23.11.1948
Sameinað þing: 20. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 444 í D-deild Alþingistíðinda. (4704)

48. mál, réttindi Íslendinga á Grænlandi

Dómsmrh. (Bjarni Benediktsson) :

Þessu get ég alls ekki svarað þegar af þeirri ástæðu, að mér hefur ekki tekizt að fá n. skipaða, vegna þess að hæstiréttur hefur talið, að hér sé um svo mikið starf að ræða, að dómarar vilji hliðra sér hjá að taka sæti í n. af þeim sökum. Hv. þm. Borgf. óttast, að slík athugun mundi tefja málið. En verði þessi till. samþ., yrðu menn svipaðir þessum fengnir til þess að undirbúa sókn í málinu, eða að minnsta kosti skildi ég hann svo áðan. Ég vildi þess vegna spyrja hv. þm., hvað ætti að gera, ef þessir fróðu menn, eftir að vera búnir að rannsaka sóknargrundvöll í þessu máli, legðu til við stj. að falla frá sókn, vegna þess að ekki væri fræðilegur grundvöllur undir henni. Ég á bágt með að trúa því, að jafnvel hv. þm. Borgf., þó að hann héldi því fram, að stj. væri stætt á því að fara í mál, mundi hvetja til þess eins og áður, eftir að slíkar ráðleggingar væru komnar fram frá hinum fróðu mönnum. Vitanlega mundi stj. þá aftur bera þetta undir Alþingi og spyrja það, hvort ætti að fara í málið þrátt fyrir þetta, svo að ég get ekki séð annað en hvernig sem á málið verður litið, verði endanlegar ákvarðanir um það — hvort sem farið verður eftir óskum hv. þm. Borgf. eða ekki — að bíða þar til sú fræðilega umsögn liggur hér fyrir. Og ég verð að segja, að ef fræðileg umsögn yrði á þá leið, að við hefðum nokkrar líkur til þess að vinna slíkt mál, jafnvel þó að einhver vafi léki á, mundi ég leggja til, að í slíkt mál væri farið, og stuðla að því með atbeina mínum, ef ég ætti sæti í ríkisstj., á sama hátt og ég mundi telja það úr, ef t. d. fræðimenn teldu einróma öruggt, að við ættum ekki neinn rétt. Ég held þess vegna, að það sé óhjákvæmilegt, að Alþ. bíði eftir því, að sú fræðilega athugun eigi sér stað, sem ég er búinn að hrinda á stað, vegna þess að það liggur ljóst fyrir, að sú athugun mun ekki seinka framkvæmd málsins nokkurn skapaðan hlut.