08.02.1949
Sameinað þing: 37. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 503 í D-deild Alþingistíðinda. (4797)

73. mál, Kaldaðarnes í Flóa

Eiríkur Einarsson:

Herra forseti. Það er nú mikill áhugi vakinn hér á Alþ. fyrir jarðeignamálum í Árnessýslu, og hefur margt verið dregið inn í þær umræður. Það er því ekki úr vegi, að fulltrúar bænda úr Árnessýslu, sem ekki er sama um sína byggð og jarðirnar þar, láti einnig til sín heyra hér, þar sem svo kappsamlega er rætt um þessi mál. Hv. 1. þm. Árn. hefur þegar rætt málið frá sínu sjónarmiði, sem er sérstakt, þar sem hann er hér áveðurs, ef svo mætti segja. Ég tel nú rétt að skýra frá mínu viðhorfi.

Íhlutun mín um Kaldaðarnessöluna er fljótsögð saga. Hún lýtur eingöngu að svari mínu sem eins nefndarmanns í landbrn. við þeim tilmælum hæstv. landbrh., að n. segði álit sitt um eða féllist á, að Jörundur Brynjólfsson fengi jörðina keypta. Nm. tóku kurteislega í að svara þessu eins og sjálfsagt var, og meiri hluti þeirra, 6 nm. af 10, mæltu með þessum kaupum, en 4 á móti. Ég var einn þeirra 6, sem mæltu með því, að Jörundur Brynjólfsson fengi jörðina keypta. Þar með er allri íhlutun minni lýst um þetta mál. Um annað þar að lútandi, kaupverð, kaupskilmála og annað þess háttar var ég ekki til kvaddur, og mér kom það þá ekkert við. Ég er ekki sá koppaþefur, að ég sé að snuðra niðri í því, sem mér kemur ekkert við. Sem einstaklingi kom mér þetta ekkert við. En í n. var ég einn af 6, sem mæltu með sölunni.

Á ýmislegt hefur verið drepið, en yfir öðru þagað í þessum umræðum. Þegar sett voru hér lög um þriggja ára búsetu, áður en sala mætti fara fram, var hv. 1. þm. Skagf. annar flm. þess frv., en svo einkennilega vildi til, að hann var einn af þeim sex, sem sagði já við því, að Jörundur Brynjólfsson fengi Kaldaðarnes keypt. Sá, sem á hugsjónina og fær hana skráða á pappírinn sem lög, á að vera manna kunnugastur því, hvað fyrir honum vakti.

Það hefur verið talað um lögfræðinga í þessu sambandi. Hv. þm. Dal. var að tala um lögfræðinga, og hann hefur skýrt sína afstöðu. Það voru þrír lögfræðingar í n., það er rétt, hann sjálfur, hv. 8. landsk., sem er sýslumaður í Gullbringu- og Kjósarsýslu, og svo er ég lögfræðingur að nafninu til. En ég legg hvorki af né á upp úr því, hvort lögfræðingar hafa fjallað um málið í n. eða ekki, og ekki heldur legg ég neitt upp úr því, þátt einhver snjallasti lögfræðingur landsins, eins og það var orðað hér, hafi sagt varðandi búsetuákvæðið, að Jörundur Brynjólfsson ynni það mál áreiðanlega fyrir dómi. Ég veit, að þegar frv. um þetta var flutt og gert að lögum, var það með tilliti til sífelldra beiðna um kaup á kirkju- og þjóðareignum, og var þetta ákvæði viss mælir á, hvenær mætti selja, svo að ekki þyrfti að leggja hvað eina af þessu tagi fyrir Alþ. Eins er að líta á það, að þetta ákvæði á að tryggja að landhlauparar, óreiðumenn og braskarar geti ekki fyrirvaralaust keypt jarðir eða setzt að í rólegum byggðarlögum og valdið þar óþarfa raski, og mætti ætla, að stjórn viðkomandi sveitarfélags væri fyrsti vökumaðurinn í því efni. Og nú er ég kominn að því, að í sambandi við þetta mál óskaði hinn fámenni Sandvíkurhreppur eftir því, að þau kaup færu fram á Kaldaðarnesi, sem gerð voru. Það eru að vísu ekki margir bændur í þessum hreppi, en þeir standa vel í ístaðinu, og án tillits til allra flokka óskuðu þeir eftir þessu. Og með ósk frá þeim öllum var ég hiklausari í því að mæla með kaupunum en ella. Þeim kom þetta meira við, en flestum öðrum, þetta sneri að þeim. Ég áleit þessar óskir miklu meira virði en hvað lögfræðingar segja, hvort mál vinnist fyrir rétti eða ekki. Jörundur Brynjólfsson var búinn að búa í héraðinu í tugi ára, og allir bera þar kennsl á hann, svo að hið óþekkta og aðvífandi kom ekki til greina í þessu sambandi. Auk þess hafði hann meðmæli frá því sveitarfélagi, sem hann hafði búið lengst í, svo að hér var ekkert, sem villti um. Ég fjölyrði ekki meira um þetta. Ég veit, að bændur í Sandvíkurhreppi — þeir eru eitthvað 16 eða 17 að tölu — eru gildir og hyggnir bændur, og þeir vildu gjarna fá bónda að Kaldaðarnesi, en vildu ekki hafa hælið þar, eins og málum var komið, töldu það óþolandi lengur. Ég vildi styðja að þessum hugsunarhætti. Bændur í Árnessýslu vilja, að jarðir þar byggist og tryggist, en leggist ekki í eyði. Þeir hafa orðið fyrir því, að jarðir legðust í eyði, einnig vegna aðgerða hins opinbera, t. d. í Þingvallasveit, og það má nefna, þó að þar sé talinn þjóðgarður og ættjarðarsöngvar séu með í broddi fylkingar. Engu að siður fylgir því nokkur sársauki, er bóndinn þarf að yfirgefa jörð sína. Fleiri jarðir má nefna, sem nýlega hafa eyðzt, t. d. stórjarðir í Grafningnum. Í Kaldaðarnesi eru miklir framtíðarmöguleikar, og því sárara er það frá bóndans sjónarmiði að sjá jörðina yfirgefna og fara í eyði. Þeir skilja vel og meta vel hýstar og ræktaðar jarðir og þykir jafnframt sárt, er hitt skeður.

Þessi meðmæli mín í nefndinni var alls eina íhlutun mín í þessu sölumáli. Og þegar hér er rætt á víð og dreif og deilt um söluskilmála, kaupverð, mat og þess háttar, þá verð ég að segja, að það er hægara um að tala en í að komast og ganga svo frá þessum skiptum, að öruggt sé, að öllum líki. Þar hafa fæst orð minnsta ábyrgð. Ég segi það eitt, að úr því að hv. þm. Barð. þótti þetta vítavert og að það mætti ekki svo til ganga, þá er það honum fremur til lofs, en hitt að flytja þessa till. fyrir opnum tjöldum, eins og gert er hér, en ekki að vera með neitt baktjaldamakk, sem grefur sundur ræturnar án þess að opna dyrnar og er helmingi verra. Ég leiði minn hest hjá því að dæma um, hvort kaupverðið er réttmætt eða óréttmætt, og yfirleitt að dæma í þessu máli. En hinar margþættu deilur hér um þetta mál sýna einmitt, að margt getur verið hér álitamál, og sýnist sitt hverjum. Ég játa, að Kaldaðarnes er víðlent og mikið landsvæði og þar eru miklir möguleikar, þegar allt kemur til alls. En hitt er jafnvíst, að hið forna höfuðból er mjög grátt leikið. Hinir fögru og víðu töðuvellir eru drepnir í þann dróma, að enginn sólargeisli getur unnið á sköflunum. Nú á verð jarðarinnar að greiðast með því að leysa túnið úr herfjötrum. Það er fallegt markmið, og það skilja bændur. Hinu, hvort verðið er réttmætt peningalega eða hvort þetta verk tekst, verður reynslan að skera úr. En það veit ég, að sá maður, sem keypti jörðina, Jörundur Brynjólfsson, hefur búið í héraðinu í tugi ára og honum hefur verið falið þar hið mesta trúnaðarstarf sem fyrsta þingmanni sýslunnar í fjöldamörg ár. Vitanlega getur svo flokksvaldið verið sterkt í héraðinu og haft sín áhrif, en persónan komizt í skuggann, en ég tel það eigi ekki við um Jörund Brynjólfsson, því að hann er einkar vinsæll maður. Þó að við höfum oft elt saman grátt silfur, hvor fyrir sinn flokk, þá vil ég engu að síður segja þetta eins og það er. Og þegar verið er að gefa í skyn og halda fram, að hér sé um fríðindi að ræða honum til handa í sambandi við þingsetu hans og þá aðstöðu, sem henni fylgir, þá segi ég nú bara, þegar rætt er um hlunnindi í skjóli þingsetu: Þeir, sem heilagir og lýtalausir eru í því efni, standi upp og mótmæli. En sé hér um nokkurt vítavert athæfi að ræða, þá er það að vísu ekkert betra fyrir það, þótt fleiri dæmi fyndust slík eða lík. En dæmin eru mörg, þetta er ekkert einsdæmi.

En það, sem ég hef nú nefnt, áhugi bænda eystra á því, að jörðin byggðist og þetta ómyndar vesalings hæli hyrfi og jörðin kæmist í vörzlu bónda, á áreiðanlega ríkan þátt í að fá hug almennings þar með sölu jarðarinnar. Bændurnir hafa þá ræktarlund gagnvart jörðinni, sem segir sjálf til vegar, og þeir hafa sýnt það í verkinu, að þeir eru gæddir þeirri ræktarlund.

Þá er annar þáttur málsins, er ég get þó vísað frá mér, því að ég get ekki dæmt um, hvort það er sanngjarnt eða ósanngjarnt. En ég vil geta þess varðandi sögu fráfarandi ábúanda í Skálholti, meðan hann sat þar, að hver getur ætlazt til þess, þar sem staðurinn er ákvarðaður til bændaskóla og byggja á hann upp að nýju og á að verða merkisberi bændamenningarinnar í landinu, að húsin, sem miðuð voru við nauðsynjar ábúandans, séu þá nothæf fyrir væntanlegan skóla þar? Ég veit ekki betur, en frá því er fyrst var rætt um bændaskóla í Skálholti, þá hafi verið vakandi kröfur frá kirkjustjórn landsins, forustumönnum kirkjunnar o. fl., að helgiblettunum í Skálholti verði hlíft, en ekki öðruvísi en þeir geti verið vitnisburðir um fortíðina sjálfir. Ég veit, að fleiri vilja taka þetta til greina. Þetta er ein af ástæðunum til þess, að þrátt fyrir það að skólinn skyldi reistur þarna, yrði það eigi á hlöðunum í Skálholti. Nú er það svo samkv. því, hvernig háttar til um húsin, að eigi er hægt að bera saman kostnaðinn við þau, er nú standa, við það, sem krafizt er varðandi hin nýju mannvirki. En tíðara er, þá er um einstakling er að ræða, að hann hafi ábatann en að ríkið snuði hann. Hitt er annað mál, hvort hér hafi sanngjarn mælikvarði verið lagður á hlutina. Ég vil þó taka fram þessi sjónarmið, hvort sem kalla má, að um sleggjudóma hafi verið að ræða eða ekki. En verði niðurstaðan sú, að fyrrv. ábúandi í Skálholti hafi auðgazt á þessum kaupum, — ja, þá er í sögunni frá því að segja, að einu sinni hefur getið bónda á Íslandi, sem auðgazt hafi á viðskiptum sínum við ríkið. Hin dæmin yrðu mörgum sinnum fleiri, sem vitnuðu um hið gagnstæða, þ. e. undir þessum kringumstæðum. Ég segi, að vítavert athæfi hafi verið framið varðandi bæði Kaldaðarnes og Silfurtún, en ég segi ekki, hvort hafi verið réttmætara. Hins vegar úir og grúir af hinu sama. Það mundi verða stór bók, sem segja ætti alla þá sögu um viðskipti ríkisvaldsins annars vegar og einstaklinga, félaga og ýmissa stofnana hins vegar. Hún ætti að vera með svört spjöld. Það er allt of oft, að duttlungar ráði og tilviljun, hvað af því, sem varhugavert er, komi fram í umr. á Alþ. og hvað ekki. Mér datt dálítið í hug varðandi verðgildi húsanna í Skálholti. Gerum ráð fyrir því, að of hátt hafi verið keypt og of lágt selt og ríkið þar með snuðað. En hvað er að gerast á Laugarvatni? Það er þagað yfir því, að þar á að rífa niður stórbyggingar, hlöður stórar, gripahús, svínahús o. fl., til þess að hið fyrirhugaða skólahverfi geti þar fengið stað. Ég segi það aftur, að þessu er þagað yfir. Væri það þó einnig íhugunarefni fyrir mann með jafnmikla réttlætiskennd og hér hefur orðið vart. Þannig er það, þegar réttlætiskenndin er að verki og grípur á kýlunum hjá sumum, en sleppir öðrum eftir atvikum, þá vilja verða litlar niðurstöður. Mér kemur það þá í hug, sem hinn kæni og vitri maður segir um vélabrögð heimsins, en hann, Einar Benediktsson, kveður á þessa leið í kvæðinu Djöfladans:

Þá heilagrauturinn hrærist,

er öll hugsun sem kökkur í súpunni.

Hér er verið að hræra heilagrautinn, og hugsunin er sem kökkur í súpunni. Þetta á líka við hér og er e. t. v. eitt af meginatriðunum. Kom það fram hjá hv. síðasta ræðumanni, sem talaði mikið um bændaskólann í Skálholti. Bíðum nú við! En þegar átti að fara að gera eitthvað, var ætlunin að slá slagbrandi fyrir dyrnar. Ætli hv. þm. hafi ekki verið kunnugt um þetta? Reyndar er hver um sínar skoðanir, en rétt er að segja hið sanna í hverju máli.

Allir hv. þm. munu vita, að skv. l. 1944 var bændaskóli ákveðinn í Skálholti eftir till. n., sem var skipuð á vissan hátt. Í henni voru þeir Steingrímur Steinþórsson búnaðarmálastjóri, Jón Sigurðsson á Reynistað og Guðmundur Þorbjarnarson á Stóra-Hofi, hinn nýlátni bændahöfðingi.

En þeir klofnuðu í afstöðu sinni til skólastaðarins. Jón og búnaðarmálastjórinn héldu fram Skálholti. Því er hlaupið yfir aðalatriði málsins? Það er eigi nóg að vera pennafær í bezta lagi, heldur á að segja rétt frá. Guðmundur á Hofi benti á annan stað: Kálfholt í Holtum. Eru báðir staðirnir að vísu fyrirtaks góðir. En Skálholt varð ofan á og staðurinn lögfestur. Hér átti fyrst að koma bændaskólanum niður í Rangárvallasýslu, en þó var skólinn ákveðinn með l. í Skálholti. Ég held einmitt, hvort sem rétt hefur verið farið með um verðlag og skilmála eða ekki, að þá hafi ætið loðað við, að málið hafi verið notað í „Djöfladans“. Það hefur hvorki verið blásið út af Framsfl. né Sjálfstfl. sérstaklega, heldur er það verk dálítillar klíku manna, þeirrar, sem er mótfallin bændaskóla í Skálholti. Stuðningsmenn hennar hafa komizt með málið inn á Alþ., og það eru þeir, sem eru slagbrandamennirnir í þessum efnum. Á fjárlögum þ. hafa verið veitt ný og ný framlög til skólans. Veit ég ekki til, að nokkru sinni hafi gætt verulegrar andúðar gegn þessu. En lítið hefur enn orðið úr framkvæmdum. Húsameistarinn hefur t. d. aldrei lokið heildarteikningunum. Ég gleðst yfir því, að till. er komin fram, úr því að dylgjur hafa verið hafðar í frammi um málið. Er gott, að skorið sé úr um þetta, þó að einn þátturinn hafi verið að gera það að hneykslismáli. Fyrr má nú vera! En hvorugt þarf að vera. Duglegur maður er nú í Kaldaðarnesi, og Sunnlendingar vilja skólann. Geta má þess og, að aukafundur var haldinn í stj. Búnaðarsambands Suðurlands. Þá var samþ. að flýta þessu verki eins og frekast væri unnt, með því orðalagi, er á till. var. Ég er ekki of mikils metinn og vil því ekki telja mig aðalhvatamanninn að þessu. En við viljum fylgja þessu máli eftir. Það er sanngjörn krafa, að þeir góðu menn, sem talað hafa um málíð, leiti sér fræðslu um það, en liggi ekki flatir fyrir einhliða missögnum manna. Í því er fólgin trygging, hvernig svo sem málið fer.

Þá er ég mótfallinn niðurlagsgr. till.: „Jafnframt sé honum gefinn kostur á því að fá aftur ábúð á jörðinni Skálholti í Biskupstungum.“ Í stjórnartíð fyrrv. fjmrh., Péturs heitins Magnússonar, var farið að athuga, hvernig bændaskólamálinu varðandi Skálholt yrði bezt ráðið til lykta, þannig að eigi yrðu árekstrar. Til þess að ljúka þessu verki entist ekki ráðherratíð hans, og brátt hafði hann og runnið æviskeið sitt á enda. Síðan hefur þessu verið fram haldið, og verður Skálholt sjálft að svara því, hvort rétt hafi verið farið að. Því heilli sem trúin er á bændaskólann, þeim mun minni mun trúin á það, að bóndi, sem rekur stórt bú, eigi að sitja í Skálholti. En vilji hann búa áfram, þá er það gott, og ber að meta það. Það í till., er ég sagðist vera á móti, tel ég alls vegna óviðeigandi. Þess vegna vil ég spyrja hv. flm. till., hvort hann vilji eigi breyta þessu og gera þær ráðstafanir, að hv. 1. þm. Árn., þegar hann er allur, en þess vona ég að verði langt að biða, fái leg í Skálholti. Krossinn helgi frá Kaldaðarnesi er horfinn og fátt um aðrar minjar horfinnar dýrðar í Skálholti. En þar kusu sér margir leg, bæði biskupar og aðrir, og er það engin fordild, að ég segi þetta, — þó að hálfvegis sé það nú í gamni gert, sbr. þó grafreitinn á Þingvöllum. Er allsendis ókleift að sjá fyrir fram, hverju menn kunna úr þessu að taka upp á. — Ég læt þetta nægja.