25.02.1949
Sameinað þing: 44. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 558 í D-deild Alþingistíðinda. (4816)

73. mál, Kaldaðarnes í Flóa

Ólafur Thors:

Herra forseti. Ég hafði nú ekki ætlað mér að taka þátt í þessum umræðum, en mér var sagt, að hæstv. atvmrh. hefði dregið mig hér inn í umr. í sambandi við þóknun til hv. þm. Barð. vegna umsjónar með smíði nýsköpunartogaranna.

Ég tel rétt að upplýsa það, að við í fyrrv. ríkisstj. samþ. með öllum atkvæðum og að öllum viðstöddum á ráðherrafundi að ráða hv. þm. Barð. til þessa starfs, og var þóknun til hans einnig ákveðin. Og þar komu meira að segja fram raddir um, að sú þóknun væri ótrúlega lág. Það kemur því úr hörðustu átt, ef þessi hæstv. ráðh. ætlar að telja, að þetta sé mér að kenna. Það gæti verið, ef í það færi, að ég gæti rakið ýmislegt, sem ekki gætu talizt hyggilegar ráðstafanir á opinberu fé hjá honum. Vitaskuld var þetta gert á mína ábyrgð, en líka allra ráðherranna í ríkisstj., og ég er reiðubúinn til að verja það, að hér var mjög hóflega farið í fjárgreiðslur fyrir kostnaðarsamt og vandasamt starf. — Ég sé svo ekki ástæðu til að lengja mál mitt, þótt mörg orð hafi fallið hér við umr., sem skemmtilegt væri að gera athugasemdir við; og mun ég ekki blanda mér inn í þessar umræður, nema frekara tilefni gefist.