08.02.1949
Sameinað þing: 37. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 496 í D-deild Alþingistíðinda. (4796)

73. mál, Kaldaðarnes í Flóa

Jónas Jónsson:

Það er nokkuð áþekkt með þeim tveim málum, sem nú eru oft nefnd saman og stundum eru kölluð tvíburarnir frá Síam, þ. e. Kaldaðarnes og Silfurtún. Ég geri ráð fyrir, að þessir tveir staðir muni vera nokkuð umtalaðir saman og það meira en í umr. á Alþ. Það er ekki af því, að hér sé um svo merkileg og stór mál að ræða, heldur af því, að hvort tveggja er mál, sem er táknandi fyrir samtímann og þau ná miklu lengra og víðara en til þeirra manna, sem talið er, að hafi sérstakan hagnað af þeim aðgerðum, sem þau eru tengd við. Það er mjög einkennandi fyrir ástandið í þessu landi, að bæði þessi mál hafa verið almennt umræðuefni manna utan þings og kannske meira fordæmd af þeim en ástæða er til, en það er aldrei minnzt á þessi mál í stjórnarblöðunum. Andófsblaðið Þjóðviljinn, sem þykist berjast fyrir hinni hreinu og háleitu hugsjón, og hefur sá flokkur m. a. hér eina lærða guðsmanninn, sem er á Alþ., sá heldur ekki ástæðu til að hreyfa þessu máli. Það hefur yfirleitt enginn haft kjark til þess fyrr en hv. þm. Barð. að kasta sprengjunni, og hann valdi sér af þessum tveim bitum þann stærri, Kaldaðarnesið. Þar sem ég er eldri maður en hv. þm. Barð., fannst mér viðeigandi, að ég tæki þann bitann, sem eftir var á fatinu, þ. e. Silfurtún. Þótt Silfurtún sé ekki til umr., þá mun það væntanlega koma það innan skamms, en þessi tvö mál eru að mörgu leyti svipuð. Þar koma við sögu tveir mikilsvirtir og athafnamiklir stuðningsmenn núverandi ríkisstj., sem gera þarna verzlun við landið, sem menn álíta, að hafi verið þeim hagstæð. Þessi fyrirtæki eru rekin upp á sína milljónina hvort, og það eru talsverðir peningar, jafnvel nú. Af þessu tvennu er Silfurtún dýrara fyrir landið, því að þar hefur verið farið með meiri útborgunareyri.

Þótt mikið hafi verið talað um þessi mál og furðað sig á þessum kaupsamningum ríkisstj., þá þarf, þegar betur er litið í kringum sig og athugað, hvernig hugsunarháttur er nú, sem einkennir okkar samtíð, engan að furða á þessu. Hvað gerði Alþ. snemma vetrar 1946? Það samþykkti á einu kvöldi að ganga í ábyrgð fyrir meginhluta af útflutningi okkar til annarra landa. Ég vil leyfa mér að halda fram, að þá hafi hið gamla Ísland skilið við og þingið og þjóðin hafi siglt inn á alveg nýtt fjármálahaf, sem var alveg óþekkt hér og eftir því, sem ég bezt veit, óþekkt alls staðar.

Enski verkamannafl. hafði ástæðu til að halda, að sumir af trúnaðarmönnum hans, ráðh. og þm., hefðu haft einhvern persónulegan hagnað af kynnum við aðra menn, pólitískum kynnum. Enska stjórnin tók þetta mál svo alvarlega, að hún fékk einhvern harðvítugasta mann, sem hún þekkti, frægan úr þjóðabandalaginu, sér til aðstoðar til að rannsaka þetta mál. Hér mun ekki um stórvægilegt brot hafa verið að ræða, nokkrar flöskur af víni, það hefði ekki þótt mikið hér, og talið alveg hættulaust. En þar verður þetta til þess, að ráðh. segir af sér, og í Bretlandi er það jafnt með Alþýðufl. og Íhaldsfl., að þeir vilja ekki, að komi sú skoðun á í landinu, að ráðamenn þess noti ríkisaðstöðu til að greiða fyrir veitingar sinar. Ég hygg, að það sé annar hugsunarháttur nú kominn í okkar landi. Og satt að segja, þó að mér finnist þetta mál ekki þannig, að ég hefði ráðlagt hv. 1. þm. Árn. að fara fram á að fá Kaldaðarnes, þá finnst mér það þó ekki eins mikið og það, sem á bak við það liggur. Hvers vegna eiga þm. ekki að taka til fyrirmyndar þá, sem hærra eru settir? Ef við athugum þann stóra hóp forréttindamanna í okkar þjóðfélagi, þá kemur margt til greina. Það mun hafa verið á síðasta stjórnarári hv. þm. Str., það var kannske ekki hans sök, — að ráðh. fengu leyfi til að flytja inn bíla og nota sjálfir. Um svipað leyti mun sú regla hafa orðið til, að ráðh. fengu áfengi úr verzlun ríkisins án opinberra gjalda, þannig að flaska, sem kostaði 60 kr. í útsölu, kostaði þá ekki nema 5 kr. Svo breiddist þessi heimild út til forseta Alþ. Þá kom röðin til valdamanna í stjórnarráðinu, það virtist vera, sem sennilegt var, að eftir höfðinu dansa limirnir. Og það kveður svo rammt að, hversu vel þessi forréttindi eru varðveitt, að till. um að aftaka þessi fráleitu hlunnindi, nefnilega áfengishlunnindi, hafa hvorki fengið afgreiðslu frá þinginu í fyrra né heldur ekki núna. Það virðast allir ánægðir, enda þótt stundum sé nefndur manna á meðal einn reikningur, sem einn ráðh. fékk, er hann fór úr ríkisstj., það var reikningur áfengisverzlunarinnar fyrir þúsund svartadauðaflöskum. Hvernig stendur á því, að við þm. skulum ekki fá þessi hlunnindi, úr því að okkar æðstu yfirmenn hafa þau?

Áður en ég kem að sölunni á Kaldaðarnesi, vil ég aðeins rifja upp, hvernig framkvæmdirnar hafa verið þar áður. Það er ekki hægt að segja annað en að þær eru býsna fávíslegar. Í staðinn fyrir að byggja nýtt hús, þá er tekið mjög gamalt og slitið hús og reynt að gera við það, þar til það er orðið mjög dýrt. Núverandi hv. þm. Ísaf., sem þá var dómsmrh., virtist í fullri alvöru vilja gera þennan stað að heimili fyrir ofdrykkjumenn og til þess fékk hann fulltingi fjmrh., Péturs Magnússonar. Þetta virtist vera algerlega lögleg og skipuleg framkvæmd af ráðh. hálfu. Nú er það nokkurn veginn víst, hver hefur svo ráðið framkvæmdum í Kaldaðarnesi eða öllu heldur rekstri hælisins, sem hefði átt að geta tekið á móti 30 áfengissjúklingum héðan úr höfuðstaðnum, ef rétt hefði verið að farið. Við sjáum það á því, hver ræður nú mestu í heilbrigðismálum okkar. Núverandi heilbrmrh. getur ekkert aðhafzt nema landlæknir sé því samþykkur, og þess vegna er það alveg útilokað, að landlæknir hafi ekki ráðið því, að yfirlækninum á Kleppi var falin yfirstjórn þessa hælis, sem hafði þær afleiðingar, að sjúklingarnir gengu úr vistinni. Það er heldur ekki hægt að hugsa sér meiri heimsku en að láta þessa menn, sem ekki var hægt að segja um, að væru geðveikir, í umsjá geðveikralæknis, og sýnist það hafa verið nægilega þungur kross fyrir þá að verða Bakkusi að bráð, þótt þeir fengju ekki þann stimpil á sig líka, að það væri enginn fær um að gæta þeirra nema geðveikralæknir.

Ég kom þarna af tilviljun, meðan þetta hæli var starfandi. Það sýndist vera þarna, hvert sem litið var, nægilegt verkefni fyrir menn, sem á annað borð væru færir um að vinna, ef einhver væri til að stjórna þeim. Þar sá ég snoturlega búinn mann, sem labbaði þar fram og aftur og ég kannaðist við af götunum hér í Reykjavík, og úti í einum bragganum var maður í vinnufötum. Báðir munu þeir hafa verið þarna vistmenn. Annað varð ég ekki var við af mönnum, og þar var sýnilega ekkert eftirlit og engin stjórn. Og ekkert benti á, að þarna væri um neina vinnu eða aðhald að ræða. Meðan við biðum á hlaðinu og litum yfir þennan stað, sem minnti á þá bæi erlendis, sem orðið hafa fyrir loftárás og allt er í rúst, svo að enginn þarf að öfunda eigandann af fegurð og yndisleik staðarins, kemur bíll frá Eyrarbakka með argvítugan heyrudda, sem ríkisbúið í Kaldaðarnesi var að kaupa. Ég hygg, að engin kýr hafi mjólkað af slíku, en hefði ef til vill mátt gefa það hrossum í harðindum, en þó með fóðurbæti. En þetta var verið að kaupa handa kúm ríkisbúsins í Kaldaðarnesi. Mér hefur heyrzt á hv. þm. Árn., að tapið á þessum búrekstri hafi numið um ½ millj., og furðar mig ekkert á því, en ég furða mig á því, að læknarnir og heilbrmrh. skyldu ekki láta setja lög um hælið og fá þangað röskan mann til að stjórna búinu, sem hefði látið dvalargesti vinna í þágu búsins í stað þess að láta allt lognast út af og slá því svo föstu, að þarna sé ekki hægt að hafa hæli. Og heilbrigðisyfirvöldin gangast inn á, að bezt sé að hætta alveg við hælisrekstur þarna, og í stað þess að veita læknunum ofanígjöf, kemur heilbrigðisstjórnin fram með frv. upp á fleiri millj. til að byggja 2–3 hæli, sem eiga að vera undir stjórn þessara sömu manna. Og það er haft eftir dr. Helga Tómassyni á Kleppi, að óhugsanlegt sé annað en að hælið verði að vera undir nánu eftirliti þessara lækna. Af öllu þessu má sjá, að hæstv. heilbrmrh. hefur haft lélega ráðunauta. Í teknískum málum er sjálfsagt að hafa tæknilega ráðunauta, en þetta er ekki tæknilegt atriði, og þessir læknar hafa ekki úrræði fram yfir meðallækna í þessu máli. Í viðbót við þetta er sú ráðstöfun að sameina Kaldaðarnes Kleppi undur fávísleg. Þegar góðtemplarar voru hér með till. varðandi þetta efni, þá benti ég 6. þm. Reykv. (SigfS) á, að alls ekki mætti blanda því saman og ekki mætti hafa sjúklingana í stofnun, þar sem nafnið væri blettur á þeim. Það verður að hafa þá á almennum spítala. Það er engin skömm að því að vera á geðveikrahæli, en það er samt sem áður alltaf eins og stimpill á þeim mönnum, sem þar hafa verið. Nýlega var kunnur maður, sem hafði verið litla stund á Kleppi, að sækja um stöðu, og var þessu þá dengt á hann. Það er ótrúlegt, að slíkt sé stimpill, og sýndi bara, að þeir menn, sem hér um ræðir, höfðu ekkert vit á því, hvað þeir voru að segja. En það er ekki það sama að vera áfengissjúklingur og að hafa dóm á sér. Það er ótrúlegt, að þegar ríkið er búið að leggja milljónir í Kaldaðarnes, þá skuli hælið vera lagt þar niður að ráði ófærra manna. Ég fékkst nokkuð við svona mál fyrir nokkrum árum og tókst að ráða fram úr því með góðum árangri. Ég fékk röskan mann, sem er rithöfundur, til að kynna sér þessi mál. Hann tók síðan við Litla-Hrauni og byggði stofnunina upp, en því miður hefur síðan lítið verið unnið fyrir hana og hún ekkert stækkuð, og nú er fjöldi unglinga, sem ekkert pláss er fyrir. Það, sem ríkisstj. átti að gera, var að fela duglegum leikmanni eða lækni stjórn á Kaldaðarnesi og safna þangað áfengissjúklingum og reka hælið síðan eins og menn. En þetta er ekki gert. Og einhver dapurlegasti þátturinn í stjórn málefna ríkisins á undanförnum árum er niðurlagning Kaldaðarneshælisins. Ég mun því leggja á móti og greiða atkv. gegn því, að nokkurt hæli verði stofnað, sem á að vera undir stjórn sömu manna og stjórnuðu Kaldaðarnesi. En hæstv. ráðh. getur ef til vill knúið það í gegn, en ég öfunda hann ekkert af að framkvæma þetta, og því meira sem hann gerir af axarsköftum eins og Kaldaðarnesmálinu, því lengri verður ásakanalistinn á hendur honum fyrir skort á hæfileikum til að fara með málefni almennings.

Það er furðulegt, að jafngreindur maður og duglegur bóndi og Jörundur Brynjólfsson skuli líta við að gera þennan samning. Og ég vil taka undir með hv. þm. Dal., þegar hann spurði, hvaða nauður hefði rekið hann frá Skálholti. Það er ekki sýnilegt, en ef menn vilja skilja flutninginn frá Skálholti í Kaldaðarnes, verða menn að athuga leikinn með búnaðarskóla Suðurlands, sem hv. 2. þm. Árn. stendur fyrir. Og ég sé ekki betur en allt séu tóm slys fyrir þetta mál. Hann beitti sér fyrir búnaðarskóla á Suðurlandi sem Sunnlendingur og duglegur þm. En nú var það sýnilegt, að slíks var ekki þörf, þar sem þeir búnaðarskólar, sem fyrir eru, eru ekki nema hálfir af nemendum, og ástæðan er sú, að hér á landi hefur aðeins verið einn góður búnaðarskóli, í Ólafsdal, og hann var drepinn úr hor. Dalamaðurinn Torfi Bjarnason kom heim sem þroskaður Íslendingur, sem fengið hafði menntun erlendis, einkum í Englandi. Hann setti síðan upp skóla, sem var eins og fyrirmyndarheimili og mjög vinsæll, og kom þar upp alhliða skóla, en staðurinn var ekki heppilegur. Og það hafa aldrei verið bornar brigður á það, að fyrir utan skólann gerði hann það þrekvirki að innleiða hér hestaverkfæri. En það er dálítið leiðinlegt að segja frá því, að hann fékk engan stuðning og skólinn lagðist niður. Flestir aðrir kennarar við íslenzku búnaðarskólana hafa lært í búnaðarháskólum í Danmörku og Noregi, þar sem kennslan er miðuð við tilvonandi embættismenn landbúnaðarins í þessum löndum, og niðurstaðan er sú, að íslenzku bændaskólarnir eru sem smækkuð mynd af þessum erlendu embættismannaskólum. Á Hvanneyri hefur t. d. í 60 ár þar til nú ekki verið neitt smíðahús. Bændaskólarnir hafa því aðallega verið bóknámsskólar og lítið annað, og námsefnið þá ekki alltaf verið miðað við íslenzka staðhætti, t. d. hefur verið kennd húsdýrafræði, sem er um 300 bls., en þar af eru aðeins 4 um íslenzk húsdýr. En það, sem hélt þessum skólum uppi í fyrstu, var það, að skólastjórarnir Halldór Vilhjálmsson og Sigurður Sigurðsson voru eflingsmenn, en þeir gátu ekki séð við því, að ekki var verkleg kennsla. En þetta finnur fólkið. Allir yfirmenn landbúnaðarins flaska á því að kenna íslenzkan búskap af bókum. En kvenfólkið hélt ráðstefnu um húsmæðraskólana og hefur farið alveg öfugt að og tekið upp kennslu í hinum almennu húsmóðurstörfum, og þar er nú 3–4 föld röð umsækjenda. En aðfenginn lærdómur og þó falskur hefur staðið bændaskólunum fyrir þrifum. Þess vegna þarf að gerbreyta íslenzku búnaðarskólunum. Væri sennilega rétt að kenna í 9 mánuði og ljúka náminu á einu ári og væri þá hægt að hafa um 100 nemendur í einu. En hv. 2. þm. Árn., sem er áhugamaður, kom í gegn l. um skóla á Suðurlandi og átti landbrh. að ákveða staðinn fyrir skólann í samráði við n. Vilhjálmur Þór var þá landbrh., og niðurstaðan var sú, að hann ákvað, að skólinn skyldi vera á Sámsstöðum og að Klemenz Kristjánsson yrði skólastjóri. Sámsstaðir eru prýðilegur staður fyrir skóla, og þar er margt að sjá. Þar hefði mátt gera námið frjálslegra og halda þar stutt námskeið. En þá skeði það, að stjórnarskipti urðu og 5 bændaþm. í Sjálfstfl. vildu ekki styðja kommúnista og urðu utanveltu í ríkisstj. Ef þetta hefði ekki skeð, þá er hér um bil víst, að skólinn væri fyrir löngu kominn upp á Sámsstöðum og hefði kostað mun minna en nú er orðið. Tveir hv. þm., 2. þm. Rang. og 2. þm. Árn., kepptust báðir um að fá skólann í sitt kjördæmi, og það, sem mælti m. a. með Sámsstöðum, var, að Árnesingar höfðu þegar fengið 2 skóla, Laugarvatnsskóla og kvennaskóla í Ölfusinu, en Rangæingar höfðu engan skóla. En hv. 2. þm. Árn. hafði betri aðstöðu, hann var góða barnið og hafði stutt ríkisstj., og hann fékk því sitt fram, en uppreisnarmaðurinn, hv. 2. þm. Rang., tapaði, svo að hætt var við að setja skólann á Sámsstöðum, en ákveðið, að hann skyldi vera í Skálholti. Nú má segja, að báðar sýslurnar hafi verðskuldað að fá skólann. En það mun koma gleggra fram, að heppilegra hefði verið og ódýrara að hafa skólann hjá Klemenz. Hann var búinn að koma upp vinnumannabústöðum, ódýrum og góðum, og hefði því verið hægt að byrja þegar með 25 nemendur á Sámsstöðum. En þegar búið var að ákveða, að skólinn skyldi vera í Skálholti, þá var alls staðar þverbrandur fyrir, þó að hv. 2. þm. Rang. skorti ekki áhuga. Ríkisstj. varði 7 millj. kr. til fiskihúss á Grandagarði, en aldrei var varið neinu til Skálholts. Hv. 2. þm. Árn. hafði fundið, að engin trú eða áhugi var fyrir þessu, því að ef vilji hefði verið fyrir hendi, hefði Sjálfstfl., sem var stærsti flokkurinn, getað komið þessu í gegn. En það eina, sem var gert, var að ákveða, að skólinn skyldi vera í Skálholti, en þó úti í úthaga, þar sem enginn vegur var, og varð að leggja stórfé í vegargerð. Það var ákveðinn staður fyrir skólann á fallegu holti, sem ber hátt, en þar er ekkert, sem þarf, ekkert hús, ekkert vatn, heitt vatn 2 km. frá, ekkert rafmagn og ekkert ræktað land. Samhliða þessu ræður ríkisstj. ungan mann sem skólastjóra, og hefur hann nú hálf skólastjóralaun, en ekkert að gera, og er undarlegt að gera ekkert annað, en ráða skólastjóra. Allt er þetta Skálholti til niðurdreps og til að spilla sögulegum minjum, að reisa þessa stóru byggingu þarna á holtinu, og útkoman yrði sú, að Skálholt yrði eins og hjáleiga og félli í enn þá meiri eymd. Ég gat verið með því að hressa við Skálholt og hefði getað greitt því atkv., þó að ég sé á móti skólanum, ef ég hefði haldið, að það yrði staðnum til uppbyggingar. En ef leggja á 5 millj. til bygginga skólans, hvað á þá að gera við gamla Skálholt? Hús í Skálholti eru ekki mikils virði, en ekki verri en annars staðar. Það hefur ekkert verið gert nema til niðurrifs í Skálholti, nema það, sem Jörundur Brynjólfsson hefur gert síðan hann kom þangað. Allt þetta væri því til að spotta hina gömlu minningu. Kirkjan gæti ekki verið í Skálholti, það væri heimskulegt að hafa hana svo langt frá skólanum. Staðurinn mundi því leggjast í enn meiri auðn en verið hefur. Ég vil svo segja, hvað ég álít, að gera þurfi. Ég tel, að jöfnum höndum verði að hressa við kirkjugarðinn, reisa minnismerki eftir Jón Arason og gera við kirkjuna, koma þar upp fyrirmyndarbúskap, svo að hægt sé að halda smánámskeið, þannig að staðurinn, sem öldum saman hefur verið stórbýli, verði það áfram. En þetta var ekki gert, heldur farið út í úthagann. Og enginn hefur trúað á þetta nema Jörundur Brynjólfsson sjálfur. Það er eins og með forseta Bandaríkjanna, enginn trúði á kosningu hans, nema hann sjálfur, og hann vann raunar kosninguna. En þó að Jörundur Brynjólfsson komi fram þessum áhugamálum sínum, þá er búnaðarskóli í Skálholti fyrirfram dæmdur til að standa hálftómur. Við öll Skálholtsmál er tengt hið undarlegasta samsafn af yfirsjónum, og þegar verið er að kenna hv. 1. þm. Árn. (JörB) um þær allar, þá er það óþarflega mikið. En hinu er ekki hægt að neita, að hann hefur verið óþarflega fíkinn í að fara inn á þetta.

Nú kem ég að því, sem ég hefði ekki trúað að óreyndu, af því að Jörundur Brynjólfsson er góður reikningsmaður. Hv. þm. Dal. sagði hér í dag, að hann sæi ekki, að ríkið hefði fengið neitt nema húsin í Skálholti, en það er ekki alveg rétt. Það fær 200–250 þús. kr. til að laga rústirnar í Kaldaðarnesi. Bóndinn, Jörundur Brynjólfsson, eignast ekki jörðina fyrr en hann er búinn að leggja fram þessa fjárupphæð eða það, sem henni svarar í vinnu við að hreinsa burt rústir og rusl. Við skulum athuga þennan samning dálítið. Það er engu líkara en að ríkisstj. hafi viljað tyfta þennan stuðningsmann sinn með slíkum ókjarasamningi, því að hvaða bóndi fengist til að taka að sér svo miklar og algerlega ópródúktívar jarðabætur, þótt hann eignaðist síðar jörðina við það? Það væri fyllilega eyðileggjandi fyrir hvaða bónda sem væri að leggja 200 þús. kr. í að ryðja burt húsgrunnum og tóftarbrotum og hreinsa það, sem ekkert gefur af sér. Ef hér væri ekki um auðmann að ræða, þá yrði hann að fá þetta fé að láni, og ef hann gerði það ekki eða gæti ekki, þá skilst mér, að hann væri orðinn brotlegur fyrir að standa ekki við samning, sem ekki er raunar hægt að standa við, og rækur af jörðinni.

En langsamlega leiðinlegast af þessu er, að hælið skuli vera tekið undan ríkinu og lagt af. Það var ógætilegt af Jörundi Brynjólfssyni að fara inn í það mál. Það var engin ástæða fyrir hann að fara frá Skálholti, hann var ekki rekinn í burt þaðan, það er miklu fremur að stj. lendi nú í vandræðum með þá jörð. En það ólíklega skeði, að hann sóttist eftir Kaldaðarnesi með þessum ókjörum. Ef hann hefði aðeins tekið matspeningana fyrir húsin í Skálholti, þá hefði verið lafhægt að kaupa fyrir það fé ágæta jörð, sem ekkert var til fyrirstöðu að kaupa. Mér var t. d. kunnugt um ágæta jörð austur í sveitum, sem átti að selja fyrir 160 þús. kr., ef hún er ekki til sölu enn, og þetta var góð jörð og vel hýst. En það, sem Jörundur Brynjólfsson fær í Kaldaðarnesi, er eitt gott hús, ráðsmannshúsið, það mundi vera talið þokkalegt fyrir eina fjölskyldu nú á tímum og ekkert fram yfir það. Mitt í rústunum er svo gamla sýslumannshúsið, stórt og kalt að búa í því, og síðan er heyhlaða og kofar og rústir af alls konar húsum. Það er einkamál Jörundar Brynjólfssonar, hvað hann hefur séð sér í þessu, en fæstir skilja, hví hann hefur sótzt eftir þessu, en það mun hann hafa gert, því miður.

Það er undarleg samfelld keðja af axarsköptum í sambandi við Skálholt og Kaldaðarnes. Eiginlega bera þær ríkisstjórnir, sem hér hafa verið við völd, aðalábyrgðina á öllum þeim raunalegu mistökum, bæði í sambandi við fyrirhugaðan skóla í Skálholti og hælið í Kaldaðarnesi, svo að eitthvað sé nefnt. Þessir staðir hafa verið hafðir að pólitískum leiksoppum. Út af fyrir sig er ég ekki að ásaka Jörund Brynjólfsson, hv. 1. þm. Árn., sökin í þessum málum er fyrst og fremst hjá ráðherrum, sem með þau hafa farið og á þeim borið ábyrgð. En viðvíkjandi þessum jarðakaupum er og verður sú mikla hætta fyrir hendi, að fólkið liti svo á, að hv. þm. Árn. hafi aðeins komizt að þessum kaupum af því, að hann var náinn flokksbróðir viðkomandi ráðherra og stuðningsmaður ríkisstj. Þessu trúir þjóðin, og hún hefur ástæðu til að trúa ýmsu viðkomandi opinberri spillingu, á meðan forsetar og ýmsir fyrirmenn fá að hafa sérréttindi um kaup á áfengi og tóbaki, þurfa ekki að greiða toll af þessum vörum. Og er þá nokkur furða, þótt fólkið í landinu segi: Hvers konar menn eru þetta eiginlega? Hvaða venjur eru það, sem gilda orðið í þessu landi? Annars vegar er Silfurtún og Sjálfstfl., hins vegar Kaldaðarnes og Framsfl.

Ég vil svo að lokum segja það, að þótt svo fari, að hv. þm. vilji ekki beint samþ. þessa till. hv. þm. Barð., sem ég mun þó greiða atkvæði, þá gæti þetta og ætti að koma þannig út og verða til þess, að ríkið fái Kaldaðarnes aftur með samningi og hælið verði rekið þar áfram, og gæti þá verið heppilegt að fá hinn mjög svo duglega mann, Jörund Brynjólfsson, til að stýra því.