23.02.1949
Sameinað þing: 42. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 460 í D-deild Alþingistíðinda. (4764)

64. mál, fjallabaksvegur

Flm. (Jón Gíslason):

Herra forseti. Ég flyt hér þáltill. á þskj. 95 um athugun á sumarvegi um Fjallabaksleið. Því er nú þannig háttað með samgöngumál okkar Skaftfellinga, að þjóðleiðin yfir Mýrdalssand getur lokazt af hamförum náttúrunnar svo missirum skiptir. Ef svo færi, þá eru allir hreppar milli sanda, en þeir eru 5 af 7 hreppum í sýslunni, alveg útilokaðir frá öllum samgöngum. Væri Fjallabaksleið hins vegar fær, þótt ekki væri nema að sumarlagi, þá væri það nokkur bót. Af þessum ástæðum hafa menn þar eystra fengið allmikinn áhuga á að vita, hversu kostnaðarsamt væri að gera bílfært þessa leið. Að vísu hefur fengizt nokkur hugmynd um leiðina, því að hún hefur tvisvar verið farin með bifreiðum. Í annað skiptið var farið á jeppum, en í hitt skiptið á herbílum með drifi á öllum hjólum. Þessar ferðir gengu sæmilega, en þó ekki vel, en þess bera að geta, að það hefur engin athugun verið gerð á því, hvar bezt er að fara, og má því vel vera, að betri leið finnist en sú, sem þessir bílar hafa valið.

Í fyrra ræddi ég þetta mál við vegamálastjóra, og var þá gert riss af þessari leið á korti, en við athugun kom í ljós, að ekki var hægt að ákveða neitt um bezta vegastæðið nema fara leiðina og athuga allar aðstæður. Á síðasta sumri var ætlun að setja upp sauðfjárvarnargirðingu á þessum slóðum, og var þessi leið þá nokkuð farin í sambandi við athugun á því, og gekk bifrelðum þar allgreiðlega. Ég hef rætt þetta aftur við vegamálastjóra og fengið hjá honum allgóðar undirtektir í þessu máli, enda er hér ekki farið fram á mikil fjárframlög, heldur aðeins, að gerð verði athugun á þessari leið og rannsakað, hvort mjög kostnaðarsamt væri að gera þar akfæran sumarveg.

Ég sé svo ekki ástæðu til að fjölyrða um þetta frekar, en vænti, að till. verði vísað til allshn.