23.11.1948
Sameinað þing: 20. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 437 í D-deild Alþingistíðinda. (4699)

48. mál, réttindi Íslendinga á Grænlandi

Flm. (Pétur Ottesen):

Með tilliti til þess, að ég reifaði þetta mál allrækilega á síðasta Alþ., þykir mér ekki ástæða til þess að fara mörgum orðum um þessa þáltill. nú. Ég vil aðeins benda á það, að í þeirri grg., sem fylgdi þáltill. af minni hálfu þá, og í þeirri allýtarlegu ræðu, sem ég flutti þá með málinu, voru færð sterk rök að því, að Íslendingar ættu kröfu til þess réttar, sem farið er fram á, að gengið sé eftir á Grænlandi. Í því sambandi voru færð fram álit ýmissa merkra manna, sem þar um hafa fjallað bæði fyrr og síðar. En sem sagt, eins og ég tók fram í upphafi, skal ég ekki ræða á þessu stigi frekar um þá hlið málsins.

Það hefur nú komið fram hér hjá okkur Íslendingum, sem höfum nú komið upp hjá okkur myndarlegum og góðum skipastól, að við höfum hvergi nærri getað haft þau not af þessum skipastól sem efni stóðu til. Þetta stafar af því, að undanfarin fjögur ár hefur verið allmikill aflabrestur á síldveiðum, en meginhluti bátaflotans hefur verið bundinn við þær veiðar yfir sumartímann. Auk þess hefur allmikill aflabrestur verið á þorskveiðum á þessu tímabili. Hefur því ekki verið hægt að nota bátaflotann eins og æskilegt og nauðsynlegt hefði verið. Og nú er svo komið fyrir útveginum, að hann er ákaflega aðþrengdur fjárhagslega og engin líkindi til þess, að þeir, sem að honum standa, geti þolað að taka á móti áframhaldandi aflaleysi. Þess vegna verður, ef svo bæri að höndum, — sem maður náttúrlega veit ekki um, — að við yrðum að búa við það ástand hér við land, að svo og svo mikill hluti bátaflotans stöðvaðist eða yrði óvirkur eða lítið virkur í því starfi, sem honum er ætlað að hafa með höndum, að gera einhverjar ráðstafanir til þess að afla flotanum víðara starfssviðs. Við uppbyggingu flotans hafa Íslendingar verið það fyrirhyggjusamir, að þeir geta nú sótt um langan veg til fiskveiða. En á þeim sama tíma, þegar svo tregur afli hefur verið hjá okkur sem raun ber vitni, og um leið og fiskveiðaflotinn er stóraukinn, þá berast fréttir frá Grænlandi um uppgripaafla þar. Veiðar við Grænland á s. l. sumri hafa verið miklu meiri og fljótteknari, en þekkzt hefur í mestu aflaárum hér, og hafa þó Íslandsmið lengi fram eftir verið talin þau fiskauðugustu, enda höfum við fyrr á árum búið við mikil afköst og uppgrip í þessum efnum.

Það verður sjálfsagt miklum erfiðleikum bundið að hagnýta þessi auðugu fiskimið við Grænland án þess, að skipunum sé tryggð nokkur aðstaða í landi. En eins og kunnugt er, hafa verið og eru í dag stjórnarhættir Dana í Grænlandi þannig, að þar er öllum bannað að koma við slíkri aðstöðu í landi sem nauðsynleg væri fyrir íslenzka bátaflotann. Og þar sem sakir standa nú svo, að Íslendingar telja sig eiga rétt til atvinnurekstrar og yfirráða á Grænlandi og þörfin virðist vera mjög brýn meðal annars fyrir bátaflotann, þá virðist alveg sjálfsagt, að ekki sé lengur látið bíða að fá úr því skorið, hvort réttur Íslendinga til atvinnurekstrar og yfirráða á Grænlandi fái staðizt eða ekki, og til þess er ákaflega einföld leið, með því að leggja slíkt mál undir alþjóðadómstól, sem gerir þá út um þá hluti. Íslendingar hafa í sambandi við skilnaðinn við Dani geymt sér allan rétt í þessu efni. Þeir gerðu t. d. fyrirvara þegar deila stóð milli Norðmanna og Dana um landsvæði á Austur-Grænlandi, og þá gerðu Íslendingar fyrirvara, og stóð sá vitri maður, Jón Þorláksson, fyrir því hér á Alþ., að svo væri gert, og Íslendingar geymdu allan sinn rétt í sambandi við Grænland til þess að tryggja rétt Íslendinga þar í framtíðinni. Nú er verið að gera upp skuldaskil milli Íslendinga og Dana, og einn þáttur í þeim skuldaskilum er vitanlega það, sem hér er um að ræða. Það fer þess vegna allt saman í þessu efni. Og það er ekki rétt að fresta því lengur, að frá því verði gengið, enda rekur knýjandi þörf Íslendinga þar á eftir, að íslenzka skipaflotanum sé opnuð ný og nauðsynleg aðstaða við strendur Grænlands vegna fiskveiða þar.

Ég skal svo ekki fjölyrða um þetta mál, en ég vil aðeins geta þess, að á síðasta Alþ. varð þetta mál fyrir þeirri óvenjulegu meðferð, að sú n., sem málinu hafði verið vísað til, hv. utanrmn., sem fékk þó rúman tíma til þess að athuga málið, skilaði ekki áliti um málið. Þegar ég svo seint á þingi krafði n. um það, hvernig á þessu stæði, kom fram hjá varaformanni n., hv. þm. Str., sá leiði misskilningur, að eiginlega væri ekki kallaður saman fundur í n. nema eftir till. ríkisstj. og auk þess hefði aðalformaður n., hv. þm. G-K., verið veikur um langt skeið og ekki tekið þátt í nefndarstörfum. Ég eyddi að sjálfsögðu þessum misskilningi hjá hv. varaformanni n., því að starf utanrmn. er tvíþætt. Það er n., sem starfar utan þings og vinnur að málum með ríkisstj., nm. þar eru nokkurs konar fulltrúar Alþ. um ýmis vandamál, sem koma fyrir á milli þinga, en auk þess er ráð fyrir því gert, að þessi n. starfi, þegar þing situr, og þá eins og aðrar n. þingsins, þannig að til hennar er vísað málum, sem fram eru borin í þinginu og eiga að fá þar alveg hliðstæða meðferð og önnur mál, sem vísað er til annarra n. þingsins.

Af því að ég geri að sjálfsögðu till. um, að þessu máli verði vísað til hv. utanrmn., því að samkvæmt eðli málsins á það þar heima, þá vænti ég þess, að afgreiðsla þess í n. þurfi ekki að stranda á þessum misskilningi aftur og n. afgr. málið frá sér sem allra fyrst. — Ég vil svo mjög mælast til þess að þessi till. verði samþ. og reynt verði að fá úr þessu máli skorið sem allra fyrst.

Það er ekki nema eðlilegt, að opnazt hafi augu þeirra manna, sem fyrst og fremst bera hita og þunga dagsins af útvegsmálunum hér á landi, fyrir þeirri nauðsyn, að Íslendingar geti stundað fiskveiðar við Grænland. Ýmsar þær stofnanir, sem fara með málefni þeirrar stéttar, hafa gert margar samþ., sem hníga að því að hrinda þessu máli áfram. Get ég í því sambandi nefnt fiskiþingið, þing Farmanna- og fiskimannasambandsins, sem oftar en einu sinni hefur gert slíkar yfirlýsingar, og landsfundur útvegsmanna hefur nýlega einróma samþ. till. með mjög svipuðu orðalagi og þá till., sem hér liggur nú fyrir til umr.

Ég geri svo að minni till., að málinu verði að lokinni þessari umr. vísað til hv. utanrmn.