04.02.1949
Sameinað þing: 36. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 477 í D-deild Alþingistíðinda. (4791)

73. mál, Kaldaðarnes í Flóa

Jörundur Brynjólfsson:

Herra forseti. Hv. þm. Barð. hefur nú eftir alllangan meðgöngutíma haft orð fyrir þessari till., og er ekki um það að sakast, þótt hann beri hana fram og rökstyðji. Og það er sannfæring hans, að hér sé um að ræða vonda ráðsmennsku með opinberar eignir, sem þurfi leiðréttingar. En ef honum hefði gengið það eitt til að leiðrétta ranga meðferð á fjármunum hins opinbera, hefði hann tæplega vikið máli jafnoft að ráðherrum Framsfl. og hann gerði. Og svo hughaldið var honum það að koma flokkspólitíkinni við, að hann hikar ekki við að reyna að gera einn málsaðilann tortryggilegan með því að segja, að hann sé fallinn frambjóðandi Framsfl. Svona er blærinn á ræðu hv. þm. Og ef honum hefði verið hughaldið að rökstyðja mál sitt með réttu, hefði hann ekki farið eins skakkt með staðreyndir og sýnt jafnmikla hlutdrægni og hann gerði. Það hefði verið auðvelt fyrir hann að afla sér meiri upplýsinga áður en hann felldi dóma sína. Ég ætla til dæmis, að hv. þm. sé þess ekki umkominn að geta dæmt um, hvort í þessu tilfelli hafi verið farið að lögum eða ekki. Til þess hefði hann þurft að afla sér upplýsinga hjá hæfari aðilum. A. m. k. er ég ekki trúaður á, að hann hafi þann skilning á lögum, sem grípa hér inn í, að hann geti á augabragði kveðið upp ákveðinn dóm. Ég skal benda á þá staðhæfingu, að með því að velja drykkjumannahælinu stað á jörðinni, hafi verið ákveðið, að jörðin væri nokkurs konar embættismannabústaður. Eftir þeim upplýsingum, sem ég hef aflað mér í stjórnarráðinu, og samkvæmt bréfi, sem heilbrmrn. skrifaði landbrn., eftir að hælið var lagt niður, er það ljóst, að heilbrmrn. taldi sig ekki hafa vald á jörðinni. Engir samningar voru um það, að húsin, sem fyrir voru á jörðinni, væru afhent þessu hæli, a. m. k. hef ég ekki getað fengið neinar slíkar upplýsingar í stjórnarráðinu, og bréfaskipti milli ráðuneytanna benda til hins gagnstæða.

Þá tók hv. þm. sér dómsvald um það, að í Kaldaðarnesi hefði verið bezti staðurinn fyrir drykkjumannhæli. Það kemur nú heldur hastarlega í bága við reynsluna. Og mér er sem ég sjái hv. þm., ef ekkert hefði verið gert til að binda endi á það ófremdarástand, sem var í því máli, hann hefði þá ábyggilega — og með réttu — álasað málsaðilum fyrir tilgangslitla sóun á ríkisfé. Ég ætla, að það hafi verið Stórstúka Íslands, sem hafði hönd með í bagga um það að flytja hælið frá Kumbaravogi til Kaldaðarness, og ég veit, að landlæknir átti ekki hlut að því. Það var þá fyrst, er þangað kom, að farið var að bera þetta undir hann. Hvað læknaráð áhrærir um þennan flutning, veit ég ekki, en síðan hælið var afhent ríkisspítulunum, veit ég, að sá læknir taldi hælið á fráleitum stað og of langt í burtu til þess, að af því mætti vænta verulegs árangurs. En sá læknir, sem hefur stjórnað þessu hæli, er dr. Helgi Tómasson, og hann var valinn vegna þess, að hann er manna fróðastur um þessa hluti og bezt fallinn til að gegna slíku starfi. Og hvað reynsluna í þessu efni áhrærir, þá hefur komið í ljós, að hann hafði rétt fyrir sér. Vistmönnum á hælinu fækkaði stöðugt og urðu alllengi síðast aðeins fjórir, en rekstur hælisins kostaði um 573 þús. kr., svo að það varð á milli 10 og 20 þús. kr. kostnaður á hvern sjúkling í fyrstu, en síðan hygg ég hann hafi numið talsverðu á þriðja tuginn, og þá stund, sem hælið hefur staðið, hefur það sem sagt kostað um 573 þús. kr.

Nú mundi einhver segja, að það væri nú fyrir sig, þótt kostnaður yrði mikill, ef mikill árangur hefði náðst á hinn bóginn. En nú er það svo, að hann er nær eða jafnvel enginn. Og mér er sem ég sjái röksemdir hv. þm. Barð., eftir að þetta lá allt saman fyrir, og útmálun hans á því, hvernig ráðh. hefði rækt sínar skyldur, ef haldið hefði verið áfram á þessari sömu braut. Og þar hefði hann haft rétt fyrir sér. Slíkt hefði verið ill meðferð á fjármunum. Og það er enda svo að sjá, að hlutaðeigendur hafi áttað sig mjög fljótlega á því, að ekki væri mikils árangurs að vænta á þessum stað, og lagt til að flytja hælið á nálægari stað, þar sem auðveldara væri að hafa daglegt eftirlit. Hv. þm. Barð. þarf því ekki að berja sér á brjóst og hefja upp harmagrát vegna sjúklinga, sem af þessum sökum yrðu ofdrykkjunni að bráð. En mér finnst það hálfgerð kaldhæðni, af því að hann virtist tala af hlýjum hug um þessa starfsemi, að hann skyldi vilja halda henni á þeim stað, þar sem skilyrðin að dómi þeirra, sem bezt þekkja, eru þannig, að ekki er að vænta mikils árangurs, nema launa dýran lækni, sem ætti þar heima eða í námunda.

Ég ætla þá næst að víkja að því atriði, hvers vegna ég fór frá Skálholti, en í sambandi við það er rétt að taka það atriði úr ræðu hv, þm. Barð., sem fjallaði um kaupin á Skálholti. Menn hafa í seinni tið gert mjög að umtali, að það þyrfti að fegra og bæta Skálholt. En þó að menn beri það mjög fyrir brjósti, hefur lent við málæðið eitt enn þá, nema ákveðið hefur verið að koma þar upp skóla. En svo vill svo einkennilega til, að sumir þeirra, sem mest hafa talað um að fegra staðinn, eiga nú jafnvel ekki aðra ósk heitari, en ef hægt væri að drepa þessa stofnun. Það hefur verið þvælzt fyrir málinu árum saman af elnum embættismanni ríkisins, og varð ráðh. að heimta af honum skil. Allt fram að því að ríkið keyþti jörðina, hafði hún verið í einkaeign allt frá dögum Hannesar Finnssonar biskups. Hafa niðjar hans erft þessa jörð og byggt hana ábúendum þar frá ári til árs. Á haustnóttum fengu ábúendur fyrst að vita, hvort þeir fengju að vera kyrrir eða ekki næsta vor eða yrðu að flytja burt. Meira en á aðra öld gengur þetta fyrfr sig, og ekki varð vart við neinar raddir um það, að hugsa þyrfti eitthvað um þennan stað og fegra hann. Hirðusemin um staðinn var ekki meiri hjá valdamönnum þessarar þjóðar en það, að ábúendur voru látnir sífellt búa við svo lamandi ábúðarskilyrði. Þegar ég flutti till. um það á Alþingi, að Skálholt sé keypt, stóð svo á, að eigandi Skálholts var þá fallinn frá. Þá var leitað eftir því að fá erlenda menn til að kaupa staðinn. Mér fannst það óbærflegt og þjóðarsmán, að slíkt ætti sér stað. Fyrir þá sök var till. flutt á þingl. Var hún samþ., en ekkert ákveðið um embættisbústað.

Að því leyti sem hv. þm. talaði um, að framið væri lögbrot, þá eru það allt saman staðlausir stafir. — Nú sé ég, að fundartíminn er liðinn í bili, og sé á hæstv, forseta, að hann muni óska að fresta fundi. Skal ég því fresta minni ræðu. — [Fundarhlé.]

Herra forseti. Ég vil fyrst beina því til hæstv. forseta, að ég er ekki fús til að tala hér yfir tómum stólum. Þegar hv. flm. flutti sína ræðu, var hér margt manna, og vil ég því að einhverjir hlýði á mig. — Ég endaði mál mitt síðast með kaupunum á Skálholti, og þá hafði ekki verið ákveðið, að þar yrði embættisbústaður eða aðrar ráðstafanir gerðar á jörðinni, og liggur ekkert fyrir um slíkar ákvarðanir. Það var misminni hjá mér, að ég hefði flutt till. um kaupin, og þakka ég hv. þm. Barð., að hann skyldi leiðrétta það. En ég mun hafa dregið mig í hlé. Ég var ábúandi í Skálholti, og ég þekki það mikið til íslenzkrar pólitíkur og þóttist vita, að hlaupið yrði til og sagt, að ég hefði gert þetta af eigingirni. Málið var flutt í Ed. af fjvn. og var samþ. þar. En ekkert var framkvæmt í þessu máli af hæstv. þáv. ríkisstj. En það var svo 1935 í sambandi við annað, að hv. þm. S-Þ. flutti till. um að kaupa Skálholt og hv. þm. Str., sem þá var landbrh., framkvæmdi kaupin. Og var mér byggð jörðin, og það var engin heimild til fyrir því, að ekki mætti byggja mér jörðina til lífstíðar, eins og hv. þm. Barð. sagði. Hann gat sagt sína skoðun, en hans orð eru ekki l. Brottför mín stafar ekki af ágirnd. En þeir, sem hér hafa talað undir rós, meina það. En við skiljum fyrr, en skellur í tönnunum, og þeir ættu að vera þær kempur að segja það, sem þeir meina. Ég er sjálfsagt ekkert betri í þessum efnum en aðrir, en ég er heldur ekkert verri. Eftir því, sem hv. þm. Barð. segir, ætti þó ekki að vera neinn vafi á innræti mínu. En ég mun ekki biðjast neinnar vægðar. En ég taldi mig frjálsan að gerðum mínum. Og ég get sagt hv. þm. Barð., að ég var við því búinn, að þetta yrði lagt út á þennan veg. En hv. þm. Barð. hefur lagt sig fram um að láta sínar gerðir líta vel út, en mér finnst það hálfbroslegt, að það skuli vera skoðun ýmissa, að þetta sé eitthvert hneyksli, en ég get sagt hv. þm., að ég hef gefið ýmsu gætur, og ef þetta er hneyksli, þá má taka ýmislegt fleira. En ef þetta mál er rætt, á að segja hlutina með berum orðum, en ekki að vera með dylgjur. Fyrir ókunnuga, sem heyrt hafa ræðu hv. þm. Barð., þá hafa þeir fengið rammskakkar hugmyndir um málið, en ég mun koma að því síðar.

Ég varð var við það, að seta mín í Skálholti væri til fyrirstöðu fyrir búnaðarskólanum, en ætlaði mér ekki að standa í vegi þeirrar stofnunar. Ég ræddi málið við hæstv. þáv. landbrh., og tók hann vel í mál mitt, en sagði, að við yrðum að ræða málið nánar síðar. En ekki varð þó af framkvæmdum, því að hann hætti ráðherradómi skömmu síðar. Það var nú byrjað að grafa skurði í Skálholti og leggja veg að hinum fyrirhugaða skóla. En ég hafði ekki hugsað mér að hætta búskap, og þegar ég vissi, að leggja átti niður drykkjumannahælið í Kaldaðarnesi, spurðist ég fyrir um, hvort ég gæti fengið jörðina. Ég hafði hugsað mér að flytja frá Skálholti vorið 1947, en ríkið var þá enn með búrekstur í Kaldaðarnesi og notaði hús þar. Ég gat því ekki flutt þá, en varð áfram í Skálholti, sem ég hefði ekki gert, ef ég hefði komizt að jörðinni. En ríkið hafði búrekstur í sambandi við hælið og þurfti því húsin. Áður en til kaupa kom á Kaldaðarnesi og þegar ráðið var, að ég flytti frá Skálholti, óskaði ég eftir, að mannvirki mín í Skálholti yrðu keypt, og jafnframt óskaði ég eftir kaupum á Kaldaðarnesi. Eftir l. á að leita eftir hjá vissum aðilum, hvort heimilt sé að kaupa jörðina, fyrst, hvort ákveðið hafi verið að nota jörðina til annars. Þau afnot, sem heilbrigðisstjórnin hafði haft þar, var ákveðið að flytja í burt að tillögu lækna hælisins, að flytja það nær Reykjavík. Þá hafði hæstv. ráðh. ekki séð sér fært að halda uppi sama og engu starfi, sem þó hafði mikinn kostnað í för með sér. Þetta mál heyrði því undir hæstv. landbrh. og hæstv. heilbrmrh. að því leyti, sem byggingarnar varðaði, og var vilji fyrir því, að landbrh. tæki landið til ráðstöfunar. Ég taldi, að mætti skipta landinu niður í býli, en hæstv. landbrh. var allt annarrar skoðunar og taldi, að aðalkjarni landsins væri eyðilagður. Og ef hv. þm. Barð. hefur athugað, hvað jörðin var metin fyrir stríð og svo nú, sér hann, að lækkunin liggur aðallega í þessu. Jörðin var athuguð með tilliti til að skipta henni í fleirí býli, en slíkt var ekki álitið mögulegt, nema með því móti að rækta nýtt tún og ræsa fram, og talið er mjög hæpið, hvort hægt verður að þurrka nema lítið. Þá var leitað til Búnaðarfélagsins, en þeir sögðu, að landið mundi ekki breytast svo við þurrkun, að hægt væri að nota það til ræktunar, og sögðust ekki leggja til, að jörðinni yrði skipt í fleiri býll. Spilda sú, sem tekin var til þurrkunar, liggur enn í plógstrengjum, og óttast menn, að ekki verði hægt að rækta landið, svo að það nægi einu býli hvað þá fleiri. Þá var leitað til sýslunefndarinnar, hvort sýslan mundi nota jörðina til opinberra þarfa, en hún sagði, að slíkt kæmi ekki til greina. Hreppsnefndin lagði einnig til, að jörðin yrði seld, og hefur sennilega ekki viljað, að hún yrði áfram í sama ástandi og eftir herinn. Þar hefur ekkert verið gert síðan, nema Búnaðarfélagið hafði þar námskeið, og er það eina túnið þar nú, sem þá var ræktað, um 100 hesta tún. Gamla túnið er eyðilagt og einnig tún nokkurra annarra jarða, sem notuð voru undir flugvöll.

Ég vil þá víkja að því, að þegar ríkið keypti alla torfuna á 115 þús. kr., þá fylgdi henni gamla sýslumannshúsið, sem var byggt 1892, hús fyrir 200 fjár, 20 hestar, og 36 kúa fjós, 2 hlöður heima, svo og jarðahús í Kálfhaga I og II, sem voru að fasteignamati nærri 10 þús. kr. virði. Ég kom ekki þangað fyrr, en ég hafði keypt, en get gert mér í hugarlund, hve miklar breytingar hafi orðið þarna. Sýslumannshúsið hið sama er innréttað og forskallað að utan, járn hefur verið tekið af því og þakið eyðilagt. Húsið er því stórskemmt nú, liggur undir meiri skemmdum. Þá hefur verið byggt hús í Kálfhaga handa ráðsmanninum, og er það handa einni fjölskyldu. Þá er þar innréttaður braggi, sem notaður var sem matskáli handa dvalarmönnum á hælinu og stendur á moldargólfi á steyptum stólpum. Þá er haughús fyrir 6–7 nautgripi, sem sett hefur verið ofan í grunn, þar sem fjárhúsið var. Húsgrunnurinn hefur sennilega verið nothæfur sem slíkur, en er eyðilagður með þessu. Þegar metið var, var matsmönnunum upp á lagt að meta húsin eins og þau væru eins og í Skálholti, en einnig hvernig ástandið hefði verið, þegar ríkið keypti. Ég veit ekki, hvort hv. þm. Barð. skilur, hvers vegna það var gert, en það er vegna þess, að landbrn. átti þetta. Það, sem heilbrmrn. hefur gert, tilheyrir því. Nú er svo ástatt, þegar metið er, að öll hús í Kálfhaga eru horfin. Önnur hlaðan fallin, gömul og léleg, en hin er sæmileg og stæðileg og svo þetta nýja hús. Matsmennirnir höfðu fyrirmæli um að meta þetta allt. Ég vil biðja menn að athuga, þegar talað er um mat, hvernig jörðin er og var. Það var talað um að hreinsa hana, en var ekki gert, og ætlaði n., að það mundi kosta um 300 þús., en ég held, að það muni kosta mun meira. Þess er að geta, að Hreiðurborg er ekki með í þessu mati og sölu og utan við það. Hún var metin á 16–17 þús. fyrir stríð með þeim byggingum, sem fylgja henni, en land er þar óskert. Viðvíkjandi matinu á þessum eignum að öðru leyti, þá vil ég nefna íbúðarhús ráðsmannsins, þ. e. aðalhúsið í Kaldaðarnesi. Það var metið á 125 þús. kr., en úti um byggðir landsins veit ég um ein 20 hús, sem kostuðu ekki nema 60–80 þús. kr., og hefur það sennilega verið fyrir aðra tilhögun á vinnu.

Sú eina búbót, sem jörðin hefur fengið eftir spjöllin á henni, voru þessir 6 ha., sem ég hef talað um áður, er Búnaðarfélag Íslands hélt þar verkfæranámskeið. Ef Búnaðarfélagið hefur ekki gert þetta, hefði sennilega ella ekki verið hreyfð ein þúfa eða steinn á jörðinni.

Ég ætla ekki að fara langt út í umtal um virðingu á mínum eigum í Skálholti. Ég ætla að lofa mönnum að dæma um það efni og gera sínar ályktanir í samræmi við drengskap sinn og manndóm. En eitthvað mundi það nú kosta hið opinbera að byggja yfir 700 fjár, 50 hross og 40 nautgripi. Ég hef að vísu heyrt menn segja, að ekkert af þessum byggingum væri nokkurs virði, og hefur mér þá auðvitað verið ætlað að ganga frá jörðinni án þess að fá eyri fyrir þessar eignir mínar. Það er náttúrlega leiðinlegt og sjálfsagt líka skaðlegt fyrir ríkið, að menn með slíkan hugsunarhátt skyldu ekki ráða og meta eignir mínar. Ég játa, að í þessu máli réðu ekki menn með slíkum hugsunarhætti, enda væri það aumt fyrir þegna þessa þjóðfélags, ef þeir hefðu þá valdsmenn yfir sér, sem beittu þá órétti. En þannig staðhæfi ég, að farið væri að, ef ekkert væri gefið fyrir byggingar á jörðinni, og mundu flestir viti bornir menn telja það ósæmilegt.

Minna má á í þessu sambandi, hvað byggingar yfir fénað hafa stundum kostað hið opinbera, fyrir tveimur árum var byggt á einni jörð hins opinbera 11 gripa fjós og hlaða. Með fjósinu var byggð for- og haughús. Þessi bygging mun hafa kostað nær 250 þús. kr. Hvað mundi þá kosta hjá því opinbera að byggja yfir sem svarar þann fénað, sem húsín í Skálholti rúma?

Það kom fram í einu blaði hér nýlega, að mér hefði verið greidd nokkur þóknun fyrir að flytja frá Skálholti að Kaldaðarnesi. Grein þessi var nú heldur lágkúrulega skrifuð, því að greinarhöfundur sá ekki, að önnur óþægindi hefðu orðið að þessum flutningum fyrir mig en að beljur mínar hefðu orðið að ganga frá Skálholti niður að Kaldaðarnesi. Það er nú svo. Ég fer frá 30 kúa töðuvelli í Skálholti og kem með 30–40 kýr á jörð, þar sem enginn töðuvöllur er til og þurrlendisslægjur jarðarinnar ekki teljandi. Ríkið hefur rekið búskap á þessari jörð og hefur haft 10–12 stórgripi. Það hefur orðið að kaupa hey úti í Ölfusi og frá Eyrarbakka og Stokkseyri. Nú þýðir að vísu ekki að fjölyrða um slikt sem þetta gagnvart þeim, sem hafa litinn skilning á því, hvað þetta þýðir. En sú upphæð, sem mér var greidd fyrir sjáanlegt afurðatap, sýndi að vísu vinarhug og sanngirni í minn garð, þó að hv. þm. Barð. hefði önnur orð um þetta, en hræddur er ég um, að sú upphæð éti sig meira en upp í afurðatapi hjá mér strax á fyrsta ári. Yfir þessu er ég þó ekki að kvarta, en ég dreg það fram til þess, að þeir, sem eru að reyna að gera sér mat úr þessu, geti tekið það með í reikninginn, ef þeir vilja sýna sanngirni og hafa nokkurt vit á búskap.

Þá vík ég máli mínu að verki virðingarmannanna. Nær undantekningarlaust er það þeirra verk, sem lagt var til grundvallar við þessi eignaskipti. Það er þá fyrst Pálmi Einarsson landnámsstjóri, sem hefur meiri æfingu á þessu sviði en nokkur annar Íslendingur, og hefur fáum verið sýndur jafnmikill trúnaður af hálfu landbúnaðarins og samtaka bænda, og mun enginn efa, að tryggt sé, að niðurstöður hans byggist á þekkingu og sanngirni. Annar virðingarmannanna er smíðameistari á Selfossi. Kristinn Vigfússon, sem ég þekki ekki nema rétt í sjón, en ég veit, að hann er alvanur virðingamaður, sem gerir ekki annað, en hann álítur rétt og er álitinn af þeim, er þekkja hann, hæfileika- og sæmdarmaður. Þriðji matsmaðurinn er bóndi í Grímsnesi, Guðmundur Guðmundsson, Efri-Brú, og þeir, sem hann þekkja, vita, að hann leysir allt, sem honum er trúað til að gera, af hendi með mikilli samvizkusemi.

Eftir ræðu hv. þm. Barð. að dæma hefur hann ekki ætlað þessum mönnum að meta eins og þeir teldu rétt, eða hvert verðmæti þess metna væri, a. m. k. ekki það, sem ríkið átti, heldur leggja þar til grundvallar reikninga yfir kostnað við endurbætur eða viðgerðir á húsunum í Kaldaðarnesi og kostnað við byggingu ráðsmannshússins. En þá er þetta ekkert mat. Ég veit dæmi þess, að það opinbera varð að byggja á einni jörð sinni íbúðarhús, fjós, sem rúmar 11 gripi, og hlöðu, og kostaði það samtals yfir hálfa milljón króna. Þetta er ekki sérlega stór jörð, en þó sæmileg bújörð, og hægt er að gera hana betri, eins og er með flest býli í landinu. Ef hv. þm. Barð. ætti að meta þessa eign, dytti honum þá í hug, að það væri verðmæti eignarinnar, sem búið er að kosta til hennar? Engum dettur í hug, að nokkur búskapur gæti borið nema brot af því verði, svo langt erum við komnir af réttri leið. Ég lét matið með öllu íhlutunarlaust, og það veit ég, að hæstv. ráðherrar gerðu líka. Við höfðum enga íhlutun um niðurstöðu matsmannanna, og ef hv. þm. Barð. eða einhver annar dregur það í efa, þá skora ég á hann að leita sér upplýsinga um það. Það væri nær að spyrja matsmennina sjálfa og leiða þá sem vitni en vera hér með svígurmæli og sleggjudóma. Það hefur mikið verið talað um hælið í Kaldaðarnesi. Hvað var þetta hæli? Það var gamla sýslumannshúsið, sem var embættisbústaður um skeið og heimilishús, byggt 1892. Það var gert við húsið. Þá var innréttaður einn braggi og komið fyrir í honum borðstofu og eldhúsi. Braggi þessi er eins og svo margir hermannabraggarnir voru, stendur á steinstöplum, á moldargólfi og klæddur járni að utan. Þá var byggt hús yfir ráðsmanninn. Matsverð mun nú vera talið fullkomlega nógu hátt. Það er 125 þús. kr., tvöfalt hærra verð en sams konar hús hafa verið byggð fyrir sums staðar í sveitum. Yfir þessu er ég samt ekki að kvarta, því að ég vildi gjarna, að ekki væri hægt að segja, að metið væri mér í vil.

Þá hefur verið minnzt á hreinsunargjaldið, sem mér var greitt. Ef ég framkvæmi hreinsunina, á ég að endurgreiða gjaldið. Ég held, að enginn, sem til þekkir, geri ráð fyrir, að ég græði á þessu. Ég veit dæmi þess, að það opinbera lét hreinsa nokkuð stóra lóð og hafði til þess eigin tæki og þau fullkomin. Það kostaði 75 þús. kr. „Dýr mundi Hafliði allur“, dýrt mundi hafa reynzt því opinbera að hreinsa allt Kaldaðarnesland, ef það hefði átt að annast það, eftir þessu.

Ef ég hefði sérstaklega sett mér það mark að hagnast á þessum kaupum, þá sá ég ósköp vel aðra leið til þess en þá, sem ég fór, og er ég þó enginn kaupsýslumaður. En ef ég hefði sett mér það mark, þá hefði ég farið allt öðruvísi að. Ég vissi um álit þeirra manna, sem dæmdu Kaldaðarneseignina úr leik til skiptingar í mörg býli, og um álit sýslufélagsins, Búnaðarfélagsins og hreppsnefndarinnar. — Hreppsnefndin vildi, að hún kæmist fyrst og fremst í örugga ábúð. Ef ég hefði endilega viljað komast að góðum kjörum, þá hefði ég eftir að búið var að byggja mér jörðina, beðið með að kaupa hana í þrjú ár, og þá átti ég heimtingu á eigninni og hefði fengið hana með fasteignamatsverði. Nú segja spekingarnir, að salan hafi ekki farið löglega fram. Hvað mundi nú hæft í því? Nú keypti ég jörðina áður en ég hafði búið þar í þrjú ár. En ég hafði búið í Skálholti frá því að ríkið eignaðist þá jörð og reyndar miklu lengur, og ákvæði laganna um þriggja ára búsetu sem skilyrði fyrir því, að hægt sé að selja ríkisjarðir, er náttúrlega sett til þess að tryggja, að ríkið hafi áður kynni af viðkomandi bónda, hve líklegur hann sé til að búa og annast jörðina. Menn geta svo talað um, að ég sé enginn bóndi, ef einhver heldur, að hann verði feitur á að japla á því. Það er ég ekki að fást um. En ef ég er svo fordæmanlegur sem bóndi að einhverra dómi, að mér bæru ekki þessi réttindi, þá gæti sú staðhæfing hitt því miður fleiri bændur og verið nokkur ásökun í garð bænda yfirleitt, og fer vel á því hjá þeim, sem fyrst og fremst vilja láta telja sig sem hina einu sönnu bændavini, að halda því fram.

Hæstv. landbrh. leitaði til landbn. Alþ. til frekara öryggis út af þriggja ára búsetuákvæðinu, og mun meiri hluti nefndanna hafa skilið það svo, að aðalatriðið og andi laganna væri, að viðkomandi hefði búið á jörð í eigu ríkisins þetta tímabil, svo að ríkið hefði haft af honum kynni, en ekki endilega á þeirri ríkisjörð, sem hann falaði til kaups. Og áður en meiri hluti landbn. hafði fellt þennan úrskurð, hafði ég leitað álits eins færasta lögfræðings í þessu landi á þessu atriði, hvort hann teldi, að minn réttur væri nokkuð rýrður með því að flytja á milIi jarðanna og kaupa Kaldaðarnes strax, og sagði hann hiklaust, að hann teldi, að ég hefði þegar fullnægt þessu ákvæði eða skilyrði um búsetuna. Nú hefur hins vegar komið fram hjá hv. þm. Barð., ef ég hef skilið hann rétt, að hér væri um lagabrot að ræða, en ég er sannfærður um, að þessi gerningur mun standast fyrir hvaða dómi sem er. Það er vafalítið að dómi fjölda lögfræðinga, sem ég hef talað við. Þeir segja, að þetta sé ekki umtalsvert.

Nú kom það fyrir hér fyrr í umr. um þetta mál, að hv. þm. Dal., Þorsteinn Þorsteinsson sýslumaður, kvaddi sér hljóðs, að því er hann sagði til að bera af sér sakir í sambandi við það, er hæstv. ráðh. leitaði álits landbn., en hv. þm. Dal. var víst í minni hluta nefndanna og andvígur sölu Kaldaðarness á grundvelli búsetuákvæðisins. Og mikils þótti honum nú við þurfa að túlka skilning sinn. Hann lét þess þó getið, að samkvæmt anda laganna væri nú allt í lagi með fullnægingu búsetuskilyrðisins. (ÞÞ: En bókstafurinn blífur.) En hvað það var líkt hv. þm. Dal., að það væri ekki andi laganna, heldur bókstafurinn einn, sem gilda ætti. Það hefði verið út af fyrir sig, ef ég hefði sagt þetta, þar sem enginn á neitt undir dómfellingu minni í þessu landi, svo að segja mætti með nokkrum rétti, að slík yfirlýsing af minni hálfu segði ekki svo mikið, hvorki til né frá. En öðru máli gegnir með hv. þm. Dal., sem ég hef ekkert nema gott eitt um að segja. Það horfir öðruvísi við, er hann, dómarinn, lýsir því yfir, að andi laganna eigi engu að ráða, undir dómsorði hans geta menn átt mikið. Þetta hefði e. t. v. getað hljómað vel á þeim tíma, er allt var bundið og heft og reyrt í andlega fjötra, og þar sem valdið var látið ráða, hvað sem réttinum leið, en það hljómar illa nú og er hæpið, að ekki sé meira sagt, á þeim tímum frjálsræðis og lýðræðis, sem vér lifum nú á.

Hv. flm. þessa máls sagði, að það hefði ekki verið leyfilegt að selja jörðina, sennilega af einhverri annarri ástæðu en þeirri, sem ég var nú að minnast á.

Það rn., sem jörðin heyrði undir, samþ. söluna, og öll skilyrði voru uppfyllt. Og þá er ekki eftir nema eitt, og það er það, að ríkið hefði ekki átt að selja jörðina. Og þá liggur næst að spyrja: Hvers vegna hefði ríkið ekki átt að selja jörðina? Þá er að svara því. Ekki var álitið, að hægt væri að nota hana til býlafjölgunar, það þykir ekki hentugt að koma þar upp byggðahverfi sakir þess, hvað landið er blautt og hallalaust. Ekki hentaði stjórnarvöldunum hún til notkunar fyrir sig. Ekki var hægt að byggja hana, nema þá frá ári til árs, þ. e. a. s. með ársuppsagnarfresti, og engum dettur í hug, að nokkur hefði tekið jörðina upp á þau kjör. Það hefði enginn verið svo vitlaus, sem veit hvað er að búa. Þá er eitt orðið eftir, að ríkið byggi sjálft á jörðinni. Ég hygg, að sá maður, sem átti að sjá um vinnubrögðin þar, hafi gert sitt bezta til að hafa það í lagi. En útkoman er þessi á búskapnum hjá því opinbera, sem hefur 10–12 stórgripi, að þar verður að kaupa heyið og langt frá því, að það borgi sig. Og það gefur auga leið, þegar vitað er, hvernig ástatt er um búskapinn, ekki eingöngu hjá því opinbera, heldur jafnvel þeim mönnum, sem eiga allt sitt undir, að vel fari, hvernig útkoman hefði orðið á þessum stað, þegar ríkisbúin, sem byggja sinn búskap eingöngu á ræktuðu landi með öllum beztu tækjum, sem við eigum völ ár og reikna sér hærra verð fyrir sínar afurðir en nokkur bóndi, berjast í bökkum, sumpart með nokkurt tap og stundum með aðeins lítinn gróða, en sum þessi bú með allmikið tap,-hvernig mundi þá útkoman hafa orðið á þessum stað með þeim skilyrðum, sem þar eru fyrir hendi? En það er það eina, sem hægt er að halda fram í sambandi við jörðina, að ríkið hefði átt að búa, og það er hægt að halda því fram, en málið hefur ekki verið sótt á þeim grundvelli.

Það eru nokkur atriði í grg. þessarar till., sem eru mjög hæpin og að mestu leyti sennilega þó á misskilningi byggð. En það yrði sennilega nokkuð langt mál, ef ég færi að rekja þau. Ég hef nú drepið á þau atriði, sem skipta máli, og í höfuðatriðum skýrt hvernig því er varið, og ég hygg, að menn geti gert sér í hugarlund að mestu leyti, hvað hér er um að ræða.

Svo er bezt, að ég snúi mér að Kaldaðarnesi, en ætla að sleppa því, sem viðkemur Skálholti, vegna þess að ég veit, að hv. þm. Barð. hefur engan kunnugleika þar, og sennilega heldur ekki á hinum staðnum. Ég veit ekki til, að hv. þm. Barð. hafi komið í Kaldaðarnes til að kynna sér, hvað þar er að sjá, en það skyldi maður ætla, ef menn hyggjast kveða upp þunga dóma, að þá hafi þeir mikið í bakhöndinni til að verja slík orð. Ég vil þá gefa honum lýsingu á því, hvað þarna er um að vera. Gamla húsið hefur verið innréttað og forskallað að utan, lítið haughús byggt og ráðsmannsbústaður. Það hefur verið innréttaður braggi og honum skipt í sundur í borðstofu og eldhús, og þetta eru mannvirkin. Hvað áttu nú matsmennirnir að gera? Áttu þeir ekki að líta á þessar eignir og reyna að komast að niðurstöðu um, hvert verðmæti væri í þeim fólgið? Og að þeir fóru ekki eftir reikningum, heldur hvert verðmæti er í þessu fólgið, það þori ég að fullyrða, á hvorum staðnum sem var. Hitt er svo annað mál, að það getur eitthvað verið frá eða til, þegar um smáupphæðir er að ræða. Ef hv. þm. Barð. hefur minnsta inngrip inn í, hvað byggingar kosta, þá getur hann gert sér í hugarlund, hvaða þýðingu það hefði fyrir þennan aðila nú að reka búskap á þessum stað, þegar hann er búinn að koma upp peningshúsum, ef það væri nokkur búfénaður að ráði, en þá er það í viðbót við það, sem er, og kemur því ekki þessu máli við. En það er aftur það, sem ég hef látið af höndum þar, sem ég fór frá. Ég er ekki víss um, að hv. þm. Barð. — nema hann sé alveg litblindur á þessi mál — þegar hann er búinn að koma í Kaldaðarnes og athuga, hvað þar er að sjá, að hann komi með þungar ákúrur á matsmennina, og þess eins sakna ég um hv. þm. Barð., — því að ég vil ekki, að hann sé með sleggjudóma á hendur mönnum, ekki einu sinni mér, — að hann skuli ekki hafa komið þar, og vil ég bjóða honum að koma austur að Kaldaðarnesi og sjá hvað þar er að sjá, því að ég er ekki svo mikið búinn að færa úr lagi enn þá. Hv. þm. segir; að allar vonir hafi staðið til þess, að það hefði orðið góður árangur af hælisvistinni í Kaldaðarnesi. Hví segir nú hv. þm. þetta? Það getur vel verið, að það hafi verið upphaflega góðar vonir, og ég efast ekki um, að þeir, sem stóðu fyrir því, hafi gert sér í hugarlund, að þetta yrði glæsilegt. En hamingjan góða, en reynslan? Reynslan er þó ólygnust. Þegar hælisvistin kostaði um árið 14–15 þús. kr. fyrir hvern mann og svo þegar það er komið upp í 20 þús. kr, á mann og þar yfir fyrir hvern mann og þegar peir, sem umsjón höfðu með þessu máli, segja, að árangur hafi orðið lítill eða nær enginn, og þegar búið er á þessum stutta tíma að verja 570 þús. kr. bara til rekstrar hælisins, burtséð frá öllum byggingum, því segja menn þá þetta? Einhvern tíma stóðu góðar vonir til, að árangur yrði að þessu, en þær vonir hafa orðið sér til minnkunar, án þess að ég sé að gefa þeim það að sök, sem byggðu vonir sínar á þessu. Hv. þm. Barð. minntist á Reykjalund í þessu sambandi, en ég veit, að hann fer ekki að jafna þeim saman, þessum sjúklingum og sjúklingunum á Reykjalundi, því að það er allt annars eðlis.

Hv. þm. taldi upp, hvaða jarðir mætti ekki selja. Ekkert af þeim skilyrðum hefur verið brotið. Hann getur haldið því fram, að það hefði átt að halda þessum rekstri áfram, hvað sem það kostaði og hvernig sem gekk, en úr því að búið var að fara með það, þá var ekkert til fyrirstöðu, að það mætti fara með þessa jörð eins og aðrar jarðir. Hv. þm. sagði, að það mætti ekki selja höfuðból. Hvar er það í l.? (GJ: Ég sagði aldrei, að það mætti ekki selja höfuðból.) Ég vil ekki halda því fram, ef hv. þm. hefur ekki sagt það, en mér heyrðist hann segja það. En þó að svo hefði verið, þá vil ég benda honum á það, sem verulegu máli skiptir, að mikið af bújörðinni er þannig eyðilagt, að ekki verður bót á ráðin. Það kann reyndar að vera, að það lagfærist eitthvað af því eftir 100 ár, en þá held ég, að hún sé orðin nokkuð mikið annað en það, sem hún var einu sinni.

Ég hef svarað því áður, sem hann drap á viðvíkjandi því, þegar ég flutti það mál, að ríkið keypti og hefði jörðina til sölu, og ég hefði gert mér í hugarlund, að það væri hægt að skipta jörðinni í fleiri býli, hún væri þeim kostum búin, að það væri mögulegt. Nú hefur gerzt tvennt: að kjarni jarðarinnar er eyðilagður, og svo kom það í ljós, þegar farið var að nota hana, að hún er svo blautlend og láglend, að ekki er talið fært að þurrka hana, svo að hún geti orðið ræktuð. Það var því horfið frá þessu. Þetta gat ég ekki vitað, þegar ég flutti málið.

Hv. þm. taldi, að það hefði ekki þurft að greiða fyrir för minni frá Skálholti, það hefði verið hægt að koma upp skólanum og taka jörðina, hvað sem minni búsetu leið þar. Ég hef áður að því vikið í sambandi við það, sem ég minntist á hjá fyrrv. landbrh., Pétri Magnússyni, hvernig hann leit á það mál, og seint mundi ég hafa gripið til þess réttar, en vel hefði getað verið sá maður í þessu embætti og hagað sér þannig, að ég hefði sýnt honum fram á, að ég væri ekki óviðkomandi aðili. Það getur verið, að hv. þm. Barð. finnist, að þannig hefði verið hægt að búa að mér þarna, en ég er hræddur um, að það hefði orðið haldlaust. Hv. frsm. nefndi nokkrar tölur viðvíkjandi byggingarkostnaði, sem ég hef ekki séð, og getur verið, að sé rétt með farið, en það skiptir ekki miklu máli. Mínar eignir, sem metnar voru, voru metnar hátt á annað hundrað þúsund krónur. Það hefði þó orðið að borga það. Hv. þm. brosir að því. Hann telur kannske, að það hefði ekki átt að borga það, en ég er ekki viss um, að hann hefði viljað láta búa þannig að sér, og ég býst við, að hv. þm. kunni að meta fjármuni, ekki síður en ég, og segi ég honum það ekki til lasts, sé hóflega að því farið. Það er frekar kostur heldur en ljóður á ráði manna.

Hv. þm. sagði, að ég hefði tekið að mér verk, sem ríkið ætlaði eitt sinn að gera. Ef ég stend ekki við þær kvaðir, sem heyra til svona jörð, þá getur ríkið tekið fyrir það fasteignamatsverð. Yfir þessu er því ekkert að kvarta, því að þeim, sem að þessari lagasetningu stóðu, gekk annað til en að sá, sem kemur á jörðina, hefði hagnað af þessu, það er fyrir framtíðina gert, og var ég vissulega fylgjandi að samþykkja það, þegar slík löggjöf var sett. Hv. þm. fannst, að það væri eitthvað skrýtið hjá matsmönnum, að þegar þeir eru búnir að meta landverð jarðarinnar, þá draga þeir frá eyðileggingu á landinu sjálfu. Nú verður hv. þm. að hafa í huga, að nokkur hluti jarðarinnar er ekki með í sölunni til mín, og áður var allt söluverðíð með öllum húsum 115 þús. kr. Nú gengur þessi jörð, sem er nokkur hluti úr jörðinni, undan, og það, sem var áður verðmætt í landi jarðarinnar, það er eyðilagt, og hv. þm. ætti að kynna sér, hvað það var mikill hluti úr verðmæti jarðarinnar á þeim tíma, þegar ríkið keypti. En ef þessi sala hvað verðmæti áhrærir er svona fjarri því að vera há og ríkið átti að hafa meira upp úr henni með öðrum hætti, hvað mátti þá segja um söluna hjá fyrri eiganda, þegar ríkið kaupir? Jörðin með öllum þeim byggingum, sem þá voru á jörðinni, þó að þá væri annar mælikvarði á peningum, var seld fyrir 115 þús. kr. Nú kaupir ríkið ekki fyrr en 1940, og þá var komin veruleg verðhækkun á jörðum, en þegar ég kaupi, þá er að vísu hátt verð á jörðum, en þó farið að ganga til baka, en þetta fór allt eftir mati. Einhvern veginn finnst mér, — og er ég ekkert að kvarta í sjálfu sér yfir því, sem hv. þm. Barð. ber fram, — ef öðruvísi hefði staðið á, ef það hefði ekki verið framsóknarráðherra, sem seldi, og framsóknarmaður sem keypti, að þá hefði hv. þm. ekki látið sér svona tíðrætt um þetta mál. Röksemdafærsla hans, úr því að hann ekki hélt því eina fram, sem eftir var, að ríkið ætti að stunda búskap á jörðinni, er því alveg fallin um sjálfa sig. En hefði hann haldið þessu fram, þá hefði það verið afstaða til málsins, sem var þó hægt að fóta sig svolítið á. Hann vék svo að því seinast í ræðu sinni, að það hefði þarna verið meira verðmæti, fríðindi, sem hefði verið greitt til mín sem þingmanns, og tileinkaði það hæstv. landbrh. sem flokksbróður mínum og mér sem flokksmanni hans. Nú veit hv. þm., hvernig þetta er til orðið. Sé þetta á þeim grundvelli, sem hann vill vera láta, hann meini, að þetta sé rétt, þá verður hann að saka matsmennina. Þá er hann að gefa í skyn, að þeir hafi rofið þann trúnað, sem þeim er sýndur, þegar þeir eru dómkvaddir til að gera þetta verk og gera það rétt. Allt hans tal um þetta, og fleiri manna, — þegar t. d. hv. þm. A-Húnv. segir, að öll meðferð ráðh. á þessu máli hafi verið eins og hann hafi ætlað að gefa mér eignina, — allt þeirra tal, fullyrðingar og sleggjudómar byggist á því, að matsmennirnir hafi brotið sína skyldu, því að allt, sem máli skiptir, er þeirra verk viðvíkjandi þessum kaupum, svo framarlega sem kaupin fóru fram. Ef hv. þm. vill komast frá þessu, og þeir, sem eru með þennan són, þá á hann ekki að vera að tala um það á þessum grundvelli, heldur halda sér við það eitt, að það hefði ekki átt að selja jörðina. Svo er það þeirra, hvernig þeir ætla að renta hana og gera hana svo úr garði, að hún yrði ekki til vansæmdar ríkinu, — þeir, sem vildu halda því uppi, en hvort það hefði ekki komið við ríkissjóðinn og orðið að vera meðgjöf, það er annað mál. Ég á kost á því oftar, ef ég vil, að reyna réttlætiskennd þeirra herra, sem gera þetta að umtalsefni að þarna hafi ég hlotið sérstök fríðindi. Ég er ekki svo sérlega orðsjúkur maður, en hitt dettur mér ekki í hug, að taka við þvi þegjandi, þó að einhverjir sletti halanum og geri allt forugt í kringum sig eins og þeir eru sjálfir, en sízt af öllu vildi ég láta því ómótmælt, að saklausir menn, sem tekið hafa að sér þetta verk og enginn efast um, að hafi vandað sitt verk, að það sé verið með svívirðingar og sleggjudóma á hendur þeim hér á Alþ. En það er ekki hægt að tala um þetta mál á þessum grundvelli öðruvísi en að það falli skuggi á þá, ef einhver leggur trúnað á það. Ég á kost á því sjálfsagt síðar að reyna réttarmeðvitund þessara manna, hvernig hún er til staðar, í því starfi, sem ég hef. Það skiptir að sjálfsögðu engu máli upp á þetta atriði, sem hér er talað um, bara ef það er rétt mál. Ég óska ekki eftir neinni vægð eða miskunn, hvorki í þessu máli né öðru, en á heimtingu á því, að það sé sagt hreint út með rökum, en ekki staðhæfingum og dylgjum um það, sem ekki er.

Það eru nokkur atriði í grg. fyrir till., sem ég get ekki verið að eltast frekar við, ég hef beint og óbeint komið að þeim atriðum, sem máli skipta, en gef ekki um að fara nánar út í það í þetta sinn. En það er ekki öll nótt úti enn. Ég mun reyna við önnur tækifæri, þegar mér þykir það eiga við, að sjá, hvort réttlætisgyðjan er ávallt í hásæti hjá þeim þm., sem sérstaklega hafa lagt sig fram um þetta mál og reynt að telja mönnum, innan þings og utan, trú um, að hér hafi verið framið réttlætisbrot og farið illa fjármunalega með það opinbera.

Ég mun svo láta lokið mínu máli að þessu sinni. Ég ætla að bíða átekta og sjá, hvað meira kann að koma fram, og gæti þá viljað til, að ég bæði um orðið til þess að koma að einhverjum aths. eða leiðréttingum, ef það yrði ekki alveg hárnákvæmt, sem farið er með.