25.02.1949
Sameinað þing: 44. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 554 í D-deild Alþingistíðinda. (4814)

73. mál, Kaldaðarnes í Flóa

Jónas Jónsson:

Herra forseti. Þetta mál hefur verið nokkuð lengi á leiðinni hér í þinginu, og má kalla það nokkuð eðlilegt, að það séu um það nokkrar umr., enda má vænta þess, að það verði síðar til umr. einnig, þegar það hefur verið athugað í n.

Ég tók eftir því í ræðu hæstv. ráðh. nú, sem er alveg rétt sjálfslýsing hjá honum, að hann er óáreitinn við menn og leitar ekki uppi að fyrra bragði syndir annarra manna. Aftur á móti má kannske segja, að verkaskipting eigi sér stað í þessum efnum, þannig að sumir leiti uppi syndirnar, en aðrir geri þær. Þessi hæstv. ráðh. hefur búið til nokkuð af syndum og neytt aðra til þess að leita að þeim.

Ég minntist á það, þegar mál þetta kom til umr., að þetta mál, Kaldaðarnesmálið, og annað mál, sem nefnt hefur verið Silfurtún, væru tvíburar, sem ævinlega ættu að vera saman. Ég óska atvmrh. — eins og hann vill láta kalla sig — til hamingju með það, hvað hann sýndi mikla stjórnkænsku með því að losna við part af umr. um þetta mál, því að hann mun hafa séð til þess, að Silfurtúnsmálið var til umr. kringum kl. 12 að nóttu til. Og þá sagði ég um það fáein orð og kvaðst mundu athuga það meira, þegar hann, hæstv. ráðh., hefði gefið skýringu á málinu. Þá gengur hæstv. ráðh. til forseta og mælir eitthvað í hljóði við hann. Og það kom fram, að hann, hæstv. ráðh., ætlaði ekki að tala meira við þá umr., til þess að umr. yrði slitið þá. Þetta sýnir, að hann óskaði ekki eftir að gefa skýringar í Silfurtúnsmálinu. Og þegar málið kemur svo í nefnd, kemur nokkuð skrýtið fram, sem sé það, að það hefur verið kastað burt einni millj. kr. til verra en einskis fyrir landsins hönd. Þessi eign getur aldrei orðið til hagsældar fyrir landið, heldur aðeins til byrði. En það er búið að setja millj. kr. í þetta, sem fór til eins af helztu mönnum eins stuðningsfl. ríkisstj., Sjálfstfl. Þetta gerist um sama leyti og verzlunin með Skálholt og Kaldaðarnes. Það dettur engum manni hug annað en að hér sé um að ræða tvo mjög duglega menn úr stjórnarflokkunum, annan úr Framsfl. og hinn úr Sjálfstfl., og báðir hafa sótt á með að koma þessum kaupum á. Og það var sótt svo fast á um verzlunina með Kaldaðarnes, að hæstv. atvmrh. varð að gera þetta sjálfur, en enginn af hans hjálparmönnum vildi hjálpa honum þarna til. Og engum, sem athugar Silfurtúnsmálið, dettur í hug, að þetta hafi verið gert nema með vínmælum. Og það, sem gerzt hefur í sambandi við Silfurtún, er, að ráðh. kaupir verkstæði þarna á ómögulegum stað, þannig að verkamönnum er borgað kaup fyrir að fara þangað í bilum og í bílum þaðan aftur. Svo er tapið tugþúsundir á rekstrinum. (Forseti: Þetta Silfurtúnsmál er ekki hér til umr.) Nei, en það er ekki hægt að skýra hitt málið, nema þetta komi líka til umr. nokkuð. Og eins og kastað var burt einni millj. kr. í Silfurtúnsmálinu, eins er það með þetta mál, sem hér liggur fyrir, að það er ómögulegt að komast fram hjá því, að það er eins og það hafi verið bandvitlausir menn allir þeir menn, sem yfirleitt komu nærri því máli, því að eftir að búið er að ákveða að hafa hælið þarna, rekur ríkisstj. góðtemplara frá hælinu, því næst spítalastjórnina, þar næst landlækni, og næst er Alfreð Gíslason spilaður frá því. Síðan er Helgi Tómasson skipaður yfir þetta, og hann skipar svo fyrir, að það eigi að leggja þetta hæli niður. Hann leggur raunverulega hér fyrir ríkisstj., hvað eigi að gera. Hæstv. ráðh. hlýtur að sjá, að þegar Finnur Jónsson og Pétur Magnússon eru búnir að stofna þetta hæli með fullri heimild Alþ. og leggja þá peninga í þetta, sem til þurfti, þá er það fjarri því, sem hefði átt að vera, að ríkisstj. leyfi sér að kasta þessu frá sér fyrir það, að óviðkomandi læknir vill hafa þetta öðruvísi. Og það er ekkert smátt, sem hann vill, þessi læknir, líklega 10 hæli hér í grennd við Reykjavík með líklega átta drykkjusjúkum mönnum á hverju þeirra. Og ríkisstj. leggur í þetta 9 millj. kr. — Ég vil ekki gera ráð fyrir, að læknirinn á Kleppi — af því að hann er yfirmaður þar — sé svona illa að sér, heldur er langlíkast því, að það hafi verið leitað ráða til vitleysingjanna á Kleppi og ríkisstj. hafi fylgt ráðum þeirra. Sökin er fyrst og fremst sú, hér í þessu máli, að hafa lagt niður þetta hæli, sem var í Kaldaðarnesi. Hér eru líklega um hundrað manns, sem liggja undir bátum og skúrum á nóttunni, og það er höfuðskömm fyrir alla, bæjarstjórn og ríkisstjórn, að láta þetta fólk vera svona, sérstaklega þegar samhliða þessu er af valdhöfunum kastað milljónum króna í mjög hæpnar framkvæmdir og í raun og veru gjafir til vina sinna í sambandi við þetta Kaldaðarnesmál og Silfurtúnsmál. Kaldaðarnes var upplagður staður til þess að geyma þessa vesalinga, og það, að ríkisstj. gerði þetta, að leggja niður hælið, — hvort sem það nú voru vitleysingarnir á Kleppi eða læknar, sem voru þar hafðir til ráðuneytis, — hefur skapað það ófremdarástand, sem er áfellisdómur fyrir hæstv. ráðh. og aðra, sem að þessu hafa staðið. Hver vesalingur, sem liggur á götunum hér fyrir hunda og manna fótum, er þar á ábyrgð þeirra manna og þess ráðh., sem ekki tóku rétt á þessu máli. Eins og Finnur Jónsson og Pétur Magnússon skildu við það, var það einfaldast að setja góðan og duglegan mann yfir þetta með fullt vald, svo að hann hefði ekki síður en fangavörður vald yfir þessum mönnum. En hafi það ekki átt að vera svo, þá var hægt að hafa þar lækni. Það voru líkur til þess, að Alfreð Gíslason hefði fengizt til að annast þetta. En gæfa hæstv. ráðh. var minni en það í málinu, að svo yrði þetta haft.