25.02.1949
Sameinað þing: 44. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 463 í D-deild Alþingistíðinda. (4780)

68. mál, rafmagnsnotkun í sveitum

Flm. (Jónas Jónsson):

Eins og ég gat um í sambandi við þá till., sem hér var til umræðu næst á undan, um innflutning raftækja, þá eru þessar till. nátengdar, og röðin er sú, að þessi kemur eiginlega á undan. Ég vil þá með nokkrum orðum víkja að upphafi þessa máls.

Á sumarþinginu 1942 komst sá skriður á rafmagnsmálin, að flokkarnir kepptust allir um, að slá því föstu, að rafmagninu yrði komið um allt landið og það kæmi að almannagagni líkt og vegirnir. Nú hefur talsvert áunnizt síðan. Gerðar hafa verið nokkrar virkjanir, og aðrar hafa verið stækkaðar, og nú síðast hefur verið komið upp stórvirkjun í Borgarfirði, og meira stendur til: stækkun Sogs- og Laxárvirkjananna. Línur hafa verið lagðar út frá Soginu um Reykjanes og Suðurland, og bendir þetta allt í þá átt, sem stefnt var 1942, þó að meira þurfi að gera. Að vísu hefur sú breyting á orðið, að það jafnrétti hefur ekki náðst, sem sveif fyrir augum manna 1942 og mikið var talað um, jafnrétti sveita og kaupstaða í þessu efni, og átti að leggja verðið á Sogsrafmagninu í Reykjavík til grundvallar við alla raforkusölu í landinu. Rafmagnið er nú um þriðjungi dýrara í sveitunum, en í Reykjavík, og þessi verðmunur gerir það að verkum, að ekki er beint hægt að sjá fyrir, að sveitafólkið geti hagnýtt sér þetta nauðsynlega afl með slíkum kjörum eða taxta. En það er ekki aðeins þessi verðmunur, sem kemur til greina sveitunum í óhag, heldur og tæknilegir og fjárhagslegir örðugleikar á því að koma vatnsrafmagninu um allar byggðir landsins í náinni framtíð, en hins vegar verður að fullnægja rafmagnsþörfinni með einhverjum ráðum þegar í stað, lausn þeirra mála þolir enga bið. Og nú hefur það komið æ skýrar í ljós, að hlynna þyrfti að því að koma upp dieselvélum í sveitunum, og þá í fyrsta lagi þar, sem engar líkur eru til þess, að hægt sé að koma upp smávatnsaflsstöðvum né heldur fá rafmagn frá stórvirkjunum í framtíðinni. Þessi till. mín, frv. hv. þm Dal. í Ed., og till., sem afgr. hefur verið frá búnaðarþingi því, er nú situr, benda allar í sömu átt. Formælendur sveitanna benda á að leysa fyrst um sinn rafmagnsþörfina að nokkru leyti með dieselvélum, og allar líkur benda til þess, að með þeim hætti fengist ódýrara rafmagn á mörgum bæjum, en frá stórum rafmagnsstöðvum. Samt munu menn yfirleitt kjósa fremur vatnsrafmagn, og þá fyrst og fremst vegna þess, að það er íslenzk framleiðsla.

Nú mun ríkisstj. hafa leitað eftir því við fjárhagsráð í vetur, að það beitti sér fyrir innflutningi slíkra véla sem ég hef nefnt. En skortur er á gjaldeyri, ekkert mun hafa áunnizt í þessu efni, og bændur hafa enga von sem stendur. En með till. minni hef ég viljað benda á leið til úrbóta. Það er alveg óhætt að slá því föstu, að annaðhvort verða fjöldamörg heimili úti um byggðir landsins að fá rafmagn eftir þeirri leið, sem hér er bent á, eða þau fá ekkert rafmagn um ófyrirsjáanlega framtíð, og það rafmagn, sem framleitt er með litlum dieselrafstöðvum, yrði jafnvel ódýrara en vatnsrafmagn. En það skortir gjaldeyri. Og þar sem Bandaríki Norður-Ameríku hafa nú boðið ýmsum þjóðum lán og fjárhagslega aðstoð til skynsamlegra framkvæmda, þá sýnist mér koma til greina að tengja lausn rafmagnsmálanna Marshallaðstoðinni að þessu leyti. Íslendingar mundu ráða því að nokkru leyti sjálfir, hvort þeir vildu nota eitthvað af sínu framlagi í þessu skyni.

Ég þarf ekki að fara mjög langt út í það, að það, sem notað hefur verið fram að þessu af Marshalllánum, hefur eingöngu farið til sjávarútvegsins og atvinnulífs í bæjunum, sbr. Örfiriseyjarverksmiðjuna og síldarbræðsluskipið Hæring. Hvoruga þessa framkvæmd hefði verið hægt að ráðast í án Marshallaðstoðarinnar. Ég skal heldur ekki fara út í það, hversu heppilegar þessar framkvæmdir hafa reynzt, þó að til þeirra væri stofnað með gagn fyrir augum. En hitt vil ég segja, að ef hugsað er um nokkurt jafnrétti milli sveita og kaupstaða í sambandi við hagnýtingu Marshalllánsins, þá er sjávarsíðan búin að fá sinn skerf í bili. Nú stendur enn fremur til að stækka Sogsvirkjunina fyrir Reykjavík og nokkurn hluta Suðurlands og stækka Laxárvirkjunina, og mér skilst, að ekki verði í það ráðizt, nema heppileg lán fáist erlendis, og er þá lítill vafi á því, að hugsað er til Marshalllánsins í því sambandi. En ég vil benda á, að þótt Reykvíkingar hafi þörf fyrir meira rafmagn, þá höfum við þegar nokkurt rafmagn, og ef velja þarf um að auka Sogsrafmagnið og bæta við hjá þeim, sem þegar hafa rafmagn, eða láta þau sveitaheimili fá rafmagn, sem ekkert rafmagn hafa og ekkert fossrafmagn geta fengið, þá virðist auðvelt að dæma um, hvorn kostinn sé sanngjarnara og sjálfsagðara að taka. Till. mín gengur líka út á að vega salt af sveitanna hálfu á móti því, sem búið er að ráðstafa af Marshallaðstoðinni til sjávarútvegs og sjávarsíðu hér á landi.

Ég býst ekki við miklum umræðum um till. mína hér á þessu fámenna þingi og læt ráðast um það, hvort henni verður vísað til allshn. eða fjvn.