02.02.1949
Sameinað þing: 35. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 453 í D-deild Alþingistíðinda. (4753)

62. mál, framleiðsla raftækja innanlands

Flm. (Ingólfur Jónsson):

Ég hef leyft mér að flytja á þskj. 92 till. til þál. um framleiðslu rafmagnstækja innanlands. Við vitum allir um hina miklu þörf rafmagnstækja í landinu vegna þess, að á undanförnum árum hefur rafmagni verið meir og meir dreift út um byggðir landsins, og verður svo vonandi í náinni framtíð. En rafmagnstæki vantar tilfinnanlega. Það hefur verið talað um gjaldeyrisskort og að erfitt sé að fullnægja um innflutning. En þá virðist beinasta leiðin að framleiða þau tæki í landinu sjálfu, þar sem reynsla er fengin fyrir, að framleiðsla rafmagnstækja er samkeppnisfær við erlenda, bæði að verði og gæðum, og á ég við það, að í Hafnarfirði, í Rafha, hefur reynsla fengizt með framleiðslu eldavéla, sem hafa reynzt eins góðar og erlendar og alls ekki dýrari, heldur ódýrari, en erlendar. En svo einkennilega hefur það atvikazt, að þessi eina raftækjasmiðja í landinu hefur ekki afkastað með fullum krafti, af því að það vantar efni til að vinna úr. Samkvæmt uppiýsingum frá forstjóra þessa fyrirtækis er erlendur gjaldeyrir til efniskaupa ekki nema ¼ miðað við að flytja inn tækin tilbúin. Það virðist þess vegna vera sjálfsagt að reyna að efla þennan iðnað í landinu, bæði vegna þess, að við eigum nú við erfiðleika að stríða í gjaldeyrismálum og megum búast við, að þannig verði einnig í framtíðinni, og þá alveg sérstaklega ef ekki verður horfið að því ráði að spara þar, sem möguleikar eru fyrir hendi, t. d. með því að efla iðnaðinn. Till., sem hér er flutt, fer fram á að stuðla að aukinni framleiðslu rafmagnstækja innanlands með því að tryggja þeim verksmiðjum í landinu, sem framleiða rafmagnstæki, nægilegt hráefni, svo að þær geti unnið allt árið með fullum afköstum, þannig að það verði ekki látið henda, að þær verði að stöðva rekstur sinn vegna þess, að þær vanti efni, um leið og veitt eru innflutnings- og gjaldeyrisleyfi fyrir tilbúnum tækjum, sem verksmiðjurnar geta framleitt alveg eins vel. Mér virðist ástæða til að veita því alveg sérstaka athygli.

Þá segir enn fremur í till., að stuðlað skuli einnig að stofnun nýrra fyrirtækja til framleiðslu ýmissa rafmagnstækja, sem enn hafa ekki verið framleidd hérlendis. Eru það t. d. kæliskápar, þvottavélar, rafmagnsofnar og fleiri tæki, sem fróðir menn á þessu sviði hafa tjáð mér, að vel megi framleiða hér á landi með sama árangri og eldavélarnar.

Það, sem ég á við með að skora á ríkisstj. að stuðla að því, að stofnuð verði slík fyrirtæki, er ekki það, að ríkisstj. endilega fari að setja á stofn slíkar verksmiðjur, heldur greiði fyrir því, ef einstaklingar eða félög vildu ryðja braut í því efni. Eins og kunnugt er, er öllum málum þannig háttað, að það er ekkert hægt að hreyfa sig nema með aðstoð hins opinbera. Þó að einstaklingar eða félög vildu ráðast í að koma upp verksmiðju á þessu sviði, þá er það ekki hægt nema með beinum eða óbeinum stuðningi þess opinbera. Það er þess vegna nauðsyn, að ríkisstj. stuðli að því, að sú verksmiðja, sem nú er til í landinu, hafi efni til þess að framleiða rafmagnstæki, og hjálpi til að koma upp nýjum slíkum fyrirtækjum.

Ég býst við, að hægt verði að efla skilning hinna háu yfirvalda á þessum málum með því að vekja athygli á hinni miklu nauðsyn þessara tækja. Ég vona, að þessi till. mín geti orðið til þess, enda þótt hér í kvöld séu fáir til að hlusta á það, sem ég hef að segja í þessu sambandi. Ég sé ekki ástæðu til að hafa þessi orð fleiri, vegna þess að ég óska, að umr. verði frestað og till. vísað til hv. allshn.