23.02.1949
Sameinað þing: 42. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 532 í D-deild Alþingistíðinda. (4806)

73. mál, Kaldaðarnes í Flóa

Atvmrh. (Bjarni Ásgeirsson):

Herra forseti. Ég hef tekið fremur lítinn þátt í umr. hér að undanförnu um þetta mál, þar sem ég taldi mig hafa öðru þarfara að sinna, en málþófi um þingmál eins og það, sem nú að undanförnu hefur farið hér fram í Sþ. Þegar í upphafi umr. lagði ég fram grg. um málið, og taldi ég það nægilegt. En vegna ummæla, sem hér hafa verið viðhöfð, þótti mér rétt að draga fram nokkur aðalrök, til þess að það gæti komið fram í þingtíðindum. En þm. Barð. hefur talið það vera veikleikamerki og hert róðurinn með auknum blekkingum og ósannindum í minn garð í þeirri von, að þessi mannskemmandi iðja hans gæti borið frekari árangur. En það er nauðsynlegt vegna alþingistíðinda, en ekki hans vegna, að ég færi hér fram nokkur rök. Það eru einkum tvær ræður eða tveir ræðumenn sérstaklega, sem þessu valda. Annar er þm. Barð., en hinn er hv. 6. þm. Reykv., sem ræddi ýtarlega um þetta mál. Þó að ég nefni þessa tvo menn saman, þá voru ræður þeirra ekki líkar eða þeirra málflutningur nema nafnið eitt.

Hv. 6. þm. Reykv. ræddi þetta af málefnalegum og þinglegum áhuga, og var það auðheyrt, hvern áhuga hann hafði á því, hvernig bezt væri og mögulegt að koma þeim mönnum til hjálpar, sem lent hefðu á glapstigum vegna ofdrykkju sinnar. Þessi þm. hefur haft mikinn áhuga á þessum málum, enda vita það allir. Þessi þm. miðar því við stofnunina Kaldaðarneshæli, sem hann hafði gert sér miklar vonir um. Hann sagði, að tilgangurinn hafi verið sá að koma upp þarna myndarlegu hæli fyrir allt að 30 vistmenn, þar væri gott að reka mikinn búskap og væri það verkefni fyrir sjúklingana eða fangana til að leysa. Og ég skal fullyrða, að ef nokkur vottur hefði verið sýnilegur þess, að þessi staður væri heppilegur til þessa rekstrar, þá hefði mér ekki dottið í hug að hreyfa því, að staðurinn yrði seldur. En reyndin varð bara sú, að vistmennirnir voru ekki 30, og ekki 17 eins og pláss var fyrir. Það voru þarna 4–5 vistmenn undanfarið, og þegar ég kom þangað austur vorið 1947, þá var þar einn vistmaður, en hann ætlaði að fara næsta dag, því að þá var krossmessa, og eftir það var hælið algerlega vistmannalaust. Auk þess vissi ég, að rekstur búsins var þannig, að án þess að reiknuð væri leiga eða vextir, þá var rekstrarhallinn á annað hundrað þúsund. Búskapurinn var þannig, að upphaflega voru keyptir þangað nokkrir gripir. En ekki var heyjað handa þeim þar heima, heldur var heyið keypt að. Ástandið þar var, eins og áður er sagt, þannig, að ekki stóð steinn yfir steini. Ríkið hafði þegar lagt fram mikið fé — hælið hafði tekið við um 300 þúsundum — til þess að laga til, en ekkert hafði verið gert. Braggajárn og hvers konar óþrif var um öll tún og engi, svo að það var satt að segja hreinasti háski að ganga þar um vegna járnhríðar. Hver einstaklingur, sem hefði hagað sér þannig, hefði verið búinn að vinna sér útbyggingarsök með því. Auk þess hafði forráðamaðurinn látið í ljós það álit, að þessi staður væri engan veginn heppilegur fyrir þetta né heldur að byggja þarna framtíðarhæli, og gefizt upp við þessa hugmynd. Þegar svo var komið, þótti bæði rétt og skylt að leggja það niður, en atvmrn. var þá að fara fram á að nota það til annarra hluta, eins og ég mun koma að síðar.

Ég hef ekki sérstakt vit á því, hvernig heppilegast er að koma fyrir þessum málum, drykkjumannahæli, en ég þykist sjá, að það hefði verið unnt að koma upp myndarlegu hæli með því að ausa í það ekki hundruðum þúsunda, heldur milljónum, eins og það er hugsað nú. En ef ég tel mig ekki hafa tök á að mynda mér skoðun um eitthvert sérstakt málefni, þá reyni ég að fara eftir till. þeirra, sem hafa sérþekkingu á málunum og hafa kynnt sér þau sérstaklega. Ég býst við því, að það hefði verið hæpið að halda áfram að kasta milljónum í þetta fyrirtæki á þeim grundvelli, sem þar var. Ég hef oft rekið mig á, að það er ekki alltaf ávinningur að halda áfram starfi, sem hefur verið vanhugsað í byrjun, þegar á að gera stórt átak í málinu. Það er oft hyggilegra að rífa til grunna hluti, sem hafa verið vanhugsaðir í upphafi, og byrja að nýju og byggja þannig frá upphafi, að menn séu ánægðir með það fyrir fram og hafi gert sér grein fyrir endinum. Ég skal ekki neita því, að það er leitt, ef ríkissjóður hefur tapað þarna 200–300 þús. kr., sem mun láta nærri samkvæmt upplýsingum, sem hæstv. menntmrh. hefur gefið hér. En það er huggun, ef það er eina féð, sem tapast á þeim framkvæmdum ríkisins, sem þarna hafa verið gerðar undanfarin ár og eiga eftir að sýna sig í þessum framkvæmdum, en því miður er ég hræddur um, að þær upphæðir verði heldur hærri.

Þá skal ég svara hv. þm. Hann spurði, hvað hefði orðið um eigur hælisins og bókasafn þess. Ég get sagt honum, að ekkert af því hefur runnið til Jörundar Brynjólfssonar. Hann mun hafa keypt eitthvað af bekkjum og borðum og greitt það, sem um var samið. Aðrir munir eru hjá fyrrverandi hælisstjórn og bíða þess að verða teknir af þessari starfsemi, eins og hún á að verða í framtíðinni.

Það eina, sem mér þótti ódrengilegt í málflutningi hv. þm., var það, þegar hann reyndi að gefa vængi eða auka á flugfjaðrir þeirra ósanninda, sem er verið að gera að þjóðlygi í þessu máli, að Kaldaðarnes og eignirnar þar hafi verið gefnar Jörundi Brynjólfssyni. Hv. þm. veit, að þær voru látnar af hendi gegn matsverði óvilhallra manna og Jörundur hefur borgað fyrir þær með þeim eignum, sem af honum voru teknar, og með því að vinna þau verk, sem ríkið átti að gera og var búið að taka fé fyrir. Hv. þm. veit, að hann greiddi fyrir þessar eignir allar 419 þús. kr. Þessum verkum, sem þarna á að vinna, er að vísu ekki lokið, en þau hvíla sem fyrsta veð á jörðinni, og ef þeim er ekki lokið innan fimm ára, má taka af honum jörðina með fasteignamatsverði.

Þá skal ég víkja að hv. þm. Barð. Ég verð yfirleitt að segja um þá ræðu frá upphafi til enda, að hún bar vott um óforsvaranlega framkomu í opinberum umr. Hv. þm. beitti rangfærslum, blekkingum og ósannindum, sem ég vil ekki láta ómótmælt í þingtíðindunum.

Ég skal þá snúa mér að aðalkjarna þessa máls, eins og hann liggur fyrir, umbúðalaust. Ég mun þrátt fyrir málfærslu hv. þm. Barð. reyna að haga máli mínu eins og ég talaði við skyni borinn mann, en ekki skynskipting.

Kjarni þessa máls er sá, að Alþingi hefur ákveðið framkvæmd af hálfu þess opinbera, sem hefur það í för með sér, að það verður að taka ábúð af manni, sem hefur fengið löglega lífstíðarábúð á þessari jörð. Alþingi ákvað að stofna bændaskóla Suðurlands og síðar, að hann skyldi vera í Skálholti. Svo mikil alvara virtist fylgja þessu, að síðar meir var veitt fé á aðra milljón til að hefja framkvæmdir á jörðinni, og það var byrjað, áður en ég kom í rn., á ýmsum minni háttar framkvæmdum til undirbúnings framkvæmdunum. Þó að það væri ekki tekið fram í löggjöfinni, þá segir það sig sjálft, að það gat ekki orðið nema pappírslög, nema því aðeins að ábúandinn væri fluttur af jörðinni, jörðin fengist úr ábúð. Nú hefur hv. þm. að vísu látið uppi, að ég hefði vel getað byggt Jörundi Brynjólfssyni skika af jörðinni eða gert hann að kennara við bændaskólann. Mér er sem ég heyri syngja í tálknunum á hv. þm., ef ég hefði skipað kennarastól við bændaskólann, áður en farið var að reisa hann, og skipað Jörund Brynjólfsson í þá stöðu. Þá kom það fram hjá hv. þm. óbeint, að ég hefði getað vísað Jörundi Brynjólfssyni burt án þess að tryggja honum nokkra ábúð og látið hann sleppa eignum sínum fyrir lítið eða ekkert. Ég veit ekki, hvers vegna hv. þm. álítur, að hægt væri að koma þannig fram við Jörund Brynjólfsson, nema það væri það, að hann er framsóknarþm. Það vill svo vel til, að við lifum í réttarþjóðfélagi. Jörundur Brynjólfsson hafði því vernd samkvæmt stjórnarskránni. Það var hægt að taka af honum eignir hans og ábúðarrétt leigu- eða eignarnámi, það er rétt. En stjórnarskráin segir, að ekki sé hægt að taka eigur nokkurs manns af honum, nema hann fái jafnvirði þess, sem tekið er. Ég býst við, að öllum komi saman um, að þrennt hafi komið þarna til greina: kaupa eignirnar með matsverði óvilhallra manna, útvega aðra jörð með samkomulagi, ekki ósambærilega þessari, og í þriðja lagi, að hann væri ekki skaðlaus, nema hann væri að einhverju leyti styrktur til að flytja búferlum milli jarða. Þetta er það, sem hefur gerzt í málinu og ekkert annað. Það voru skipaðir opinberir matsmenn til að meta eignir þessa manns. Það var reynt að útvega honum annað býli, og síðan fékk hann fyrir að flytja um 20 þús. kr. Hv. þm. hefur miklað mjög fyrir sér og öðrum, að honum skyldu hafa verið borgaðar 20 þús. kr. fyrir að flytja að Kaldaðarnesi, en allir, sem til þekkja, vita, hversu mikill kostnaður, beinn og óbeinn, er í sambandi við að flytja búferlum með allstórt bú. Það var gamalla manna mál, að það að skipta þrisvar um bústað væri á við húsbruna á jörðinni. Þegar maður athugar þann beina kostnað, sem við það er að flytja búferlum, og það óhagræði, sem af því er að flytja búfé þaðan, sem það er hagvant, og þangað, sem það er óhagvant, og hve mikið tjón það er fyrir bóndann í Skálholti að þurfa, þegar hann flytur, að selja allt sauðfé sitt, af því að hann gat ekki flutt það með sér, því að það liggur fyrir, að á þeirri sölu hefur hann tapað upp undir helming af því, sem honum var goldið fyrir að flytja, og þegar þar ofan á bætist, að hann fer frá jörð, þar sem hann hafði vel ræktuð tún, og kemur að annarri, þar sem hann verður að bíða árum saman, þar til hann fær uppskeru af nýrækt þar, þá sjá allir skyni bornir menn, að það er ekki stór upphæð, sem hann græðir á búferlaflutningnum, að færa byggð sína á aðra jörð og sleppa þeirri, sem hann hefur.

Hv. þm. sagði, að Jörundur Brynjólfsson hefði verið svo vel settur um skeið, að hann hefði haft lífstíðarábúð á tveimur jörðum. Vitanlega er þetta ekkert nema endileysa, því að um leið og hann fékk byggingu fyrir Kaldaðarnesinu, lét hann af hendi bygginguna á Skálholti, þó að samkomulag yrði um, að hann sæti í Skálholti, því að það þótti ekki rétt að láta flutningana fara fram á miðju ári.

Þá kem ég að aðalþætti þessa máls. Jörundur Brynjólfsson fór fram á að fá Kaldaðarnesið keypt. Eftir að ég var búinn að afla mér upplýsinga og vottorða um, að það var enginn, sem áleit ástæðu til að varna sölu á þessari jörð, þá taldi ég sjálfsagt að selja Jörundi Brynjólfssyni jörðina. Í þeirri löggjöf, sem um þetta fjallar, l. um erfðaábúð og óðalsrétt, er lagt að líku fyrir ríkið að veita mönnum lífstíðarábúð eða selja ábúendum jarðirnar með óðalsréttarfyrirkomulagi, enda mun það hafa verið hér um bil undantekningarlaust, síðan l. voru samþ., að menn hafa fengið ábýlisjarðir sínar keyptar aðeins með óðalsréttindum. En þá kemur sú ásökun, að við kaupin hafi þannig verið á málum haldið fyrir hönd ríkisins, að Jörundur Brynjólfsson hafi fengið jörðina fyrir það verð, sem jafngildi því, að honum hafi verið gefið á aðra milljón króna. Nú er það svo, að í þeim tvennum l., sem heimila að selja jarðir til óðalseignar, eru ákvæði um það, hvaða verð skuli setja á eignirnar. Í öðrum l. er ákveðið, að þær skuli seldar með fasteignamatsverði, en í hinum l. er tekið fram, að það skuli vera verð, sem samsvari 3% eftirgjaldi, og er útkoman mjög svipuð, við hvort sem er miðað. Sú regla, sem alltaf hefur verið farið eftir undanfarin ár, hefur verið sú, að farið hefur verið eftir fasteignamati. Fasteignamatsverð jarðarinnar var rösk 80 þús., og hefði þá með sama móti átt að selja jörðina fyrir 80 þús. kr., það var ekki nema samkvæmt venjunni. Það hefði kannske mátt kalla það hneyksli á þeim árum, þegar engar hömlur voru settar á þær jarðir, sem bændur fengu keyptar af hinu opinbera, og það var það, sem gerði gömlu þjóðjarðasölul. óvinsæl, að þau settu engar hömlur við því, að menn gætu undir ýmsu skyni notað aðstöðu sína til að selja jarðirnar aftur jafnvel margföldu verði og koma þeim þannig út í þá braskhringiðu, sem allir kannast við, sem fylgzt hafa með þessum málum undanfarin ár. Mest fyrir það voru þessi l. numin úr gildi, því að það var litið svo á af þeim, sem stóðu að l. um ættaróðul, að nauðsynlegt væri að koma í veg fyrir, að jarðirnar hækkuðu upp úr öllu valdi í verði, vegna þess fyrst og fremst, að það var talið mjög óhagkvæmt að þurfa að binda allt það fé, sem menn höfðu yfir að ráða, í dýrum jörðum, sem þeir yrðu að standa undir árum saman, í staðinn fyrir að geta lagt það í umbætur á jörðinni. Önnur ástæða er líka fyrir því, að nauðsynlegt er, að jarðrentan sé lág. Því lægri sem hún er, því minni er kostnaðurinn við búreksturinn og því lægra verði er hægt að selja landbúnaðarafurðirnar, en sá mælikvarði hefur nú um skeið verið settur á verðlag landbúnaðarins, að bændur verði að bera kostnað af jarðrentunni, og því lægri sem hún er, því betri verður útkoma bænda og þjóðarheildarinnar af búrekstrinum. Þess vegna voru sett l. um erfðaábúð, sem tryggja bændum örugga ábúð og fullkominn eignarrétt yfir öllum þeim mannvirkjum og jarðabótum, sem þeir láta gera á jörðinni. Þetta var útúrdúr, en mér þótti rétt að skýra þetta atriði, vegna þess að þessi stefna hefur verið upp tekin og það hefur þótt rétt að haga þessum jarðasölumálum þannig að gera jarðirnar sem ódýrastar í rekstri. Samkvæmt þessu hefði ég getað l. samkvæmt selt jörðina með fasteignamatsverði, og Jörundur Brynjólfsson átti heimtingu á því. Þetta gerði ég ekki, af því að ég vildi, að þegar það fé, sem drykkjumannahælið átti þarna bundið, væri leyst úr læðingi, þá yrði það svo drjúgt sem kostur væri og því bjargað, sem bjargað yrði. Þess vegna lét ég fram fara sérstakt mat, sams konar og það. sem fram fór í Skálholti á eignum Jörundar Brynjólfssonar. Það var ekki fasteignamatsverð á hvoru fyrir sig, því að með því þótti mér gengið um of á hlut ríkisins, og auk þess voru báðir staðirnir þannig, að hægt var að setja nákvæmlega sama mælikvarða á það, sem Jörundur Brynjólfsson seldi og keypti. Hver varð niðurstaðan? Hún varð sú, að þær eignir, sem ríkið átti í Kaldaðarnesi, áður en drykkjumannahælið kom þangað, voru seldar 3–4-földu verði, og þær eignir, sem hælið átti þar og Jörundur Brynjólfsson tók við, voru seldar 8–9földu verði. Ég verð því að segja það, þó með samþykki Jörundar, að það voru brotin l. á honum í sambandi við þessi kaup, því að í staðinn fyrir að fá eignirnar með fasteignamatsverði, varð hann að kaupa þær 3–9-földu fasteignamatsverði. Það er hægt að slá föstu, að húsin, sem hann keypti þarna, voru fullt eins dýr eða dýrari en sams konar hús, sem bændur byggðu á jörðum sínum um svipað leyti. Hitt er ekki nýtt, að framkvæmd hjá ríkinu verði dýrari, en sams konar framkvæmdir hjá einstaklingum. En það er ekki hægt að ætlast til, að nokkur maður kaupi hús hærra en venjulegu söluverði, þó að óheppilega hafi tekizt til um að koma þeim upp.

Þá kemur þriðji þátturinn, sem líka þurfti að taka til athugunar, en það er hreinsunarkostnaðurinn. Það lá fyrir mat opinberrar n. um það, og var það lagt til grundvallar í samningunum við Jörund Brynjólfsson. Hreinsunarkostnaðurinn og spjöll var metið 300 þús. kr., og hafði ríkið fengið þá upphæð greidda, en þriðji parturinn af þessu var í verðmætum eignum, skálum, sem ríkið fékk. Ég hef talsverða reynslu af svona málum, því að ég hef fengið bætur fyrir svona spjöll, og það er mín reynsla, að n. meti spjöllin ekki hátt, en bæti það þannig upp, að verðmæti, sem látin eru upp í spjöllin, eru látin með góðu verði, svo að það jafnar sig upp í framkvæmdinni, þegar samið er um hvort tveggja við sama aðila. Nú var þannig komið í Kaldaðarnesi, að ríkið var búið að taka öll verðmæti þaðan burt og gera sér mat úr þeim, en Jörundur Brynjólfsson varð að gera svo vel að taka við hreinsuninni og bótunum fyrir hana eftir þessu opinbera mati, sem þarna var lagt til grundvallar.

Þá kom hv. þm. að hinum mikla og merkilega flugvelli, sem þarna væri, og vildi gefa í skyn, að þar hefði miklu fé verið glatað frá ríkinu, en Jörundi Brynjólfssyni hefði verið gefið ódæma fé. Hann minntist í því sambandi á flugvöllinn á Egilsstöðum og hvað hann hefði kostað. Hann kemur ekki þessu við, en einnig þetta var athugað. Ég sneri mér til flugvallastjóra ríkisins og spurði hann, hvaða kröfur hann óskaði að gera í sambandi við Kaldaðarnesflugvöllinn. Hann sagði, að hann hefði mjög lítið framtíðargildi, en rétt væri að halda honum við sem nauðlendingarflugvelli. Hann sagði, hvaða skilyrði þyrfti að setja til að tryggja, að honum yrði haldið við. Þetta var líka gert. Það er ein kvöðin, sem hvílir á Kaldaðarnesi, að flugvellinum sé haldið þar við í miðjum engjum, svo að þar má ekkert hreyfa, þó að það sýndi sig, að eitthvað mætti endurrækta einhvern tíma þetta ágæta land. Nei, Kaldaðarnesbóndinn verður að sitja með hann bótalaust.

Ég vildi frá öndverðu framkvæma þetta mál þannig, að ekki væri með réttu hægt að segja, að ég hefði látið þarna af hendi óeðlileg verðmæti til kaupanda eða hann hefði tekið þarna óeðlileg verðmæti af ríkinu. Og ég verð að segja það eftir allar þessar umr., að ef ég ætti að framkvæma einhverja svipaða gerð aftur, sæi ég enga aðra leið og vil lýsa eftir því, í hverju það geti legið, að Jörundur Brynjólfsson hafi hagnazt um eina milljón króna á þessum skiptum. Hann má ekki selja eina einustu þúfu af landinu, hann verður að búa þar sjálfur og hefur þarna engan rétt annan, en að búa á þessari jörð, eins og hann hafði í Skálholti. Og ég þori að fullyrða, að ef ég ætti að velja á milli þessara tveggja staða, mundi ég ekki hugsa mig um eina mínútu, því að ég mundi miklu fremur vilja Skálholt. Þar var eitt stærsta bú á Suðurlandi, áður en fjárpestin kom til sögunnar: 500–700 sauðfjár, 50 hestar og 20–30 kýr, rekið með tiltölulega litlum mannafla. Og eitt höfuðatriðið er ótalið enn, en það er, að í Skálholti er svo að segja óþrjótandi jarðhiti. Það hefur ekki komið fram í mati, en fyrir mann, sem býr þarna, er það ómetanlegt að hafa aðstöðu til að nytja þann mikla kost, þó að það hafi ekki verið gert hingað til, og má nærri geta, hvers virði það væri fyrir mann, sem hefði þarna lífstíðarábúð. Þannig að þegar allt er tekið með, er ég sannfærður um, að kaupandi hefur farið halloka í þessum viðskiptum, og undarlegt, eins og hv. þm. S-Þ. sagði, að hv. 1. þm. Árn. skyldi vilja taka á sig þær kvaðir, sem af þessum skiptum urðu, í stað þess að fá Skálholt. En ég vil segja, að það er einstök hugulsemi af þingbróður hans að vilja bæta honum þetta upp með því að svipta hann ærunni í ofanálag.

Þá kom þm. að ýmsum atriðum. Hann hélt áfram að vefengja allt, sem ég ræddi hér í sambandi við meiri hl. landbn., og taldi, að ég færi þar með ósatt mál. Til þess að taka af öll tvímæli, þykir mér rétt að lesa þetta skjal, en það hljóðar svo:

„Við undirritaðir landbúnaðarnefndarmenn í báðum deildum Alþingis erum því samþykkir, að búseta hr. Jörundar Brynjólfssonar á Skálholti verði tekin til greina vegna kaupa hans á jörðinni Kaldaðarnes, þar sem hann flytur á milli þessara tveggja jarðeigna ríkisins vegna aðgerða þess.“

Undir þetta álit skrifa þessir menn: Ásgeir Ásgeirsson, Steingrímur Steinþórsson, Jón Sigurðsson, Eiríkur Einarsson, Guðmundur Í. Guðmundsson, Páll Zóphóníasson.

Það er rétt, að 4 nm. af 10 litu öðruvísi á málið. Menn geta vitanlega litið misjöfnum augum á þetta mál, eins og önnur. Hv. þm. Barð. benti á, hverjir hefðu verið þarna á móti. Benti hann m. a. á hv. þm. Dal. og sagði: Hvers vegna gat ekki n. farið eftir ráðum hv. þm. Dal., því að hann er vel metinn, traustur og heiðarlegur“. Þetta er rétt. Hann er vel metinn, traustur og heiðarlegur, og álasa ég honum ekki, þó að hann liti öðrum augum en meiri hl. á þetta mál. Það er þá víst vafasamt um hina nm., að þeir séu vel metnir, traustir og heiðarlegir! Maður er ekki óvanur að fá svona dóma frá mönnum í andstæðum flokkum, en hér er um hans eigin flokksbræður að ræða. Hv. 2. þm. Skagf., Jón Sigurðsson, er því víst ekki traustur, vel metinn og heiðarlegur og ekki heldur hv. 2. þm. Árn., Eiríkur Einarsson, og ekki heldur hæstv. dómsmrh., sem áður hefur lýst afstöðu sinni í þessu máli og er því víst ekki vel heiðarlegur maður, og verð ég þá víst að telja það til auðnuleysis mér í þessu máli, að ég skyldi velja mér samstöðu við þessa menn. Nú vil ég segja hv. þm. það, að þótt ég vitni til þessara manna, er það ekki vegna þess, að ég þurfi með því að sækja siðferðilegan styrk, því að ég mundi taka á mig alla meðferð þessa máls, en það kom af sjálfu sér, að ég átti samstöðu með þessum mönnum og öðrum sjálfstæðismönnum, því að það voru jafnt sjálfstæðismenn og framsóknarmenn í héraðinu, sem var þetta áhugamál. — Þm. álasaði mér fyrir þrátt fyrir þetta, að ég hefði lítið aðhafzt í þá átt að hrinda málinu í framkvæmd. En ég hef gert allt, sem ég hef getað, til þess að koma því í framkvæmd, og er búið fyrir atbeina hv. þm. að skamma mig fyrir það í marga daga. Það þurfti að losa þessa jörð úr ábúð og einnig að fá teikningu af húsinu, og til þess hjálpaði hæstv. dómsmrh. mjög röggsamlega. Það hefur verið sótt um fjárfestingu, og verður hafizt handa strax og hún verður veitt og hefur loforð fengizt fyrir henni á þessu ári. Enn fremur hef ég staðið að því, að komið verði þarna upp vísi að skólabúi, sem ég hef líka verið skammaður fyrir. Allt, sem hefur staðið í mínu valdi að gera, hef ég gert og fengið skammir fyrir, eins og ég hef líka verið skammaður fyrir að gera ekkert.

Ég get ekki skilið svo við þetta mál, að ég minnist ekki ofur lítið á málflutning þessa þm., sem er með eindæmum. Hann óð þarna eins og naut í flagi, sletti úr klaufunum í allar áttir og lagði í einelti alla þá menn, sem hann hafði hugmund um, að hefðu komið að Skálholti, ekki aðeins þm. Árn., heldur líka hv. þm. Str. og þurfti að ná til búnaðarmálastjóra. En honum nægði ekki að veitast að þeim, sem gátu svarað fyrir sig, heldur fór hann út fyrir þinghelgina og veittist með áróðri og dylgjum að saklausum mönnum, sem ekkert höfðu annað gert í þessu máli en það, sem embættisskylda þeirra bauð. Hv. þm. réðst á landnámsstjóra og varð að minna á það um leið, að hann hefði einu sinni verið frambjóðandi fyrir Framsfl. Þá réðst hann einnig á sýslumann Árnessýslu og varð auðvitað að minnast á það um leið, að honum hefði verið veitt þarna embætti af framsóknarráðherra. Og hann réðst einnig á kirkjuna, einn þjóðkirkjuprest, vildi helzt láta slíta af honum hempuna og sagði, að hann væri bróðir eins framsóknarráðh. og til skammar, ekki aðeins sjálfum sér, heldur fyrir þingið allt. — Þegar svo hv. þm. er búinn að ausa úr sér öllu þessu góðgæti, fer hann að kjökra um það, að ekki væri það nú meining sín að gera þetta mál að árásarmáli á mig, þm. Árn. eða framsóknarmenn yfirleitt. Honum þætti bara svo hart að vita um þá rotnun og spillingu, sem búið hefði um sig í opinberu lífi — og hann fer ekki út af línunni —, sem framsóknarmenn ættu mestan þátt í, og endaði með því að segja, að hann vonaði, að afskipti mín af þessu máli mörkuðu nýja stefnu í siðferði í opinberu lífi á Íslandi.

Við höfum nú orðið að sætta okkur við það undanfarin ár, að þessi þm. talar í hverju máli, þykist einn hafa vit á öllu, veður úr einu í annað, hvort sem hann ber nokkurt skyn á það eða ekki. En ef ofan á það á að bætast, að hann haldi um það margar ræður, að hann sé hinn eini rétti siðameistari og beri einn utan á sér heiðarleikann, þá er mælirinn orðinn fullur. Í þessu sambandi get ég ekki komizt hjá því að minnast á, hvernig þessi hv. þm. hagar sér, þegar hann er að skipta við ríkið og vinna fyrir þjóð sína í einstökum málum. Það rifjast upp fyrir manni, að maður hefur heyrt talað um, að hann hafi tekið að sér verk fyrir ríkisstj. ekki alls fyrir löngu, sem sé að vera eins konar eftirlitsmaður með smíði hinna 30 togara, sem nýsköpunarstjórnin svo kallaða samþykkti byggingu á í Englandi. Í þessu sambandi hefur hann gert við Ólaf Thors svofelldan samning:

„1. að téður Gísli Jónsson skuli, ásamt þar til kjörnum meðnefndarmönnum, semja fyrir hönd ríkisstj. um kaup á 30 togurum í Bretlandi, gera verklýsingar af skipunum og breytingar á öllu fyrirkomulagi, eftir því sem hentast þykir, með tilliti til óska vorra og F.Í.B.;

2. að hann taki að sér fyrir hönd ríkisstj. alla umsjón með smíði skipanna í Bretlandi, svo að tryggt sé, að byggingarsamningarnir séu að fullu uppfylltir;

3. að honum beri að fá greitt fyrir þetta verk kr. 1.0000.00 fyrir hvert skip og auk þess allan ferðakostnað og uppihald í Bretlandi fyrir sig og sína aðstoðarmenn, sem að verkinu vinna, skeytakostnað og önnur útgjöld í sambandi við verkið;

4. að eftirlitsgjaldið verði greitt honum sem hér segir:

1. greiðsla í júlí 1946 ............ kr. 50.000,00

2. greiðsla í des. 1946 ............ – 50.000,00

3. greiðsla í júlí 1947 ............ – 50.000,00

4. greiðsla í des. 1947 ............ – 50.000,00

5. greiðsla í júlí 1948 ......... ... – 100.000,00

Alls kr.300.000,00 enda sé þá smíði allra skipanna lokið;

6. að útlagður kostnaður samkvæmt ofanrituðu sé endurgreiddur jafnóðum, þegar reikningar eru lagðir fram.“

Svo mörg eru þau orð. Þetta fær manni margt að hugsa. Maður getur skilið, að það hafi þurft að hafa eftirlit með skipunum, og ég trúi, að hv. þm. hafi gert eitthvert gagn í þessu. Og ég get líka skilið, að ef hér hefði aðeins verið um eitt skip að ræða, hefði þetta ekki verið svo mikill kostnaður. En þegar samið er um 30 skip á einu bretti, þar sem smíðin fer fram á tiltölulega skömmum tíma og aðalstarfið hlýtur að fara fram á einu ári, — að taka 300.000,00 kr. fyrir slíkt, það kalla ég að taka hraustlega til matar síns. Það verður að viðurkenna, að það hlýtur að fylgja þessu mikill kostnaður, t. d. ferðakostnaður, símskeytakostnaður o. fl., og gætu því ókunnugir látið sér detta í hug, að nokkuð færi af þessari upphæð, þegar allt er tekið til greina. En eins og ofanritaður samningur ber með sér, er ekki því að heilsa, því að allur slíkur kostnaður er greiddur aukreitis og er af kunnugum talinn vera farinn að nálgast 200 þús. kr. Já, það er margt skrýtið í þessu sambandi, en það einkennilegasta við þetta er þó það, að þessi þm. skuli telja það alveg sérstaklega sitt verk að verja hinum dýrmæta tíma þingsins og hinni dýrt metnu orku sinni til þess að reyna að hafa æruna af einum þingbróður sínum fyrir viðskipti, sem hann var knúður til þess að hafa við ríkið. Og það má furðulegt heita, að hann skuli telja sig til þess fallinn að gerast siðameistari í þinginu og áminna það um grandvarleik og heiðarleg viðskipti við ríkið og að marka tímamót í þessum málum. Ég kalla það bara blygðunarleysi.