10.02.1949
Sameinað þing: 38. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 519 í D-deild Alþingistíðinda. (4801)

73. mál, Kaldaðarnes í Flóa

Sigfús Sigurhjartarson:

Herra forseti. Einn þáttur þessa máls er þátturinn um drykkjumannahæli í Kaldaðarnesi. Ég ætla, að sá þáttur sé mér kunnugri, en flestum öðrum þm., sem sæti eiga hér á Alþ. nú, og vil ég leyfa mér að fara nokkrum orðum um þá hlið málsins nú, þó að ég hafi nú áður haft tækifæri til þess í þessum umr. En nú ber á svo mikilli vanþekkingu á þeim málum, að mér finnst ástæða vera til að gera þessari hlið málsins nokkur skil.

Það er nú nokkuð langt um liðið síðan nokkrir menn vildu hefja aðgerðir til þess, að komið yrði upp drykkjumannahæli. Þegar eftir 1930 var hafizt handa í málinu, en Alþingi drap þær till. Er ég kom á Alþingi árið 1942, var flutt frv. til l. um drykkjumannahæli, en það var drepið. Þá var það sýnilegt, að ef úr slíku ætti að verða, þá yrði að koma því til vegar, að einhver aðili hefðist handa með hæli og sýndi fjárveitingavaldinu, að alvara væri á ferðum. Stórstúka Íslands færðist því í fang að stofna til rekstrar hælis fyrir drykkjusjúka menn, en í smáum stíl. Að þessu unnu mest þrír menn, þeir Friðrik Ásmundsson Brekkan, Kristinn Stefánsson stórtemplar, og ég var sá þriðji. Við hófum þessa starfsemi á litlu býli við Stokkseyri, sem heitir Kumbaravogur. Við fengum hr. Alfreð Gíslason lækni til þess að veita hælinu forstöðu. Sjálfir höfðum við veg og vanda af rekstrinum að því leyti, sem það heyrði ekki undir forstöðumanninn þar eystra, Jón Sigtryggsson fyrrv. fangavörð, en það var fyrir tilstuðlan landlæknis og sakadómarans í Reykjavík, að sá maður fékkst. Alfreð Gíslason sá um forstöðuna séð frá hinni læknislegu hlið. Ég vil geta þess, að í upphafi var okkur það ljóst, að til þess að vænta mætti góðs árangurs af starfinu, þurfti að skapa þeim mönnum, sem þarna dveldust í lengri eða skemmri tíma, góða og skynsamlega aðstöðu til að vinna. Kumbaravogur er lítið kot, en við reyndum að láta vistmenn vinna, t. d. við heyskap, garðrækt, og aðra heilsusamlega líkamlega vinnu. Sú stefna var mörkuð að leitast við að skírskota til manndóms þessara manna og reyna að vekja starfsþrá þeirra til nytsamra verka. Á sumartímanum fengu vistmenn eigin kartöflugarð, og máttu þeir rækta í garðlöndum sínum eins og þá lysti og eiga uppskeruna. Með þessu vorum við að skírskota til manndómsins, en það var síður en svo lítill vandi að halda þessum mönnum að verki. Það verður að gera sér fulla grein fyrir því, að þessir menn voru sjúkir, og þetta kom mjög alvarlega fram. Það er ekki hægt að neita því, að þeir voru fáir mennirnir, sem fengu nokkra verulega bót á sjúkleika sínum. En þessi árangur er síður en svo nokkurt sérstakt íslenzkt fyrirbæri. Ofdrykkjan er einn þeirra sjúkdóma, sem nútíma vísindi hafa ekki fundið neitt ráð við. Á hælum fyrir ofdrykkjumenn ná ekki nema 3–4% sjúklinganna fullum bata. Hinn hlutann þarf að hafa á hæli árum saman og í einstaka tilfellum ævilangt. Af þessu, sem ég hef drepið á, er hægt að draga, hvert hugur okkar þremenninganna stefndi. En á fyrsta árinu, sem hæli þetta starfaði, var frv. flutt á Alþ. um drykkjumannahæli, og samkv. því átti hið opinbera að starfrækja drykkjumannahæli. Er svo var komið, fórum við í hælisnefndinni að athuga um stað fyrir nýjan samastað fyrir hælið, því að við urðum að flytja í burtu af jörðinni með starfsemina. Við, sem sæti áttum í stjórn hælisins, óskuðum þess helzt, að byggt yrði eða útvegað húsnæði á jarðhitasvæði, svo að hægt yrði að reka stórbúskap og smáiðju í sambandi við hælið. Fjölbreytni í starfi gefur sterkastar vonir um, að kraftar þessara drykkjusjúku manna nýtist. Heilbrigðir menn yrðu að bera allan veg og þunga við vinnuna, en vinnuframlag þeirra sjúku yrði þá eins konar uppbótarvinnuafl. Nú skal ég ekki reka frekar þá sýn, hvernig við hugsuðum okkur starfið við heita vatnið eða hvernig leitin gekk að landi, sem þeim kostum væri búið. En nú víkur sögu til Kaldaðarness. Ég skal ekki fullyrða, hver átti frumkvæðið, að bent var á Kaldaðarnes sem ákjósanlegan stað undir hæli fyrir drykkjusjúka. Nú stend ég ekki eins vel að vígi að segja frá, þ. e. frá árabilinu 1945–47, því að skjöl þau og gögn, sem varða málið á þessum tíma, eyðilögðust í húsbruna hér í Reykjavík. En ég held mér sé óhætt að fullyrða, að Vilmundur Jónsson landlæknir hafi fyrstur bent fjvn. á þennan stað. Í fyrstu ferð okkar þangað austur voru með þeir Vilmundur landlæknir, sakadómarinn í Reykjavík, Alfreð Gíslason læknir og ég. Er við lítum á eignina, urðu allir á eitt sáttir, að hér væri fundinn framtíðarstaður fyrir hælið. Við höfðum einnig bent á, að heppilegt væri að koma byggingarframkvæmdum svo fyrir, að vistmenn gætu unnið að því sjálfir að byggja yfir sig. Fyrst var gert ráð fyrir, að vistmenn og starfslið hælisins dveldust í herskálum, sem þarna voru, en síðan yrði strax hafizt handa um byggingarframkvæmdir. Fyrsta verkið skyldi vera að byggja upp, hreinsa síðan jörðina, sem var orðin illa útlítandi eftir að herliðið dvaldist þar, og síðan skyldi nytja gæði jarðarinnar. Þá var Finnur Jónsson heilbrmrh. Lýsti hann stuðningi sínum við málið. Þá var og leitað umsagnar Guðmundar Gestssonar ráðsmanns ríkisspítalanna. Hann lagði til, að þetta mál yrði fellt inn í annan búrekstur ríkisspítalanna, og enn var leitað álits jarðræktarráðunauts Búnaðarfélags Íslands. (JJ: Hvers?) Það var Pálmi Einarsson. Árið 1945 var svo hafizt handa, og vistmenn voru fluttir austur að Kaldaðarnesi. Þar unnu þeir til að byrja með við að rífa í sundur bragga, losa þá í sundur og hirða það, sem nýtilegt var úr þeim. Það byggingarefni, sem reyndist unnt að nota, var svo hagnýtt. Við byggingarframkvæmdirnar var Björn Rögnvaldsson byggingarmeistari trúnaðarmaður. Hann lagði til, að skinnað væri upp á gamla húsið, en fjvn. taldi slíkt óhyggilegt, en vildi reisa af grunni. En sérfróðir menn héldu sig fast við það, að velja skyldi hina leiðina. Frá þeim tíma, er þessu vatt fram með málið, eru aðeins tvö skjöl fyrir hendi, en þau hafa verið í mínum vörzlum. Fyrra bréfið er frá því í janúarmánuði 1946 og var skrifað í samráði við þáverandi heilbrmrh., Finn Jónsson. Það var til Búnaðarfélags Íslands. Þar er sagt frá því, að það standi til að koma upp búrekstri á jörðinni, og er leitað til Búnaðarfélagsins um álit í því efni. Með leyfi hæstv. forseta vil ég lesa þetta bréf hér upp. Þar segir svo:

„Eins og Búnaðarfélagi Íslands er kunnugt, var drykkjumannahælið flutt að Kaldaðarnesi á s. l. sumri. Var gert við gamla íbúðarhúsið á jörðinni, og eru þar nú góð húsakynni fyrir 16–18 vistmenn, auk starfsfólks. Aðkoma að Kaldaðarnesi var verri, en lýst verður með orðum, enda var þar mikil hernaðarbækistöð um skeið. Túnið er eyðilagt, svo og mikið svæði af árbökkunum, sem var gæðaland og notað sem tún.

Gert er ráð fyrir því, að hælið reki búskap á jörðinni. Verður væntanlega byrjað á næsta vori í smáum stíl, en þó þannig, að búið framleiði helzt nægar búsafurðir fyrir hið fjölmenna heimili.

Heimilisstjórnin telur sjálfsagt að hafa með í ráðum kunnáttumenn á sviði landbúnaðar nú, þegar að því kemur að hefja skal búskap í Kaldaðarnesi. Hefur viðkomandi ráðherra, Finnur Jónsson, falið mér að snúa mér til Búnaðarfélags Íslands með tilmæli um, að það sendi mann austur þangað, og leggi hann ráð á, hvernig taka skuli því verkefni, sem þar er fram undan, hvað gera skuli fyrst og hvernig, t. d. hvort rækta skuli tún að nýju eða koma gamla túninu aftur í rækt. Í Kaldaðarnesi þarf smátt og smátt að rísa upp mikill og fyrirmyndarbúskapur, og varðar miklu að rétt og skynsamlega sé af stað farið.

Með skírskotun til framanritaðs leyfi ég mér hér með og í nafni heilbrmrh. að óska þess, að Búnaðarfélag Íslands geri ráðstafanir til þess að senda við tækifæri kunnáttumann í landbúnaði austur að Kaldaðarnesi í áðurnefndum tilgangi. Jafnframt óska ég þess, að Búnaðarfélagið láti mig vita, hvenær af förinni getur orðið.“

Samkvæmt þessu er Búnaðarfélagið beðið að láta í té búfræðilega aðstoð í sambandi við fyrirhugaðan búskap. Síðan var ætlunin að fá dugandi mann til að veita búinu forstöðu, en hann réði svo til sín heilbrigða menn til þess að vinna verk þau, sem til falla við búskap, en vinnuafl þeirra sjúku manna, sem á hælinu dveldust á hverjum tíma, yrði hagnýtt til aðstoðar, eftir því, sem unnt reyndist. Þetta bréf er skrifað 21. jan. 1946 og sýnir glöggt, hvað vakað hefur fyrir stjórn hælisins, landlækni og ráðsmanni ríkisspítalanna.

Um þetta leyti varð það að ráði, að stjórn ríkisspítalanna tæki við rekstrinum, þó að stjórnarnefndin hefði staðið fyrir þessu máli til þessa. Starf nefndarinnar hafði alla tíð verið ólaunað, og var svo þangað til hún hætti afskiptum af málinu. Nú leit n. svo á, að málið væri komið í örugga höfn, nú væri tryggður búrekstur í sambandi við hælið. Hinn 6. maí 1946 skrifar hælisstjórnin heilbrmrh. eftirfarandi, með leyfi hæstv. forseta:

„Eins og yður, hæstvirti ráðherra, er kunnugt, hefur stjórn Kaldaðarneshælisins litið svo á, að eðlilegt og hagkvæmt væri, að allur rekstur hælisins, þar með talinn búrekstur, yrði fengnir í hendur stjórnarnefnd ríkisspítalanna. Starf hælisstjórnarinnar yrði þá fólgið í því að ráða lækni og forstöðumann stofnunarinnar með samþykki ráðherra og stjórnarnefndar ríkisspítalanna, að hafa umsjón með öllu því, er varðar vistmenn, og gæta þess, að kappkostað sé, að vistin beri þeim tilætlaðan árangur. Enn fremur bæri hælisstjórninni að greiða fyrir vistmönnum eftir föngum að vist lokinni og fylgjast með, hversu þeim vegnar.

Leyfir hælisstjórnin sér hér með að óska þess, að ráðherrann fallist á að fela stjórnarnefnd ríkisspítalanna að taka við rekstri hælisins nú þegar.

Það skal tekið fram, að tillaga þessi er gerð í samráði við og samkvæmt óskum landlæknis og dr. Helga Tómassonar yfirlæknis.“

Á þetta var fallizt, og eins og þessi skrif benda til, var þessa óskað í samráði við landlækni og dr. Helga Tómasson yfirlækni. En áður en ég fer lengra, vil ég geta þess, að nokkurrar gagnrýni varð vart á stjórn hælisins, þar eð það hafði komið í ljós, að vistmenn vildu hlaupast í burtu úr vistinni og heimtuðu að fá greitt kaup að öðrum kosti. Það er sú saga, sem er alveg rétt. En nú er svo kveðið á í íslenzkum l., að það sé heimilt að flytja menn aftur til dvalarstaðar síns til hælisins með lögregluvaldi. Samt sem áður hefur því verið blandað í þetta, að ekki mætti flytja mennina með valdi á hælið aftur. En þessi ákvæði í l. eru nýmæli, aðeins ársgömul, og eru sett inn í l. í samráði við mig og fleiri þm. Það er og rétt, að vistmenn voru með kröfur um að fá kaup greitt fyrir vinnu sína á hælinu. Þeir vildu fá taxtakaup, en þegar slíkt ber að, verður að reyna að skírskota til sjálfsbjargarviðleitni þeirra og gefa þeim tækifæri til að sýna, að þeir séu færir til og geti unnið eins og menn að störfum þeim, sem þeim kunna að vera falin. Ég hygg, að það sé rétt, að þeim hafi ekki fundizt sér vera gert nógu hátt undir höfði. Þeir lögðu niður vinnu og fóru fram á betri kjör, en þeir urðu að hverfa aftur til vinnu við sömu kjör og áður.

Það kom í ljós af reynslunni, að nauðsynlegt var, að hælið stæði í sambandi við sjúkrahús í Rvík. Í fyrsta lagi af því, að það kom í ljós, að þegar leitað hafði verið um hælisvist fyrir menn, þá var heilsu þeirra svo háttað, að nauðsynlegt var að leggja þá á sjúkrahús, áður en þeir vistuðust á hælinu. Hitt kom einnig alloft fyrir, þegar menn voru komnir á hælið, að nauðsynlegt var að kippa þeim þaðan um stundarsakir og senda þá á sjúkrahús. Loks var það, að þeir menn, sem komu inn á hælið, voru margir hverjir sökum ofneyzlu áfengis meira eða minna geðbilaðir. Þessi reynsla leiddi til þess, að upp var tekið samstarf við sjúkrahúsið að Kleppi.

Ég vil í þessu sambandi mótmæla þeim niðrunarorðum, sem tveir hv. þm. létu falla um þetta samband við sjúkrahúsið Klepp. Ég veit ekki til þess, að menn hafi nokkurn tíma með nokkrum rétti getað talað um það með vanvirðu, þó að þeir sýkist af sjúkdómi, þegar þeir eiga enga sök á honum, og það er ekki hægt heldur í þessu sambandi, þó að sjúkdómurinn komi fram á geðsmunum. Það er orðið landlægt að líta á geðveiki með vanvirðu, og er lítill sómi að því. Ættu þm. að reyna að eyða þessum misskilningi og stuðla heldur að réttu mati stofnunarinnar og skipa henni á sama bekk og öðrum sjúkrahúsum.

En, sem sagt, eftir margar og miklar umr. komumst við að þeirri niðurstöðu, að rætt skyldi við dr. Helga Tómasson um að taka við læknisstörfum fyrir hælið og taka að sér þá menn, sem þyrftu á sérstakri læknismeðferð að halda. Þetta var svo gert, og það var að allra ráði, að dr. Helgi tók við starfinu á hælinu snemma á árinu, eða í ársbyrjun 1946.

Það fyrsta, sem gerðist, eftir að dr. Helgi tekur við hælinu, er svo það, að hann ber fram ósk um það, að stjórnarnefndin hætti alveg að skipta sér af vistmönnum hælisins. Hún átti aðeins að ráða starfsliði hælisins. Hennar starfssviði var í raun og veru lokið. Ég viðurkenni það fúslega, að mér þótti þetta nokkuð hart aðgöngu og var á móti því persónulega, því að þó að starfið sé umfangsmikið og snúningasamt, en ólaunað peningalega, þá ber það þó sín laun með sjálfu sér. En þegar kom fram ósk um það frá ráðh., þá var þó á það fallizt að láta niður falla afskipti nefndarinnar af sjúklingum, svo að dr. Helgi gæti sýnt það, hvernig hann ætlaði að halda á málunum. En fyrsta verk dr. Helga, þegar hann kom að hælinu fullskipuðu, eða með 17 mönnum, var að segja við þá: „Ef þið eruð með einhverja óþægð, og ef þið strjúkið héðan, þá getið þið verið vissir um, að þið verðið ekki sóttir aftur.“

Það ræður af líkum, hvernig þessu var tekið af vistmönnum. Þeir fóru allir burt með tölu. En til þess að þjóna réttlætinu, þá verð ég að segja það um dr. Helga, að með þessu var hann að framfylgja yfirlýstri stefnu, sem hann áleit þá einu réttu. Hann vildi ekki taka nema fáa menn, helzt ekki meira en 8 menn, sem hann mundi geta læknað alveg. Hann var kominn á þá skoðun, að þetta ætti að vera lækningahæli, en ekki visthæli fyrir menn, sem hafa lent illa út úr því í baráttunni við vínguðinn árum saman eða jafnvel ævilangt. Hann vildi helzt fá alla, 6 eða 8, inn sama daginn og láta þá fara þaðan sama daginn og færði fyrir því rök, að ef alltaf væri verið að skipta um menn, þá mundi það valda miklum óróa og þeir, sem síðar kæmu, mundu spilla fyrir lækningu hjá hinum, sem fyrir eru, með því að segja þeim sögur frá lífinu í Hafnarstrætinu, sem þeir könnuðust vel við og mundi vekja með þeim óróa.

En nú veit ég, að það þýðir ekki að segja við drykkjumann, að hann skuli koma aftur eftir 2–3 daga eða 3 mánuði, — það verður að grípa tækifærið, þegar það gefst. En nú var þessari stefnu fylgt. Þegar við sífellt reyndum að koma mönnum þangað austur, þá var af dr. Helga Tómassyni sagt nei. Niðurstaðan af þessu varð svo sú, að vistmönnum fór fækkandi og voru stundum ekki nema 3–4–5 og stundum tómt. Þetta er nú saga málsins, og öðruvísi er ekki rétt frá sagt.

Í þessu máli höfðu landlæknir, ráðh. og ráðsmaður ríkisspítalanna reynt að koma þessu aftur á réttan kjöl, en það var dr. Helgi einn, sem tók nýja stefnu, sem leiddi til þess, að hælið tæmdist. Hver er þá villan? Villan er sú að ætla að fara að breyta hælinu í Kaldaðarnesi eingöngu í lækningahæli. Það hafði verið lagður grundvöllur að visthæli, og það er ekki rétt, sem látið hefur verið í ljós, að það væri illa í sveit komið þarna austur frá, því að hælið er þvert á móti mjög ákjósanlega í sveit sett þar, eins og engum getur dulizt, sem átt hefur leið um hlaðið, verkefni eru þar ótæmandi, tækifæri til að reka þar stóran búskap. Það varð að stækka visthælið, því að þar var ekki pláss fyrir nema 17 vistmenn, en það er allt of lág tala. Það varð að stækka það, þannig að það gæti tekið við, ekki 30, heldur tvöfalt eða þrefalt fleiri, og frá mínu sjónarmiði er það einsætt mál, að það hefði verið hægt að byggja þetta upp með kröftum heilbrigðra manna og aðstoð vistmanna. Öll þau rök, sem landlæknir bar fram um, að rétt hafi verið að starfrækja Kaldaðarnes, standa óhögguð enn. Það var aðeins eitt, sem ég saknaði, og það var jarðhitinn. Nú er mér það óskiljanlegt, hvernig hæstv. menntmrh. getur sagt það, að hælið hafi verið lagt niður í samráði við alla nefndarmennina. Það var ekki gert í samráði við neinn okkar þriggja. Hver okkar þriggja, hver okkar sem var, hefði sagt, að halda bæri áfram að starfrækja það og stækka fyrir fórnarlömb áfengisverzlunar ríkisins. Ég er sannfærður um, að hann hefði fengið sama svar, hvern okkar sem hann hefði spurt. Ég vildi ekki láta leggja hælið niður. Sama svar hefði hann fengið hjá Alfreð Gíslasyni, og ég skil það varla, að landlæknir hafi skipt um skoðun. En ég skil það vel, að dr. Helgi Tómasson hafi sagt, að þetta væri ekki staður til þess að hafa hönd í bagga með 8 drykkjumönnum, hann hafi þurft að vera nær. En ég verð að segja það, þegar minnzt er á það, að núverandi hæstv. heilbrmrh. hafi einlægan áhuga að vinna fyrir þessa drykkjusjúku menn, að það er harmsaga, að hann skuli hafa framkvæmt þetta hneyksli.

Það er óumflýjanlegt, að næstu ár er nauðsynlegt að byggja sams konar hæli og var í Kaldaðarnesi, en það verður ekki gert nema með enn þá meiri tilkostnaði. Þegar talað er um, að staðurinn sé of fjarri Reykjavík, þá vil ég benda á, að það er alls ekki rétt, enda var það, að þegar stjórnin var að svipast um eftir stað fyrir hælið, þá var ekki leitað um minna en alla Árnessýslu, Rangárvallasýslu og Borgarfjörð, sömuleiðis Ólafsdal, og nú síðast var um það rætt í alvöru að koma upp hæli í Bjarnarhöfn á Snæfellsnesi. Allir eru þessir staðir fjarlægari en Kaldaðarnes. Engey er fáránlegur staður, því að það er öldungis rétt, sem hv. þm. Barð. sagði, að sundin eru engin vörn gegn stroki. Það er engin vörn nema lögin, sem heimila að senda þá aftur til baka, sem strokið hafa, en samt eru það alltaf einhverjir, sem strjúka.

Það er sama, hvort við mæðum þetta mál lengur eða skemur. Það er herfilegt glapræði, að þetta hæli skuli vera látið úr hendi heilbrigðisstj., einmitt þetta, sem þurfti að stækka og endurbæta á allan hátt. Vissulega mun allt það fé, sem lagt hefur verið til hælisins, enn í fullu gildi, þó að það sé ekki sama virði bóndanum, en jörðin og mannvirkin eru þó vissulega í fullu gildi fyrir bóndann í Kaldaðarnesi.

Hv. 1. þm. Árn. talaði með lítilsvirðingu um þetta hæli. Hvaða hæli er það? Það var gamla húsið sýslumannsins, sem byggt var 1892. Það er alveg rétt, en í þessu gamla húsi sýslumannsins var pláss fyrir 17 vistmenn, það var pláss fyrir 2 setustofur, pláss fyrir bókasafn, pláss fyrir lækningastofu og tvö herbergi fyrir ráðsmann, enda var líka dýrt að koma því í stand. Svo voru herskálar. Það var horfið að því ráði að setja upp eldhús í herskála, og það var borðstofa í herskála. Þá var stefnt að því að setja upp svolítinn iðnað í öðrum herskála, og loks var svo nýtt steinhús fyrir forstöðumann hælisins. Þetta eru ekki nein lifandis ósköp, það er alveg satt, en þetta var grunnurinn, sem byggja átti á. Svo tekur hv. þm. það fram, að ráðh. hafi að ráði sérfræðinga ekki talið fært að reka hælið áfram. Ráðunauturinn er þá dr. Helgi Tómasson einn, varla landlæknir, því að honum hefur þá snúizt hugur. Dr. Helgi var að hugsa um að reka lítið hæli, en ekki visthæli, sem einmitt var vissulega það, sem við þurftum að koma upp, hæli fyrir þá menn, sem áfengisverzlun ríkisins hafði gert að aumingjum. Ég held, að það sé ekki þörf að rekja þetta mál lengur. Það hafa gerzt þau undur, að ríkisstofnun, sem var ætlað að bæta úr brýnni þörf drykkjusjúkra manna, er afhent bónda næstum sem gjöf.

Það er sagt, að heilbrigðisstj. hafi fengið 400 þús. kr. fyrir, — væntanlega eru þessir peningar til í sjóði, — en hins vegar er það upplýst, að hún hefur lagt fram 900 þús. kr. til hælisins. Annars er ýmislegt í þessu máli, sem ekki er vel upplýst. Hælið átti nokkrar eignir, og væri gott að fá upplýsingar um það, hvar þær eru niður komnar. Það var eitt, sem mér var persónulega mjög annt um, það var bókasafn, sem, þó að það væri ekki nema upp á nokkur þúsund krónur, var þó alltaf vísir að öðru meira. Það var gömul kona hér í bænum, sem hafði gefið fyrsta vísinn að þessu, og svo höfðu ýmsir einstaklingar lagt nokkuð af mörkum. Það var búið að kaupa þessar bækur fyrir nokkur þúsund krónur og búið að gefa hælinu þessar bækur. Mér er sérstaklega sárt um þessar bækur og vildi fá upplýsingar um það, hvar þær eru niður komnar. Hælið átti einnig nokkra innanstokksmuni. Það er rétt að geta þess, hvernig þeir eru til orðnir. Þegar templarar stofnuðu hælið í Kumbaravogi, þá var stofnaður sjóður til þess að kaupa fyrir innbú, og fyrir þennan sjóð var þetta innbú keypt. Mér er ekki kunnugt um, hvar þessir munir eru. Ég hef ekki séð matsgerðirnar, en þarna austur frá var búið að raflýsa með dieselstöð, vafalaust hefur þetta verið metið til verðs.

En niðurstaðan af þessari sorgarsögu er sú, að það vantar hæli, en þetta hefur kostað ríkið margfalt meira fé, að eiga nú eftir að byggja upp að nýju. En meðan þetta gerist, þá ganga þessir 17 menn, þessar hryggðarmyndir, um Hafnarstræti, þangað til þeim er kastað til gistingar í kjallara lögreglustöðvarinnar, sem er Íslendingum hin mesta smán, mesta smán og ósómi. Ég held, að ráðh. og þingmenn hefðu gott af því að ganga fram hjá kjallaranum einhvern tíma þegar verið er að hleypa út og finna andrúmsloftið þar og sjá þá meðferð, sem þessi olnbogabörn verða að sæta. En svo er eina hælið, sem til var, gefið. En sagan endurtekur sig, og þegar þessir menn eru sloppnir út, reika þeir um og kúra þess á milli í afkimum, þangað til þeir eru settir aftur í hinn vansæmandi kjallara, og svo aftur sami hringgangurinn. Ríkisvaldið gerir ekki neitt nema að rífa það niður, sem reist hefur verið. — Jú, eitt hefur það gert, það verð ég að viðurkenna: Hæstv. heilbrmrh. hefur lagt frv. fyrir þingið, sem á að leysa þetta vandamál, en hins vegar er það til vansæmdar, að ríkið skuli hafa svipt þessa menn því hæli, sem þeir höfðu í Kaldaðarnesi.