23.11.1948
Sameinað þing: 20. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 443 í D-deild Alþingistíðinda. (4702)

48. mál, réttindi Íslendinga á Grænlandi

Dómsmrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Hv. þm. Borgf. vildi láta svo vera, sem ég hefði verið að kasta hnútum að ákveðnum manni í þessu efni. Því fer fjarri, að ég hafi gert það. Ég viðurkenni fúslega, að hann hafi unnið þar mikið og óeigingjarnt starf og öðlazt þar bjargfasta sannfæringu. Hitt er annað mál, eins og hv. þm. Borgf. tók fram, að það verður hver að leggja sjálfstæðan dóm á það, sem þar kemur fram og ég hygg, að það verði aldrei ofmælt, þó að auðvitað beri að meta að verðleikum þá fádæma elju, sem lýsir sér í öllum þeim ritstörfum og þá einnig hefur fengið verðlaun af hálfu Alþingis með fleira en einu móti, þá held ég, að sá maður verði vandfundinn, sem vildi leggja þau gögn ómelt fram sem sóknarskjöl af hálfu Íslands fyrir alþjóðadómstól í þessu efni. Ég trúi því a. m. k. vart, að nokkur alþm. mundi fást til að greiða atkv. með því, en það kom opinberlega fram í ræðu hv. þm. Borgf., að hann taldi eðlilegt, að einhverjir færir menn yrðu kvaddir til að semja um þetta sóknarskjal, ef hans till. yrði samþ. Munurinn á okkar afstöðu er því í rauninni eingöngu sá, að báðir eru sammála um, að kveðja þurfi til færa menn í þessu efni til þess að semja um þetta álitsgerð, en hv. þm. Borgf. vill því aðeins fara eftir þeirra áliti, að þeir verði honum sammála, ella vill hann hafa álit þeirra að engu. Ég tel aftur á móti, að það sé eðlilegt fyrir þingheim að fá að sjá álitsgerð þessara hæfu manna, áður en tekin er ákvörðun um, hvort málinu skuli skotið til alþjóðadómstóls eða ekki, og að því hefur verið reynt að vinna með mínum afskiptum af málinu.

Það má vel til sanns vegar færast, að ég hefði getað skipað þessa n. fyrr, ég skal ekki mæla mig undan þeim ásökunum. Ég hefði getað gert þessa till. undir eins, þegar ég tók við núverandi stöðu minni. Hitt veit hv. þm. Borgf. vel, að ég lagði fyrir sérfræðing utanrrn. í alþjóðarétti strax á síðasta vetri að hefja rannsókn í þessu efni. Hann veit líka, að sá maður er mjög störfum hlaðinn, og ég held, að hann hljóti líka að viðurkenna, að það hafi verið eðlileg ráðstöfun að kveðja fleiri menn til, svo að það lenti ekki á einum manni að kveða upp fræðilegan dóm af hálfu Íslendinga um þetta efni, dóm, sem við vonum, að geti orðið undirstaða til frekari aðgerða í þessu máli. En þó að það hafi nú dregizt að kveðja þessa n. til starfa, fer því fjarri, að tíminn frá því í fyrra hafi farið til ónýtis, þar sem sérfræðingar hafa á þessum tíma reynt að kynna sér þau gögn, sem fyrir liggja. Ef ég er ámælisverður fyrir að hafa stofnað til þessarar rannsóknar, held ég, að aðrir hljóti að vera ásökunarverðir, þar sem þetta er fyrsta tilraunin, sem gerð hefur verið til þess að reyna að fá einhverja hlutlausa álitsgerð af okkar hálfu, af hálfu fleiri en eins manns, þannig að sérfræðingarnir geti borið ráð sín saman og reynt að bæta hver annan upp.