08.04.1949
Sameinað þing: 64. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 564 í D-deild Alþingistíðinda. (4838)

73. mál, Kaldaðarnes í Flóa

Gísli Jónsson:

Herra forseti. Þann 25. febr. var vísað til allshn. þáltill. um, að Kaldaðarnesi væri skilað aftur. Nú er liðinn einn og hálfur mánuður, án þess að heyrzt hafi frá n. Í fundargerðabók n. sést, að málið hefur verið tekið fyrir 1. marz, og svo hefur það verið tekið fyrir 24. marz, þar sem ákveðið er að form. n., Jörundur Brynjólfsson, víki úr formannssæti vegna aðildar að málinu, en 1. þm. Skagf. (StgrSt) taki sæti hans. Það er að vísu nokkuð óviðfelldið, að 1. þm. Skagf. skuli taka formannssæti í n., þar sem hann er óbeinlínis aðili að málinu, en ég mun ekki ræða það frekar nú, til þess mun gefast tækifæri síðar. Hins vegar vil ég eindregið óska þess, að n. afgreiði málið fljótlega, en fáist ekki afgreiðsla af hálfu n., þá vil ég vænta þess, að forseti taki málið fyrir án afgreiðslu nefndarinnar.