23.11.1948
Sameinað þing: 20. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 445 í D-deild Alþingistíðinda. (4705)

48. mál, réttindi Íslendinga á Grænlandi

Flm. (Pétur Ottesen):

Ég bjóst nú raunar við því, að ráðh. ætti ekki erfitt með að svara, þó að ég varpaði fram þessari spurningu. Gerði ég það raunar frekar til þess að skyggnast inn í málið en ég gæti búizt við því, að hann gæti birt nokkurn árangur, þar sem hann er ekki fyrr á ferðinni með þessa nefndarskipun en það, að hann er ekki einu sinni búinn að fá svar frá einum aðilanum, sem hann óskaði, að tæki þátt í þessu starfi. Eftir gangi þessa máls má búast við því, að orðið geti nokkuð langur aðdragandi að því, að slíkt álit liggi fyrir, og þá sérstaklega þar sem ráðh. hefur valið til þess að taka þátt í þessu starfi einn aðila, sem þegar hefur látið í ljós, að þeim mönnum, sem hann hefur yfir að ráða, muni ekki vinnast tími til þátttöku í starfinu, þannig að það er ekki einu sinni víst, að álit liggi fyrir frá þessari n., þegar þing kemur saman næst. Nú liggur fyrir að gera upp sakir við Dani, bæði í sambandi við fjárskipti og annað, og þarf þá líka að hafa hliðsjón af því í sambandi við gang þessa máls, að þar sé ekki stefnt í óefni eða tvísýnu í sambandi við þá uppgerð eða framgang þeirra mála, svo að það er margt, sem kallar hér að, þar sem ekkert hefur verið að gert í þessu máli þrátt fyrir allar aðvaranir um, að þetta geti orðið dálítið varhugavert fyrir Íslendinga, að ég ekki ræði um þá nauðsyn, sem vafalaust getur orðið fyrir Íslendinga á næsta sumri, að bátaflotinn geti fengið aðstöðu til veiða við Grænland. Vildi ég á það benda, að ef fyrir lægi álit frá þessum mönnum, segjum á næsta sumri eða næsta vori, og niðurstöður þeirra yrðu jákvæðar, þannig að þeir teldu, að byggja mætti á þeim málssókn, finnst mér mjög varhugavert að bíða eftir því, að þing komi saman á næsta hausti eða næsta vetri, og það síður ástæða til þess, þar sem Alþ. hefur kjörið menn í nefnd með ríkisstj. til þess að ráða gerðum sínum um þau mál, sem er utanrmn. Þess vegna finnst mér, að vel hefði verið hægt að ganga frá þessari þáltill. á þessu þingi á þeim grundvelli að vísa þá til þess, að ríkisstj. og utanrmn. tækju ákvarðanir í málinu, til þess að hraða framgangi þess, ef það lægi fyrir á þeim grundvelli. Og ef nauðsynlegt er, mætti umorða till. þannig, að Alþ. feli þá utanrmn. og ríkisstj. framhald málsins. — Ég vildi aðeins skjóta þessu fram hér með tilliti til þess, að ég er sannfærður um, að það er mjög nauðsynlegt fyrir okkur að komast sem allra fyrst til botns í þessu máli, því að eftir því sem nú horfir, verður svo og svo mikill hluti af bátaflotanum að komast á Grænlandsmið, ef hann á ekki að stöðvast algerlega, enda mikils að vænta, ef aflabrögð verða eins mikil þar og að undanförnu. Þetta er þá vitanlega til athugunar, ef till. fer í utanrmn., að breyta orðalagi hennar í samræmi við það, sem ég hef tekið hér fram.