð mjög mikið fé og sá kostnaður mundi aukast ár frá ári. Mér fannst þetta vera aðalástæðan fyrir því hjá hæstv. ráðh., að hann vildi ekki láta aðskilja útgerðarstjórn á skipum til þessara tveggja verkefna, strandferðanna og strandvarnanna. Nú hefur hæstv. ráðh. talað um, að ekki sé nauðsynlegt að skilja þetta tvennt að. Ég er honum ekki sammála um það. Ég held, að sá aðskilnaður mundi verða heppilegur. Og ég vil leyfa mér að benda á, að í gögnum frá forstjóra Skipaútgerðar ríkisins leggur hann fyrir ríkisstj. áætlun um það, að það þurfi að kosta til landhelgisgæzlunnar árið 1949 kr. 4.979.000,00 á næstu fjárlögum. Og þar gerir hann ráð fyrir, að af þessari upphæð sé sameiginlegur kostnaður til þess að stjórna þessum bátum 280 þús. kr. — til þess að stjórna Ægi, Óðni litla, 70 smálesta, Sæbjörgu og tveimur litlum bátum, sem eru í smíðum. En á meðan þeir eru ekki tilbúnir, eru tveir bátar við landhelgisgæzlu í staðinn, annar við Austfirði og Faxaflóa og hinn við Vestfirði, m. ö. o., að til þess að stjórna þessum fjórum bátum sem varðskipum þarf 280 þús. kr. í sameiginlegan kostnað, skrifstofukostnað og framkvæmdastjórnarkostnað við Skipaútgerðina. Og þetta skulum við svo bera saman við aðrar upphæðir. Hér liggur hjá mér skýrsla frá n., sem skipuð var af ríkisstj. og Framsfl. átti í ágætan hagfræðing. Þar er greint frá kostnaði við 60 smálesta bát, sem stundaði þorskveiðar í 5 mánuði. Skrifstofukostnaður og framkvæmdastjórnarkostnaður við hann var kr. 4.225,06. Nú má gera ráð fyrir, að þessi útgerðarkostnaður verði eitthvað lengri hjá varðbátunum. En þó að þessi upphæð sé tvöfölduð og jafnvel þótt farið sé með hana upp í 10 þús. kr., þá er það ekki nema aðeins einn fimmti hluti af því, sem að meðaltali það kostar að stjórna þessum bátum hverjum fyrir sig, sem til landhelgisgæzlunnar eru notaðir, hjá Skipaútgerð ríkisins, því að það kostar 50–60 þús. kr. Og benda má einnig á, að hér er gert ráð fyrir, að við togara af sömu stærð og m/s Ægir verði útgerðarstjórnar- og skrifstofukostnaður 6.500 kr. í ferð. Og ef um 10 ferðir er að ræða, verður það 65 þús. kr. En þetta er svo miklu meira skrifstofuhald og miklu meiri útreikningur, utanlands og innan, heldur en er við að reka varðskipið Ægi. Ég held, með tilliti til þessara raka, að hægt sé að benda á, að það megi vænta þess, að það yrði miklu minni kostnaður við að setja yfir landhelgisgæzluna sérstaka stofnun, en með því að hafa hana annars vegar og stjórn Ríkisskips hins vegar undir sömu stjórn eins og nú er. Ég er alveg viss um það og að það sé hreinn klaufaskapur að geta ekki fengið þennan kostnað niður með því að aðskilja þetta tvennt.

Nú er þetta ekki nema ein hlið málsins. Hitt er önnur hlið þess, hvað hafa verið gerð mörg glappaskot í sambandi við þessi mál. Ég skal viðurkenna, að það er líka hægt að gera þau, þó að þessu sé skipt í sundur og landhelgisgæzlan sett undir aðra menn. Og það væri kannske líka hægt að fá kostnaðinn lengra niður við stjórn Skipaútgerðar ríkisins, frá því, sem nú er, ef skipt væri um menn þar. En við skulum ekki loka augunum fyrir því, hvaða mistök hafa orðið í þessum efnum á undanförnum árum og hvert gífurlegt fé það hefur kostað ríkið og hvað það hefur haldið niðri landhelgisgæzlunni. T. d. var það svo með gamla Óðin, að það skip gat ekki staðið á kjölnum, og það varð að sigla skipinu niður aftur, til þess að skera það í sundur og lengja það um þrettán fet. Og hvernig, gekk það með hraðbátana? Þeir reyndust óhæfir og voru sendir út aftur, og þau kaup og það, sem í sambandi við þau var, kostaði ríkið nærri 700 þús. kr. eftir gögnum, sem fyrir hafa legið, — sá skemmtilegi leikur. — Ég skal ekki blanda saman við þetta þeim mistökum, sem hafa orðið, í stjórn Skipaútgerðar ríkisins. En það er ekki hægt að neita því, að þessi mistök hafa orðið; annars vegar það, að þegar Óðinn var byggður, varð að senda hann út aftur til þess að lengja hann, því að hann var ekki sjófær, og hins vegar, var svo það, að þegar hraðbátarnir voru keyptir; þá voru þeir ekki sjófærir. (JJ: Hvaða stjórn byggði gamla Óðin?) Ég veit það ekki. Útgerðarstjórnin hafði með þetta að gera. (JJ: Það var lögfræðingurinn Jón Magnússon, sem byggði Óðin). Lögfræðingurinn Jón Magnússon, sem byggði Óðin? (JJ: Já, veit hv. þm. það ekki?). — Ég held því, að það sé mjög mikil ástæða til að taka þessi mál öll til rækilegrar athugunar, til þess að vita, hvort ekki sé hægt að reka þetta með ódýrari hætti með því að skilja þetta að og athuga, hvers konar stjórn þarf að setja þessi mál undir. — Ég sé, að hæstv. menntmrh. brosir, það er vanalega það eina, sem hann á að grípa til, þegar hann er kominn í vanda. (Menntmrh.: Ég var ekkert að hlæja að þingmanninum.) Nei, en að málinu sjálfu. En óstjórn er ekki í þessu sérstaka tilfelli, þar sem hann ræður. Í útvarpinu er ástandið ekkert betra. Stjórnleysið þar er sannarlega ekkert betra,. síðan hann tók við. (SkG: Bezt að skipta stjórninni á því í marga parta til þess að spara.) .

Hér er um stórkostlegt fjárhagsatriði að ræða. Ég vil því beina því til hv. flm., hvort hann vill ekki taka aftur till. sína um allshn. Ég legg til, að þessu máli verði vísað til fjvn. Hún hefur í fyrsta lagi öll gögn í sambandi við þetta mál. Og þó að þetta sé út af fyrir sig ekkert meginatriði, er rétt, að fjvn. athugi þetta mál. Eins og till. er, þá er þetta allmikið fjárhagsatriði; hvernig koma að notum þau fjárframlög, sem til þessara mála fara. Og það þarf að koma betra skipulagi á stjórn þessara mála, kannski til að spara eða kannske til aukningar á landhelgisgæzlunni, eftir því, hvaða leið er farin.