25.02.1949
Sameinað þing: 44. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 561 í D-deild Alþingistíðinda. (4822)

73. mál, Kaldaðarnes í Flóa

Atvmrh. (Bjarni Ásgeirsson):

Herra forseti. Ég vildi mega benda hv. þm. S-Þ. á það, að þeir, sem orðið hafa ofdrykkjufýsninni að bráð, sváfu líka undir bátum hér, á meðan hælið var rekið í Kaldaðarnesi. Annars er tilgangslaust að deila við hann um þetta. — Ég vil aðeins taka það fram viðvíkjandi ummælum hv. þm. G-K., að ég skýrði aðeins frá staðreyndum, vegna þess að hv. þm. Barð. hafði ráðizt hatramlega á mig. Ég hef hins vegar aldrei borið brigður á, að hann hafi gert gagn varðandi smíði nýju togaranna, en greiðsluna til hans get ég ekki annað en talið mjög háa, og held ég, að hún hljóti alltaf að verða talin það, enda þótt íslenzka ríkið af fátækt sinni sé oft rausnarlegt í greiðslum til einstakra manna. Það fær enginn mig til að sannfærast um það, að þetta verk hafi ekki verið betur borgað en flest eða öll önnur verk, sem Alþ. og ríkisstj. sjá um, og að það hafi ekki þess vegna setið illa á hv. þm. Barð. að ráðast á mig og aðra út af smærri hlutum, en þessum jafndólgslega og hann gerði, því að þessi hv. þm. fær fyrir þetta 300 þús. kr. og auk þess greiddan allan ferðakostnað og uppihald í Englandi fyrir sig og alla sína aðstoðarmenn, sem að verkinu vinna, og skeytakostnað og önnur útgjöld í sambandi við verkið. Og ég hef ekkert hnýtst í það, hvaða upphæðir eru hér á ferð. En ég er dálítið undrandi yfir, að þær sísannleiksleitandi sálir hér á Alþ. skuli aldrei hafa gert fyrirspurn um þennan kostnað.