10.02.1949
Sameinað þing: 38. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 564 í D-deild Alþingistíðinda. (4845)

77. mál, riftun kaupsamnings um Silfurtún

Flm. (Jónas Jónsson):

Ég skil forseta þannig, að honum þyki tilbreytni að koma með gott, nýtt mál, þar sem hitt hefur verið allrætt, en með þessum málum er nokkur skyldleiki.

Vegna sýnilegra mistaka, sem orðið hafa hjá ríkisstj. með kaup á verksmiðju, sem heitir Silfurtún, hef ég leyft mér að bera fram till. um, að stj. reyni að láta kaupin ganga til baka. Ég vil þá fyrst skýra nokkuð frá aðdraganda þessa máls, en mun þó gera það betur síðar, því að nú er komið fram á nótt og fáir við, og mun ég því láta þetta nægja að þessu sinni.

Til þess að menn fái hugmynd um, hvað hér er um að ræða, vil ég taka fram, að ríkið hefur keypt þetta verkstæði, þar sem vinna 14 menn, til þess að smíða glugga og hurðir fyrir ríkið. Selt er þarna með sama verði og tíðkast hjá öðrum hliðstæðum stofnunum, ekki ódýrar, og er ríkið líklega búið að leggja 1½ millj. í þetta fyrirtæki og engar líkur til, að landið geti nokkurn tíma rekið verkstæðið þannig, að vextir fáist eða afborganir af þessari upphæð. Kjarni málsins hagfræðilega er því sá, að ríkið hefur lagt til hliðar 1½ millj., sem það vinnur ekkert á. Það fær þar smíðaða nokkra hluti, og ber allt það með sér, að þetta er ekki byggt á neinum heilbrigðum grundvelli. Ofan á þetta bætist svo það, að þetta verkstæði, sem smíðar aðallega fyrir Rvík, verður að borga bílkostnað fyrir smiðina, sem flestir eiga heima í Rvík og verða að ferðast bæði að morgni og kvöldi hálftíma í bíl, sem talinn er með vinnustundum. Er þá auðséð, að Silfurtún getur ekki verið samkeppnisfært við önnur smíðaverkstæði, sem hafa skaplegan stofnkostnað, og næsta ólíklegt, að af þessu geti orðið það gagn, sem óskað hefur verið eftir. Þegar svo þar við bætist, að þetta verkstæði er óhóflega dýrt fyrir landið, þá vantar skýringu á því, hvernig í ósköpunum ríkisstj. hefur getað dottið í hug að fara að kaupa þetta. — Ég mun ekki taka nema stærstu drættina í þetta skipti, því að á þessum tíma sólarhringsins eru flestir þm. sofandi, og vil ég því aðeins stikla á stóru atriðunum, og þau stóru atriði eru þetta, að ríkisstj. kaupir fyrir nokkru öll smíðatól og tæki verkstæðisins fyrir 250 þús. kr., en leigir aftur á móti sjálft húsið, sem var lélegt hús, og þetta verkstæði leigir hún á 130 þús. kr. á ári í 5 ár. Þarna vinna þó ekki nema um 10 smiðir, en það svarar því að vera eitt þúsund krónur á mánuði fyrir hvern smið, sem er náttúrlega þungur baggi. — Þegar svo kemur fram á árið, er orðinn mikill halli á verkstæðinu þá þegar, og þá kaupir ríkisstj. húsið, en ekki grunninn, sem er undarlegt, og kaupir það þannig, að hún bætir við kaupverðið hálfu leiguverðinu, eða 65 þús. kr., sem mun stafa af því, að seljandinn, Eyjólfur Jóhannsson, hefur ekki viljað selja, þegar til kom, og mun stj. þá hafa lítið svo á, að ganga yrði að kaupunum, því að annars er ósennilegt, að stj. hefði farið að borga hálfa leiguupphæðina í viðbót.

Þetta eru þeir megindrættir í málinu, sem ég tel rétt að leggja fram að þessu sinni. Ef til þess kemur, að Alþingi telur þetta ekki þess vert að safna fleiri áheyrendum en hér eru, þá reynir á það síðar. En þar sem ekki mun vera ætlazt til að halda þessum umr. áfram, sé ég ekki ástæðu til að hafa þessar umr. lengri.