02.02.1949
Sameinað þing: 35. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 446 í D-deild Alþingistíðinda. (4714)

50. mál, vinnufataefni o.fl.

Flm. (Hermann Guðmundsson):

Alllangur tími er nú liðinn síðan þessari till. var útbýtt, en það var 3. nóv. 1948. Ég sé ekki ástæðu til að sakast um, að málið er svo seint tekið fyrir. Till. hefur gildi fyrir það, en engu að síður missir hún að nokkru leyti marks, sem ég mun síðar koma að.

Það er upphaf þessa máls, að þegar skömmtunarkerfið var upp tekið, láðist að taka upp sérstaka úthlutun til vinnandi manna, sem sjáanlegt var, að þyrftu frekar en aðrir að halda á vinnufötum og skjólfötum í sínu starfi. Af þessari ástæðu og fleirum var flutt þáltill. um sérstaka skömmtun á vinnufötum og vinnuskóm. Sú till. náði ekki fram að ganga, en hafði þá raunhæfu þýðingu, að skömmu á eftir var tekin upp sérstök skömmtun á þessum vörutegundum. Og skömmtun sú, sem gert var ráð fyrir, má segja, að hefði verið að mestu fullnægjandi, ef nægilegt af vinnufötum og vinnuskóm hefði verið fyrir hendi. En á s. l. hausti var ástandið orðið á þann veg, að verkamenn í Reykjavík og Hafnarfirði og öðrum nálægum stöðum gátu ekki fengið nauðsynleg vinnuföt til síns starfs. Menn urðu að vinna jafnvel í venjulegum jakkafötum. Ég veit ekki vel, hvernig ástandið úti á landinu var. En fyrir liggja nokkrar góðar upplýsingar, sem gefnar voru í umr. í Ed. Einn þm. úr sveitakjördæmi, hv. þm. Barð., lét svo um mælt, að hrúgazt hefðu hjá sér bréf utan af landi, sem full væru af kveinstöfum yfir því, að fólk geti ekki fengið nægan skófatnað og vinnuföt. Á einum stað verða bræður að skiptast á verkamannafatnaði til þess að geta gengið til verka, og bóndinn verður að liggja í rúminu, til þess að hinir karlmennirnir geti farið út til vinnu. Sumum fannst þessi hv. þm. hafa tekið of fast til orða, en hann svaraði á þessa leið: Ég get staðfest, að ég hef fengið bréf, sem skýrir frá því, að bóndinn verði að liggja í rúminu meðan bræðurnir vinna við útistörf. — Ef svona er ástandið í sveitum landsins, þá er það verra en hér í kaupstöðunum, það skal ég viðurkenna, þó að slæmt sé. Við flm. höfum óskað upplýsinga frá þeim mönnum, sem sjá notendum fyrir þessum vörum, og fengum svo hljóðandi skýrslu, sem ég vil lesa, með leyfi hæstv. forseta:

„Alþýðusamband Íslands og Verkamannafélagið Dagsbrún, Reykjavík.

Vegna fyrirspurnar yðar til félags vors um, hvernig á því muni standa, að mikil þurrð er um þessar mundir á vinnuvettlingum, vinnufötum og skjólfatnaði fyrir verkamenn, þá höfum vér reynt að afla upplýsinga um þetta mál, að því er varðar innlenda framleiðslu. Hins vegar getum ver ekki sagt um það, hve mikið kann að hafa verið flutt inn af tilbúnum vinnufötum nú og á undanförnum árum, enda slíkur innflutningur með öllu óþarfur, þar eð innlendu verksmiðjurnar geta framleitt vinnufatnað á hagstæðu verði og afkastageta þeirra samanlagt mun vera nokkru meiri, en markaðurinn þarfnast, miðað við, að næg efnivara sé fyrir hendi.

Til þess að fá yfirlit yfir framleiðslu þessa árs, til samanburðar við framleiðslu undanfarinna ára, höfum vér snúið oss til viðskiptanefndar með beiðni um upplýsingar varðandi veitt leyfi fyrir efnum til vinnufatnaðar árin 1944–1948, að báðum meðtöldum. Jafnhliða höfum vér fengið upplýsingar frá fulltrúa iðnrekenda í stjórn Sambands vefnaðarvöruinnflytjenda um innflutning til vinnufataverksmiðja fyrir milligöngu þeirrar stofnunar, á meðan Ameríkuviðskiptin stóðu yfir. Síðar nefndu tölurnar eru þó ekki hárnákvæmar, en láta mjög nærri sanni. Samanlagt hefur innflutningurinn til þeirra fyrirtækja, sem innflutningsyfirvöldin telja, að noti efni til vinnufatnaðar, verið þessi, samkvæmt upplýsingum viðskiptanefndar og fulltrúa iðnrekenda í S. V. Í.

Árið 1944 kr. 2.907.556,00

— 1945 — 1.952.861,00

— 1946 — 2.616.967,00

— 1947 — 1.886.494,00 og

— 1948 — 1947.963,00

Þess ber að geta, að í innflutningsmagni þessu eru taldar leyfisveitingar til nokkurra fyrirtækja, sem framleiða auk vinnufata og vinnuvettinga sjóklæði, regnkápur, rykfrakka, sportfatnað, manchettskyrtur o. fl. þess háttar, þó að verulegur hluti séu leyfisveitingar fyrir eiginlegum vinnufatnaði. Verksmiðjurnar, sem hér koma til greina, eru: Vinnufatagerð Íslands h.f., Vinnufataverksmiðjan h.f., Sjóklæðagerð Íslands h.f., Skjólfatagerðin h.f., Fatagerðin, Verksmiðjan Skírnir h.f., Toledo, Verksmiðjan Magni h.f., Verksmiðjan Sunna, Skyrtugerðin h. f., Sjófataverksmiðjan h.f., Elgur h.f. (öll í Reykjavík) og Fatagerðin, Seyðisfirði.

Þó að svo virðist sem leyfisveiting yfirstandandi árs sé hlutfallslega svipuð og sum undanfarinna ára, er hún raunverulega allmikiu lægri, þegar tillit er tekið til þess, að vegna hækkandi vöruverðs erlendis fæst langtum minna vörumagn nú en áður fyrir sömu krónuupphæð. Nefnum vér sem dæmi, að verð á nankini (algengustu tegund vinnufataefnis) var 1938 93/4 pr. yard, 1940 12 cent, 1942 20 cent, 1946 28 cent og 1947 42 cent. Hér er nefnt vinnufataverð í Bandaríkjunum, en síður en svo verður samanburður síðustu tveggja áranna hagstæðari, ef miðað er við Evrópuverð þau árin, á móti áðurnefndu verði hin árin, en þá var vinnufataefnið keypt frá Ameríku. Má því með réttu segja, að ein ástæðan til þess, að minna hefur komið á markaðinn af vinnufatnaði nú en endranær, sé sú, að veitt hafa verið leyfi fyrir töluvert minna efnismagni 2 síðast liðin ár, en áður.

En hér kemur fleira til greina. Skal til glöggvunar tekin hver tegund fyrir sig, algengur vinnufatnaður, vinnuvettlingar og skjólfatnaður.

1. Samkv. upplýsingum frá þeirri verksmiðju, sem framleitt hefur mestan hlutann af algengum verkamannafötum (buxum, jökkum og samfestingum úr nankini), þá var verulegur hluti af leyfisveitingunni, sem talin er hafa verið 1947 um 800.000 kr., veitt seint á árinu 1946, en vörurnar komu á neyzlumarkaðinn 1947. Hins vegar hafi fyrirtæki þetta næstum engin ný leyfi fengið árið 1947, eða um 30.000 kr. Fyrrnefnd 800.000 kr. leyfisveiting hrökk til þess að fullnægja að nokkru markaðsþörfinni árið 1947, en vegna þess að ný leyfi voru ekki veitt á því ári, gengu efnisbirgðir verksmiðjunnar upp, svo að um síðustu áramót átti verksmiðjan engin vinnuföt til, til þess að fullnægja eftirspurn fyrri hluta árs 1948. Það var því ekki fyrr en verksmiðjan fer að vinna úr efni því, sem veitt var leyfi fyrir eftir áramótin, sem vinnuföt komu á markaðinn. Verksmiðjan fékk nokkur leyfi í jan. og marz og álíka mikið í júlí. Afgreiðslufrestur á vinnufataefnum frá erlendu verksmiðjunni er venjulega frá 3 til 6 mán., eftir að pöntun er gerð, en pöntun er ekki hægt að senda fyrr, en leyfið er veitt.“

Þessi skýrsla er mun lengri, en það er komið fram, sem mestu máli skiptir. Og þegar þessi skýrsla var fengin, var þessi þáltill. flutt. Hún gerir ráð fyrir tvennu. Í fyrsta lagi, að flutt verði til landsins nægilegt vinnufataefni, og í öðru lagi, að leyfin verði veitt með nægilegum fyrirvara. Það hafa nú legið fyrir þinginu áskoranir um innflutning. Margir þm. hafa gagnrýnt þessar áskoranir og sagt, að um áróðursmál væri að ræða. Ég skal ekki segja um aðra, en mér þykir sjálfum gott að fá sem flest atkv. En ástand það, sem nú ríkir, er til óþurftar og skaða. Það er ekki heppilegt, að menn fari í dýrum fötum til vinnu sinnar eða geti ekki staðið í stöðu sinni sökum skorts á vinnufötum. Þessi þáltill. er borin fram í fullri alvöru. — Ég vil svo mælast til að umr. verði nú frestað og málinu verði vísað til allshn.