23.02.1949
Sameinað þing: 42. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 549 í D-deild Alþingistíðinda. (4809)

73. mál, Kaldaðarnes í Flóa

Dómsmrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Ég hafði ekki ætlað mér að blanda mér í þessar umr., en umsögn hv. þm. Barð. gerir það óhjákvæmilegt fyrir mig. Ég verð að segja það, að mér þykir þetta mál, hvort sem mönnum þykir það stórt eða lítið í eðli sínu, vera sótt af óskynsamlega miklu kappi og raunar varið á sama veg. Ég vil taka það fram, að ég tel ásakanir þær, sem fram hafa komið á hv. þm. Barð. út af óhóflegri fjárnotkun hans í sambandi við umsjón hans með smíði nýsköpunartogaranna, vera gersamlega ástæðulausar.Ég er sannfærður um, að hann hafi unnið þar mjög mikið gagn fyrir íslenzku þjóðina fyrir hóflega greiðslu, enda er sannast bezt að segja, að þó að ég sé hv. þm. Barð. ekki alltaf sammála og þyki kannske ekki eðlilegt, að hann telji sig hafa betur vit t. d. á lögfræði heldur en ég hef, þá játa ég það fúslega, að hann með afskiptum sínum af togarasmíðinni hefur sýnt afburða árvekni. Þar hefur þekking hans fengið að njóta sín og orðið öllum landslýð að miklu gagni, og ég tel hann ekki eiga skilið hnútur og ásakanir fyrir afskipti sin af því máli, heldur miklar þakkir. Þau verk hans verða lengi munuð og verða metin honum til lofs. Þó að sjálfsagt megi að því, eins og reyndar öllu, eitthvað finna í einstökum atriðum, þá verður að líta á heildina, og hún er slík, að hann hefur þar unnið til þakklætis, ekki aðeins af hálfu Alþ., heldur einnig af hálfu alþjóðar, og er þess vegna ómaklegt að bera honum á brýn eiginhagsmuni eða fjárdrátt í þeim sökum. Það er rétt hjá hv. þm., að eitt af því, sem hann hefur staðið sig prýðilega við í sambandi við þessi mál, var það, að hann heimtaði bætur af hálfu Breta, eins og hann drap á hér áðan, en hitt er algert misminni hans, og mig furðar það sannast að segja, að hann skyldi ekki þegar í stað að gefnu tilefni frá mér taka aftur það mishermi eða þau ósannindi, sem hann sagði, að ég hefði verið að letja hann þess, að hann reyndi að afla þess fjár, og að ég hefði talið það vonlaust. Ég lýsi því yfir, að þetta er gersamlega tilhæfulaust, og mig undrar það, ef hv. þm. notar ekki fyrsta tækifæri til þess að taka þessi orð sín aftur. Þó að mér þyki það stundum óeðlilegt, að þessi hv. þm. hafi betra vit á öllum hlutum en allir aðrir menn, og betra vit á lögfræði en við, sem höfum lagt þá grein fyrir okkur, þá kann það vel að vera, að hann hafi strax séð, að þetta væri auðfengið fé, en þau ummæli, að ég hafi latt hann utanfarar, eru gersamlega tilhæfulaus, og ég tel, að hv. þm. geti ekki annað sóma síns vegna, en afturkallað þau ummæli. Hv. þm. getur slegið sig til riddara á annan hátt en að búa til einkasamtöl við mig og ætla að gera sig að miklum manni með því að lýsa því yfir, að hann hafi þar reynzt miklu vitrari, en ég. Það kann að vera, að hann sé það, en hann þarf ekki að vitna í samtöl við mig, sem hafa aldrei átt sér stað. Ég var þess hvetjandi, að hann færi til Englands til þess að afla þess fjár, og ég þakkaði honum mjög vel fyrir það, þegar hann skýrði mér frá því, hve góður árangur hefði orðið af því starfi. Við önnur skipti mín af þessu máli kannast ég ekki. Ég ítreka það, að þó að hv. þm. blandi mér mjög ósæmilega inn í frásögn sína af þessu máli, þá tel ég hann eiga skilið miklar þakkir fyrir frammistöðu sína í því, og hefur hann getið sér mjög gott orð fyrir afskipti sín af togarasmíðunum í heild. Hefur ríkisstj. viðurkennt ágætt afrek hv. þm. Barð. varðandi þetta mál með því að skipa hann nú í nýja nefnd til þess að hafa forustu um útvegun hinna 10 togara, sem við eiga að bætast. Ég veit ekki betur, en að hann sé formaður í þeirri n. og hafi leyst það verk af hendi með sömu prýði og skipti hans af þessu máli hafa áður verið. Ég ítreka það, að ég tel það hafa verið miður farið, að hv. þm. Barð. var ásakaður fyrir þessar sakir í þessum umr., eins og ég tel það miður farið, að hann, til þess að slá sig til riddara, þurfti að búa til samtöl við mig, sem aldrei hafa átt sér stað. Það er eðlilegt, að menn gangi út í öfgar, þegar jafnhvatskeytlega og með fullkomnum öfgum er haldið fram málstað eins og hv. þm. Barð. hefur gert í sambandi við sölu Kaldaðarness. Hv. þm. sagði, að ég skyldi fá sérstaka ræðu fyrir mín hneykslanlegu afskipti af þessu máli. Ég biðst ekki undan þeirri ræðu og mun óhræddur svara öllum skeytum, sem að mér verður stefnt í þeim efnum.

Ég hef þegar skýrt þingheimi frá því, að ég var samþykkur þessari sölu, þegar hún átti sér stað. Ég var samþykkur henni vegna þess, að ég, gagnstætt við skoðun hv. þm. Barð., hef talið og tel enn þá, að fjarri sé því, að hér sé um slíkt hneyksli að ræða sem hann vill vera láta. Það má vel vera, að á sitt hvað megi benda í þessu sambandi, sem hefði átt að vera á einhvern annan veg, þannig er um öll mannanna verk, og þannig er það líka t. d. um þá ágætu nýsköpunartogara, ef farið væri að ræða smíði þeirra í einstökum atriðum, í sama anda og hann ræðir hér um þessar gerningar, þá mætti finna sitt hvað að, gera úr því stórhneyksli og snúa á verri veg. Ég vil ekki vefengja það, að það megi með rökum eitthvað út á þessa ráðstöfun setja, en ég var henni samþykkur vegna þess, að ég eftir minni litlu þekkingu taldi, að hún væri lögleg. Ég taldi, að því færi fjarri, að hv. 1. þm. Árn. væri neitt ívilnað í þeim mæli, sem hér hefur verið talað um, enda er sannast bezt að segja, að ýmsir þeir, sem gagnrýnt hafa söluna, viðurkenna, að þeir fremur undrist, að hann hafi viljað taka við jörðinni með þeim kvöðum, sem á henni liggja, en þeim gæti dottið í hug, að honum væri gefin milljónagjöf með þessari ráðstöfun. Öll mannanna verk eru ekki hafin yfir gagnrýni raunar. En það hefði verið heppilegra, að menn hefðu haldið sér við veruleikann, en ekki skrökvað upp um þessa milljón, er gefin á að hafa verið, en hefur eigi við nein sannindi að styðjast.

Hv. þm. Barð. sagði, að það væri níðzt á drykkjumönnum og hinum voluðu mönnum með þeim ráðstöfunum, sem gerðar hafa verið um Kaldaðarnes, og margt hefur verið talað um hælisreksturinn, sem verið hafi með ágætum, þar til skemmdarstarfsemi var hafin. Ég átti nú mikinn þátt í því, að lögin um drykkjumannahælið voru sett, og Reykjavíkurbær styrkti á þeim árum stofnunina í Kumbaravogi — meðan ég var borgarstjóri. Ég vil og taka það fram, þótt okkur hv. 6. þm. Reykv. komi eigi ævinlega vel saman, að þá játa ég, að hann sýndi frábæran áhuga og mikla óeigingirni í þessu starfi. En rekstur hælisins var þó fjarri því að vera með þeim ágætum, sem hv. 6. þm. Reykv. lét liggja að. Jafnvel þótt við, er kunnugir vorum þessu máli, legðum á okkur mikið starf og menn ynnu ötullega að þessu þrátt fyrir ýmsa örðugleika, þá misheppnaðist fyrirtækið þó að langmestu leyti. Ég veit t. d., að menn munu minnast þess, er einstætt má telja, þegar vistmenn hælisins gerðu verkfall. Sannleikurinn er nefnilega sá, að starfsreksturinn var með þeim örðugleikum, að eigi þótti fært að reka hælið áfram eins og gert hafði verið. Sá maður hérlendur, sem mest vit hefur í þessu efni, dr. Helgi Tómasson, taldi tilgangslaust að halda áfram rekstrinum í Kaldaðarnesi, og það er sannleikurinn í málinu. Helgi ber þó enga ábyrgð á rekstri Kaldaðarness eftir það. Hefði e. t. v. verið hægt að ráðstafa því á annan veg. En hitt er sú staðreyndin í málinu, sem liggur fyrir, að Helgi taldi hælisreksturinn eigi ná tilgangi sinum og fá þyrfti mönnum annan samastað. Og á hinn bóginn þurfti að ráðstafa Kaldaðarnesi. En hvort sem ráðstöfunin á Kaldaðarnesi er skynsamleg eða ekki að því leyti, hvort fé hafi verið kastað á glæ, þá er hitt rétt, að kostnaðurinn nýttist eigi. Ég játa, að einhver önnur opinber stofnun hefði ef til vill getað komizt á, í Kaldaðarnesi. Þetta er hugsanlegt, og má vera, að stj. hefði átt að athuga það betur. En hitt er ekki hægt að ávíta stj. fyrir, að rekstri drykkjumannahælis í Kaldaðarnesi var hætt og jörðinni ráðstafað til búskapar. Um þá ráðstöfun hefur eigi verið deilt, enda er hún ekki óeðlileg, byggð á mati hinna færustu manna og verður því eigi hnekkt með rökum. Hitt má telja athugandi, hvort hægt hefði verið að ráðstafa húsunum til annarra nota. En bjarga varð við því ástandi, er skapaðist, þegar bændaskóla Suðurlands var ákvarðaður staður í Skálholti og hv. 1. þm. Árn. varð að flytja þaðan. Átti hann þá kröfu á bújörð í staðinn, og á hitt er og að líta, að bæði nágrannar og búendur lögðu áherzlu á, að Kaldaðarnes yrði bújörð, en þær tilraunir, sem gerðar hefðu verið í gagnstæða átt, féllu niður. En þrátt fyrir þá óánægju, sem gætt hefur út um land vegna Kaldaðarness, þá hefur mér verið sagt, að bæði nágrannar þar austur frá og almenningsálitið, það er mest er mark á takandi, séu andstæð hinum harða áróðri, er farið hefur fram hér á Alþ.