25.02.1949
Sameinað þing: 44. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 461 í D-deild Alþingistíðinda. (4771)

67. mál, innflutningur raftækja til heimilisnota

Flm. (Jónas Jónsson) :

Síðan þessi till. var samin og útbýtt, hefur orðið sú breyting á, að ríkisstj. hefur gripið til ráðstafana á því sviði, sem hér um ræðir, sem ekki eru í samræmi við þessa till. mína, heldur þvert á móti. En á það verður að líta sem neyðarráðstöfun, og mæli ég því fyrir mínu máli hér miðað við venjulegar kringumstæður.

Þessi till. mín er í rauninni bundin við þá næstu á dagskránni, um aukna notkun rafmagns í sveitum í sambandi við Marshall-málið. Ég þarf ekki að ganga langt í því að útskýra þessa till., hún er í samræmi við þá þróun, sem einkum hefur orðið hér á landi á þessari öld, að taka vélaaflið í þjónustu þjóðarinnar og láta vélarnar vinna sem mest. Vélunum hefur verið beitt við alls konar framleiðslu, og nú er orðið jafnnauðsynlegt að beita þeim við heimilisstörfin. Það þóttu mikil tíðindi, þegar mótor bátarnir og togararnir komu til sögunnar í staðinn fyrir skúturnar og árabátana. Nokkru síðar kom svipuð vélaalda yfir landbúnaðinn, þá yfir vegagerð og flestöll önnur störf, þannig að sá þótti ekki lengur maður með mönnum, sem ekki hafði hraðvirk vélknúin tæki í sinni þjónustu. En því er ekki hægt að neita, að Alþ. hefur ekki verið nógu vel á verði um það, að þessi tækni kæmist inn á heimilin, og er þess þó mikil þörf vegna fólksleysisins þar. Það þarf ekki að lýsa því, sem allir vita, að húsfreyjur eru flestar einyrkjar eða einar kvenna á heimilunum, bæði í sveit og við sjó. Og þó að þær séu jafnvel efnaðar og hafi ráð á að hafa vinnukonur, þá fæst þetta vinnuafl ekki á heimilin. Öllum húsfreyjum er því yfirleitt nauðugur einn kostur að reyna að bæta sér fólksleysið upp með vélknúnum tækjum til heimilisnota.

Þessi till. gengur í stuttu máli út á það að hugsa til þess að láta vélaöldina ná til heimilanna, húsfreyjur þurfa ekki síður á vélunum að halda en aðrir, sem starfa í landinu. Ég býst nú ekki við, að till. verði samþykkt óbreytt, enda er hún í raun og veru óskatillaga, bending til ríkisstj. og þeirra nefnda, sem hafa með innflutning að gera, og eins og til að vekja athygli á og árétta, að vélaöldin þarf nauðsynlega að ná inn á heimilin.

Ég hygg, að réttast sé að vísa þessu máli til fjvn. að lokinni umr.