02.03.1949
Sameinað þing: 45. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 581 í D-deild Alþingistíðinda. (4860)

121. mál, ríkishlutun um atvinnurekstur

Gylfi Þ. Gíslason:

Herra forseti. Tillaga sú, sem hér er til umræðu, er að því leyti sérstæð, að í raun og veru felur hún í sér vantraust á núverandi ríkisstjórn, þar sem hún fjallar um, að ríkisstj. skuli grípa til ráðstafana, sem eru í algerðri mótsögn við yfirlýsta stefnu hennar og þann málefnasamning, sem hún gerði, þegar hún tók við völdum. Verði þessi till. samþ., sé ég ekki betur en að hæstv. ríkisstj. verði að segja af sér, þar sem hún að sjálfsögðu gæti ekki rofið stjórnarsamninginn í mjög verulegum atriðum án þess að segja af sér. Og vissulega er það dálítið undarlegt form fyrir vantraust á hæstv. ríkisstj. að skora á hana að brjóta þann samning, er hún gerði, þegar hún tók við völdum. — En það er mál út af fyrir sig. Ef hv. 1. þm. Reykv. kýs að lýsa vantrausti á hæstv. ríkisstj. á þennan hátt, þá hann um það. Þessa vildi ég láta getið áður, en ég tek að ræða þá stefnu, sem till. felur í sér, að upp skuli tekin.

Till. fjallar um það, að ríkið skuli hætta þeim afskiptum, sem það hefur nú af atvinnu- og fjármálum þjóðarinnar. Liggur þá fyrst fyrir að gera sér grein fyrir, hver þessi ríkisafskipti eru, og skal ég rekja það í stuttu máli. Í fyrsta lagi ákveður ríkisvaldið gengi erlends gjaldeyris. Í öðru lagi annast það gjaldeyrisverzlun þjóðarinnar. Í þriðja lagi stjórnar það innflutningi og útflutningi að talsverðu leyti. Í fjórða lagi hefur það eftirlit með öllu verðlagi, í fimmta lagi annast það skömmtun nauðsynjavöru og í sjöttalagi stjórn á fjárfestingu landsmanna. Í sjöunda lagi rekur ríkið ýmis fyrirtæki, og í áttunda lagi hefur ríkisvaldið tekizt á hendur ábyrgð á útflutningsverði ýmissa afurða og greiðir útflutningsuppbætur á verð þeirra, auk þess sem það greiðir niður verð á ýmsum innlendum afurðum, einkum landbúnaðarvörum. — Það er vissulega rétt hjá hv. 1. þm. Reykv., að hér er um mjög mikil ríkisafskipti að ræða, — svo mikil, að það er eðlilegt, að menn furði sig á því, að þau skuli hafa verið tekin upp, þó að hér hafi sósíalistískir flokkar aldrei verið í meirihlutaaðstöðu á löggjafarsamkomu þjóðarinnar. Hvernig getur staðið á því, að þrátt fyrir þetta hafa svona viðtæk ríkisafskipti verið tekin upp? Sannleikurinn er sá, að aðstæðurnar á sviði atvinnu- og fjármálalífsins á undanförnum árum hafa knúið meiri hluta Alþingis til þess að gera þessar ráðstafanir vegna þess, að einkaframtakið hefur brugðizt eða hefur verið að bregðast, svo að ríkið varð að grípa í taumana. Skýringin á þessu fyrirbæri er sem sé sú, að einkaframtakið hefur með því að bregðast skyldum sínum knúið þá flokka, sem voru ríkisafskiptum andvígir, til þess að taka þau upp, en í þessu er líka fólgin skýringin á því. hvers vegna þessi ríkisafskipti hafa ekki farið eins vel úr hendi og æskilegt hefði verið. Ég skal nú stuttlega rekja, hvenær og hvernig þessi einstöku afskipti voru tekin upp.

Tekið var að ákveða fast gengi á erlendum gjaldeyri haustið 1925, en það var 1939, sem löggjafarsamkoman ákvað fyrst gengi erlends gjaldeyris. Fram að þeim tíma hafði gjaldeyrisgengið verið ákveðið af stjórn Landsbankans, og til 1925 hafði það verið haft breytilegt frá degi til dags. Framboð og eftirspurn var látin ráða genginu. Það var „frjáls“ gjaldeyrisverzlun.

Það kom auðvitað í ljós, að þetta var slæmt ástand, sem leiddi til spákaupmennsku og hvers konar ringulreiðar í verðlagi innan lands, svo að Landsbankinn tók upp þá stefnu að festa gjaldeyrisgengið haustið 1925, og síðan hefur ekki verið um frjáls viðskipti í gjaldeyrisverzluninni að ræða. Það var hin frjálsa samkeppni, sem leiddi af sér þetta ástand, og síðan hefur verið talið sjálfsagt, að bankarnir og hið opinbera annaðist gjaldeyrisverzlunina.

Það var á árunum 1931–33, sem ríkisvaldíð tók stjórn innflutningsins að verulegu leyti í sínar hendur, og síðan hefur ríkisvaldið einnig tekið stjórn útflutningsins að talsverðu leyti í sínar hendur. Hvers vegna tók það að stjórna innflutningnum? Ef það hefði ekki verið gert, var fyrirsjáanlegt, að ekki yrði komizt hjá stórkostlegu verðfalli á íslenzku krónunni. Gjaldeyrishöftin eftir 1931 voru til þess að afstýra gengisfalli. Það tókst að koma í veg fyrir, að gengi íslenzku krónunnar lækkaði meira, en gengi pundsins á því ári, en ætlunin var að láta íslenzku krónuna fylgja pundinu. Augljóst er, að ef innflutningshöftin hefðu ekki verið sett eftir 1931, hefði komið til skuldasöfnunar erlendis og svo mikillar, að þjóðin hefði verið lengi að losa sig úr þeim skuldaviðjum. Innflutningshöftin voru því tekin upp vegna þess, að einstaklingsframtakið og frjáls samkeppni á sviði innflutningsverzlunarinnar hefði leitt út í ógöngur. Þess vegna var ríkisvaldið knúið inn á þessa braut.

Verðlagseftirlit hefur verið hér síðan 1938, en var stóraukið á árunum 1943–45, í stjórnartíð hv. 1. þm. Reykv. Hvers vegna var verðlagseftirliti komið á 1938? Vegna þess að athugun, sem þáverandi ríkisstj. lét framkvæma, leiddi í ljós, að á undanförnum árum hafði orðið mikil verðhækkun á vörum innanlands, sérstaklega á ýmsum innfluttum nauðsynjavörum, og kom í ljós, að það var að skapast óeðlilegt bil milli verðlags innanlands og verðlags erlendis, sem færði verzlunarstéttinni óeðlilega mikinn hagnað. Hér er enn um það að ræða, að skipulag hinnar frjálsu samkeppni hefur brugðizt og knúið ríkisvaldið til afskipta.

Hvernig er svo með skömmtunina, sem tekin var upp í stríðinu, síðan aflétt að miklu leyti, en tekin upp aftur enn þá strangari fyrir tveimur árum. Skömmtunin var tekin upp í stríðsbyrjun, Því að hefði ekki verið til hennar gripið, var fyrirsjáanlegt, að þær takmörkuðu vörubirgðir, sem fyrir voru, mundu dreifast óréttlátlega milli þegnanna. Skipulag hinnar frjálsu verzlunar hefði ekki verið fært um að annast réttláta vörudreifingu, og þegar fór að bera á vöruþurrð vegna gjaldeyrisskorts eftir stríðið, var skömmtun enn tekin upp til þess að koma í veg fyrir, að skipulag frjálsrar samkeppni hefði ranglátar afleiðingar í för með sér.

Ríkið stjórnar fjárfestingu landsmanna, og eru tvö ár síðan það tók í sínar hendur yfirstjórn þessara mála. Ástæðan var sú, að ástandið í fjárfestingarmálunum var þannig, að hin frjálsa samkeppni á vinnumarkaðinum og í fjárfestingarstarfseminni hafði leitt til þvílíkrar ringulreiðar og skipulagsleysis, að beinn voði var fyrir dyrum. Og það var til þess að koma í veg fyrir algeran glundroða í fjárfestingarmálunum, sem haft hefði ófyrirsjáanlegar afleiðingar m. a. fyrir gjaldeyrisaðstöðuna, að óhjákvæmilegt var að grípa til slíkrar stjórnar á fjárfestingarmálum þjóðarinnar. Hér var það enn sem fyrr, að einkaframtakið og hin frjálsa samkeppni var að leiða slíka ringulreið yfir þjóðarbúið, að grípa varð til gagnráðstafana og ríkið að tryggja sér úrslitaáhrif og skilyrði til heildarstjórnar.

Nú rekur ríkið fyrirtæki, svo sem bankana, sem ég hygg, að enginn muni mæla með, að væru reknir af einstaklingum. Einnig má nefna síldarverksmiðjurnar, sem ríkisvaldið rekur, og vita allir, hvernig á því stendur, að ríkið hóf þann rekstur 1928. Það var vegna þess, að hér var um svo fjárfrekan rekstur að ræða, að ekki var talið viðlit, að einstaklingar gætu efnt til hans í nægilega stórum stíl á þeim tíma. Og á því er enginn vafi, að ef ríkisvaldið hefði ekki haft þarna forustuna, væri síldariðnaðurinn ekki jafnþýðingarmikill fyrir okkur og hann er, og það er engum vafa bundið, að íslenzki síldariðnaðurinn væri nú ekki fullkomnasti síldariðnaður í heimi, ef ríkisvaldið hefði ekki haft forustuna á þessu sviði.

Um einkasölurnar er það að segja, að þótt bæði Áfengisverzluninni og Tóbakseinkasölunni hafi verið komið á í andstöðu við flokk hv. 1. þm. Reykv., held ég, að enginn mundi mæla með því nú, að hagnaður af verzlun með slíkar vörur rynni í vasa einstaklinga.

Að síðustu er svo þess að geta, að ríkisvaldið hefur í tvö ár tekið ábyrgð á útflutningsverði ýmissa afurða, og er alkunna, hvaða ástæður liggja til þess, að ríkissjóður tókst á hendur þessar ábyrgðargreiðslur. Hefði ríkisvaldið ekki gripið til þessara ráðstafana, var fyrirsjáanlegt, að bátaflotinn mundi stöðvast á vetrarvertíðinni 1947, því að hefði ríkissjóður ekki tekið ábyrgð á útflutningsverðinu, vofði yfir bein rekstrarstöðvun í einum þýðingarmesta atvinnurekstri landsmanna. Og hið sama hefur átt við um ýmis önnur einkafyrirtæki. Þau hafa neitað að starfa, af því að þau hafa talið halla á rekstrinum, hafa neitað að gegna skyldu sinni við þjóðfélagið, svo að ríkið hefur orðið að hlaupa undir bagga til þess að koma í veg fyrir, að allt færi í kaldakol. — Sama er að segja um niðurgreiðsluna á landbúnaðarafurðum. Hefði ekki ríkissjóður tekið þessa stefnu, hefði skollið á ógurleg verðbólga, sem hefði stofnað gjaldeyrisgenginu í beinan voða.

Ég hef þá rakið nokkuð, hvenær hin einstöku ríkisafskipti voru tekin upp og hvers vegna. Og það sést alls staðar, að ríkisafskiptin hafa verið tekin upp vegna þess, að skipulag hinnar frjálsu samkeppni hefur brugðizt eða verið að bregðast, og til þess að forða hinu „frjálsa“ atvinnu- og fjármálalífi frá yfirvofandi hruni. Og á því er enginn vafi, að það kæmi nú til hruns, ef horfið væri frá þessum ríkisafskiptum. Eða meinar hv. 1. þm. Reykv. í alvöru, að nú eigi að hverfa algerlega frá öllum þeim afskiptum, sem ríkið hefur nú af atvinnulífi landsmanna? Hann hefur lýst því yfir í ræðu sinni, að hann treysti sér ekki til að láta innflutninginn vera algerlega frjálsan, og mér skildist hann viðurkenna líka, að verðlagseftirlit væri nauðsynlegt. Aftur á móti taldi hann skömmtun ekki nauðsynlega og lét ósagt, hvort hann teldi opinbera stjórn á fjárfestingarmálunum nauðsynlega eða ekki. Á þessu sést, að jafnvel ekki hv. 1. þm. Reykv., sem ég held að sé róttækasti verjandi einstaklingsframtaksins á hv. Alþingi. — að jafnvel hann treystir sér ekki til þess að mæla með því skipulagi algerlega hreinu og ómenguðu.

Ég álít það m. a. sönnun fyrir nytsemi ríkisafskiptanna, að þeim er nú ekki haldið við fyrir atbeina fylgjenda áætlunarbúskapar eða jafnaðarstefnu einna, heldur með tilstyrk algerra andstæðinga áætlunarbúskapar og jafnaðarstefnu, enda hafa kringumstæðurnar neytt þessa andstæðinga til þess, þar sem skipulag hinnar frjálsu samkeppni hefur brugðizt og mundi bregðast, ef reynt yrði að treysta á það á ný. Ég vil þó taka fram, að ég tel framkvæmd ríkisafskiptanna hér á ýmsum sviðum engan veginn gallalausa, og get tekið undir það, að henni sé í ýmsum atriðum ábótavant. Víða er ekki nógu góð stjórn á ríkisfyrirtækjum og sums staðar sukk og óreiða. En slíkt er ekkert einkenni á ríkisafskiptum eða ríkisrekstri. Eða þekkir hv. 1. þm. Reykv. ekkert dæmi um sukk eða óreiðu hjá einkafyrirtækjum? Hv. þm. talaði eingöngu um sukk og óreiðu hjá opinberum fyrirtækjum, en hann kannast þó víst við, að t. d. gjaldþrot eru ekki ótíð hjá einkafyrirtækjum og það meira að segja sviksamleg gjaldþrot. Hann hlýtur að kannast við, að alls konar fjársvik eru ekki sjaldgæf hjá einkafyrirtækjum. Hann hlýtur að kannast við, að einkareksturinn hefur á ýmsum sviðum gerzt brotlegur við landslög. Hann hlýtur að kannast við gjaldeyrisbrot og hin stórfelldu verðlagsbrot, sem framin hafa verið innan einkarekstrarins. Ef léleg framkvæmd á rekstri sumra ríkisfyrirtækja sannar fánýti ríkisrekstrar, hversu miklu fremur sanna þá ekki hin stórfelldu gjaldþrot og fjársvik fánýti einkarekstrar? Sannleikurinn er sá, að þetta sannar auðvitað ekkert til eða frá um fánýti einkarekstrar eða ríkisrekstrar. En höfuðröksemd hv. 1. þm. Reykv. gegn ríkisrekstri var sú, að mikil óreiða og óstjórn ætti sér stað innan þeirra stofnana. — Ég held, að ástæðan til þess, að ríkisafskipti hafa ekki farið vel úr hendi hér sé sú, að stjórn þeirra hefur ekki verið í höndum manna, sem trúðu á ríkisafskipti. Ríkisafskiptunum hefur verið neytt upp á stjórnarvöldin, og stjórnarvöldin hafa framkvæmt þau nauðug og venjulega til bráðabirgða og án þess að hafa nokkra trú á þessari lausn þeirra viðfangsefna, sem um hefur verið að ræða. Ég held, að þetta sé skýringin á því, að ríkisafskipti hafa ekki farið hér eins vel úr hendi á öllum sviðum og vera ætti. Aðalskilyrðið fyrir því, að slíkar ráðstafanir beri árangur, er það, að þeir, sem framkvæma þær, trúi á þær. Það er það, sem vantar hér, eins og eðlilegt er, þar sem stærsti flokkurinn, sá, sem á mestan þátt í framkvæmd ríkisafskiptanna, er yfirleitt andstæður öllum áætlunarbúskap.

Svo að ég víki að því, sem hv. 1. þm. Reykv. sagði um fjármálastefnu ríkissjóðs á undanförnum árum, þá er ég honum sammála um margt, sem hann sagði um þau mál, þó að ég vilji ekki draga af því sömu ályktanir og hann. Það er rétt, að fjármálastefna stríðsáranna og áranna eftir stríðið hafi verið sannkölluð fjárglæfrastefna, þó að ég muni ekki fjalla nánar um það í þessari ræðu. En hverjir bera ábyrgð á þeirri fjármálastefnu, sem fylgt var á stríðsárunum og eftir stríðið? Það er Sjálfstfl., sem hefur stjórnað fjármálum ríkisins síðan 1939, og þingmaðurinn var sjálfur fjármálaráðherra í tvö ár í stríðinu. Þessi hv. þm. sagði ekki af sér ráðherradómi, þegar hann fékk ekki að móta fjármálastefnu ríkisvaldsins. Hann sat í embætti, þangað til hann var látinn fara úr því af flokki sínum. Ég held, að það sé rétt, að hægt sé að gagnrýna á ýmsan hátt fjármálastefnu ríkisvaldsins undanfarin ár, eins og hv. 1. þm. Reykv. gerði í hinni löngu ræðu sinni. En við verðum að gera okkur ljóst, og hv. þm. líka, að gagnrýni á fjármálastefnu ríkisvaldsins á stríðsárunum og eftir stríðið er fyrst og fremst gagnrýni á Sjálfstfl., hans eigin flokk, og meira að segja líka gagnrýni á hv. þingmann sjálfan, því að vissulega verður hann að bera ábyrgð á þeirri fjármálastefnu, sem fylgt var, meðan hann sat í ráðherrastóli, fyrst hann sagði ekki af sér ráðherradómi vegna ágreinings um þessa fjármálastefnu. (BÓ: Ég sagði af mér vegna ágreinings við þingið um fjármálastefnuna.) Hv. þm. eða stjórn hans lagði fram á sínum valdatíma ýmsar tillögur um lausn á dýrtíðarmálunum svo kölluðu, sem sumpart náðu fram að ganga, en þó ekki allar. Hv. þm. getur því ekki sagt, að hann hafi ekki sem fjmrh. átt verulegan þátt í þeim ráðstöfunum, sem gripið var til í dýrtíðarmálunum, meðan hann var fjmrh., og hann hlýtur að teljast meðábyrgur fyrir þeim ráðstöfunum, sem gerðar voru, meðan hann sat í embætti fjmrh.

Til þess að stytta mál mitt skal ég láta hjá líða að ræða þær till., sem hv. 1. þm. Reykv. bar fram í síðasta hluta ræðu sinnar. Ég sé ekki, að þessi till. gefi tilefni til allsherjarumræðna um dýrtíðarmálin í heild. En ég vil þó vekja athygli á því, að það er í fyrsta skipti nú í ræðu hv. 1. þm. Reykv., að lagt er til hér á hv. Alþingi, að gengi íslenzku krónunnar sé lækkað, og er það út af fyrir sig mjög athyglisvert, en um tillögur hans yfirleitt er það að segja, að megineinkenni þeirra er, að það er gert ráð fyrir lausn vandamálanna með einhliða fórn launþeganna í landinu. Í till. hv. þm. er hvergi gert ráð fyrir fórnum af hálfu hinna ríku. Ekkert er í þeim um að bæta úr skipulagsleysinu í innflutningsverzluninni og ekki gert ráð fyrir neinum ráðstöfunum gegn braskinu, sem þróast hér innan lands í fjármálum og viðskiptum, og ekki er gert ráð fyrir að draga neitt úr gróðanum, sem stöðugt safnast á hendur fjárplógsmanna. Þetta eru hreinar íhaldstillögur, það, sem stungið er upp á, er hrein íhaldslausn á vandamálum dýrtíðarinnar. Ég álít, að engar till. um lausn dýrtíðarvandamálanna, sem ekki leggja meginbyrðarnar á þau bök, sem breiðust eru, engar till., sem ekki miða að því að bæta ófremdarástandið í viðskiptamálunum, engar till., sem er ekki stefnt gegn braski og fjármálaspillingu, geti talizt réttlátar eða skynsamlegar.

Að síðustu vildi ég segja þetta: Þó að ég sé ósammála og andvígur þeirri meginstefnu og þeim anda, sem fram kemur í till. hv. 1. þm. Reykv., þá álít ég samt gott, að þessi till. skuli hafa komið fram, vegna þess að það er gagnlegt, að þessi mál séu rædd í heild, og það er mjög gott að ræða þessi mál við hv. 1. þm. Reykv. Hann sýnir það í till. sinni, að hann er hreinn íhaldsmaður, og hann játar það hreinskilnislega. Jafnróttæk andstaða við ríkisafskipti og felst í hans till. er hrein íhaldsafstaða, og það, hve eindregið hann játar íhaldsstefnuna, er mjög virðingarvert, því að við höfum nóg af íhaldsmönnum, sem eru alltaf öðru hverju að klæða sig frjálslyndiskápu, þótt íhaldsbuxurnar standi að vísu jafnan niður undan kápunni; en þessi hv. þm. heldur óhikað fram sinni íhaldsskoðun og umbúðalaust, og það er miklu ánægjulegra að tala við slíka menn en hina með kápuna á öxlunum. Hann hefur einnig grundvallarþekkingu á fjármálum og skilning á núverandi ófremdarástandi þeirra mála, enda studdist hann í ræðu sinni talsvert við hina gagnmerku skýrslu um fjármálaástandið, sem Landsbankinn hefur nýlega sent þingmönnum sem trúnaðarmál. Ég er honum vissulega ekki sammála um skýringarnar á þessu ástandi og dreg af því aðrar ályktanir en hann, en það er skoðanamunur. Ég vil því endurtaka, að þótt ég sé ósammála meginstefnu till., þá tel ég gott, að hún skuli hafa komið fram, að því leyti, að hún gefur tilefni til rökræðna um þau vandamál, sem nú er þjóðarnauðsyn, að séu rædd af viti og fundin lausn á.