23.02.1949
Sameinað þing: 42. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 465 í D-deild Alþingistíðinda. (4784)

72. mál, brúargerð á Múlakvísl

Flm. (Jón Gíslason) :

Herra forseti. Þessi þáltill., sem ég flyt hér á þskj. 115 um brúargerð á Múlakvísl, er til orðin eftir miklar umræður þar eystra þess efnis að fá nýja brú á Múlakvísl. Sú brú, sem nú er yfir þetta vatnsfall hjá Selfjalli, er í yfirvofandi hættu, því að það hefur borizt svo mikið af sandi og lelr að brúarstæðinu, að eins má búast við, að vatnið flæði yfir brúna í leysingum og jafnvel taki hana þá með sér. Þetta veldur því, að við teljum heppilegra að fá brú á öðrum stað. Öllum, sem ferðazt hafa austur, er kunnugt um, hversu krókóttur og brattur vegurinn er á Höfðabrekkuheiði, enda er þarna af 20 km leið að minnsta kosti 15 km erfiðar brekkur upp og niður og varla hægt að finna 200 m vegarkafla, sem ekki er annaðhvort bugða eða brekka á. Hins vegar er leiðin beint yfir sandinn jafnlend, en eftir þeirri kostnaðaráætlun, sem gerð hefur verið í sambandi við að leggja veginn þessa leið, hefur það litið út fyrir að verða nokkuð dýrt. En þó að svo kunni að virðast í fljótu bragði, þá sjá menn við athugun, að vegur eftir þessari leið hefði allmikinn sparnað í för með sér og það á þeim hlutum, sem við verðum að kaupa fyrir erlendan gjaldeyri. Það sagði mér bílstjóri, sem mikið hefur ekið þessa leið milli Víkur og Kirkjubæjarklausturs, að beinn kostnaðarauki vegna vegarins um Höfðabrekkuheiði væri að minnsta kosti 50 kr. í hverri ferð, en þann kostnað væri hægt að spara, ef vegurinn væri lagður neðan við heiðina og brú sett á kvíslina á þeirri leið. Þessi eyðsla er mest fólgin í benzíni og gúmmíum, sem hvort tveggja kostar erlendan gjaldeyri. Hins vegar er vegagerðin aðallega fólgin í vinnu við varnargarð og kostar því ekki mikla gjaldeyriseyðslu. Vegna þess að ég hafði góða aðstöðu til að fylgjast með umferðinni um þessa leið, þá lét ég telja alla þá bíla, sem um veginn fóru frá því í byrjun maí og til októberloka, og voru það samtals 2.114 bílar, og má af því sjá, að það eru ekki neinar smáupphæðir, sem spara mætti með þessari breytingu á veginum, auk þess sem viðhald vegarins eftir sandinum væri miklu ódýrara. Í viðbót við þá erfiðleika, sem ég hef getið um á veginum um Höfðabrekkuheiði, er hann oft ekki fær nema yfir sumarið, og t. d. nú í vetur hefur hann verið ófær frá því fyrir áramót, og það má verða góð tíð, ef hann verður aftur fær í maí í vor. Aftur á móti ætti vegur eftir sandinum að geta verið fær allan veturinn, nema því verr viðri. Ég er þeirrar skoðunar, að mönnum hefði aldrei dottið í hug að leggja veginn um Höfðabrekkuheiði, ef þá hefðu verið fyrir hendi þau tæki við vegagerð, sem nú eru notuð. Það er til gamalt máltæki um óhagsýnan sparnað, þar sem segir, „að eyririnn sé sparaður, en krónunni kastað“ og þetta er raunverulega gert þarna austur frá, meðan ekki er byggð brú á Múlakvísl.

Ég hef þessa framsögu ekki lengri, en vil óska eftir, að málinu verði að lokinni þessari umr. vísað til fjvn.