04.02.1949
Sameinað þing: 36. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 489 í D-deild Alþingistíðinda. (4792)

73. mál, Kaldaðarnes í Flóa

Atvmrh. (Bjarni Ásgeirsson):

Herra forseti. Mér datt í hug, er hv. þm. Barð. flutti mál sitt hér í dag, er hann kom með sína langsóttu lagabókstafi, þá datt mér í hug dómari, sem er að verja mjög hæpið mál. Það vantaði ekkert annað, en að dómarakápan væri komin á hans breiðu herðar, og ég hugsaði sem svo: Ætlar hann sér að eyða öllu þessu púðri á mig? En svo sá ég, þegar hann tók að vega að hóp framsóknarmanna, að þá var hann ekki ólíkur þeim mönnum, sem hafa talið það gæfu lífs síns að raða andstæðingum sínum í kringum sig og skjóta síðan á þá af hríðskotabyssu sinni. En mig verkjar hvergi undan þessum pappírskúlum hv. þm.

Ég skal ekki tala hér langt mál nú. Allt hefur áður komið fram í þessu máli, þó að búningur formsins sé nýr. Og þrátt fyrir ýtarlega framsögu hv. þm. Barð, þá hefur hann ekki sannfært mig um eitt einasta atriði með máli sínu né komið fram með neitt, sem áður hafði ekki verið leitt inn í umr. þær, er fóru fram hér á dögunum. Ég hef þess vegna kosið að gera langt mál stutt, en mun drepa á þá þætti málsins, sem snerta ásakanir hv. þm. á ríkisstj. varðandi þetta mál.

Ég skal þá byrja á því að gera grein fyrir afskiptum mínum varðandi Skálholt. Hv. þm. taldi brottflutning ábúandans hafa verið óþarfan og sagði, að hann hefði getað búið þar áfram, þó að ríkið hefði ákveðið að setja þar upp búnaðarskóla. Vegna þessara ummæla vil ég endurtaka það, sem ég hef áður sagt, að er ég tók við embætti mínu, þá var mér falið að hrinda þessu máli áleiðis, sem allt Suðurland hafði áhuga fyrir að kæmist í framkvæmd. Nú var það vitanlegt, að Jörundur Brynjólfsson hafði lífstíðarábúð á jörðinni. Ég bauð honum að sitja áfram, en hann færðist undan því, en vildi búa áfram í því héraði, sem hann hafði búið alla ævina, og vildi fá að búa sér og sínum í haginn, það sem eftir væri ævinnar. Hann gerði kröfu til þess að fá aðra jörð og að verk sín yrðu metin, en aðrar kröfur gerði hann ekki. Þetta fannst mér mjög eðlilegt. Hins vegar var vitanlega sá möguleiki að beita valdboði og láta hart mæta hörðu og taka jörðina af bóndanum með þeim hætti, en til þess þurfti að meta jörðina af dómkvöddum aðilum. Enginn þarf að halda, að það mat hefði orðið lægra en mat þeirra manna, sem framkvæmdu og gerðu matsgerðina, er skiptin á jörðunum fóru fram, en þeir voru skipaðir af sýslumanninum á Selfossi. Það var því ekkert annað ráð vænna, svo framarlega sem hægt væri að vera trúr því málefni að hrinda í framkvæmd skólastofnuninni, að ábúandi Skálholts fengi greiðslur fyrir eignir sínar þar á staðnum samkvæmt mati. Því varð það að ráði, að reynt var að útvega honum annað jarðnæði innan héraðs þess, sem hann hafði í búið um áratugi. Og það var gert. Ég leitaði víða að býli, sem ábúandi Skálholts gerði sig ánægðan með og væri eign ríkisins, en sú viðleitni varð árangurslaus, þar til minnzt var á Kaldaðarnes. Nú hefur hv. þm. Barð. ásakað mig um það, að ég hefði ekki mátt selja Kaldaðarnes, og skírskotaði hv. þm. til þess, að það séu fyrirmæli í l. um það, að ekki megi selja jarðir, sem eru eign ríkisins, en mega teljast heppilegar til þess að reka þar opinberan rekstur á einn eða annan hátt. Þetta er rétt, og athugaði ég þá hlið málsins mjög ýtarlega. Í Kaldaðarnesi hafði verið gerð tilraun með rekstur á drykkjumannahæli, og var sú tilraun, þegar hér var komið sögu, að enda sitt skeið; hafði hún misheppnazt. Jörðin var þannig í sveit sett og þótti vera í því ásigkomulagi, að ekki var talið mögulegt að halda þeirri starfsemi áfram á þeim stað. Þennan vitnisburð hef ég fengið frá landlækni og öðrum trúnaðarmönnum, sem höfðu þekkingu til að dæma um þetta. Þetta býli, sem í eina tíð var höfuðból, var nú orðið þannig sett, að illmögulegt var að heyja þar til nytja. Tún voru í mikilli niðurníðslu og útengi hafði verið eyðilagt, er flugvöllur var gerður þar á stríðsárunum. Var því svo komið málum, að það hefur orðið að kaupa hey til að fóðra búpeninginn, eins og hv. 1. þm. Árn. benti réttilega á í ræðu sinni hér áðan. Er svo var komið málum, að heilbrmrn. vildi losa jörðina til ráðstöfunar fyrir landbrn. og vildi ekki halda jörðinni lengur fastri, var augastaður fenginn á jörðinni fyrir ábúandann í Skálholti. Rekstur ríkisins þar fór lengra og lengra niður, og er hælið var flutt af jörðinni, tók atvmrn. við henni. Ein ástæðan, sem hv. þm. hélt fram fyrir því, að þetta hafi verið rangt, að leggja hælið niður í Kaldaðarnesi, var sú, að ríkið hefði getað stofnsett þar nýbýli. Það er að vísu rétt, en það Kaldaðarnes, sem við þekktum 1937, 1938 og árið 1939, er annað en það Kaldaðarnes, sem við þekkjum árin 1946, 1947, 1948 og 1949. Það er búið að eyðileggja allt hið mikla tún, sem þar var, og bezta hluta jarðarinnar með því að byggja á honum flugvöll. Það er búið að eyðileggja jörðina, en annað land, sem óskemmt er, eru blautar engjar, sem erfitt mun vera að nytja til nokkurs gagns, nema ráðizt sé í stórkostlega framræslu, sem mundi kosta tugþúsundir, ef ekki hundruð þúsunda króna. Mátti því líta svo á, að tilgangur ríkisins að halda í jörðina væri lítill og úr sögunni. Ég taldi því rétt að reyna að ná samkomulagi við bóndann í Skálholti um það, hvort hann teldi sig geta tekið því boði að flytjast að Kaldaðarnesi, ef samningar tækjust að öðru leyti. Um þetta var leitað álits nokkurra aðila og þar á meðal Búnaðarfélags Íslands, og töldu þeir það gleðilegt, að jörðin kæmist í tölu bújarða.

Nú er það eitt atriði, sem hv. þm. kom að, að það væri óheimilt að selja þjóðjarðir, nema kaupandi hafi búið á jörðinni í 3 ár. Þegar þetta ákvæði var sett í l., var leitazt við að tryggja með því, að kunnugleiki fengist á því, hvernig búmaður ábúandi jarðar væri, og átti slíkt að vera nokkur trygging fyrir því, að óhætt væri að fá ábúanda jörðina í hendur. En þessi maður, sem við erum að ræða hér um, hafði búið í áratugi í sama héraði. Ef ríkið hefði viljað selja Skálholt, átti þessi maður skýlausan rétt til jarðarinnar fram yfir aðra, en hann gekk inn á fyrir atbeina ríkisvaldsins að flytjast á aðra jörð. Var því mjög eðlilegt, að tekið væri tillit til þessa. Það má kannske segja, að lagabókstafurinn hafi verið brotinn, en þessi ráðstöfun er fullkomlega í anda laganna. Það var mjög ánægjulegt, er hið nýja dómhús hæstaréttar var vígt, æðsta dómstóls landsins, er einn hinna merku lögfræðinga sagði í ræðu sinni, að rétturinn mundi leitast við að láta anda laganna ráða dómsniðurstöðum, en ekki binda sig við laga bókstafinn sjálfan. Landbn. Alþ. hafði á sínum tíma samið þessi l., en hér hefur tvo lögfræðinga í n. greint allmjög á, hv. þm. Dal. og hv. 2. þm. Árn. En lögfræðinga greinir nú oft á, og skal ég ekki öðrum gera hærra undir höfði en hinum. Ég tel því, að eins lagalega hafa verið að jarðaskiptunum farið og efni stóðu til.

Þá kem ég að síðasta atriðinu í ásökunum þeim, sem fram hafa verið bornar í sambandi við söluna á þessari jörð. Hún er sú, að jörðin hafi verið seld vægu verði og 1. þm. Árn. verið gefnar á aðra milljón króna í þessum skiptum. Ég endurtek það, sem ég hef áður sagt, að sé þessi ásökun rétt, ber ekki fyrst og fremst að ásaka mig, heldur er verið að gefa til kynna, að eitthvað hafi óhreint verið við matsgerðina af hálfu hinna dómkvöddu matsmanna. Er hv. þm. Barð. flutti ræðu sína, var að heyra, að meðferð mín á þessu máli hafi verið þannig vaxin, að það liti út fyrir, að ég hefði viljað gefa þessum manni stórfé og ég hafi gert það fyrst og fremst sökum þess, að flokksbróðir minn átti hlut að máli. En til þess að fyrirbyggja, að nokkur misskilningur kæmi fram um söluna, óskað ég eftir því, að jörðin yrði metin, og bað ég sýslumanninn í Árnessýslu að skipa matsmennina. Ég óskaði einnig þess, að sýslumaður kveddi Pálma Einarsson landnámsstjóra til matsins, en það vakti fyrir ráðuneytinu að fá sem nákvæmast og sem réttast mat á jörðinni. En Pálmi Einarsson hafði um mörg ár verið trúnaðarmaður við matsgerðir ríkisstj. þeirra, sem setið hafa, og hefur hann víðtæka þekkingu í öllu því, sem við kemur búskap. Og svo er gefið í skyn, að ég hafi óskað eftir að fá hann í dóminn til þess að hafa hagstæð áhrif á matið fyrir kaupanda jarðarinnar. Þetta er hörð ásökun, en þeir, sem trúa þessu, verða að fá að lifa í trú sinni. Nú, þegar þessu mati var lokið, var samið við hinn nýja ábúanda jarðarinnar, Jörund Brynjólfsson, um þær kvaðir, sem hvíldu á jörðinni, og var metið að greiða skyldi 300 þús. kr. í hreinsunargjald af setuliðsnefnd. Ríkið tók 1/3 af þessum launum í byggingum og efni til ýmiss konar bygginga, sem þar voru. Ég hafði dálitla reynslu af því, að matsmenn sömdu um of lágar bætur fyrir spjöll, en bættu það upp með því að meta bragga og aðrar byggingar lágt. En hvað skeður hér? Ríkið tekur við byggingunum og selur þær, en Jörundur Brynjólfsson verður að taka við öllum spjöllunum og fær ekki nema 2/3, eða 200 þús. kr., og þar að auki fær ríkið að ráðstafa öllum eignunum, sem það síðan selur, en hinn nýi ábúandi fær ekki nema helminginn af því, sem byggingarefnið var metið á Ég er því sannfærður um, að ríkið hefur losnað við miklar fjárhagslegar skuldbindingar og byrðar og að sá pistill í sóknarskjalinu, sem á að vera áminning til mín um að fara vel með fé ríkisins, missir marks, því að ég hef í þessu máli einmitt farið eftir eða samkv. áminningu hv. þm. Ég er sannfærður um það, að ef ríkið ætti að standa við loforð um að bæta þessi spjöll, þá mundi það kosta miklu meira. Og ég bar það undir menn með mikla reynslu í þessum efnum, og þeir svöruðu: „Í guðanna bænum slepptu því, því að ef ríkið á að fara að kosta hreinsun, þá verður það miklu dýrara.“ Ég hef líka reynslu héðan úr bænum, þar sem hreinsun á röskum hektara af landi með jarðýtum og öðrum nýtízku vinnuvélum kostaði 70 þús. kr., en þarna var um tugi hektara að ræða. Og ég er sannfærður um það, að bæði fjárhagslega og frá öðrum sjónarmiðum séð var það, sem gert var, það réttasta, sem hægt var að gera í þessu máli. Og ég er sannfærður um það, að ef ég ætti að framkvæma slíkt aftur, þá mundi ég gera það, svo framarlega sem ég hefði hagsmuni ríkisins fyrir augum.